Punktar

Læknaðu Samsöluna

Punktar

Ari Edwald ætti að hætta þessum skylmingum út af aðstöðu Mjólkursamsölunnar í tilverunni. Snúa sér heldur að lækningu þessa sjúka fyrirtækis, sem hagar sér eins og fauti í skjóli einokunar. Svo væri líka frábært, ef hann kæmi því úr efsta sæti sykurkaupenda landsins. Mjólkursamsalan ber þunga ábyrgð á aukinni sykurfíkn landsmanna, sem fyrirtækið magnar með sífellt sætari vörum. Þar á ofan voru sykruðustu vörurnar kallaðar „skóla …“. Vegna aðstöðu sinnar ætti Samsalan að siðvæðast, það er verðugt verkefni fyrir Ara. Og forðast að starta verðbólgu með verðhækkunum, sem ekki er hægt að skrifa á nýja kjarasamninga.

Þrjár sambúðar-matraðir

Punktar

Við höfum þolað þrjár matraðir um eitraða sambúð verkfræðinga og pólitíkusa. Landeyjahöfn byggð á sandi nýtist ekki flutningi milli lands og eyja. Sjálfvirk brennsla verðmæta með tilgangslausri og hamslausri dælingu. Hellisheiðarvirkjun er svipuð. Áætlanir um framleiðslu reyndust vera glórulaust bull. Sjálfvirk brennsla verðmæta með nýjum og nýjum borholum úti um víðan völl. Niðurgreitt rafmagn fer þaðan til stóriðju í Hvalfirði með gífurlegum álögum á almenning. Nýjasta dæmið er Vaðlaheiðargöng. Einu vegagöng heims, þar sem fyrirsjáanlegum vanda er safnað í miðjunni í stað þess að leyfa honum að renna út í frelsið.

Við dauðans dyr

Punktar

Stóriðjutrikkið er einfalt. Álið héðan hækkar í hafi. Móðurfélag í erlendu skattaskjóli lánar íslenzka dótturfélaginu á okurvöxtum. Selur því tækni, tæki og rekstrarvörur á borð við súrál á uppsprengdu verði. Kaupir afurðir íslenzka félagsins á undirverði. Íslenzka dótturfélagið er því sífellt á vonarvöl, þótt skattfrítt móðurfélag hali inn hundruð milljarða. Ísland er ruplað kruss og þvers. Rannveig Rist grætur samt eins og íslenzkur kvótagreifi. Heimtar að fá ofan á annað svindl að grafa með gerviverktöku undan lífskjörum. Eftir 45 ára rekstur á tombólurafmagni er Ísal við dauðans dyr. Lokum bara sjoppunni, burt með Rio Tinto bófana.

Excel-skjalið róaði mig

Punktar

Albert Svan setti upp töflu yfir stefnu pírata í ótal málum eins og hann les hana úr skjölum flokksins. Taflan gefur mér skýrari mynd en áður af stefnunni. Eyðir fyrri efasemdum mínum um, að píratar hafi skýr stefnumál. Mér létti líka, þegar ég sá áherzluna á gegnsæi umfram áherzlu á persónurétt bófa. Hafði áður talið, að sitthvað væri þar brenglað, hafandi lesið þúsund athugasemda deilu um fylgi eins pírata við frumvarp Sigríðar Andersen um lokun álagningarskrár. Það var þá einkum þessi eini, sem bókaði hundruð sinnum sömu slagorðin og átti ætíð síðasta orðið. Þráhyggja einsmálsfólks er bara gamalkunn plága á nýjum flokkum.

Tafla Alberts:

Ef þú værir ríkur

Punktar

Ef þú værir ríkur, geturðu borgað tíu milljónir fyrir lifrarbólgulyf og læknast  að fullu, annars ekki. Ef þú værir ríkur, geturðu borgað hálfa milljón fyrir 2 augasteina fyrir hádegi. Annars verður þú að bíða þrjú ár, þangað til það er of seint að skipta. Ef þú værir ríkur, ferðu til tannlæknis, fáir þú verk, annars verður þú að láta það eiga sig. Ef þú værir ríkur, mundir þú leysa út reseftið þinn strax, annars mundir þú bíða til mánaðamóta. Þetta eru dæmi um kolbrenglað heilsukerfi Sjálfstæðisflokksins, engin bið fyrir ríka, biðröð eða dauði fyrir fátæka. Ekki fína heilsukerfið í Norður-Evrópu, þar sem allir fá fría þjónustu.

Framtíðin varð fortíð

Punktar

Forustufólk Bjartrar framtíðar hefur á þessu ári misst af lestinni. Fattar ekki mikilvægi samfélagsmiðla og er fast í viðjum hefðbundinna stjórnmála. Telja í lagi að segja, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Á sama tíma horfum við hin á vísvitandi rústun Landspítalans. Þar er að verki flokkur, sem Björt framtíð gerir ítrekað hosur sínar grænar fyrir. Það selur ekki, að formaðurinn sé ráðherrahæfur í hefðbundnum skilningi. Slíkt er úrelt. Og fráleitt er að ímynda sér, að kjósendur sætti sig við svik við nýju stjórnarskrána. Málið er einfalt, Björt framtíð hefur meðvitundarlaus ráfað um ráðherra-biðstofuna.

Réttar refsiaðgerðir

Punktar

Skynsamlegt var hjá utanríkisráðherra og einróma utanríkismálanefnd að standa við aðildina að vestrænum refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna Úkraínu. Samt ekki einfalt mál. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið eru engir englar eins og kom í ljós í sumar. Þá réðist Nató óbeint á Kúrda og EBE á Grikki. Við skuldum afvegaleiddum samtökum engan stuðning. Rússland er þó annar kapítuli, réðist á annað ríki og lagði beinlínis hluta þess undir sig. Að virða ekki landamæri er verri glæpur en hinir óbeinu, jafnvel þótt Úkraína sé fasistaríki. Gunnar Bragi mátti fara gætilegar á sínum tíma, en nú væri rangt að bakka. Enda er Rússland Pútíns smám saman orðið ögrandi ógnun við heimsfriðinn. Grátandi kvótagreifum skuldum við engar skaðabætur vegna þessa, nóg hafa þeir rænt og ruplað þjóðina.

Skömmtun lífs og dauða

Punktar

Fanney Björk Ásbjörnsdóttir er innsýn í svartnætti heilsuþjónustu undir stjórn Kristjáns Þórs Júlíussonar og Sjálfstæðisflokksins. Hún er ekki í þeim 30 manna hópi útvalinna af 800 lifrarbólguveikum, er fá rándýrt lyf, sem reynist lækna sjúkdóminn. Hún smitaðist við blóðgjöf á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja árið 1983 og er nú dauðans matur. Ef hún væri rík, gæti hún borgað lyfið sjálf og troðið sér fremst í röðina. Það er hið tvöfalda heilsukerfi Flokksins, eitt fyrir ríka og annað fyrir fátæka. Nýr landlæknir „tekur ekki afstöðu til þess, hver borgi reikninginn“. Fátt er því til fyrirstöðu enn frekari skömmtunar lífs og dauða.

Óhæf og hættuleg

Punktar

Lögreglustjóri Sjálfstæðisflokksins lítur ekki á nauðgun sem líkamstjón. „Hér varð enginn fyrir alvarlegu líkamstjóni,“ segir hún. Og lítur á barsmíðar sem heilablóðfall. Engar „stórkostlega alvarlegar líkamsárásir,“ segir hún. Í stíl við aðra eyjaskeggja, sem hafa vakið athygli. Árleg fyllerís- og nauðganahátíð eyjaskeggja gengur undir furðulega ósvífnu nafni: Þjóðhátíð. Lögreglustjórinn er kát: „Hátíðin fór, miðað við fyrri hátíðir, nokkuð vel fram,“ segir hún. Að auki ímyndar hún sér, að hún sé yfir óviðkomandi fólk sett, svo sem starfsfólk sjúkrahúsa. Hún er greinilega óhæf og hættuleg. Dæmigerður sjálfstæðismaður.

Þráðlaus hugarorka

Punktar

Olíubransanum íslenzka er stjórnað með þráðlausri tengingu hugarafls. Á sama andartaki dettur öllum olíuforstjórum í hug að breyta verði. Meðan olían lækkar í innkaupi um 57% lækkar hún í útsölu um 12%. Þurfa ekki einu sinni að hittast uppi í Öskjuhlíð, svo fullkomið er sambýli hugaraflsins. Þetta er fáokunin, hið fullkomna lokastig hins margrómaða frjálsa markaðar. Á Íslandi hefur lokastigi verið náð í flestum atvinnugreinum. Fyrir löngu var myndaður sértrúarsöfnuður um óra tveggja spámanna markaðshyggju, Friedman og Hayek. Söfnuðurinn kallaðist Eimreiðarhópurinn. Hefur stýrt martröð fáokunar frjálsa markaðarins um áratugi.

Kaus með lýðskruminu

Punktar

Vilhjálmur Bjarnason er einn þeirra, sem sér enga þörf á að hafa samræmi milli orða og gerða. Fór mikinn á prenti nýlega og býsnaðist gegn stöðugleikaskatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Kallaði hann einfaldlega „lýðskrum“ og vakti verðuga athygli. Mánuði síðar greiddi Vilhjálmur atkvæði á Alþingi með þessum sama stöðugleikaskatti. Hver ætli telji slíkan þingmann trúverðugan? Minnir á Eygló Harðardóttir. Hún fer mörgum hjartnæmum orðum um allt það, sem hún muni gera í húsnæðismálum. Á sama tíma gerir hún sem ráðherra ekkert í málunum í tvö heil ár. Þetta er fólk, sem trúir, að orð séu gerðum æðri og geri verkin óþörf.

Flokkinn vantar mömmu

Punktar

Þegar og ef Samfylkingin raknar úr rotinu, þarf hún að fá aflakló sem formann. Góða mömmu, sem hugsar í stíl við fylgi þorra kjósenda við velferðarkerfið og opinberan rekstur heilsu og skóla. Flokkurinn þarf að búa sig undir að verða minni háttar flokkur í ríkisstjórn pírata. Fallast einlægt á opna stjórnsýslu, nýju stjórnarskrána og beizlun auðgreifa. Einbeita sér að því, sem hann á að kunna bezt, velferð og ríkisrekstur. Losa sig við Thatcher-light Blairista, sem enn vaða uppi í flokknum, svo og stóriðjukommana. Er svo óheppinn að hafa ekki Katrínu Jakobs, en kannski dugar Oddný G. Harðar. Núverandi staða gengur ekki.

Eyðimörkin Akureyri

Punktar

Akureyri er skipulögð eyðimörk. Skást er suðurströnd Oddeyrar. Gömul hús eru þó víðar í þyrpingum. En miðbærinn er bastarður rétt eins og kvosin í Reykjavík. Hafnarstræti er skörðóttur hundskjaftur. Það er eini göngustubburinn í bænum, í hálfgerðum lundabúðastíl fyrir skipsfarþega með örvæntingarsvip. Það fallega við Akureyri er fyrst og fremst bæjarstæðið, sem tekur sig bezt út frá hlíðinni andspænis. Akureyri er semsagt bara fjarskafalleg. Hvorki Akureyri né Reykjavík standast nokkurn samanburð við Siglufjörð, sem er samstæð og firnasterk heild frá tímum einfaldrar húsagerðarlistar. Aðeins vantar verkstæði handverksmanna, þjónusta er sótt til Akureyrar.

Nató styður ISIS

Punktar

1. Nató er lent í stríði með Tyrkjum gegn Kúrdum, sem hafa verið annar burðarás baráttunnar í Sýrlandi gegn fjöldamorðingjum Wahabíta/Salafista í ISIS.
2. Hinn burðarásinn eru Íranir, sem berjast gegn Wahabítum/Salafistum ISIS í Írak. Bandaríkin hata Íran vegna heilalömunar sinnar í kjölfar töku sendiráðs síns endur fyrir löngu.
3. Bandaríkin styðja afturhaldsprinsa Sádi-Arabíu, er fjármagna moskur Wahabíta/Salafista, sem ala upp fjöldamorðingja ISIS.

Brengluð Bandaríkin stýra Nató. Senda þetta varnarbandalag Evrópu í stríð við helztu andstæðinga fjöldamorðingja ISIS, sem þó eru sagðir ógna vesturlöndum. Bandaríkin hafa í hálfa öld ekki gert neitt af viti í stríðsrekstri. Þetta er toppurinn á ruglinu. Gegnum Nató er það líka okkar rugl.

Þöggunarhátíð eyjaskeggja

Punktar

Bæjarstjóri og löggustjóri Vestmannaeyja sömdu um að hvetja konur til að koma á þöggunarhátíð eyjaskeggja. Fréttabann sett á nauðganir að hætti einræðisherra í Langtburtistan. Einnig voru lagaðar fréttir af öðru ofbeldi hátíðarinnar. Maður laminn í klessu var sagður hafa fengið heilablóðfall. Ekki veit ég, hvernig löggan komst að orði, þegar barinn var femínisti, sem slapp inn á hátíðina. Allt gekk eins og yfirvöld höfðu brallað. Eyjaskeggjar telja klinkið upp úr kössunum, farnir að undirbúa næstu þöggunarhátíð. Eitthvað að vatninu í Eyjum?