Punktar

Sáttmáli þjóðar – ekki greifa

Punktar

Forseti Íslands og hefðbundnu flokkarnir rótast í að reyna að hindra framkvæmd sáttamála þjóðarinnar við sjálfa sig. Einkum reyna þeir að hindra eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum. Til þess að grafa undan stjórnarskrá fólksins skipuðu þeir nefnd, sem vinnur í kyrrþey að annarri stjórnarskrá í sátt við greifana. Ferli þess máls er svívirðilegt. Stjórnarskrá fólksins er til, þótt pólitískir bófar hafi kastað henni útbyrðis. Hún er sáttmáli þjóðar við sjálfa sig, ekki sáttmáli við kvótagreifa, bófa þeirra eða forsetann. Enginn er færari um að semja sáttmála þjóðar við sjálfa sig en þjóðin sjálf. Og hún gerði það.

Einmana í miðjum Hálsaskógi

Punktar

Þingmenn Bjartrar framtíðar telja okkur lifa í Hálsaskógi. Allir eigi að vera vinir og finna málamiðlun á miðjunni. Björt framtíð hefur komið sér þar fyrir með sitt 4,6% fylgi. En enginn mætir á staðinn. Stafar af, að engin málamiðlun liggur í loftinu. Ríkisstjórnin hefur í tvö ár siglt yzt á jaðar græðgisstefnu. Hossar auðgreifum og níðist á þeim, sem minna mega sín. Við slíka verður engin sátt gerð. Sjáið bara magnaða frekju kvótagreifanna. Næstu ár verður barizt um meginlínur stjórnmála. Ekki vinstri-hægri slagur, heldur mennsku-ómennsku. Þá dugar ekki að vera fínn í tauinu og bíða eftir ljúfu samráði hjá Mikka ref.

Frumvarp gegn fátækum

Punktar

Ríkisstjórnin er við sama heygarðshornið í nýju fjárlagafrumvarpi. Áfram eru auðgreifar í forgangi og fá dálitla skattalækkun. Ráðherrarnir hafa látið telja sér trú um, að þar sé vandinn mestur. Ekki sér móta í frumvarpinu fyrir drýldni Eyglóar um átak í húsnæðismálum. Að venju er þar allt í orði og fátt á borði. Velferð er áfram á undanhaldi í frumvarpinu og heldur ekki í við verðbólguna. Ekki er heldur gert ráð fyrir kostnaði við digurbarkalegar yfirlýsingar um framkvæmdir á ferðamannastöðum. Í öllum megindráttum er fjárlagafrumvarp Bjarna Ben allt annað frumvarp en það, sem Sigmundur Davíð lýsti í stefnuræðu sinni.

Tvennt er óviðeigandi

Punktar

Óviðeigandi væri að kjósa forseta og stjórnarskrá við sama tækifæri. Á alþingi í dag vakti Ólafur Ragnar Grímsson forseti athygli á þessu. Gengi stjórnarskrár kann að hafa áhrif á fylgi forsetaefna. Og fylgi forsetaefna kann að hafa áhrif á gengi stjórnarskrár. Ósæmilegt er að framleiða slíka hættu. Hvort tveggja er nógu mikilvægt til að kalla á sérstakan kjördag. Stjórnarskráin er örugglega sérstakrar atkvæðagreiðslu virði. Hins vegar var frammistaða forsetans lakari, þegar kom að tvíræðum texta um hans eigin framtíð. Óviðeigandi er, að forseti tali dulmál og segi fólki ekki beint út á íslenzku, að hann muni aldrei hætta.

Notuð hugtök eru til

Punktar

Líta má á það sem grín, að lagadeild flytji verðandi lagatæknum þá tilgátu, að þjóðareign sé ekki til. Sigurður Líndal emerítus segist ekki skilja orðið þjóðareign. Sú skoðun kallast líndælska. Í leiðinni er haldið fram, að einungis sé til einkaeign eða ríkiseign. Staðreyndin er hins vegar, að lagatæknar ákveða ekki, hvort hugtök séu til. Notendur hugtakanna ákveða það. Sé hugtak notað, er það til. Um hugtakið þjóðareign er ákvæði í stjórnarskránni, sem fjórflokkurinn sveik. Ríkiseign er seljanleg eign, en þjóðareign er ævarandi, sá er munurinn. Geti lagatæknar ekki skilið það, eiga þeir ekki að skipta sér af stjórnarskrá.

Ráðherrar stíga dans

Punktar

Forsætisráðherra segir ný fjárlög setja heimsmet í velferð. Fjármálaráðherra segir sama dag þau einkennast af miklum sparnaði. Hvor fyrir sig lifir í eigin heimi. Sama dag gengur brottrekinn ráðherra aftur og lýsir eftir X-þætti, sem valdi fylgishruninu. Við svikum engin loforð, segir hún. Ég laug aldrei, segir mesti lygari síðustu ára. Annar ráðherra gætir þess, að þægir fjölmiðlar spyrji sig aldrei um ósiðleg tengsl við Orku HS. X-þáttur alls þessa er, að kjósendur eru að átta sig. Fatta, að græðgin er stjórnlaus, bófaflokkar stjórna landinu og að vitlaust er gefið í spilunum. Vonandi kasta þeir bófaflokkunum út á haug.

Uppboð kvóta og afla

Punktar

Þegar heiðarlegt fólk með viti kemst loks til valda hér á landi, verður skipt um sjávarútvegsstefnu. Auðlindarenta verður ákveðin í frjálsum uppboðum á opnum markaði. Uppboðin verða framkvæmd þannig, að þau hindri samráð bófa um tilboð. Þannig þarf ekki að rífast um, hver auðlindarentan eigi að vera. Handfærabátar verða undanþegnir kvóta, en háðir sömu auðlindarentu og aðrir, enda fer allur afli á opinn uppboðsmarkað. Undanþágan frá kvóta hamlar gegn núverandi auðn í litlum sjávarplássum. Allar upplýsingar frá vigtun og markaði verða opinberar. Með þessum breytingum verður þjóðinni tryggð eðlileg auðlindarenta eigandans.

Ekki mér að kenna

Punktar

Sameinað einkenni íslenzkra stjórnmála er: Þetta er ekki mér að kenna, það er bara misskilningur hjá fólki. Þótt Guðmundur Steingrímsson og Árni Páll Árnason hafi aldrei gert neitt rétt, sjá þeir það ekki. Báðir tóku þeir þann feil, að stjórnarskrá þjóðarinnar væri marklaust plagg. Báðir tóku þeir þann feil, að farsælast væri að halla sér að Sjálfstæðisflokknum. Flónin skilja ekki, að hann er bófaflokkur. Gjaldfelldu stefnuskrár sínar, þjóðina og lýðræðið. Segja svo: Þetta er ekki mér að kenna. Björt framtíð hafði kjark til að ýta Guðmundi út í kuldann. En Samfylkinguna skortir ævinleg kjark, þegar á hólminn er komið.

Niðurrifið virkar

Punktar

Gamla fólkið er í auknum mæli farið að hringja í Félag eldri borgara til að bera upp kveinstafi sína. Sumir eru í vandræðum vegna lyfjakostnaðar, aðrir vegna húsaleigu, kostnaðar við heyrnartæki eða önnur hjálpartæki. Fréttastofur hafa reynt að ná tali af þessu fólki, en það þorir ekki að bera vanda sinn á torg. Gamla fólkið er hluti af þeim fjölmenna minnihluta, sem ríkisstjórnin ofsækir til að gauka gjöfum að eigendum sínum, auðgreifunum. Í sama flokki eru sjúklingar, öryrkjar og láglaunafólk. Algengt er, að fólk ráði ekki við leigu á húsnæði. Þar á meðal er unga fólkið. Niðurrif bófaflokkanna er farið að virka.

Lærdómsríkar lundabúðir

Punktar

Lundabúðir í miðborginni minna mig á lagersölu. Helmingurinn af vörum hverrar búðar eru lundadúkkur í hundraðatali, allar eins. Næstum útdauður fugl orðinn að einkennistákni landsins í augum markaðarins. Vilji einhver selja, er víst, að margir munu vilja kaupa. Einkum á þetta að minna okkur á, að markaðurinn er undarlegur í eðli sínu. Það, sem selur, er allt annað en það, sem þú heldur, að selji. Þess vegna eigum við að læra af velgengni þessarar verzlunar. Ekki amast við fjölgun lundabúða. Verzlun var hvort sem er dauð í miðborginni, áður en lundaæðið hófst. Gleðjumst yfir, að fjölgað hefur í flokki þjóðarauðlinda.

Spýr eitri yfir okkur

Punktar

Davíð er engum líkur. Ævi hans er samfelld harmsaga. Fyrst breytti hann flokki sínum í öfgaflokk. Síðan kom hann sér fyrir í Seðlabankanum og setti hann á hliðina með tjóni ríkissjóðs upp á hundruð milljarða. Að lokum endaði hann á Mogganum, þar sem hann spýr eitri sínu og kvótagreifa yfir landslýð. Tilraunir hans til að endurrita sagnfræðina hafa ekki gengið upp. Þær markast þessa daga af hreinni örvæntingu. Eiga drjúgan þátt í fylgishruni flokksins hans. Davíð Oddsson er biturt gamalmenni, laus við kímni, fullur haturs og beizkju. Hann er dýrasti einstaklingur í sögu fullveldisins og banabiti Sjálfstæðisflokksins.

Fiskað í fúlum pytti

Punktar

Erfitt verður Sjálfstæðisflokknum að hlýða kalli Davíðs Oddssonar og keppa við Framsókn í þjóðrembu og útlendingahatri. Könnun sýnir allan þorra þjóðarinnar vilja flytja inn flóttamenn, þótt þeir séu múslimar. Meðalmat fólks á hæfilegum fjölda er um og yfir 500 flóttamenn. Tíu sinnum hærri tala en Eygló lagði upp með. Kjósendur Framsóknar skera sig margir úr í þjóðrembu og útlendingahatri. Í hópnum eru alls innan við 20% þjóðarinnar. Ekki geta margir flokkar fiskað í þeim fúla pytti. Davíð og hinn fyndni teiknari Davíðs mega hafa sig alla við að landa einhverjum afla. Unga fólkið er langflest alveg laust við þessa rembu.

Þjóðleiðirnar orðnar 1138

Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin löngu uppseld og ófáanleg í fornbókabúðum. Raunar eru leiðirnar orðnar 1138. Hér eru þær að vísu án flottu bókarkortanna. Um þau gilda réttindi, sem ná ekki til vefs. Farið á bókasafn til að skoða þau. Til að finna texta um leiðirnar slærðu inn fyrstu stafi heitisins í leitarreit heimasíðunnar. Þú kemst líka í textann gegnum orðið Þjóðleiðir í listanum hægra megin á heimasíðunni. Síðan leitað eftir landsvæðum, sem er nýtt, aðallega eftir sýslum. Munir þú ekki heitið eða munir það undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Með þessari yfirfærslu á vefinn er lokið verki mínu um þjóðleiðir.

Þiggja feitar stöður

Punktar

Embættismenn ríkis og sveitarfélaga eru sumir farnir að nota aðstöðuna til að gæta sérhagsmuna. Þiggja að launum feitar stöður hjá dólgunum. Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri á Húsavík var ráðinn yfirmaður hjá PCC Bakka, sem fékk kísilverið. Haraldur Flosi Tryggvason, formaður eignarfélags Hörpu, var ráðinn yfirmaður hjá Carpenter & Co, sem fékk hótellóðina við Hörpu. Eftir undirritun samnings færði hann sig yfir á hinn vænginn. Svínarí af þessu tagi hefur lengi verið áberandi í Bandaríkjunum og er farið að síast inn í Evrópu. Íslendingar eru að venju ekki lengi að tileinka sér vonda siði. Hluti af græðgisvæðingunni.

Hver gleymdi hverju?

Punktar

„Samkvæmt heimildum fréttastofu féll hluti af málinu um sjálft sig, því gjaldeyrisreglur Seðlabankans héldu ekki. Ástæðan er, að það gleymdist að láta ráðherra staðfesta reglurnar.“ Skrítið. Hafa ráðherrar staðfest allar reglur ríkisins? Eru fleiri undantekningar en þessi? Hver ber ábyrgð á, að reglurnar haldi? Eru óhæfir embættismenn að sofa yfir sig? Er seðlabankastjóri í tómu tjóni? Ber ráðherra ábyrgð á einhverri gleymsku? Gæti þetta komið fyrir í alvöru þjóðfélagi, svo sem Þýzkalandi? Er Ísland fávitahæli? Er frambærilegt, að einhver fáránleg ástæða sé fyrir því, að Ísland virkar alls ekki sem ríki?