Punktar

Fóru á taugum

Punktar

Leiðtogar brezka íhaldsins fóru á taugum út af sigri Jeremy Corbyn í kosningum brezkra krata. David Cameron segir hann vera ógnun við öryggi ríkisins. Aðrir bæta um betur, segja hann styðja Rússa og Talibana. Þetta er ekki mjög gáfulegt tal til lengdar, þótt það geti hentað heittrúuðustu stuðningsmönnum. Haldi Corbyn áfram að vera mannlegur og alþýðlegur, munu þessar aðdróttanir hrökkva af honum eins og vatn af gæs. Hinu er ekki að leyna, að til lengdar taka flestir brezkir fjölmiðlar bankavini fram yfir alþýðuvini. Þar er vefmiðlun fólksins ekki orðin eins sterk og hér. Því hefur Corbyn enn á brattan að sækja gegn ríkiseigendum.

Brotið á láglaunafólki

Punktar

Vangreiðslur launa eru aftur að aukast eins og þær gerðu fyrir hrun. Einkum eru þær hjá erlendu starfsfólki á vegum starfsmannaleiga. Einnig hjá ungu fólki, sem þekkir ekki réttindi láglaunafólks. Brotin eru algengust í byggingaiðnaði og ferðaþjónustu. Vandinn hefur þannig þegar verið kortlagður. Vinnumálastofnun og Alþýðusambandið eiga í samvinnu að geta stöðvað innflutning þessa vandamáls. Unnt hlýtur að vera að leggja steina í götu slíkra glæpafyrirtækja. Nógu lágur er launabotninn hér, þótt ekki sé verið að skera göt á hann. Einnig þarf að stemma stigu við ráðningu starfsfólks sem verktaka. En viljann virðist vanta.

Sjálfdauða stefnan

Punktar

Stefna bófaflokkanna er sú, sem var í tízku á Vesturlöndum kringum aldamótin. Sem leiddi til bankakreppu og hér til bankahruns. Leyfði bönkum að leika lausum hala. Ýtti af stað kapphlaupi láglaunafólks niður á þriðja heims botn, kölluð brauðmolastefna. Þrýsti á einkavæðingu, sem hér lýsti sér í einkavinavæðingu. Skar velferð niður við trog og stefndi ótrauð að þrælahaldi launafólks. Þetta var ósjálfbær stefna, sem hlaut að leiða til kreppu og enda með ósköpum. Rekin enn af fjölþjóðastofnunum, en beið skipbrot í Grikklandskrísum. Í Bandaríkjunum og Bretlandi rís núna öflug alda gegn þessari dauðans grimmu græðgistefnu.

Gæfulaus afskipti

Punktar

Eins og annars staðar hefur stríðsstefna Bandaríkjanna hrunið í Sýrlandi. Þar mögnuðu Bandaríkin upp stríð gegn Assad forseta. Meðal annars studdu þau hernað Íslamska ríkisins. Lentu svo í tómu tjóni, þegar Íslamska ríkinu gekk betur í stríðinu en öðrum uppreisnarmönnum. Náði á sitt vald miklu landi í Sýrlandi. Raunar líka í Írak, þar sem bandarískur hernaður hafði klúðrast svo hastarlega, að ástandið er verra en í Afganistan. Nú eru Bandaríkin í senn í stríði við stjórn Sýrlands og langöflugasta væng uppreisnarmanna. Sýrland er í rúst eins og Írak eins og Afganistan. Bandaríkin eiga að hætta að reka stríð í útlandinu.

Hvítar og svartar hliðar

Punktar

Ýmis mál eru flókin og hafa fleiri en eina hlið. Svo sem Evrópusambandið og flóttafólk. Margir fjalla um slík mál frá einni hlið, sjá bara hvítt eða svart. Félagslegur rétttrúnaður stjórnar mörgum. Sjá eingöngu hvítar hliðar á komu flóttafólks. Aðrir stjórnast af ótta við breytingar að hætti rasisma. Sjá eingöngu svartar hliðar á komu flóttafólks. Þeir, sem fara bil beggja, eru þá ýmist sakaðir um félagslegan rétttrúnað eða rasisma. Fólk þarf að hafa gott sjálfstraust til að halda opinberlega samhliða fram hvítum og svörtum hliðum á komu flóttamanna. Við þurfum þó stundum mest á slíkum sjónarmiðum að halda.

Ótrúlega fast fylgi

Punktar

Hver könnunin á fætur annarri í nærri heilt ár hefur sýnt nákvæmlega það sama. Bófaflokkarnir hafa þriðjung alls fylgis, bjánaflokkarnir annan þriðjung og píratar þann þriðja. Bófaflokkarnir eru stjórnarflokkarnir, bjánaflokkarnir eru auðmjúka vinstrið. Samanlagt kallast þeir fjórflokkurinn eða fimmflokkurinn. Einföld lýsing á pólitík ársins þarf ekki fleiri orð. Heimska Íslendinga er í föstum skorðum. Jafnvel gamla fólkið er tryggt kvölurum sínum, en unga fólkið veit, að rangt er gefið í spilunum. Einhvern tíma munu allir sjá, að kerfið er rotið innan. Gerist þó varla fyrr en Ólafur Ragnar og Davíð eru frá völdum.

Corbyn á sigurbraut

Punktar

Jeremy Corbyn rúllaði upp kosningunni um formennsku brezkra krata. Loksins hefur flokkurinn fengið krata sem formann eftir langvinna hægri útlegð. Svipað gæti gerzt í Bandaríkjunum, þar sem Bernie Sanders eflir fylgið í sífellu. Löndin engilsaxnesku, sem lengst allra gengu í nýfrjálshyggju, eru aftur að leita til gamalla gilda. Kannski gerist þetta í Evrópu líka, en líklega seint á Íslandi, þar sem nýfrjálshyggja ræður Samfylkingunni. Ekki er vitað um neinn þar á bæ, sem getur fetað í fótspor Corbyn og Sanders. Flest bendir til, að fylgislaust eyðimerkurráf flokksins haldi áfram. Og píratar erfi fylgi hins framliðna.

Sérhagsmunir eru andvígir

Punktar

Forsetinn er andvígur stjórnarskrá fólksins, sömuleiðis lagatæknar og þingmenn hefðbundinna flokka. Slíkir sérhagsmunaaðilar eru andvígir henni. Stjórnarskrá fólksins takmarkar völd pólitískra greifa og orðhenglamanna. Því eru þeir á móti. Beztu meðmæli, sem stjórnarskrá getur fengið. Hún var búin til í flottu ferli, sem sigldi framhjá valdakerfinu. Var og er fullbúin til notkunar. Enda stungu pólitíkusar henni undir stól. Settu eigin klíku í að semja aðra skrá í kyrrþey. Með sérsaumuðum götum fyrir kvótagreifa og önnur gæludýr kerfisins. Sú stjórnarskrá birtist í vetur og er ætlað að grafa undan stjórnarskrá fólksins.

Glæpavæðing bótaþega

Punktar

Sagt er, að sumir atvinnuleysingjar hafni vinnu, sem þeim býðst. Sé ekki tekið á því, er það kerfinu sjálfu að kenna. Það hefur vitneskjuna. Sagt er, að sumir öryrkjar falsi örorkuna. Sé ekki tekið á því, er það kerfinu sjálfu að kenna. Hefur sérfróða lækna til að passa þetta. Aumingjavæðing, sem kann að eiga sér stað, er á vegum og ábyrgð kerfisins. Sé hún stór hluti af heildinni, þarf að reka viðkomandi embættismenn, lækna og pólitíkusa. Er ýktur vandi í hlutfalli við hinn breiða massa, sem fær bætur af eðlilegum ástæðum. Björk Vilhelmsdóttir vill vera töff. Bar ábyrgð á Strætó-ofbeldi flutninga á bótaþegum. Skar niður við þurfandi. Syndir sárafárra koma niður á öllum hinum. Glæpavæðing bótaþega.

Aumingjavæðingin

Punktar

Gott er að vitna í frænda minn, séra Halldór í Holti: „Það virðist enginn vilja vita af óhreinu börnunum hennar Evu: Einstaklingum sem misstu heimili sín, öryrkjum sem lifa ekki af örorkubótum, um 40 prósentum af eldri borgurum sem lifa ekki af skömmtuðum tekjutengdum lífeyri langt undir framfærslu, eldri borgurum í húsnæðissamvinnufélögum, sem fengu enga leiðréttingu og urðu jafnvel fyrir ólöglegri eignaupptöku, og fjölda yngra fólks með námsskuldir, án skuldaleiðréttingar“ Nú er í tízku að kalla velferðina aumingjavæðingu. En aumingja á okkar kostnað er að leita annars staðar: Til dæmis kvótagreifar.

(Séra Halldór)

Fimmtíu þúsund fangar

Punktar

Sumir sjá grátandi mæður með börn í fanginu á myndskeiðum af flóttafólki í fréttum. Aðrir sjá einbeitta karla á þrítugsaldri, sem láta fátt stöðva sig. Þeir eru 90% fólksins á myndskeiðunum. Eftir tvö ár munu 5% þeirra hafa hafnað í fangelsi. Evrópa þarf að taka 50.000 manns úr umferð. Því að þeir virða fátt og taka það, sem þeir telja sig þurfa. Við munum sjá ný glæpagengi sem aldrei fyrr. Evrópa mun leika á reiðiskjálfi og lögreglan kannski skjóta menn á götum úti. Munu miðaldir ganga aftur í Evrópu í kjölfar nýju þjóðflutninganna? Evrópa gæti goldið dýru verði að láta allt koma sér á óvart og bregðast við í fáti.

Grillað og grætt

Punktar

„Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“ Sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra hrunstjórnarinnar ári fyrir hrun. Kannski boðar Bjarni Benediktsson annað hrun, þegar fjármálaráðherra segir efnislega það sama í sjónvarpsumræðu á alþingi. Er þá bara ár í hrun að þessu sinni? Að sumu leyti hafa báðir rétt fyrir sér. Það var góðæri þá og er góðæri nú. Það er að segja fyrir grillboð silfurskeiðunga. Hossa sér í afskriftum og einkavinavæðingu, grilla og græða eins og enginn sé morgundagurinn. En góðærin virka ekki fyrir þann helming þjóðarinnar, sem hefur innan við hálfa milljón á mánuði. Silfurskeiðungar telja slíka ekki til manna.

Samfélag í uppnámi

Punktar

Skriða milljón flóttamanna til Evrópu mun setja samfélagið í uppnám. Við sjáum, að viðbrögðin skiptast mjög í tvö horn. Þau munu efla andstæður, sem fyrir voru í tengslum við nýbúa. Fljótt eftir komu flóttamanna mun gefast færi á að dreifa sögum, sönnum og lognum. Smáir eldar hér og þar munu verða að stóru báli. Fylgi rasista mun víða sprengja 20% þakið. Eftirlit með flóttamönnum mun margfaldast og aðlögun gerð að skyldu. Miðaldamoskum Sádi-Araba verður lokað og öfgaklerkum vísað úr landi, karlremba gerð refsiverð. Mun kosta óhemju fé og trufla stríðið milli auðs og fátæktar. Mun draga athyglina frá glæpum eigenda auðs og valda.

Forseti verður þaulseti

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson mun með öllum ráðum reyna að hindra, að stjórnarskrá fólksins nái fram að ganga. Hann mun aftur bjóða sig fram og tilkynna það á síðustu stundu til að trufla mótframboð. Nýja stjórnarskráin mun ekki ná fram að ganga nema einn og aðeins einn frábær mótframbjóðandi finnist. Fella verður Ólaf Ragnar til að ná stjórnarskránni fram. Eigendur lands og ríkis mega ekki til þess hugsa, að stjórnarskrá fólksins taki gildi. Hæstiréttur brá fæti fyrir hana. Ríkisstjórnin undirbýr bútasaum, sem á að rýra fylgi við stjórnarskrána okkar. Greifar auðs og valda munu ætíð verja virkið með öllum tiltækum ráðum.

Bandaríkin veiti hæli

Punktar

Bandaríkin bera ábyrgð á flóttamannavanda Evrópu. Þau hafa um langan aldur átt tvo verstu bandamenn heims, Ísrael og Sádi-Arabíu. Ísrael hagar sér í Palestínu eins og SS-sveitir Hitlers á herteknum svæðum og fer sínu fram í skjóli og á kostnað Bandaríkjanna. Magnar upp hatur múslima á Vesturlöndum. Sádi-Arabía er ekki skárri, ofstækisfullt miðaldaríki, sem kostar trúarofstæki klerka múslima í Evrópu. Ennfremur hafa Bandaríkin beinlínis ráðist á nokkur ríki múslima, Afganistan, Írak, Líbýu og nú síðast Sýrland. Hafa rústað öllum þessum ríkjum. Flóttafólkið er afleiðing af bandarísku brölti. Þau eiga að taka við fólkinu.