Punktar

Telja fólk til vandræða

Punktar

Ábyrgðarmenn leyndarmálsins um geislavirkar úrfellingar í borholum hitaveitu Suðurnesja hugleiddu, hvort þær kæmu fólki við. Fengu þá niðurstöðu, að svo væri ekki, málið væri varla svo alvarlegt. Dæmigert fyrir hrokagikki, sem telja almenning vera vandræðafólk. Samkvæmt lögum áttu Geislavarnir ríkisins að láta fólk vita, en gerðu ekki. Fáir munu treysta þeim hér eftir, er þeir segja allt vera í fínu lagi. Stofnunin hefur glatað trausti. Þarf að axla ábyrgð á heimsku forstjórans. Þeir tímar eru runnir upp í þjóðfélaginu, að kontóristar ráðskast ekki með þekkingu fólks. Ákveða tæpast lengur, hvað fólk „þurfi ekki“ að vita.

Ekki pláss á fjárlögum

Punktar

Fanney Björk Ásbjörnsdóttir sýktist á Landspítalanum af lifrarbólgu C fyrir 33 árum. Mistök spítalans valda því að hún hefur verið sárlasin síðan. Fær samt ekki að nota dýrasta og bezta lyfið, sem notað er á Norðurlöndum. Ekki er pláss á fjárlögum! Kristján Þór, sem hannaði plássleysið, ypptir öxlum, talar um lög og reglur. Eins og Fanney Björk sé pakki í vörugeymslu. Ríkið á mistökin og á að borga fyrir þau. Ekki smíða fjárlög til að vitna í eins og guð almáttugan. Ráðherrann smíðaði ruglið sjálfur. Hljópst undan velferð í heilsu fólks. Veltir ábyrgð á eigin mistökum yfir á grandalausa. Burt með Kristján Þór Júlíusson.

Stinga höfðinu í sandinn

Punktar

Innri spenna vex á Vesturlöndum með þjóðflutningum flóttafólks frá löndum múslima. Víða er erfitt að laga suma hópa nýbúa að siðum og háttum landsins. Þöggun félagslegs rétttrúnaðar tefur nauðsynlegt mótvægi í nágrannalöndunum, þar sem þagað er um óeirðir og glæpi. Sumir múslimar sættast ekki við vestrænt þjóðskipulag og vilja breyta því. Vilja innleiða sharia-trúarlög, kássast upp á hegðun og siði utantrúarfólks, magna karlrembu á ýmsum sviðum. Allt er þetta óbærilegt. Því magnast ofstæki þeirra, sem efast um nýja flóttamenn og vilja læsa þá úti. Að stinga höfðinu í sand meintrar fjölmenningar er engin lausn.

Vel metin ferðaþjónusta

Punktar

Hefðbundinn rekstur í fáokun snýst hér mest um að níðast á viðskiptafólki sínu. Bankar fara þar fremstir, flugfélög og ferðaskrifstofur í öðru sæti. Því hefði mátt ætla, að náttúruparadísin yrði vígvöllur gráðugra grillara að misþyrma túristum. Svo er alls ekki, á TripAdvisor bera túristar rekstri vel söguna. Það gildir um alla línuna, jafnvel bílaleigur hafa sæmilegt orðspor. Fjöldi fólks hefur haslað sér völl í smáum einingum, mest í gistingu og veitingum. Túristar dásama vingjarnlegt viðhorf þessa fólks og dugnað við að gleðja viðskiptavini sína. Hinir illa innrættu eru líklega flestir að stjórna græðgisvæddum bönkum eða í fáokun.

„Bölvaðir aumingjar“

Punktar

„Sem þjóð erum við bölvaðir aumingjar“, segir KÁRI Stefánsson. Var að tala um pólitískar undirlægjur, sem glúpna fyrir frekju. Kári sagði stöðugleikaframlag vogunarsjóða aðeins þriðjung af því, sem það ætti að vera. Ísland fari halloka í þessum viðskiptum. Raunar er það sama saga og í viðskiptunum við eigendur stóriðju. Þeim var seld raforka á tombóluprís og engin auðlindarenta innheimt. Í öllum tilvikum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tekið þær ákvarðanir, sem hafa stórskaðað þjóðina. Partur af því dæmi, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru aumingjar. Verst hæfir allra manna til að koma nálægt fjármálum og rekstri.

Ísrael er eitur

Punktar

Mér er verr við Ísrael en nokkurt annað ríki. Hef verið þar tvisvar og undrast yfirganginn í samskiptum. Fautar ryðjast inn í lyftur án þess að gefa þeim, sem þar eru, færi á að komast út. „Ég-um mig-frá mér-til mín“ út í gegn. Apartheid Ísraels minnir á apartheid Suður-Afríku gamla tímans. Mér dettur ekki í hug að kaupa meðvitað vörur frá Ísrael. Finnst í lagi, að Reykjavík geri sama fyrir sitt leyti. Varðar ekki gyðingahatur, gyðingar eru ekki sama og Ísrael. Veit að vísu um takmarkaðan árangur af efnahagslegum þvingunum. Viðskiptabönn veltu þó ógnarstjórn hvítra Búa í Suður-Afríku og leiddu landið inn á vegi lýðræðis.

Bogfrymill Framsóknar

Punktar

Viðhorfið til komu flóttamanna endurspeglar stjórnmálaflokkana. Framsókn var í gamla daga talinn miðflokkur, en hefur nú komið sér fyrir yzt á hægra jaðrinum. Framsókn hefur einfaldlega verið að breytast í fasistaflokk. Ofnotkun flokksins á öfgum um ágæti Íslendinga og andstyggð annarra, sérstaklega Evrópu, heltók flokkinn. Setti fasisma á sjálfstýringu. Framsóknarfólk er andvígt móttöku flóttamanna eins og það er andvígt útlendum mat og útlendu lýðræði. Allt skal vera heimafengið. Sigmundur Davíð segir útlendan bogfrymil breyta hegðun fólks. Bogfrymill hans hefur auðvitað breytt hegðun Framsóknarfólks og einangrað það.

Ungverski fasisminn

Punktar

Ungverjaland sker sig úr í eindregnum fasisma. Tryllt hegðun lögreglumanna á landamærum Serbíu er svo yfirgengileg, að Ban Ki-moon er í áfalli, sjálfur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Viktor Orbán, forsætisráðherra landsins, hefur keyrt stíft á þjóðrembu og aflað flokki sínum meirihlutafylgis Ungverja. Allt er þetta Ungverjum til mikillar hneisu. Leiðir til hugleiðinga um, hvers vegna í ósköpunum Evrópusambandið samþykkti inntöku landsins. Kjósendur ákváðu sjálfir, að Ungverjaland sé mest og bezt. Að Orbán sé frábærastur og að sparka beri sem fastast í aumingjana. Þeir fagna núna ofbeldinu á landamærum ríkisins.

Ungu fólki útveguð vinna

Punktar

Atvinnuleysi er sagt hafa minnkað um 40% í Hafnarfirði vegna átaks í að útvega atvinnulausum vinnu við hæfi. Ekki bara einhverja vinnu, heldur vinnu við hæfi. Vil gjarna heyra meira um þetta spennandi mál. Er raunverulega hægt að helminga atvinnuleysi með aðgerðum hins opinbera? Og koma ungu fólki í fátæktargildru út í lífið á nýjan leik. Ef svo er, þá er brýnt að sveitarfélög kynni sér þessa aðferð og taki hana upp. Kannski eru einhverjir hnökrar á þessu, sem ekki komu fram í fréttinni. Við búum við erfitt ástand, þar sem atvinnuleysi getur orðið hlutskipti hópa og jafnvel gengið í ættir. Frábært er að höggva á þann hnút.

Verðum að tala skýrt

Punktar

Nýbúar verða að sætta sig við, að hér eru önnur gildi en í sumum samfélögum múslima. Við munum ekki veita sharia-trúarlögum réttarstöðu. Ekki sætta okkur við furðulega karlrembu sumra klerka múslima. Ekki leyfa ofsatrúarfólki að kássast upp á hegðun og siði utantrúarfólks. Við erum friðsamt samfélag, sem hefur fyrir löngu leyst spennu trúar og trúleysis. Við erum samfélag efans og upplýsinga, lítum á öfgatrúaða sem skrítningja. Við sitjum uppi með slíka, sem eru fæddir inn í samfélagið. Kærum okkur ekki um nýja hópa af slíku tagi. Við þurfum að tala skýrt og segja sumum, að kannski eigi þeir bara ekki heima hér.

Reynir að tefja

Punktar

Stefna ríkisstjórnarinnar í vanda flóttafólks felst í hræsni og yfirdrepsskap. Hún veit ekki sitt rjúkandi ráð og reynir að tefja málið sem mest. Á sama tíma eykst spennan í samfélaginu. Flestir hafa samúð með flóttafólki og vilja greiða götu þess. En margir eru hræddir og óttast svipaðar afleiðingar og í nálægum löndum. Þar aðlagast ekki sumt flóttafólk. Dreift er meira eða minna fölsuðum hryllingsfréttum af illsku múslima. Öfgafólkinu fjölgar og það lætur sér ekki segjast við ábendingar um lygi fréttanna. Bezt er að byrja strax að taka við flóttafólki og byggja strax upp fræðslu nýbúa um, hvað teljist hér vera öfgar.

Þvert gegn vilja fólks

Punktar

Ítrekað sýna kannanir, að nærri öll þjóðin vill hafa heilbrigðismál í forgangi. Að næstbrýnustu verkefni í forgangi séu skólamál, velferð og húsnæðismál. Allt mál, sem ríkisstjórnin reynir að skera niður til að hlynna að greifum auðs og kvóta. Verk hennar ganga þvert gegn vilja þjóðarinnar. Svo eru ráðherrar hissa á litlu fylgi bófaflokkanna. En þetta er einmitt skýringin. Fólk vill ekki láta kyrkja Landspítalann. Vill ekki verksmiðjuvæða skóla. Vill ekki skera niður hjá öldruðum, öryrkjum og sjúklingum. Vill ekki gera ungu fólki ókleift að eignast húsnæði. Bófaflokkarnir vilja ekkert læra af þessu og halda fast við sinn keip.

Hnignun og hrun hafsins

Punktar

GUARDIAN segir frá skýrslu World Wildlife Fund um hnignun og hrun lífs í höfum heims. Makrílstofninn hefur til dæmis minnkað um 74%, túnfiskur um annað eins. Ofveiði er ein af orsökunum, en í auknum mæli koma fljótandi plastúrgangur og súrnun hafsins við sögu. Það gildir ekki, að lengi taki sjórinn við. Sameinuðu þjóðarnar hafa bent á ýmislegt, sem hægt er að gera til varna. Vottunarstofur á borð við Marine Stewardship Council skipta máli. Einnig kvótasetning fiskveiða. Þar að auki þarf að hefja átak við hreinsun fljótandi plastúrgangs. En súrnun hafsins er erfiðasta málið. Allt getur þetta orðið fiskveiðiþjóðum örlagaríkt.

Einstæður forsætis

Punktar

Enginn forsætisráðherra á Vesturlöndum stendur upp til svara á þingi án þess að svara spurningunni. Nema einn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Slíkur væri talinn yfirmáta dóni erlendis og óhæfur til pólitískrar þjónustu. En hér kemst hann upp með að svara engu og tala bara um eitthvað annað. Honum er jafnvel hrósað af blaðamönnum, er telja það vera plús, að hann gargi þó ekki á fyrirspyrjanda. Sýnir ástand þjóðfélags, ástand stjórnmála og ástand fjölmiðlunar í vesælasta landi vestrænnar siðmenningar. Svo er spurning, hvort skrautleg hegðun hans er í senn dónaskapur, heimska og tilfinningaleysi fyrir mannlegum samskiptum.

Fór að tala um annað

Punktar

Katrín Jakobsdóttir spurði Sigmund Davíð á þingi í gær, hvort framsókn stæði heilshugar að söluáformum fjárlagafrumvarpsins á Landsbankanum. Hann svaraði með því að segja sig andvígan byggingu höfuðstöðva bankans á Hörpureit. Katrín spurði forsætis líka, hvort fyrirhuguð sala á Landsbankanum væri að frumkvæði framsóknar og hvernig þetta félli að samþykktum flokksins um að bankinn skuli vera í ríkiseigu. Hann svaraði, að bankann sinnti ekki alltaf hlutverki sínu eins og ráðherrann vildi. Sigmundur getur ekki svarað einföldum og afar skýrum spurningum og fer jafnhraðan að tala um annað. Dæmigerð veruleikafirring hans.