Punktar

Sumir nýta og aðrir trúa

Punktar

Munurinn á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum er einfaldur. Sá síðari trúir engu en nýtir trúarjátningar postula á borð við Friedman og Hayek til að komast yfir þjóðareignir. Sá fyrri trúir barnslega á þessar úreltu trúarjátningar og hefur gert svo síðan Ingibjörg Sólrún innleiddi Blairisma. Þar með hófst herleiðing Samfylkingarinnar, sem náði hástigi í hruninu. Engin breyting hefur síðan orðið á stöðu flokksins. Hann hefur sagt skilið við alþýðuna og er hættur að kalla eftir réttlátum skiptum þjóðararðsins. Tönnlast enn á slagorðum úr Friedman og Hayek, þótt þau séu löngu gjaldþrota. Samfylkingin á bara að leggja sig niður.

Fútt í húsnæðismálin

Punktar

Úr því að skráðir félagar í Pírötum eru farnir að skipta þúsundum, er tímabært að setja fútt í spilið. Virkja þarf fjöldann til að kafa ofan í mál, sem hafa reynzt fjórflokknum ofviða. Húsnæði unga fólksins er þar ofarlega á blaði. Ungt fólk getur hvorki leigt né keypt. Eitthvað kerfislægt er að. Sumir segja, að mótvægisaðgerðir vanti, en eru ekki sammála um hverjar þær eigi að vera. Svo eru aðrir, sem segja, að kaupið sé einfaldlega of lágt. Af 300-500 þúsund króna mánaðarlaunum sé ekki hægt að fjármagna íbúð. Greifar hirði mikið af þjóðarauð framhjá skiptum. Finna þarf lausn á þessu máli og keyra hana upp í byltingunni.

Elsku bezta Jóhanna

Punktar

Jóhanna Sigurðardóttir hefur fengið uppreisn æru eftir stanzlaus svigurmæli í sex ár. Nær hálf þjóðin telur hana hafa staðið sig bezt allra forsætisráðherra síðustu áratugi. Margfalt hærra hlutfall en þeirra, sem næstir komu, svo sem núverandi forsætis, sem er við botninn. Þetta er samkvæmt skoðanakönnun Gallup fyrir Vikuna, sjónvarpsþátt Gísla Marteins. Jóhanna var við völd eftir hrunið og stýrði þá upprisu okkar. Mikil og erfið þrautaganga, sem hafðist þó. En hún gaf sér lítinn tíma til að dekstra fólk og var ekki hátt skrifuð undir lokin. Hviklynd þjóð hefur loksins séð ljósið og kann að meta Jóhönnu að verðleikum.

Græðgisbörn við Sund

Punktar

Hópur menntaskólafólks við Sund svindlaði í stúdentsprófi. Upp komst, en fengu að endurtaka próf og útskrifast aðeins síðar. Vel sloppið. Nemendurnir kærðu, töldu „íþyngjandi“ að geta ekki útskrifast með hinum og að missa nokkrar vikur úr vinnu. Því var auðvitað ekki sinnt, en frekjan og firringin er söm. Líklega hafa foreldrar komið þar við sögu, börnin hefðu tæpast gengið ein svona langt. Dæmi um aukna siðblindu í samfélaginu, fólk böðlast áfram með góðu eða illu og „fer á svig við“ lög og reglur. Í háskóla stundar fólk ritstuld og stelur heilu ritgerðunum. Í viðskiptum er áherzla á aðstöðu, svindl og brask. Við erum komin á endastöð græðginnar.

Grafalvarlegur Gylfi

Punktar

Gylfi Arnbjörnsson, erindreki atvinnurekenda í sambandi verkalýðsrekenda, hefur áhyggjur af „grafalvarlegri“ hækkun launa. Eins og aðrir Blairistar trúir hann hagtrúarrugli, sem atvinnurekendur hafa lengi hamrað á. Heldur, að veruleikinn komi fram í upplýsingum fyrirtækja um afkomu sína og arð. Því treystir alþýðan honum ekki. Ekki frekar en hún treystir Samfylkingunni. Gylfi er á kafi í makki með atvinnurekendum í svonefndum Salek-hópi. Sá reynir að stöðva launahækkanir eins hóps í kjölfar hækkunar annars. Í Salek er það kallað „víxlhækkanir launa og verðlags“. Það gera þeir, sem gefa rangt í spilinu um skiptingu þjóðarauðs.

Dýraníð verðlaunað?

Punktar

Við hæfi er, að landbúnaðarráðherra veltir fyrir sér, hvorki ekki sé rétt að styrkja dýraníðinga svína- og kjúklingabúa. Það er punkturinn yfir i-ið á því ömurlega hneyksli. Æru rúin Matvælastofnun heldur áfram að kóa með níðingum. Enda telur hún neytendur ekki koma sér við, hvað þá dýravinir. Bústjórar halda allir fram, að myndirnar séu ekki frá þeirra verksmiðju og þvertaka fyrir að þvinganir beinist gegn þeim. Fullyrðing gegn fullyrðingu og allir taldir sekir, unz Matvælastofnun mannar sig upp í að lýsa þá upp. En hún telur verksmiðjur hafa sál, sem megi ekki verða fyrir áfallastreitu og þurfi lögpersónuvernd.

„Bragðkröfur“ um stoðmjólk

Punktar

Mjólkursamsalan segist afturkalla sendingu af stoðmjólk, því hún hafi „ekki staðist bragðkröfur“. Merkileg lýsing á framleiðslu, sem stefndi lífi og heilsu ungbarna í voða. Fjöldi manns hefur sagt frá reynslu af lofti í maga, slæmum magakrömpum, hitaköstum, ælupestum og niðurgangi ungbara. Hversu margir hafa trúað fullyrðingum þessa annálaða bófafélags um ófullnægðar „bragðkröfur“? Og þá hversu mörg börn hafa veikzt vegna þessara ósanninda? Hér er matvælaeftirlit í tómu tjóni, samanber langvinna leynd yfir dýraníði á svína- og kjúklingabúum. Því miður kóar Matvælastofnun með níðingum og starfar sízt fyrir notendur.

Áttavilltur Blairisti

Punktar

Skúli Helgason borgarfulltrúi er dæmi um, hversu langt Samfylkingin er komin út í ógöngur Blairismans. Segir Reykjavíkurborg verða að skera niður velferð til að eiga fyrir hærri launum. Velur að setja beint samband milli velferðar og óhóflegra launa leikskólakennara. Valið er fengið beint úr smiðju græðgisma nýfrjálshyggjunnar. Skúli atti skjólstæðingum borgarinnar gegn starfsfólkinu. Það er andstyggilegt, eins og raunar allur græðgismi Samfylkingarinnar. Svo eru menn þar á bæ hissa yfir, að Blairisti nái engum árangri sem formaður og að flokkurinn hafi glatað fylgi fólksins. Þetta gengi er samvaxið bófaflokkunum.

Vangeta eða spilling

Punktar

Ítrekuð furðuverk í samskiptum skipulagsráðs Reykjavíkur og gráðugra verktaka kalla á skýringar. Verktakar virðast hafa kverkatak á borginni og geta fengið hana til að fallast á hvað sem er. Þeir fá lóðir á tombóluverði. Fá að byggja langt umfram eðlilegt nýtingarhlutfall svæðisins. Og þvert á stíl gamalla og gróinna svæða. Nú síðast er leyft að byggja hótel í Vatnsmýri fyrir lóðarverð, sem er hundruðum milljóna króna undir mati. Felur þetta í sér fullkomna vangetu borgarstjórnar og skipulagsráðs hennar? Eða er hér að baki spilling í líkingu við þá, sem einkennir skipulag í borgum þriðja heimsins og Bandaríkjanna?

Ítrekuð vanhæfni

Punktar

Nokkrar stofnanir hafa undanfarið sýnt glæsta vanhæfni. Afleiðing af pólitískri andverðleikastefnu, sem skipar óhæfa forstjóra. Matvælastofnun heldur róttæku dýraníði svínabúa leyndu mánuðum saman fyrir fólki. Neitar líka að segja, hver búin séu. Rannsóknanefnd flugslysa er staðin að áralöngum seinkunum í rannsókn flugslysa. Sama um rannsóknanefnd sjóslysa, er getur enn ekki tjáð sig um gömul dauðaslys. Útlendingastofnun sýnir ítrekaða vanhæfni. Nú síðast vanrækti hún að útvega börnum hælisleitenda skólavist. Vinnumálstofnun sinnir svartri vinnu af markvissri vangetu. Pólitískir andverðleika-forstjórar róa bara fram í gráðið.

Vaknið af værum blundi

Punktar

Ferðaþjónusta er gott dæmi um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Þar þarf að taka snarlega á hlutunum. Setja upp gistináttagjald án tafa og nota það til að útbúa frábæra aðstöðu á ferðamannastöðum. Fækki gjaldið ferðamönnum, er það hið bezta mál, því að við önnum annars ekki aukningunni. Jafnframt þarf að setja hraða og hörku í að útrýma svartri starfsemi í greininni. Svo og stöðva vangreiðslur til starfsfólks. Háum sektum þarf strax að beita þá, sem reyna að víkja sér undan gjöldum og kjörum. Hæsti vaskur verði sem fyrst lagður á alla ferðaþjónustu, gistingu, mat og flutninga. Líta má á vaskinn sem bara eðlilega auðlindarentu.

Stöðvum undirboðin

Punktar

Þegar fólk er ráðið til starfa á lægri kjörum en lög og samningar ákveða, er verið að lækka botninn í samfélaginu. Fyrirtæki geta með þeim hætti ýtt hinum til hliðar, sem fara eftir lögum og samningum. Lífskjörum heilla atvinnugreina er þannig ýtt niður. Heimskir hagfræðingar telja þetta prýðilega hagræðingu. Í raun er verið að rýra kjörin í greininni og minnka límið í samfélaginu. Þetta gerist einkum í byggingum og ferðaþjónustu. Allt of lítið er gert til að stöðva þetta, enda eru stjórnvöld hlynnt undirboðum á fátæklingamarkaði. Við þurfum að skipta um kúrs og loka fyrirtækjum, sem grafa á þennan hátt undan samfélaginu.

Tvískiptingin magnast

Punktar

Tvískipting þjóðarinnar magnast stöðugt. Nú má skipta fólki eftir æðahnútum, ekki bara eftir augasteinum og heilum tönnum. Hver þátturinn á fætur öðrum er tekinn út úr magnþrota velferðarkerfi og færður inn í einkarekstur. Góðar tennur kosta hundruð þúsunda, sem hálf þjóðin hefur ekki efni á. Augasteinar kosta 300.000 krónur, sem hálf þjóðin hefur ekki efni á. Nú bætist við frelsi frá æðahnútum fyrir 150.000 krónur, sem hálf þjóðin hefur ekki efni á. Þetta er markviss græðgivæðing heilsunnar. Sem í annan stað lýsir sér í, að varnarlausir eru gerðir að verktökum og lífskjarabotninn lækkaður niður úr lágmarkslaunum.

Horfa fram á veginn

Punktar

Fyrir fimm árum samþykkti alþingi einróma að nota skýrslu rannsóknarnefndar þingsins til að læra af hruninu. Flest hefur síðan verið svikið. Stjórnarskrá var stungið undir stól, sömuleiðis þjóðhagsstofnun. Fjármálaeftirlið hefur ekki verið læknað og ekki heldur Landsdómur. Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður segir um þetta: „Niðurstaðan af því var sú að það var ekki gert.“ Og „Nú þurfum við líka að fara að horfa fram á veginn.“ Það er eins og guðs hönd hafi komið af himnum ofan og gripið í taumana. Kannski var það hönd Davíðs. Og svo skilur Unnur Brá ekkert í, að traust þjóðarinnar á alþingi mælist í eins stafs tölu.

Prestar segi upp

Punktar

Fordómaprestar neita að veita þjónustu og segjast hafa „samvizkufrelsi“. Sem opinberir starfsmenn hafa þeir ekkert slíkt frelsi. Þeir verða að þjónusta alla jafnt, burtséð frá eigin fordómum. Tækju aðrir embættismenn upp á að fela sig bak við newspeak af þessu tagi, væri fótunum kippt undan opinberri þjónustu. Væru fordómaprestar vígslubiskupar í ofsatrúarsöfnuði, gætu þeir hagað sér eins og fífl. En sem opinberir embættismenn á ríkislaunum hafa þeir engan rétt á að mismuna fólki eftir eigin fordómum. Þeir geta bara leyst málið með því að segja upp starfi. Gott væri raunar að losna við Kristján Val Ingólfsson af launaskrá.