Punktar

Ekki bann – bara merking

Punktar

Mér finnst erfitt að fallast á að setja viðskiptabann á ríki. Hvaða reglur eiga að gilda? Er Ísrael versta ríki í heimi? Það er eitt af verstu ríkjum heims, en hvað um önnur slík ríki? Og hvað um Rússland? Betri er leið Evrópusambandsins að merkja upprunaland á umbúðir. Og upprunasvæði, sé varan framleidd á hernumdu svæði, Palestínu eða Krím. Alveg eins og mér finnst rangt að banna innflutning á erfðabreyttum mat. Hins vegar merkja allan slíkan mat á umbúðum. Þannig fær neytandinn upplýsingar og getur sjálfur tekið upplýsta ákvörðun, ef hann kærir sig um. Hér í villta hægrinu eru reglur um merkingar aumar og eftirlit ekkert.

Óttasleginn forseti

Punktar

Mér sýnist pólitíkin taka skynsamlega á viðbrögðum við terror og flóttafólki. Alþingismenn hvetja til stillingar og vara við skelfingu. Ríkisstjórnin fer með löndum í vali á flóttafólki, ekki björgum við öllum heiminum. Eina véfréttin í þessu dæmi er forseti Íslands. Hann einn er skelfdur. Segist hafa komizt yfir leyniboðskap um áhuga á hryðjuverkum á Íslandi. Hlýtur að hafa það frá vinum sínum, miðaldagreifum Arabíuskaga. Þeir hafa fjármagnað trúarofsa, meðal annars ofstækismoskur í Evrópu, þar sem predikað er hatur á Evrópu. En hann hefur áður unnið í kross, telur það sýna djúpvitra kænsku. Og leiða til eigin endurkjörs.

Varðveita höfundarétt

Punktar

Nýr þingmaður pírata sló á grun minn um, að píratar styðji hugverkastuld. Ásta Helgadóttir flutti ágæta RÆÐU á alþingi í gær um höfundarétt. Píratar vilja endurskilgreina hugverk, varðveita rétt höfunda, greina milli þeirra og ýmissa réttinda milliliða. Jafnframt stuðli lagaramminn að heiðarlegri notkun hugverka umfram þjófnað. Komið verði á nýju jafnvægi milli höfunda og notenda. Ennfremur vilja píratar erlent samstarf um framvindu hugverkaréttar. Margt er þetta á annan veg en áður var talið. Ásta greiðir úr óvissu, sem of lengi hefur ríkt um hugverkastefnu pírata. Kynna þarf stefnuna, því hún er reyndar ferlega flókin.

Pólitík hefur grunngildi

Punktar

Brezkir Blairistar sáu pólitíkina með augum almannatengils. Leituðu leiða til að lífga fylgi krata. Sáu þann kost vænstan að halla sér yfir á hægri vænginn. Fara þangað, þar sem þeir töldu fylgið vera. Urðu blindir í hroka af velgengni drullusokksins Tony Blair. Föttuðu ekki, að þar með ógiltu þeir fyrri hugmyndir um jöfnuð. Fórnuðu grunngildum fyrir skammgóðan vermi í hlýrri græðgishyggju. Breyttust í „Thatcher light“. Endurreisn gamalla gilda hefst með Jeremy Corbyn. Hann skilur, að þú leitar ekki fylgis í herbúðum óvinarins. Þú segir fólkinu að koma til þín. Pólitík er ekki „public relations“, heldur sannfæring og trúboð.

Mýrin er málið

Punktar

Mér lízt illa á þessar framkvæmdir við flugvöllinn í Reykjavík. Vil enga byggð á flugvallarsvæðinu, gatnakerfið ræður ekki við hana. Bara partur af sjúklegu gatna- og bílahatri meirihluta borgarstjórnar. Tel hins vegar hið bezta mál að losna við þessa flugbraut. Og raunar allan flugvöllinn með sínar fáu lendingar á ári. Flugið á heima í Keflavík. Í stað flugvallarins ættu ekki að koma nein hús. Þar ætti bara að vera mýri, gamla góða Vatnsmýrin. Í deilunni takast á tvö sjónarmið, bæði röng. Það er auðvitað íslenzk sérgrein, að hálf þjóðin rífi sig hása með eða móti löngu úr sér gengnu umræðuefni. Mýrin ein skiptir okkur máli.

Löggan misnotar heimildir

Punktar

Það er sama sagan um allan heim. Ævinlega og alls staðar misnotar lögreglan heimildir, sem hún kríar út. Fær að skerða mannréttindi út á terrorisma úti í heimi. Notar svo heimildirnar til að terrorisera borgarana. Þetta er galið lið. Sjáið formann löggufélagsins, sem fer um lönd vopnaður byssu. Þarf vistun á þar til bærri stofnun. Löggan ruglar ætíð terrorisma saman við stjórnarandstöðu, náttúruvernd eða gagnrýni. Það er náttúrulögmál. Hér á landi tíðkaðist lengi að njósna um stjórnarandstæðinga. Viðhorf löggunnar til náttúruvina er vel þekktur skandall. Henni má ekki takast að nota París til að krækja í nýjar heimildir.

Fórnardýr rétttrúnaðar

Punktar

Stóra barnið í ríkisstjórninni segist ekki geta tjáð sig á opinberum vettvangi vegna útúrsnúninga handhafa hins pólitíska rétttrúnaðar. Makalaust er, hversu mikið einn maður er misskilinn, þrátt fyrir sjaldgæfa tjáningu. Málið er, að hann getur ekki tjáð sig. Hlutverk forsætisráðherra er að leiða þjóðina með því að gefa henni meitlaða sýn á framtíðina. Vonlaust er, að ætíð þurfi að kalla í Jóhannes útskýrara til að segja okkur, hvað stóra barnið meinti. Þannig koðnar forustuhlutverkið niður. Stóra barnið getur ekkert að þessu gert, það veit ekki og getur ekki betur. Villtist á toppinn fyrir óskhyggju og vangetu kjósenda.

Leikhúsið versnar

Punktar

Þegar ég sótti leikhús í London í gamla daga, voru á fjölunum LEIKARAR, sem kunnu öll afbrigði ensku í tíma og rúmi. Gátu farið með Shakespeare þannig, að allir skildu. Töluðu áströlsku eitt kvöld, cockney á næsta. Hér voru leikarar ekki svo vel skólaðir. Ástandið hefur versnað. Ekki lengur hægt að nota texta að hætti Helga Hálfdánarsonar eða Halldórs Laxness. Þá þarf að þýða á nútíma. Texti er aukaatriði í leikhúsi, sjálfri sögunni er breytt, hopp og hí er málið. Leiksýningar eru bara að nafninu til gerðar eftir leikverkum eldri tíma. Frægu nöfnin eiga bara að trekkja fólk að, svo framhleypnir leikstjórar „meikiða“.

Af hverju hérna?

Punktar

Athuganir í flestum vestrænum löndum sýna, að þorri trúrækinna múslima styður sharia umfram landslög. Vilja reglur, sem fela í sér karlrembu, kvennakúgun og fjölkvæni. Vilja dauðarefsingar kóransins. Eru bókstafstrúar, þótt þeir telji sig ekki róttæka eða fylgismenn terrorista. Andvígir vestrænum mannréttindum, eins og þeim er lýst í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Trú þeirra er samofin pólitískum viðhorfum, sem eru andstæð stjórnarskrám vestrænna ríkja. Skrítið er, að heilir hópar hafni grunnstoðum vestrænnar tilveru. Ég spyr því: Af hverju eruð þið hérna? Af hverju eruð þið ekki í landi með ykkar lífssýn?

PEW rannsóknin

Orkulausi kapallinn

Punktar

Öfugt við það, sem Sigmundur Davíð og Cameron segja, mun lítil orka renna frá Íslandi til Skotlands um kapalinn flotta. Orka er skortvara hér á landi. Ekki er ljóst, hvernig stóriðju við Húsavík, Helguvík og Hvalfjörð verður séð fyrir orku. Hitaorka á Reykjaneshrygg verður brot af því, sem áætlað er í skýrslum. Og hún er ekki endurnýjanleg, hvert orkuverið þarf að taka við af öðru tæmdu. Orkuöflun er búin að eyðileggja Mývatn með hita og botnfalli. Og öfgalýðurinn í Landsvirkjun, Landsneti og slíkum ofsatrúarsöfnuðum heimtar raflínuturna um öll fjöll. Þjóðin er andvíg þessum landráðum og mun stöðva þau í næstu kosningum.

Samantekt um París

Punktar

Um helgina skrifaði ég nokkra örpistla um íslam, jihad, terror í París og afleiðingar hans. Hef raðað þeim upp í betra samhengi og birti þá hér í einu lagi fyrir þá fáu, sem slíku nenna. Athugið, að bruninn í Calais reyndist ekki vera hryðjuverk. Einnig hafa hörð viðbrögð múslimahatara látið á sér standa:

Átök urðu að stríði

Íslam brauzt inn í söguna um 630 og náði hámarki um 1200 í Córdoba á Spáni. Þá bar íslam af kristni í menningu og siðum. Þá hófst hnignunin. Fyrst afar hæg, en hraðari eftir landafundi Evrópu, endurreisn í menningu og upplýsingabyltingu Evrópu. Vísindi og tækni; frelsi, jöfnuður og bræðralag gerðu veraldlega Evrópu sterka. Á síðustu öld völtuðu þessi nútímaríki kruss og þvers yfir heim íslams. Olíufundir varðveittu leifar af krafti íslams. Nýríkt íslam fæddi pólitískan íslamisma til að endurreisa forna dýrð íslams. Átök hófust milli íslamisma og vestrænnar veraldarhyggju. Af vaxandi krafti. Heimsstyrjöld 21. aldar er hafin.

Eiturpotturinn jihad

Hámarki náði niðurlæging íslams, þegar vestrænir vantrúarhundar lögðust ofan á lönd íslams, eins og Frakkar í Alsír og Bandaríkjamenn í Afganistan og Írak. Allt slíkt bætist í eitrað minni „jihad“, hins heilaga stríðs. Löngu fyrir Persaflóastríð skrifuðu þekktir sagnfræðingar bækur um vandann. Heilagt stríð gegn vestrænni veraldarhyggju hefur verið á hlóðum múslima um aldir. Allar vélar, öll tæki, allur peningur, öll ljóð, öll menntun er vestræn. Íslam er ósamkeppnishæft við vestræna veraldarhyggju. Þrátt fyrir „Allah Akbar“ möntru um að Allah sé mikill. Heilagt stríð er vonin. Terror í París er stórt skref.

Orrustan í París

Stríð eru ýmis. Þekktust eru hefðbundin stríð, þar sem herir standa gráir fyrir járnum við víglínu. Þekkjum líka stríð úr fjarlægð með peningum eða flugvélum og nú síðast með mannlausum flygildum. Allar götur hafa líka verið háð stríð, þar sem veikburða heimamenn berjast gegn sterku herveldi utan úr heimi. Þannig er stríð hins pólitíska íslams við vestræn heimsveldi. Sá sterki skapar sér afmarkaðan vígvöll og sá veiki skapar sér svigrúm til skæruhernaðar. Sterkasti skæruhernaður er terror, sem flytur víglínu úr heimalandinu beint yfir í hjarta hins sterka. Á föstudaginn var slík orrusta í París á vegum íslamista.

Átakasvæðinu hliðrað

Enn er allt í óvissu um fjölda látinna í hryðjuverkum róttækra múslima í París. Opinbera talan stendur núna kl.7 í 120 manns á sex stöðum. Flestir voru felldir á rokktónleikum í Le Batacian höllinni. Landamærin eru lokuð og herinn er í viðbragðsstöðu. Nokkrum tímum síðar voru andstæðingar múslima ranglega taldir hafa kveikt í flóttamannabúðunum í Calais, þar sem voru 6000 manns. Sem betur fer eru engar fréttir af öðrum hefndaraðgerðum í Frakklandi. Þetta er nýja stríðstegundin. Sá sem fer halloka á vígvelli, flytur stríðið til almennings í óvinaríki. Eins og Tsétsénar gerðu í Moskvu árið 2002. Þetta er jihad múslima.

Stríðið mikla hafið

Allt bendir til, að hryðjuverkin í París séu verk róttækra múslima. Sé svo, má segja, að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Milli Evrópu og íslamista. Frakkland hefur lokað landamærum. Önnur lönd munu loka landamærum fyrir múslimum og reka fjölskyldulausa flóttamenn til síns heima. Tími fjölmenningar er liðinn og í staðinn risinn stríðstími haturs á múslimum. Að venju koma slík stríð einkum niður á meinlausu fólki. Hryðjuverk og afleiðingarnar gera það alltaf. Flokkar múslimahaturs munu sækja bratt í kosningum og breyta viðhorfum heilla ríkja til trúarbragða múslima. Moskum wahabíta verður lokað og söfnuðum þeirra tvístrað.

Múslimahatur magnast

Um alla Evrópu mun hatur á múslimum magnast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Áður voru hatursflokkar búnir að auka fylgið upp í 20-25% í kosningum og taka völdin í Ungverjalandi og Póllandi. Hatur mun enn magnast, einkum í Frakklandi. Flóttafólk mun líða fyrir hryðjuverkin. Schengen-frelsið er fyrir bí og Evrópa rambar eins og drukkinn Jean-Claude Juncker. Angela Merkel hefur orðið fyrir rothöggi. Hatursfylgið er líklega komið í 30-35% víðs vegar um álfuna. Hér er staðan skárri, við erum ekki gefin fyrir fordóma. En almenningi verður ekki um sel og löggan heimtar forvirkni. Fjölmenningarstefna lifir ekki af svona nætur.

Verðum áfram vestræn

Hér þarf fátt að breytast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Venjulegt fólk ber ekki ábyrgð á þeim. Við tökum við flóttafjölskyldum eins og áður var ráðgert. En munum sníða augljósa vankanta af fjölmenningarstefnu. Viljum ekki sharia, karlrembu, feðraveldi, búrkur, bókstafstrú, miðaldir. Í Róm ertu sem Rómverji, í Reykjavík ertu sem Reykvíkingur. Erlendis eru fjölmörg dæmi um, að róttækir wahabítar skilji ekki eða heyri ekki fræðslu um þau efni. Við munum því ekki flytja inn wahabíta og allra sízt klerka þeirra. Fjölmenningin mun ekki fela í sér neina sambræðslu við forneskjuna. Við gefum ekki eftir veraldlegu hefðina.

Eiturpotturinn jihad

Punktar

Hámarki náði niðurlæging íslams, þegar vestrænir vantrúarhundar lögðust ofan á lönd íslams, eins og Frakkar í Alsír og Bandaríkjamenn í Afganistan og Írak. Allt slíkt bætist í eitrað minni „jihad“, hins heilaga stríðs. Löngu fyrir Persaflóastríð skrifuðu þekktir sagnfræðingar bækur um vandann. Heilagt stríð gegn vestrænni veraldarhyggju hefur verið á hlóðum múslima um aldir. Allar vélar, öll tæki, allur peningur, öll ljóð, öll menntun er vestræn. Íslam er ósamkeppnishæft við vestræna veraldarhyggju. Þrátt fyrir „Allah Akbar“ möntru um að Allah sé mikill. Heilagt stríð er vonin. Terror í París er stórt skref.

Orrustan í París

Punktar

Stríð eru ýmis. Þekktust eru hefðbundin stríð, þar sem herir standa gráir fyrir járnum við víglínu. Þekkjum líka stríð úr fjarlægð með peningum eða flugvélum og nú síðast með mannlausum flygildum. Allar götur hafa líka verið háð stríð, þar sem veikburða heimamenn berjast gegn sterku herveldi utan úr heimi. Þannig er stríð hins pólitíska íslams við vestræn heimsveldi. Sá sterki skapar sér afmarkaðan vígvöll og sá veiki skapar sér svigrúm til skæruhernaðar. Sterkasti skæruhernaður er terror, sem flytur víglínu úr heimalandinu beint yfir í hjarta hins sterka. Á föstudaginn var slík orrusta í París á vegum íslamista.

Átök urðu að stríði

Punktar

Íslam brauzt inn í söguna um 630 og náði hámarki um 1200 í Córdoba á Spáni. Þá bar íslam af kristni í menningu og siðum. Þá hófst hnignunin. Fyrst afar hæg, en hraðari eftir landafundi Evrópu, endurreisn í menningu og upplýsingabyltingu Evrópu. Vísindi og tækni; frelsi, jöfnuður og bræðralag gerðu veraldlega Evrópu sterka. Á síðustu öld völtuðu þessi nútímaríki kruss og þvers yfir heim íslams. Olíufundir varðveittu leifar af krafti íslams. Nýríkt íslam fæddi pólitískan íslamisma til að endurreisa forna dýrð íslams. Átök hófust milli íslamisma og vestrænnar veraldarhyggju. Af vaxandi krafti. Heimsstyrjöld 21. aldar er hafin.

Byltingin er byrjuð

Punktar

Einn mikilvægasti munur þessarar aldar og hinnar síðustu er, að nú hefur fólkið fengið mál. Í stað hliðvarða hefðbundinna fjölmiðla er komið frelsi fólksins. Það hópast saman í stafræna heiminum án þess að þurfa að sækja fundi. Í bloggi hlustar það að vísu á viðurkennda álitsgjafa. En á fésbók ríkir víðáttan ein og þar hafa allir mál. Þar myndast sjálfstæðir hópar, þar sem fólk fræðir hvert annað eða æsir hvert annað upp eða hvort tveggja í senn. Þar fattar fólk, að rangt er gefið í spilunum og að flestir pólitíkusar eru himpigimpi. Þar áttar fólk sig á, að það þarf sjálft að bylta bófunum. Á fésbók byrjar byltingin.