Samantekt um París

Punktar

Um helgina skrifaði ég nokkra örpistla um íslam, jihad, terror í París og afleiðingar hans. Hef raðað þeim upp í betra samhengi og birti þá hér í einu lagi fyrir þá fáu, sem slíku nenna. Athugið, að bruninn í Calais reyndist ekki vera hryðjuverk. Einnig hafa hörð viðbrögð múslimahatara látið á sér standa:

Átök urðu að stríði

Íslam brauzt inn í söguna um 630 og náði hámarki um 1200 í Córdoba á Spáni. Þá bar íslam af kristni í menningu og siðum. Þá hófst hnignunin. Fyrst afar hæg, en hraðari eftir landafundi Evrópu, endurreisn í menningu og upplýsingabyltingu Evrópu. Vísindi og tækni; frelsi, jöfnuður og bræðralag gerðu veraldlega Evrópu sterka. Á síðustu öld völtuðu þessi nútímaríki kruss og þvers yfir heim íslams. Olíufundir varðveittu leifar af krafti íslams. Nýríkt íslam fæddi pólitískan íslamisma til að endurreisa forna dýrð íslams. Átök hófust milli íslamisma og vestrænnar veraldarhyggju. Af vaxandi krafti. Heimsstyrjöld 21. aldar er hafin.

Eiturpotturinn jihad

Hámarki náði niðurlæging íslams, þegar vestrænir vantrúarhundar lögðust ofan á lönd íslams, eins og Frakkar í Alsír og Bandaríkjamenn í Afganistan og Írak. Allt slíkt bætist í eitrað minni „jihad“, hins heilaga stríðs. Löngu fyrir Persaflóastríð skrifuðu þekktir sagnfræðingar bækur um vandann. Heilagt stríð gegn vestrænni veraldarhyggju hefur verið á hlóðum múslima um aldir. Allar vélar, öll tæki, allur peningur, öll ljóð, öll menntun er vestræn. Íslam er ósamkeppnishæft við vestræna veraldarhyggju. Þrátt fyrir „Allah Akbar“ möntru um að Allah sé mikill. Heilagt stríð er vonin. Terror í París er stórt skref.

Orrustan í París

Stríð eru ýmis. Þekktust eru hefðbundin stríð, þar sem herir standa gráir fyrir járnum við víglínu. Þekkjum líka stríð úr fjarlægð með peningum eða flugvélum og nú síðast með mannlausum flygildum. Allar götur hafa líka verið háð stríð, þar sem veikburða heimamenn berjast gegn sterku herveldi utan úr heimi. Þannig er stríð hins pólitíska íslams við vestræn heimsveldi. Sá sterki skapar sér afmarkaðan vígvöll og sá veiki skapar sér svigrúm til skæruhernaðar. Sterkasti skæruhernaður er terror, sem flytur víglínu úr heimalandinu beint yfir í hjarta hins sterka. Á föstudaginn var slík orrusta í París á vegum íslamista.

Átakasvæðinu hliðrað

Enn er allt í óvissu um fjölda látinna í hryðjuverkum róttækra múslima í París. Opinbera talan stendur núna kl.7 í 120 manns á sex stöðum. Flestir voru felldir á rokktónleikum í Le Batacian höllinni. Landamærin eru lokuð og herinn er í viðbragðsstöðu. Nokkrum tímum síðar voru andstæðingar múslima ranglega taldir hafa kveikt í flóttamannabúðunum í Calais, þar sem voru 6000 manns. Sem betur fer eru engar fréttir af öðrum hefndaraðgerðum í Frakklandi. Þetta er nýja stríðstegundin. Sá sem fer halloka á vígvelli, flytur stríðið til almennings í óvinaríki. Eins og Tsétsénar gerðu í Moskvu árið 2002. Þetta er jihad múslima.

Stríðið mikla hafið

Allt bendir til, að hryðjuverkin í París séu verk róttækra múslima. Sé svo, má segja, að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Milli Evrópu og íslamista. Frakkland hefur lokað landamærum. Önnur lönd munu loka landamærum fyrir múslimum og reka fjölskyldulausa flóttamenn til síns heima. Tími fjölmenningar er liðinn og í staðinn risinn stríðstími haturs á múslimum. Að venju koma slík stríð einkum niður á meinlausu fólki. Hryðjuverk og afleiðingarnar gera það alltaf. Flokkar múslimahaturs munu sækja bratt í kosningum og breyta viðhorfum heilla ríkja til trúarbragða múslima. Moskum wahabíta verður lokað og söfnuðum þeirra tvístrað.

Múslimahatur magnast

Um alla Evrópu mun hatur á múslimum magnast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Áður voru hatursflokkar búnir að auka fylgið upp í 20-25% í kosningum og taka völdin í Ungverjalandi og Póllandi. Hatur mun enn magnast, einkum í Frakklandi. Flóttafólk mun líða fyrir hryðjuverkin. Schengen-frelsið er fyrir bí og Evrópa rambar eins og drukkinn Jean-Claude Juncker. Angela Merkel hefur orðið fyrir rothöggi. Hatursfylgið er líklega komið í 30-35% víðs vegar um álfuna. Hér er staðan skárri, við erum ekki gefin fyrir fordóma. En almenningi verður ekki um sel og löggan heimtar forvirkni. Fjölmenningarstefna lifir ekki af svona nætur.

Verðum áfram vestræn

Hér þarf fátt að breytast í kjölfar hryðjuverkanna í París. Venjulegt fólk ber ekki ábyrgð á þeim. Við tökum við flóttafjölskyldum eins og áður var ráðgert. En munum sníða augljósa vankanta af fjölmenningarstefnu. Viljum ekki sharia, karlrembu, feðraveldi, búrkur, bókstafstrú, miðaldir. Í Róm ertu sem Rómverji, í Reykjavík ertu sem Reykvíkingur. Erlendis eru fjölmörg dæmi um, að róttækir wahabítar skilji ekki eða heyri ekki fræðslu um þau efni. Við munum því ekki flytja inn wahabíta og allra sízt klerka þeirra. Fjölmenningin mun ekki fela í sér neina sambræðslu við forneskjuna. Við gefum ekki eftir veraldlegu hefðina.