Punktar

Einka-saman-frelsi-afskipti

Punktar

Áður var stjórnmálaskoðunum skipt á hægri-vinstri eða einka-saman ás. Síðar kom annar ás, hornrétt á hinn, frelsis-afskipta ás. Stalín flokkaðist þá saman-afskipta, Thatcher einka-afskipta, Pinochet einka-frelsis og Gandhi saman-frelsis. Píratar eru flestir í saman-frelsis hólfi, stutt frá Gandhi. Færri þeirra eru í einka-frelsis hólfi. Langt er milli Ayn Rand-hyggju hægri ungliða og Chomsky-hyggju vinstri ungliða. Heimdallur er heimahöfn þeirra, sem vilja auka einka-frelsi og afnema reglur, sem „hefta framtak“. Píratar eru þá væntanlega heimahöfn hinna, sem vilja taka saman höndum um að dreifa gæðum lífsins, stunda saman-frelsi. En líklega eru víddirnar fleiri en þessar tvær.

Varúð: Trójuhestar

Punktar

Ég hef litla trú á, að gagnlegt sé að efla róttæka hægrið eða róttæka vinstrið. Hvort tveggja er gömul lumma frá 20. öld. Mér finnst staður framtíðarinnar vera á hinni róttæku miðju. Flestir Íslendingar eru á íhaldsmiðju. Þar hafa vinstri sjálfstæðismenn og hægri jafnaðarmenn löngum verið á svipuðum slóðum. Þeim þarf að lyfta upp úr fortíðinni. Það getur ný, róttæk miðja gert. Miðja, sem hugsar allt upp á nýtt, án þess að endurtaka kreddur af 20. öld. Píratar hafa staðsett sig á róttækri miðju, stundum á anarkískri miðju, samkvæmt mannvali og stefnu. En þeir verða að gæta sín á Trójuhestum frá hægri jaðrinum og vinstri jaðrinum.

Einn öflugri en allir

Punktar

PÁLL Vilhjálmsson álitsgjafi sýnir skrítna staðreynd: Stefán Ólafsson prófessor er öflugri stjórnarandstaða en öll andstaðan á alþingi samanlögð. Hún á að hafa syngjandi meðbyr vegna heimsku og illsku ríkisstjórnar og arfleifðar hennar frá öfgum einkaframtaksins fyrir hrun. En hún nær engum vopnum. Stefán birtir hins vegar hver gögnin á fætur öðrum, sem sýna eymd stjórnvalda. Étur ekki bara öfga ríkisstjórnarinnar, heldur slátrar líka Viðskiptaráði fyrir morgunverð. Ætti að vera formaður Samfylkingarinnar í stað einhvers jólasveins frá Blair-tímanum. Það er hreint skrípó, að Samfylkingin og Vinstri græn hafi samtals 20% örfylgi.

Næfurþunn lífsskoðun

Punktar

Zúismi er ekki fjölgyðistrú frá bronzöld, þótt aðstandendur haldi því fram, nú síðast í Kjarnanum. Trúin var fundin upp á Íslandi árið 2015. Zú eða Anzú var nánast bara hluti af leiktjöldunum í guðaheimi Súmera. Raunar eins minni háttar og hægt er að vera. Gegndi því eina hlutverki að vera drepinn á fjalli og var þar með úr sögunni. Ekki er vitað til, að nokkru sinni hafi verið nein minnsta trú á honum. Ekki er vitað til, að neinn hafi nokkru sinni beint bænum sínum til hans. Bara nafn til að fylla upp í goðafræði Súmera. Upprisa Zú á Íslandi snýst um, að fólk vill losna með þunnum brandara undan sóknargjaldi. Er það lífsskoðun?

Gaddavír á landamærum

Punktar

Stuðningur í Svíþjóð við móttöku flóttamanna hefur á þremur mánuðum minnkað úr 44% í 19%. Meirihluti Svía er andvígur viðtöku. Um áramót setja Svíar eftirlit á Eyrarsundsbrú. Partur af hruni fjölmenningarstefnu í Evrópu. Danir hyggjast rífa skartgripi af flóttamönnum, svo sem frægt er orðið. Markmiðið er að hræða flóttamenn frá komu. Forseti Tékka sakar flóttafólk um skipulega innrás og vill koma því burt. Korsíka hefur formlega lýst yfir sjálfstæði frá Frakklandi, sett upp þjóðrembustjórn. Skríllinn þar er farinn að rústa moskum og brenna kóraninn. Við sjáum fram á gaddavír á öllum landamærum. Stríðið er komið til Evrópu.

Einkavæðing pírata

Punktar

Þegar kommúnisminn hrundi í Sovéti og fylgiríkjum, voru þeir hörðustu í klípu. Sögðu kommúnismann samt góðan, en Stalín og aðrir vondir kallar hefðu eyðilagt hann. Minnir á hrun auðhyggjunnar í bankakreppunni 2008, þegar Time útnefndi Greenspan seðlabankastjóra sem mesta geranda hrunsins. Á 25 manna lista gerenda var líka Davíð Oddsson. Samt er öfgajaðarinn ekki mát. Segir Greenspan hafa verið sósíalista með handstýringar. Formaður framkvæmdaráðs pírata segir það. Pírata! Líklega eru DO & HHG þá líka sósíalistar. Hin Sanna Frjálshyggja enn ekki prófuð. Og píratar þurfa að drífa sig í stjórnlausa einkavæðingu.

Wikipedia
WEF

Allir þykjast píratar

Punktar

Hópur lærisveina Hannesar Hólmsteins haslar sér völl í pírataspjallinu. Eru þar í sókn og vörn fyrir einkavæðingu innviða samfélagsins. Afleiðing af langvinnum sigurtölum pírata í könnunum er, að allir vilja komast þar á skip. Næst fara menn að flykkjast á fundi pírata. Spjall pírata er opið og kjörið fyrir áróður. Þar er raunar eina pólitíska umræðan í fésbók. Önnur pólitík á fésbók er prívat eða í lokuðum hópum sértrúaðra. Ýmsir, sem styðja samfélagsrekstur á innviðum samfélagsins, hafa tekið til varna. Samanlagt er þetta fróðlegt aflestrar. En tilefni er til varúðar, þegar allir þykjast allt í einu vera orðnir píratar.

Styrjöld lífsskoðana

Punktar

Stríð er hafið innan öfgamúslima og milli þeirra og veraldarhyggju vesturlanda. Lýsir sér í stríði í Sýrlandi og Írak og í hryðjuverkum í Evrópu. Lág prósenta tekur þátt í öfgunum, en fjöldi einstaklinga er samt hár. Í Vestur-Evrópu eru um 300.000 jihadistar, þeir sem trúa á uppgjör þessara lífsskoðana. Í þessum hópi eiga hryðjuverkamenn skjól. 2000 Evrópu-múslimar hafa barizt í Sýrlandi og Írak undir merkjum Isis. 1000 af þeim eru komnir til baka, þar á meðal 250 til norðurlandanna. Líklega eru þeir flestir undir eftirliti, en meira eða minna ófullnægjandi. Óhjákvæmilegt er, að þessi styrjöld rústi fjölmenningarstefnu.

Gamla og nýja skyrið

Punktar

Gamla skyrið var matur, þungur matur fyrir útivinnandi fólk við vosbúð. Svo kom nýja skyrið, léttur og sætur eftirréttur. Er raunar ekki skyr í hefðbundnum skilningi, en hefur slegið í gegn. Útrás hins íslenzka skyrs er útrás þessa sæta og létta eftirréttar. Raunar er það rosalega gott, til dæmis í útfærslu Matar og drykkjar í Sögusafninu. Í eftirrétt mæli ég með slíku skyri, frekar en gamla skyrinu í útfærslu Friðriks V. Ég virði gælur Friðriks við gamlar hefðir. En gamla skyrið var og er þungur matur, ekki léttur eftirréttur. Vona, að gamla skyrið fáist áfram, en vel mér hiklaust nýja skyrið, sem flestum líkar betur.

Trúarstríð til Evrópu

Punktar

Íran styður ríkisstjórnir Shia múslima í Írak og Sýrlandi og Shia uppreisnina í Jemen. Sádi-Arabía styður stjórn Sunni múslima í Jemen og Sunni uppreisnarmenn í Sýrlandi og Írak og Afganistan, þar á meðal al Kaída og Isis/Daesh. Tyrkland styður sömu aðila og Sádi-Arabía, þar á meðal Isis/Daesh. Sádi-Arabía styður líka Wahabi öfgamoskur í Pakistan og Evrópu. Miðaldafurstar Arabíu hata alla vestrænu. Með fjöldamorðunum í París voru þessi átök flutt til Evrópu. Þar með var þriðja heimsstyrjöldin hafin. Flækjustigið er hátt, því bæði Sunni og Shia hata vestrænt ofbeldi í Miðausturlöndum. Hafið er „Allahu Akbar“ heimsstríðið.

Tvítrúaðir og fjöltrúaðir

Punktar

Japanir hafa skrítna trúarsiði, tvenn trúarbrögð í senn, shintó og búdda. Gömul forfeðradýrkun er shintó og búddismi er lífsspeki fremur en trú. Japani hefur báða siði og kannski þann þriðja í viðbót. Fæðist í shintó, giftist í kaþólsku og deyr í búddisma. Notar þá helgisiði, sem hæfa hverju tækifæri. Fer eftir aðstæðum í shintó-hof, búdda-hof eða kaþólska kirkju. Lítur fyrst og fremst á trú sem helgisiði. Engin spenna virðist vera milli þessara mjög svo ólíku siða í Japan. Þeir einu sem slá Japani út í trúarvídd eru íslenzkt nýaldarfólk. Það trúir öllu dularfullu í boði, allt frá stokkum og steinum niður í stjörnuspár.

Ahúramazda og Ahríman

Punktar

Pólitíkin hér fylgir trú Forn-Persa að hætti spámannsins Zaraþústra. Góðafólkið tilbiður Ahúramazda, guð hins góða í manninum, guð ljóssins, árs og friðar. Og vondafólkið tilbiður Ahríman/Mammon, hinn illa stríðsguð græðgi og dauða. Við vitum ekki, hvernig barátta guðanna endar, en við þurfum að leggja okkar lóð á vogarskál Ahúramazda. Sumt af þessu kristallast á alþingi Íslendinga. Þar ræður Ahríman/Mammon og reynir að magna illskuna og græðgina í landinu. Fylgismenn Ahúramazda heyja erfiða varnarbaráttu lífs og friðar. Orrusta okkar verður háð eftir sautján mánuði. Þá væntir 65% góðafólkið sigurs yfir 35% vondafólkinu.

Enn eru forn jól

Punktar

Jólin eru forn skammdegishátíð í köldum löndum. Eftir vetrarsólstöður safnaðist fólk saman við veizluborð og fagnaði vaxandi birtu. Lýsti von um gæzku jarðar og frjósemi manna og dýra. Fólk át og drakk og var glatt. Leyfði brjóstbirtu að lýsa skammdegið og gera fólki kleift að þola mörsug og þorra. Þannig eru jólin enn, þótt hlaðið hafi verið á þau kristinni helgi. Minna fer þó fyrir drottni allsherjar en trúarbrögðum Mammons, er situr í hásæti með Óðni og Frey. Gjafir, matur og drykkur einkenna nútímajól eins og hin fornu jól. Fólk „drekkur jól“ og „heyr Freys leik“. Því meira sem hlutir breytist, því meira eru þeir eins.

Ef þú getur borgað

Punktar

Á píratavefnum er áhugavert spjall um ríkisrekstur og einkavæðingu. Á köflum fer deila einkasinna og samfélagssinna út í köll og læti, en það er bara ágætt í bland. Einkasinnar eru þarna öflugur minnihluti. Nota þekktar kennisetningar úr kredduritum sínum. Rökin eru úr hugarheimi höfunda kreddurita. Reynsla þjóða er haldbetri en rökin. Hún er áþreifanleg. Komin næg reynsla af einkarekstri innviða í Bandríkjunum og einkavæðingu í Bretlandi og á norðurlöndum. Einkarekstur heilsu í Bandaríkjunum er tvöfalt dýrari og gagnast bara hálfri þjóð. Í Bretlandi hrannast upp dæmi um verri heilsuþjónustu og sama er byrjað á norðurlöndum. Einkastefnan fetar í átt til Albaníu Ásdísar Höllu, þú færð fína þjónustu, ef þú getur borgað.

Misnotuð þrenging

Punktar

Vont er, að ríkið safni skuldum og sói skattfé í vaxtagreiðslur. Af því stafar krafan um hallalaus fjárlög og ríkisreikninga. Lögfesting á þrengingu svigrúms til hallarekstrar hefur þó á síðustu áratugum verið notuð til annars. Notuð til að rökstyðja sölu á innviðum samfélagsins. Verið vopn í höndum einkavæðingar. Við höfum reynsluna frá Keflavík og hún er bitur. Undarleg er líka sú röksemd, að í kreppu eða hruni megi víkja frá lögunum. Eru lögin þá bara viðmiðun, ekki alvörulög? Fólk er að vakna upp við vondan draum í Bandaríkjunum og Bretlandi, Grikklandi og Spáni. Endurvakin er krafan um, að innviðir séu ekki einkavæddir.