Punktar

Dauð brauðmolatrú

Punktar

Efnahags- og framfarastofnunin OECD og alþjóða gjaldeyrissjóðurinn IMF sjá nú, að brauðmolatrúin var dýrt spaug. Molar hrjóta ekki af borðum ríka fólksins, þegar því eru veitt fríðindi. Þvert á móti hverfur féð úr umferð og týnist á Tortola. Sé láglaunafólki hins vegar veitt fríðindi, haldast peningarnir í umferð og efla umsvif. Ísland mun verða síðasta ríkið, sem fattar byltinguna í hagspeki. Hér er enn verið að efla mjög skaðleg trúarbrögð, sem eru á útleið annars staðar. Við eigum enn eftir hálft annað ár í ruglinu. Eftir kosningar mun Ísland hafna trúnni og fylgja helztu fjölþjóðastofnunum og ríkjum heims.

Mörgum er mál

Punktar

Greinilega hafa margir haldið lengi í sér. Forsetinn segist ekki lengur hafa lyst. Þá ryðst fram hver óþekkti snillingurinn á fætur öðrum. Hafa allir sama boðskapinn, vilja verða forseti Íslands. Spanna sviðið frá þeim, sem þrisvar hefur látið hafna sér, yfir kristilega hundrað atkvæða framboðið til hinna óþekktu snillinga. Greinilega var tímabært, að Ólafur Ragnar Grímsson hleypti öðrum að til að létta á sér. Fjörið magnast með vorinu. Þungavigtarfólkið bíður enn um sinn, kemur nafninu í umræðuna og fylgist með könnunum. Þær eru grimmar og margir munu hætta við. Eftir munu standa fimm alvöru kandídatar.

Umburðarlyndi okkar

Punktar

Á ýmsum sviðum umburðarlyndis skara Íslendingar fram úr flestum. Sátt er um homma og lessur og aðra sérstöðu, sem sætir fordómum meðal ýmissa þjóða. Hér hefur ekki myndast öflug pólitík um fordóma að hætti flestra Evrópuþjóða. Í sumum löndum, Póllandi og Ungverjalandi, eru fordómaflokkar við völd. Í fjölda annarra landa eru fordómaflokkar í ríkisstjórn eða áhrifamiklir að öðru leyti. Prósentur slíkra flokka eru víða komnar yfir 20%, jafnvel í 30%. Hér græddi Framsókn bara 15% á að innbyrða múslimahatur. Óvíst er, að þar sé stemmning fyrir hertum veiðum í þeim fúla pytti. Fögnum því fáa, sem við gerum vel.

Binda hendur framtíðar

Punktar

Niðurgreiðslur og uppbætur og innflutningshömlur á búvöru hafa áratugum saman verið umdeildar. Margir sjá eftir milljörðum, er mætti nýta á annan hátt. Alls fela þær í sér mikið inngrip í markaðinn. Neytendum kæmu aðrir kostir betur, svo sem frjáls og tollalaus innflutningur. Þetta vita stjórnvöld. Því leggja þau til, að samið sé til tíu ára. Binda hendur tveggja stjórnarmeirihluta fram í tímann. Þar er verið að skrumskæla lýðræðið. Stuðlað að því, að fyrsta skref sérhvers nýs meirihluta sé að afnema lög og reglur fyrri meirihluta. Pólitískt ofbeldi kallar á gagnofbeldi. Ríkisstjórnin eykur þannig úlfúð í samfélaginu.

Litlar íbúðir

Punktar

Breyta þarf byggingareglum til að gera litlar íbúðir ódýrari. Ekki alls fyrir löngu var sett reglugerð, sem veldur vandræðum við byggingu smáíbúða. Afnema þarf til dæmis bann við dyrum milli stofu og salernis. Þannig er hægt að losna við milligang í smáíbúðum. Reglugerðir eiga að vera á þann veg, að hægt sé að byggja Ikea-íbúðir og aðrar fjöldaframleiddar íbúðir. Á ýmsum sviðum þarf þá að verja reglur vegna íslenzkra aðstæðna, til dæmis um jarðskjálftaþol og hitaeinangrun. Allir tala um, að nú þurfi að byggja ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk, en fátt heyrist samt um nýjar reglur. Er nokkuð að marka það hjal?

Terror breytir viðhorfum

Punktar

Bruxelles er gott dæmi um, hvernig terror breytir lífinu á vesturlöndum. Dögum saman í nóvember lá lífið í borginni beinlínis niðri í kjölfar hryðjuverkanna í París. Her og lögregla var það eina á ferli. Milli jóla og nýárs voru miklar húsleitir í múslimahverfinu Molenbeek í aðeins 20 mínútna göngufæri frá Grand Place, miðpunkti borgarinnar. Áramótahátíðinni á torginu var aflýst. Fólk spyr sig, hvort framvegis verði hægt að sækja kaffihús, matsölustaði, tónleika eða bíósali. 272 Belgar hafa tekið þátt í Isis í Sýrlandi, 121 er kominn til baka. Allt þetta mun magna hatur á múslimum almennt og skrúfa niður móttöku þeirra.

Svona virka borgaralaun

Punktar

Borgaralaun gætu verið svona: Allir fá 400.000 krónur á mánuði. Kostar 1200 milljarða. Frá því dragast 400 milljarðar í skatta, svo að nettó fjárþörf er 800 milljarðar. Á móti sparast 100 milljarðar í afnámi örorku, atvinnubóta og ellilífeyris ríkisins. Skattur á fjármagnstilfærslur milli mynta að frönskum hætti gæfi 100 milljarða. Full auðlindarenta á kvótaveiðar og stóriðju og fullur vaskur á ferðaþjónustu gæfi 100 milljarða. Skattur á fjármagnstekjur til jafns við launatekjur gæfi 100 milljarða. Restin, 400 milljarðar, næðist í lækkun launa og lífeyris úr sjóðum um 50% á móti borgaralaunum. Allar tölur eru hér gizkaðar, án ábyrgðar og kalla á leiðréttingar talnafróðra.

Bylting borgaralauna

Punktar

Borgaralaun verða að miðast við, að ríkið greiði jafnframt kostnað við hágæða heilsuþjónustu og skólagöngu að norðurevrópskum hætti. Þurfa samt að vera svo há, að þau framfæri þá, sem ekki geta unnið, námsfólk, öryrkja, sjúklinga og aldraða. Á móti kemur afnám bóta og skattur af borgaralaunum og yfirfærslum milli mynta. Dæmið gengur varla upp, meðan hluti þjóðartekna rennur framhjá skiptum. Stöðva þarf hækkun í hafi í sjávarútvegi og stóriðju og koma á fullri auðlindarentu í þessum greinum. Rentan ákveðist í útboðum. Restin fæst með því að lækka vinnulaun og lífeyri úr sjóðum að hluta upp í borgaralaun. Til dæmis um eina krónu á móti hverjum tveim.

Vangaveltur um borgaralaun

Punktar

Okkur vantar upplýsingar um peningalegar stærðir í borgaralaunum. Hversu há eiga þau að vera og geta orðið? Duga þau þeim sjúklingum, öryrkum og öldruðum, sem ekki geta unnið fyrir aukapeningum? Bætast þau ekki ofan á laun og eykst þá ekki launamunur? Hvernig á að fjármagna það? Verður ekki að færa mikið fé frá stórhækkaðri auðlindarentu til að eiga fyrir kostnaði? Erfitt er að sætta sig við, að borgaralaun lækki tekjubotninn í samfélaginu. En freistandi er, að fólk þurfi ekki fulla vinnu, svo mikið hafa þjóðartekjur aukizt. Allt er þetta flókið dæmi með mikilli óvissu, sem þarf sem fyrst að liggja fyrir í drögum.

Langdregið

Punktar

Atriðin í Skaupinu voru óvenjulega langdregin og greinilega dýr í uppsetningu. Of mikið skopast að liggjandi smáfólki, en of lítið að hrokafullum belgingum á fjóshaugum. Sum atriðin voru svo löööööng, að stjórnendur þurftu að klippa þau í framhaldsþætti. Eða keyra upp með hávaða og látum í Hinum Nýja Leikhússtíl. Hló aldrei og kímdi sjaldan. Ekki langaði mig að sjá Skaupið aftur á morgni nýjársdags. Skaupið er sem betur fer ekki lengur miðlægt í mínu umhverfi. Enda er veruleiki hversdagsins orðinn snöggtum fyndnari en leiknar stælingar.

Ísland í 101 orði

Punktar

Hækkun í hafi á afurðum sjávarútvegs og stóriðju flytur tugmilljarða á ári úr þjóðhagstölum. Þjóðartekjur á mann mælast níundu beztu í heimi (IMF), en væru mun hærri, ef allar tekjur mundu vera í húsi. Síðan gerist það, að þróunarstig Íslands er of lágt. Ekki níunda bezt í heimi, heldur sextánda bezt, einkum vegna of lágra launa (UN). Þótt þjóðin sé fámenn, er ríkið ódýrt á mann, í miðjum hópi Vestur-Evrópuríkja (OECD). Ríkisrekstur er hér skilvirkari en einkarekstur (WEF). Væri innheimt full auðlindarenta, mundi ríkið geta rekið norræna velferð án hærri skatta. Vandræði okkar stafa af vondri pólitík í eigu grimmra sérhagsmuna.

Dissar kröfuhafana kátu

Punktar

Fréttablaðið á langa frægðarsögu af veitingu viðskiptaverðlauna. Árið 2006 var Hannes Smárason viðskiptamaður ársins. Frægast var 2007, er blaðið sæmdi Jón Ásgeir Jóhannesson viðskiptamann ársins. Árið 2010 varð IceSave samningurinn viðskipti ársins að mati blaðsins. Sá samningur kolféll í þjóðaratkvæði. Nú er röðin komin að gerendum viðskipta ársins 2015, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni. Vegna samnings við kröfuhafa bankanna, sem kröfuhafarnir fögnuðu ákaft. Þar töpuðust hundruð milljarða. Enda hafa verðlaunahafar sagzt hvergi hafa komið þar nærri. Kröfuhafarnir kátu eiga inni verðlaun blaðsins.

Kjararáð til skammar

Punktar

Meiriháttar hneyksli er, að Kjararáð skuli veita siðblindum Steinþóri Pálssyni bankstera 41% launahækkun. Bara geðbilun, 565.000 króna hækkun á mánuði. Hann er einn hættulegasti maður landsins, sambandslaus við veruleikann. Hagar sér eins og banksterar fyrir hrun, sem nú húka á Kvíabryggju. Vill reisa bankahöll við hlið Hörpu. Heldur á floti bjálfa á borð við Valgeir Flosason, sem kaupir kvóta út á afskriftir. Ekki er Kjararáð mikið skárra, ræðst á þjóðarvilja með stórgjöfum til pólitíkusa. Ráðið skipa Jónas Þór Guðmundsson, Óskar Bergsson, Svanhildur Kaaber, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Hulda Árnadóttir. Burt með þau öll.

Mjög íslenzk tregða

Punktar

Fjórum brezkum göngumönnum hefur í desember verið bjargað þrisvar í óbyggðum. Þyrla sótti þá í gær upp í Emstrur eftir nýjasta neyðarkallið frá þeim. Eftir hverja björgun leggja þeir aftur af stað. Í hvert skipti hafa björgunarsveitir og landhelgisgæzla tugmilljóna kostnað af æðinu. Eftir hvert hvassviðri rísa og hníga kröfur um, að eitthvað sé gert til að innheimta kostnað. Mest er heimtuð skyldutrygging á ferðamenn. Þingmenn heimta hana líka. Að venju gerist ekkert. Eins og kvartanir um smálánaokur og kennitöluflakk og salernisleysi. Allir æsa sig upp og stjórnvöld gera ekkert, hvorki ríkisstjórn né alþingi. Mjög íslenzk tregða.

Smálán ríða enn húsum

Punktar

Alþingi og ríkisstjórn hefur ekki tekizt að stöðva smálánafyrirtæki og loka þeim. Okrararnir hafa riðið húsum í nokkur ár. Ginna illa statt fólk til að leysa raunverulegan eða ímyndaðan vanda líðandi stundar. Gerðar hafa verið veiklulegar tilraunir til að hafa hemil á okrurunum, en ekkert gengið. Síðast sluppu þeir með lagakrókum fyrir jól við 158 milljón króna sekt. Alþingi og ríkisstjórn sitja eins og þau fífl, sem þau eru, og horfa á. Auðvitað þarf að setja skýr og klár lög um bann við okri að hætti smálána. Lög sem loka, þótt lagatæknar reyni sniðgöngu. Eitthvað mikið er bogið við pólitíska getuleysið.