Punktar

Neistinn er horfinn

Punktar

Neistinn frá búsáhaldabyltingunni er horfinn. Enginn fer lengur á Austurvöll. Pilsfalda-auðgreifarnir ríkja áfram. Jafnvel sumir píratar gæla við að verða húskettir hjá bófunum. Láta sér vel líka, að fulltrúi flokksins sitji í hálft þriðja ár í leyninefnd með bófunum. Horfi þar á þriggja búta saumaskap ættaðan frá lagatæknum auðgreifanna. Þeir ímynda sér, að frávik frá hörðum orðum yfir í loðmullu verndi ákvæði úr stjórnarskrá fólksins. Lífsreynt fólk veit, að ekki er nóg að hata valdið. Siðblindingjar díla ekki, heldur valta yfir. Verða ekki svældir út á annan hátt en bera þá atkvæðum. Díll við bófa dregur úr trausti á pírötum í næstu kosningum.

Draugar heyra illa

Punktar

Vinstri græn hafa Katrínu Jakobsdóttur umfram Samfylkinguna. Að öðru leyti eru þetta daprir flokkar. Kjördæmapotarar fortíðarinnar með Vaðlaheiði og Húsavík á samvizkunni. Ná sér ekki upp eftir svikin við stjórnarskrá fólksins á síðasta kjörtímabili. Svo og sérvitringar, sem trúðu, að hægt væri með kjaftæði að juða bófaflokkunum inn á stjórnarskrána. Ekki vottur lengur af búsáhaldabyltingu. Katrín ein dugar ekki og biður draugana að víkja: „Nauðsynlegt, að hver og einn í forystusveit flokksins, sem samanstendur að mestu af reynsluboltum, íhugi, hvort hann sé rétta manneskjan til að framfylgja stefnunni“. En draugar heyra illa.

Brexit er gott mál

Punktar

Brottför Bretlands úr Evrópusambandinu yrði Evrópu til gæfu. Bretar voru þar til vandræða samkvæmt gömlu stefnunni að deila og drottna á meginlandi Evrópu. Bretland á ekki heima í Evrópu, það er viðhengi Bandaríkjanna. Flækir málið, að Skotland mun segja skilið við England og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Fær þar skjótar og góðar viðtökur. Erfiðleikar verða á landamærum Englands og Skotlands, þar sem setja þarf upp Schengen-varnir. En Skotar eiga framtíðina fyrir sér. Öðru máli gegnir um Englendinga, gengi punds mun lækka og veldi enskra banka mun rýrna. En þungstígt Evrópusambandið verður léttara í vöfum.

Innbrennd siðvilla

Punktar

Stóru bankarnir þrír græddu hundrað milljarða króna í fyrra, meira en allan hagvöxt landsins. Blóðsugurnar sliga samfélagið. Stafar ekki af góðum rekstri. Bankarnir töpuðu tíu milljörðum á olíuruglinu á Drekasvæðinu. Engin þjóð hefur ráð á massífu rugli. Engin þjóð brennir 5% landsframleiðslu í bönkum sínum. Blóðsugurnar eitra samfélagið í skjóli fáokunar og velvildar pólitíkusa. Engin breyting varð á helstefnu bankanna við hrun. Nýir bankar eru sem gamlir bankar, nýir banksterar eru sem gamlir banksterar. Siðvillan er innbrennd í stéttina. Rekum hana alla með einu pennastriki og ráðum siðað fólk úr menningu og fræðum.

Að húsvenja pírata

Punktar

Ég varð ekki hissa, er Árni Páll Árnason studdi frumvarp stjórnarskrárnefndar alþingis. Hann er og verður ævinlega Blairisti, sem kemur okkur ekki að neinu gagni. Hins vegar brá mér, þegar Píratar viku frá eindregnum og afdráttarlausum stuðningi við stjórnarskrá fólksins. Það plagg hafði gengið alla þrautagönguna um þjóðfund, stjórnlagaráð, einróma samkomulag í ráðinu, þjóðaratkvæði um stóru atriðin. Samt gáfu píratar kost á þriggja búta saumi alþingisnefndarinnar. Það voru svik, sem seint munu fyrnast. Enn er að vísu tími til að hala í land og bjarga því, sem bjargað verður. En ég óttast, að alþingi takist að húsvenja pírata.

Upprisa kúlulánafólks

Punktar

Afskrifta-aðall Íslands er listi yfir tíu pólitíkusa, sem fengu sérstakalega ljúfa stöðu undir pilsfaldinum í hruninu. Þeir fengu afskrifuð kúlulánin sín, þið munið óendurkræfu lánin, sem dólgafrjálshyggjan innleiddi. Lánin voru allt upp í 3,6 milljarða hjá Sólveigu Pétursdóttir. Allir þessir tíu hafa yfirgefið pólitíkina og sitja á herfangi sínu. Nema þrír pólitíkusar Flokksins, þar á meðal formaðurinn sjálfur. Lengi hefur tíðkast hér meðvirkni með þeim, sem stórtækastir eru á almannafé, til dæmis með snillingunum á Kvíabryggju. Því má búast við, að forsetaframboð kúlulána-drottningarinnar fái ljúfar undirtektir.

Sænsk mistök flutt inn

Punktar

Sænska einkavæðingin í heilsugæzlu KLIKKAÐI. Ríkisendurskoðun Svía segir vonir hafa brugðizt. Á sama tíma er Ísland að detta inn í sama vítahring. Við höfum fengið frá Svíþjóð landlækni, sem tók þátt í einkavæðingunni. Honum virðist vera fákunnugt um nýjustu skýrslur. Einkavæðingin þar jók stéttamismun. Þeir, sem geta borgað, fá betri þjónustu, en hinir verri. Í andstöðu við norræna velferðarstefnu. Við eigum að læra af mistökum annarra. Þess vegna verður ljúft að vinda ofan af tilraun gróðafíkla til að koma upp svipaðri gróðafroðu hér á landi. Kannanir sýna, að þorri Íslendinga styður ríkisrekstur heilsugæzlunnar.

Andlát þrautseigjunnar

Punktar

Bjartur í Sumarhúsum hefur gefizt upp. Engar hvalveiðar verða frá Hvalstöðinni í Hvalfirði á þessu ári. Hinn þrautseigi Kristján Loftsson finnur ekki lengur markað í Japan fyrir langreyðar. Japanir löngu hættir að éta hval. Stjórnvöld þar hafa lagt hindranir í veg viðskipta með þungmálma-dýr. Hvalveiðar hans eru því sjálfdauðar, þótt lengi hafi hugsjónaeldur haldið þeim á floti. Framtak Kristjáns í flutningi á kjöti um ísilagt Norður-Íshaf er því einnig sjálfdautt. Smáhvalaveiðar annarra halda áfram, enda er markaður fyrir þær á veitingahúsum fyrir túrista. Fá sér að éta hrefnu, þegar þeir koma til baka úr hrefnuskoðun.

Engin Birgitta

Punktar

Formaður þingflokks pírata og formaður framkvæmdastjórnar pírata hafa ráðizt ósæmilega að stofnanda pírata hér á landi. Sá fyrri sakar hana um pólitíska „ofbeldissambúð“. Sú síðari sakar hana um allt milli himins og jarðar, einkum þó fyrir að vera kölluð formaður í fjölmiðlum. Líka fyrir að skipta um skoðun á pólitískri framtíð sinni. Pfui. Við þessa pólitíkusa vil ég segja: Birgitta er eini íslenzki pólitíkusinn, sem hefur respekt í útlandinu, þið hafið það ekki, þið eruð engin Birgitta.

Ráðherra verndar flakkara

Punktar

Ragnheiður Elín Árnadóttir telur frumvarp Karls Garðarssonar um kennitöluflakk vera of íþyngjandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Í þrjú ár kom hún sér undan að leggja fram slíkt frumvarp. Samt glatast milljarðar árlega, er flakkarar stofna hverja martröðina á fætur annarri með stuðningi bankstera. Frumvarp Karls gerir ráð fyrir, að stjórnendum sé vísað úr leik eftir gjaldþrot tveggja fyrirtækja á þremur árum. En ráðherrann hleypur að venju Flokksins í vörn fyrir bófana, sem ákafast brjóta niður siðferði samfélagsins. Vísum gervöllum Sjálfstæðisflokki á öskuhauga sögunnar í næstu kosningum. Nóg hefur hann reynt á þolinmæði okkar.

Margir heltast úr lestinni

Punktar

Verið er að kanna skoðanir þjóðarinnar á stuðningi við tæplega þrjátíu manns, sem hafa verið nefnd sem forsetaefni. Þetta er ágætt þrep á leiðinni að næsta forseta landsins. Líklega falla um tuttugu út, því að marktækur stuðningur fyrirfinnst ekki og allir sjá það. Fróðlegt verður að sjá tölur þeirra, sem eftir standa. Úr svona könnun gæti komið eitt eða tvö athyglisverð nöfn. Síðan bætast örfá við á næstu vikum. Í næsta mánuði fer málið að skýrast, en svo fara að þrengjast tækifæri nýrra frambjóðenda á að kanna líklegt fylgi við framboð sitt. Allt er þetta í eðlilega rólegum farvegi og ekkert tímahrak komið enn.

Spilafíkn sjóðsstjóra

Punktar

Forstöðufólk lífeyrissjóða og fjárfestingarfélaga þeirra sóar lífeyri gamlingja í spilavítum. Eru meðal helztu eigenda í furðulegu fyrirbæri, Fáfni. Átti að fara í útrás í þjónustu við olíuborpalla á Drekasvæðinu með hálfu öðru skipi, Polarsyssel og Fáfnir Viking. Fyrra skipið kostaði fimm milljarða, en hitt er enn í smíðum. Lífeyrissjóðirnir köstuðu milljörðum í súginn. Því geta þeir ekki hækkað lífeyri gamlingja til samræmis við verðbólgu. Það eru hrein umboðssvik. Fjarlægja ber forstjóra og sjóðsstjórnir og setja þessa sjóði undir eftirlit einhverra útlendinga, er vit hafa á fé. Engir slíkir eru hér, bara spilafíklar.

Sálgæzlan er hafin

Punktar

Ófriður hófst með pírötum, þegar Birgitta skoðaði vef Frjálshyggjufélagsins. Þar ræddu nokkrir píratar kosningakerfi pírata, sem fáir nýta sér. Birgitta túlkaði umræðuna sem spjall um yfirtöku á flokki pírata. Hún ákvað því að hætta við fyrri ákvörðun og bjóða sig aftur fram til þings. Formaður framkvæmdaráðs er Erna Ýr Öldudóttir, er fer mikinn á vef pírata. Flaggar frjálshyggju og æsir fólk ævinlega til illdeilna. Tók skoðanaskipti Birgittu óstinnt upp og hefur síðan gagnrýnt Birgittu nánast daglega fyrir hitt og þetta. Spunnust af því skrítin rifrildi þar á vefnum. Vandinn jókst svo snöggt, er Helgi Hrafn ritaði pistil, nefndi vart yfirgang Ernu Ýr, en sakaði Birgittu um yfirgang. Annað forustufólk sá sig þá loks knúið til að taka til máls og reyna að lægja öldur.

Renta af auðlindum

Punktar

Þegar fólk og fyrirtæki flykkjast í takmarkaða auðlind, rýrnar hún að lokum og tapar verðgildi. Þjóðin felur ríkinu að skammta aðgengi til að vernda verðgildi auðlindarinnar. Tekur gjald fyrir þjónustuna, auðlindarentu eða annan skatt. Færri fá en vilja. Allt, sem þróast með slíkum hætti, köllum við auðlind; haf og land og aðstæður. Hún getur verið matur, orka, fegurð og fleira. Sé hamlað gegn markaðsmisnotkun, ákveðst rentan bezt með uppboði leyfa á frjálsum og opnum markaði. Lysthafendur ákveða þá, hvað þeir vilja borga fyrir aðganginn. Þannig næst FULL auðlindarenta, miklar auðlindir nýtast til velferðar borgara.

Ég hafna miðöldum

Punktar

Kristni hefur ekki þvælst fyrir mér sem vandamál og ekki gyðingdómur heldur. Veit af öfgasöfnuðum hér á landi og enn frekar í Bandaríkjunum. Áhrif slíkra hér eru svo hverfandi, að þau sjást varla á ratsjá. Öðru máli gegnir um íslam. Allt frá bannfæringu Salman Rushdie hef ég séð ofsa ýmissa múslima og vandræði þeirra við að samlagast veraldlegum nútíma. Ég tek ekki eftir slíku veseni með kristna eða gyðinga. Trufla ekki mína veraldarhyggju. En Rushdie-málið var illt og síðan Jyllandsposten-málið. Ég hafna innrás miðalda í veraldlegan nútíma. Vil, að múslimar hagi sér siðsamlega í Evrópu eða haldi sig á sinni heimaslóð.