Punktar

Barizt gegn lýðræði

Punktar

Thomas Carothers rekur í Washington Post ýmis dæmi þess, að Bandaríkjastjórn vinni gegn lýðræðisöflum í heiminum. Paul Wolfowitz aðstoðarstríðsmálaráðherra kvartaði nýlega opinberlega yfir því, að tyrkneski herinn gerði ekki stjórnarbyltingu út af andstöðu ríkisstjórnar Tyrklands við aðild að stríðinu gegn Írak. Bandaríski herinn hefur tekið ástfóstri við harðstjórnarríkið Uzbekistan til að koma þar upp setuliði. Bandaríkin verðlaunuðu einræðisríkið Singapúr með sérstökum viðskiptasamningi, en neituðu á sama tíma að staðfesta viðskiptasamning við lýðræðisríki á borð við Chile, sem ekki vildi fara með í stríðið. Allir þekkja dólgsleg ummæli bandarískra ráðherra um Frakkland og Þýzkaland. Carothers telur raunveruleg lýðræðisríki í heiminum ekki svo mörg, að skynsamlegt sé af Bandaríkjastjórn að leggja þau í einelti.

Stríðsglæpirnir kærðir

Punktar

George Monbiot fagnar í Guardian, að Thomas Franks, hershöfðingi Bandaríkjanna, hefur í Belgíu verið kærður fyrir stríðsglæpi, sem framdir voru í innrásinni í Írak. Kært er fyrir fjórar tegundir stríðsglæpa. Í fyrsta lagi fyrir að varpa 1.500 klasasprengjum, sem enn eru að drepa börn, er fikta í þeim. Í öðru lagi fyrir að skjóta á óvopnaðan almenning á mótmælafundum. Í þriðja lagi fyrir að eyðileggja innviði þjóðfélagsins af ásettu ráði, svo sem raflínur og vatnshreinsistöðvar. Í fjórða lagi fyrir að halda ekki uppi lögum og reglu á stöðum, þar sem fyrri yfirvöld voru hrakin frá völdum, fyrir að láta sjúkrahús drabbast niður og fyrir að skjóta á vel merkta sjúkrabíla. Allt eru þetta brot á Genfarsamþykktum um stríðsglæpi. Þótt kæran muni ekki ná fram að ganga, telur Monbiot, að hún hafi táknrænt gildi. Hún rifji upp þá staðreynd, að Bandaríkin séu glæparíki, sem ekki fari að alþjóðalögum. Hann rekur í greininni ýmis dæmi um það.

Saddam var þó skárri

Punktar

Ekkert lát er á óöldinni í Írak, af því að hernámsyfirvöld Bandaríkjanna og Bretlands hafa ekki rænu á að halda uppi lögum og reglu. Edmund L. Andrews og Susan Sachs segja í New York Times, að borgarar landsins séu farnir að sakna hins illræmda Saddam Hussein. Á hans tíma var haldið uppi ströngum aga í þjóðfélaginu, en nú er öllu stolið steini léttara. Höfundarnir segja reiði manna magnast í garð hernámsyfirvalda.

Flugmiðar á vefnum

Punktar

Þrátt fyrir stöðnun í efnahagslífi Vesturlanda og aukinn ótta við hryðjuverk gengur vel að selja flug á vefnum. 15% bandarískra farseðla eru seld á vefnum og 5% evrópskra. Þessar tölur fara ört vaxandi. Helztu seljendur af því tagi hafa verið Travelocity, Expedia og Orbitz. Eric Pfanner segir frá þessu í International Herald Tribune. Sjálfur hef ég notað Travelocity og gengið vel. Gallinn við vefsöluna er, að seljendur nota upplýsingar úr Sabre og Amadeus og hafa því ekki nógu góðar upplýsingar um lággjaldaflugfélög.

Geldof sendir tóninn

Punktar

Bob Geldof skrifar grein í Guardian um skuldir þróunarlandanna. Hann bendir á, að innan þjóðfélaga séu til kerfi til að taka á gjaldþrotum, gera fólki kleift að rétta úr kútnum og hefja nýtt líf. Ekkert slíkt kerfi er til milli þjóðfélaga. Þess vegna dragast þróunarlönd dýpra í svaðið í stað þess að verða gjaldþrota og byrja á nýjan leik. Allir tapa á þessu ferli, skuldunautar og lánardrottnar. Og vandamál þriðja heimsins flytjast beint eða óbeint einnig til ríku landanna, til dæmis með útbreiðslu sjúkdóma, eiturlyfja og hryðjuverka. Hann gagnrýnir harðlega stefnu vesturlanda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í garð þróunarlandanna, sem oft rekur erindi vestrænna sérhagsmuna.

Bandaríkin borga ekki

Punktar

Peter Beaumont segir í Observer, að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að fresta um óákveðinn tíma að afhenda völdin í Írak í hendur andstæðinga Saddam Hussein, meðal annars vegna kröfu sjíta um stjórn á trúarlegum grunni. Bandaríkjastjórn hafi einnig ákveðið að stjórna olíulindunum og láta Írak sjálft borga með olíupeningum fyrir tjónið, sem innrásarliðið olli landinu. Að svo miklu leyti sem það fé dugi ekki, vilji Bandaríkjastjórn að einhver önnur ríki borgi, til dæmis Frakkland og Þýzkaland, sem voru andvíg stríðinu. Samkvæmt útreikningi spænsku ríkisstjórnarinnar, sem stendur að hernámi Breta og Bandaríkjamanna, mun endurreisn Íraks úr rústum hernámsins kosta um 80 milljarða dollara, en þar af ætla Bandaríkin sjálf að borga minna en 3 milljarða. Samt vilja þau ekki hleypa Sameinuðu þjóðunum að málinu. Allt þetta mál lýsir Bandaríkjastjórn í hnotskurn.

Al Kaída á ferð og flugi

Punktar

Mary Riddell segir í Observer, að hryðjuverkin í Ríad í Sádi-Arabíu og Casablanca í Marokko sýni, að al Kaída hryðjuverkasamtökin hafi notað tíma Íraksstríðsins til að treysta stöðu sína. Þau hafi nú 18.000 liðsmenn í 90 löndum. Þau hafi þegar náð þeim árangri, að ákveðið hefur verið að flytja bandaríska hermenn frá landinu helga, Sádi-Arabíu, og reyrt þjóðlíf Bandaríkjamanna í viðjar öryggisráðstafana, sem höggva nærri einstaklingsfrelsi þar í landi. Bandamönnum hafi mistekizt að endurreisa Afganistan og þar eflist nú Talibanar dag frá degi. Svipaðar séu horfur Íraks. Höfundurinn telur, að Bandaríkjastjórn hafi farið í stríð við Írak vegna hugmyndaskorts, henni hafi ekki dottið neitt betra í hug.

Afturhvarf Sádi-Araba

Punktar

Martin Woollacott segir í Guardian, að stríðið við Írak muni leiða til vinslita milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu. Hryðjuverkin gegn útlendingum í Sádi-Arabíu muni ekki leiða til harðari aðgerða þarlendra stjórnvalda gegn ofsatrúarmönnum, heldur muni þau reyna að bæta sambúðina við þá, fremur en sambúðina við Bandaríkin. Hann telur, að Sádi-ættin viti, að ógnin við ættina sé innanlands og að óformleg uppreisn ofsatrúarmanna sé þegar hafin. Sádar muni fremur reyna að ná sáttum við þjóðina, heldur en að verða við bandarískum kröfum um breytta stjórnarhætti. Raunar telji Sádar, að það muni styrkja sig í sessi að fjarlægjast Bandaríkin.

Stjórnlaust Írak

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að algert stjórnleysi ríki í Írak. Enginn skipuleggjandi stríðsins virðist hafa gert sér neina grein fyrir eftirmálunum. Hinir bandarísku landstjórar fari ekki út úr húsi nema í skjóli herflokka. Þeir hitti enga, sem geta hjálpað, ekki einu sinni ráðamenn hjálparstofnana. Hann segir, að Sameinuðu þjóðirnar hafi reynslu í rekstri hernuminna svæða og gætu gert mikið gagn í Írak. Bandaríkjastjórn hati Sameinuðu þjóðirnar hins vegar svo mikið, að hún geti ekki hugsað sér aðstoð þaðan. Pfaff segir líka, að svokallað vegakort um stofnun Palestínuríkis sé ekkert annað en bandarísk sýndarmennska til að afla stuðnings við stríðið gegn Írak. Vegakortið verði alls ekki framkvæmt, heldur muni Bandaríkjastjórn áfram styðja hryðjuverka- og útþenslustefnu Ísraelsstjórnar.

Ritskoðun í Írak

Punktar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Samkvæmt grein eftir Saul Hudson hjá Reuters kvarta starfsmenn sjónvarpsins í Írak yfir ritskoðun Bandaríkjahers, sem til dæmis bannar, að lesið sé upp úr kóraninum. Fréttirnar eru ritskoðaðar af eiginkonu Kúrdaforingjans Jalal Talabani. Dan North, kanadiskur sjónvarpsráðgjafi, sem raunar var ráðinn af hernum, segir að óhugsandi sé á vesturlöndum, að stjórnmálaforingjar stýri sjónvarpi á þann hátt. Áður kúgaði Saddam Hussein sjíta-meirihlutann, en nú kúgar Bandaríkjaher sjíta-meirihlutann. Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins.

Póstur Microsoft opnaður

Punktar

Thomas Fuller skrifar í International Herald Tribune um viðskiptahætti hugbúnaðarrisans Microsoft og birtir kafla úr tölvupósti milli ráðamanna fyrirtækisins og milli ráðamanna þess og lögmanna. Þar kemur fram, að fyrirtækið beitir bellibrögðum, sem bönnuð eru í Evrópusambandinu. Þau beinast einkum gegn finnska stýrikerfinu Linux, sem breiðist út í Evrópu og þriðja heiminum. Gott er líka að minnast þess, að Bill Gates, forstjóri Microsoft, er einn af helztu bakhjörlum George W. Bush og fjármagnar þannig ruddalegar tilraunir Bandaríkjaforseta til að kúga Evrópu og þriðja heiminn.

Kaupa ekki fjölnota gemsa

Punktar

Treglega gengur að sannfæra símanotendur um ágæti nýrra tegunda gemsa, sem taka ljósmyndir og/eða sjá um tölvupóst. Fróðleg grein um símaþróun eftir Jennifer L. Schenker er í International Herald Tribune. Gemsar með tölvupósti hafa selzt vel í Japan, minna í Taívan, lítið í Evrópu og ekkert í Bandaríkjunum. Í Evrópu felst fyrirstaðan meðal annars í, að margir símnotendur hafa vanið sig á SMS-skilaboð. Þeim finnst tölvupósturinn ekki bæta miklu við þau, enda erfitt að skrifa og lesa langan tölvupóst í svo litlu tæki, sem gemsinn er. Erfitt er að spá um framtíðina á þessu sviði, því reynslan sýnir, að notendur geta tekið við sér löngu eftir tæknibreytinguna. Ljóst er, að framleiðendur eru spenntir fyrir notendavænum leiðum til að sameina gemsann, myndavélina og fistölvuna.

Falsfrétt Ríkissjónvarps

Punktar

Í stíl við eindregið Bandaríkjasinnaðar fréttir Ríkissjónvarpsins frá útlöndum birtist þar í gær undarleg frétt um bandarískt kærumál á hendur Evrópusambandinu vegna erfðabreyttra matvæla. Þar kom fram sá grundvallarmisskilningur, að Evrópusambandið banni innflutning erfðabreyttra matvæla. Svo er ekki. Evrópusambandið krefst þess aðeins, að erfðabreytt matvæli verði merkt á umbúðunum sem slík og hyggst fylgja þeirri kröfu eftir með banni á ómerktum matvælum, sem hefur ekki enn verið ákveðið. Bandaríkin vilja ekki fallast á merkingar, af því að varfærnir evrópskir neytendur mundu þá sneiða hjá vörunni. Ríkissjónvarpið reyndi að láta þetta líta út eins og bann sé í gildi og það sé til að vernda evrópskan landbúnað. Elizabeth Becker skrifar um þetta í New York Times.

Fiskurinn er að hverfa

Punktar

Margir fjölmiðlar, þar á meðal >Boston Globe, segja frá niðurstöðum fjölþjóðlegrar og umfangsmikillar 10 ára rannsóknar á fiskistofnum heimshafanna, sem birtist í dag í tímaritinu Nature. Rannsóknir sýnir, að einungis eru 10% eftir af stofnum stórvaxinna fiska á borð við þorsk, lúðu og skötu. Niðurstaðan er sú, að stofnarnir séu orðnir svo litlir, að þeim verði ekki bjargað frá algeru hruni, nema afli heimsins verði skorinn niður um meira en helming. Ef stefnt yrði að endurreisn fiskistofnanna til fyrra horfs, yrði aflinn að minnka um níu fiska af hverjum tíu, sem veiddir eru. Þetta er miklum mun verra ástand, en áður hefur verið talið. Hvar er nú hið léttlynda Fiskifélag Íslands með átrúnaðargoð sitt, Björn Lomborg?

Dýrin betri en fólkið

Punktar

Í tilefni af ráðstefnu í London um tilfinningalíf dýra er þar í landi deilt um, hvort sum dýr hafi siðalögmál, sem til dæmis leiði til, að þau fórni sér fyrir heildina. Þau hugsi og hafi tilfinningar og eigi skilið góða meðferð. Frá þessu er sagt í fréttum BBC. Mörgum hestamönnum er ljóst, að sumir hestar eru vitrari en margir menn. Og hafi dýr siðalögmál, eru þau á æðra stigi en mikill fjöldi manna, svo sem sumt stjórnmála- og frægðarfólk.