Fjölmiðlun

Skrítin frétt

Fjölmiðlun

Ég las skrítna frétt á vefnum upp úr Fréttablaðinu. Þar var sagt, að “Davíð Garðarsson” og “óþekktur erlendur karlmaður” séu landflótta og eftirlýstir. Þar var ennfremur sagt þetta: “Hinn maðurinn, sem lögregla vildi ekki gefa upp hvað heitir eða á hvaða aldri hann væri, var dæmdur fyrir fíkniefnabrot hér á landi.” Það er nýtt, að opinberir aðilar stýri nafnbirtingu á dæmdum mönnum. Nafn hins óþekkta manns hefði Fréttablaðið getað fengið hjá kerfinu eða Steingrími Sævari bloggara. Nafnleysi Moh Almasaid er hrollvekjandi dæmi um afsal blaðamennsku í hendur höfunda fréttatilkynninga úti í bæ.

Deilt um bloggið

Fjölmiðlun

“Bloggið er skrifað af fíflum fyrir fávita”, segir Joseph Rago í Wall Street Journal á vefnum. Alls ekki, segir Joseph Hughes á Talking Points Memo, “hefðbundnir álitsgjafar eru hræddir við okkur.” Þessar tvær greinar rekja í hnotskurn tvenns konar gagnstæð sjónarmið á stöðu bloggs í blaðamennsku og álitsgjöf. Ég held þær spanni sjónarhorn um álitsgjöf í bloggi, en taki síður á stöðu bloggs í fréttum. Þar er bloggið dvergur í samanburði við ferlíki hefðbundins fréttaflutnings. Enda er fjárhagsvandi bloggsins verri en hefðbundinna miðla.

Fínar rannsóknir

Fjölmiðlun

Ný og fín dæmi eru um íslenzka rannsóknablaðamennsku, sem ekki leiðir til rifrildis um aðferðir. Fyrir utan boranir í Ölfushreppi og kvennalandsliðið í fótbolta má nefna skrif Sólveigar Gísladóttur um slys á hestamönnum; Eggerts Þórs Aðalsteinssonar um 90% vanskil ársreikninga fyrirtækja; skrif Klemensar Ólafs Þrastarsonar um fjarskipti Nató í utanríkisráðuneytinu; og skrif Óla Kristjáns Ármannssonar um afskipti Ríkisendurskoðunar af Íbúðalánasjóði. Þessi skrif voru áhrifamikil. Þau breyttu þjóðfélaginu, af því að engu ryki var hægt að þyrla upp í kjölfar skrifanna.

Aðrar leiðir

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar hafa nóg að gera í rannsóknablaðamennsku, þótt þeir hafni umdeildum vinnubrögðum. Á námskeiði í faginu í Háskólanum í Reykjavík í vetur gerði ég skýran mun á eðlilegum og umdeildum vinnubrögðum í faginu. Með nægri efahyggju og þrautseigju geta fagmenn rutt fyrirstöðum úr vegi. Dæmi um það eru fréttir Trausta Hafsteinssonar af leyfi Ölfushrepps til jarðborana og fréttir Henry Birgis Gunnarssonar af greiðslum til kvennalandsliðs í fótbolta. Þær voru meðal margra lausna í lokaverkefni námskeiðsins, sem ekki var hægt að salta með því að þyrla upp ryki.

Þyrlað upp ryki

Fjölmiðlun

Hafa má umræðuna til marks um, hvort aðferðir í rannsóknablaðamennsku eru teknar gildar. Þegar umræðan snýst meira um aðferðir en uppljóstranir, hefur þjóðfélagið gefið falleinkunn. Það eru alltaf sömu atriðin, sem verða umdeild hér sem annars staðar. Það eru faldar myndavélar, sigling undir fölsku flaggi, nafnlausar heimildir og greiðslur fyrir aðild að fréttum. Margir telja sumar eða allar þessar aðferðir vera í lagi. Samt segja rannsóknir, að þær rýri traust notenda á fjölmiðlum. Þær gefa skúrkum færi á að þyrla upp ryki og beina athygli fólks frá upphaflega umræðuefninu.

Rannsóknablaðamennska

Fjölmiðlun

Útskrift nemenda í rannsóknablaðamennsku við símenntunardeild Háskólans í Reykjavík var í gær. Ég er í sjöunda himni yfir frammistöðu þeirra, sem komust á leiðarenda að loknum fjölbreyttum verkefnum. Þar er kominn hópur, sem kann að nota töflureikna og gagnagrunna til að finna samhengi, sem áður voru mönnum ekki ljós. Þar er hópur, sem þekkir aðferðir fagsins og veit um gagnrýni á sumar leiðir: Að nota nafnlausar heimildir, sigla undir fölsku flaggi og nota huldar myndavélar. Fyrrum þótti slíkt í lagi, en er núna orðið umdeilt og sums staðar aflagt í rannsóknablaðamennsku.

Þröngt áhugasvið

Fjölmiðlun

Eftir fréttaflóð prófkjöra datt mér í hug umbinn á New York Times, Daniel Okrent, sem sagði blaðið vera upptekið af pólitík sem kappleik með áherzlu á slúðri baktjaldamanna. Hér á landi væru það um mál á borð við misjafnar kjörskár frambjóðenda og spamm í skilaboðum, tengsl frambjóðenda við formann eða varaformann eða fyrrverandi formann. Hann taldi samfélag blaðamanna og baktjaldamanna eða almennatengla, sem flestir eru fyrrverandi blaðamenn, hafa meiri áhuga á slíku en fólk hafi. Samtal þeirra í fréttum og bloggi hér minna á fréttir af vistaskiptum blaðamanna.

Sófablaðamennska

Fjölmiðlun

Sófablaðamennska hefur verið öflug á þessu ári. Hún felst í að þáttastjóri hefur tvo viðmælendur í sófanum hjá sér. Stundum eru þeir sammála og er þá annar fórnardýr einhverra örlaga og hinn er vandamálafræðingur, sem glímir við örlög annarra. Stundum eru þeir ósammála, eru þá fulltrúar tveggja skoðana og hvína þá oftast hátt í sófanum. Stundum er þáttastjórinn illa innrættur, lætur þá frambjóðendur í prófkjöri koma fram og sannfæra okkur um, að þeir eigi ekki erindi á þing. Sófablaðamennska er þolandi í næmu hófi, en oft hefur hún verið yfirþyrmandi á þessu ári.

Sagnastíll

Fjölmiðlun

Fyrir fjórum árum var sagnastíll í tízku í bandarískum fjölmiðlum. Haldnar voru ráðstefnur um “narrative journalism”, sem skrifaði fréttir eins og reyfara. Síðan hefur áhuginn minnkað, einkum vegna vandræða, sem blöð á borð við New York Times og Washington Post lentu í, þegar blaðamenn misnotuðu sagnastílinn til að koma hreinum skáldskap á prent undir yfirskyni frétta. Sagnastíll er enn til, þótt ekki séu lengur haldnar um hann ráðstefnur. Hann hefur rekið á fjörur okkur fjórum árum síðar á tveggja tíma námskeiði þriggja Bandaríkjamanna í Háskóla Íslands.

Vitaverðir vefsins

Fjölmiðlun

Við vitaverðir, sem skrifum hundrað orð á vefinn um spennandi mál líðandi stundar, erum engir rannsóknablaðamenn. Við getum varla sagt fréttir. Það gera hefðbundnir fjölmiðlar, dagblöð og ljósvakamiðlar. Við takmörkum okkur við að ná upp fiskum í fljóti fréttanna og lýsa sýn okkar á þá. Við erum fyrst og fremst greinahöfundar. Í stað 1200 orða í dagblaði notum við 100 orð til að koma einum punkti á framfæri. Þessi þröngi fókus krefst stíls, sem hentar til að koma miklu efni á framfæri í fáum orðum. Neytendur þessarar blaðamennsku verða að átta sig á þessum og öðrum takmörkum vitavarða vefsins.

Rannsóknablaðamennska

Fjölmiðlun

Ég hef fundið upp skilgreiningu á rannsóknablaðamennsku, sem mér finnst betri en skilgreiningar í kennslubókum. Hún reiknar með þrautseigjunni, sem er aðalsmerki flestra slíkra, þar á meðal Önnu Politkovskoja, sem var myrt í Moskvu Pútíns á laugardaginn. Hún var líka einkenni Bob Woodward og Carl Bernstein, sem byrjuðu á að skrifa um innbrot í Watergate og enduðu á að koma Richard Nixon frá völdum. Hún er ekki síður einkenni Seymour M. Hersh, sem nú er þekktasti rannsóknablaðamaður heims. Skilgreining mín er þessi: Efi + Fyrirstaða + Þrautseigja = Rannsóknablaðamennska.

Sigurður Kári villist

Fjölmiðlun

Vladimir Pútín hefur fundið einfaldari leið en Sigurður Kári til að þagga niður í blaðamönnum, sem skrifa illa um fólk. Anna Politkovskaja var skotin til bana, því að hún var að skrifa grein um pyndingar rússneska hersins í Tsjetsjeníu. Sigurður Kári er á svipuðum nótum og ríkisstjórnin í Írak, sem hefur sett lög um, að blaðamenn skuli ekki vera með neinn dónaskap. Þar í landi hafa 130 blaðamenn verið drepnir, en nú hafa hrannast upp málaferli gegn þeim, sem tala út um spillingu embættismanna. Allir verða þeir dæmdir og munu fá risaháar sektir. Er Sigurður Kári ekki í röngu landi?

Taka líf sitt

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar tönnlast á, að maður “tager sig eget liv” eða “takes his own life”. Á íslenzku heitir þetta að fremja sjálfsvíg. Það einkennilega við dansk-enska orðalagið er, að hver fjölmiðlungurinn étur það hugsunarlaust upp eftir öðrum, án nokkrar kjölfestu í íslenzkum stíl. Annað hvort er um að ræða lélega blaðamennsku eða þegnskap við félagslegan rétttrúnað, sem telur, að jafnan þurfi að koma upp nýjum hugtökum, ef hin fyrri eru talin verða meiðandi. Þannig má ekki lengur tala um heimilislaust fólk, heldur tala rétttrúaðir um húsnæðislaust fólk, sem er raunar annað hugtak.

Ráðherrar eiga bágt

Fjölmiðlun

SME upplýsir í leiðara Blaðsins, að Geir H. Haarde eigi erfitt með að tala við blaðamenn, þurfi til dæmis að fá spurningar fyrirfram. Hann er óreyndur í starfi, svo að þetta kann að lagast. Annars staðar eiga forsætisráðherrar auðvelt með að tala við fólk. Almennt má svo segja um íslenzka ráðherra, að þeir eiga erfitt með að tala við pólitíska andstæðinga, neita til dæmis að mæta þeim í sjónvarpi. Kastljós Sjónvarpsins hefur ákveðið, að leyfa þeim að koma einir fram, og kallar það ritstjórnarlega ákvörðun, hvað sem það þýðir þar á bæ. Er Kastljósið orðið að sálfræðiþjónustu fyrir feimna ráðherra?

Njósnað um blaðamenn

Fjölmiðlun

Forstjóri Hewlett-Packard, Patricia Dunn, er svo vænisjúk, að hún lét hlera síma stjórnarmanna fyrirtækisins og nokkurra blaðamanna við Wall Street Journal og New York Times til að finna upplýsingaleka. Beitt var ólöglegum aðferðum til að komast yfir skrár um símtöl. Hafin er rannsókn á málinu hjá ríkissaksóknaranum í Kaliforníu. Svona vinnubrögð tíðkast í fyrirtækjum, þar sem forstjórar reyna að stýra umfjöllun fjölmiðla og óttast ekkert meira en gegnsæi. Í Bandaríkjunum eru sum ríki búin að setja lög um bann við, að einkaspæjarar fyrirtækja sigli undir fölsku flaggi.