Fjölmiðlun

Plássið milli auglýsinganna

Fjölmiðlun

Lítil fagmennska ræður ritstjórn ýmissa bæklinga, sem ekki lúta lögmálum blaðamennsku. Ég tók eftir, að fordómar hafa áhrif á efni pésans Dagskrá vikunnar, sem kemur til mín frítt. Þar er glaðst yfir, að bíóhetjan Sharpe hafi lækkað rostann í “Indverjanum”, dæmigert orðalag rasistans. Þar segir líka, að reykingabann valdi lungnabólgu, þegar púað er utan dyra. Rétt er, að reykingar valda lungnabólgu, en ekki reykingabann. Alveg eins og Hitler bar ábyrgð á innrásinni í Póllandi, ekki þeir, sem gripu til varna. Í svona bæklingum er ódýrt vinnuafl látið fylla í plássið milli auglýsinga.

Stafræn frelsun

Fjölmiðlun

Ég ferðast um borg, land og heim með fartölvu á poka og farsíma, sem talar við vefinn. Í tölvunni eru 8.052 greinar, sem ég hef skrifað. Þar er skrá um 51.254 ræktunarhross, ættir þeirra og árangur. Þar eru hnit 695 reiðleiða frá fornum tíma og nýjum. Þar eru 12.195 skyggnur, sem fylgja 219 fyrirlestrum mínum um blaðamennsku. Og heilar bíómyndir, sem fylgja fyrirlestrum. Fyrirvaralaust flyt ég fyrirlestur um fyrirsagnir í fjölmiðlum, studdan dæmum úr dagblöðum. Hef ekki átt prentara í ár, það er fín bylting. Ég er ekki staðbundinn. Stafræna tæknin hefur frelsað mig.

Ónothæf siðareglunefnd

Fjölmiðlun

Sannleikurinn er lágt skrifaður í gömlum og úreltum siðareglum blaðamanna á Íslandi. Það er helzti munurinn á þeim reglum og erlendum reglum. Um leið er það helmingurinn af vandræðunum af völdum úrskurða siðareglunefndar. Hinn helmingur vandræðanna stafar af, að nefndin ber ekkert skynbragð á blaðamennsku og metur hana augum félagsfræðamenntaðra vandamálafræðinga. Úrskurður nefndarinnar gegn skúbbi Kastljóss um spillingu við veitingu ríkisborgararéttar er gott dæmi um þessa vandræðasúpu. Hún er hins vegar ekki ný af nálinnu. Siðareglunefndin hefur áratugum saman verið ónothæf.

Furðunefnd blaðamanna

Fjölmiðlun

Enn einu sinni hefur furðuleg siðanefnd Blaðamannafélags Íslands kveðið upp fáranlegan úrskurð. Nýjasta plaggið lýsir þekkingarskorti á blaðamennsku og vanþekkingu á málinu. Kastljós hefur svarað málefnalega og sannfærandi, lið fyrir lið. Blaðamannafélagið þarf að fara að taka á þessari meinsemd í félaginu. Siðareglur félagsins eru að vísu fjarska gamlar og lélegar, ólíkar siðareglum blaðamanna og fjölmiðla í öðrum löndum. En úrskurðir nefndarinnar eru ekki í samræmi við reglurnar og jafnan hálfu verri. Leggið hið bráðasta niður þessa furðunefnd og farið að endurskoða reglurnar.

Sigið niður af tindinum

Fjölmiðlun

Hefðbundin fréttamiðlum blómstrar á fyrsta áratug þessarar aldar. Við höfum tvö áskriftarblöð og tvö fríblöð, tvennt fréttasjónvarp og fréttaútvarp, tvo veffréttamiðla. Við fáum fullt af fréttum, þar á meðal fréttir, sem kosta vinnu og skipta máli. Aldrei hafa jafnmargir haft atvinnu af fréttum hér á landi. Almenn menntun blaðamanna er góð, þótt sárafáir þeirra hafi lært blaðamennsku. Hins vegar eru blikur á lofti. Erlend reynsla sýnir tekjutap hefðbundinna fréttamiðla og samdrátt í atvinnumennsku. Óvandaðar fréttir ókeypis bloggara sækja hratt fram og rugla tekjumynstri fagmanna.

Vefurinn brennir fé

Fjölmiðlun

Nýr fjárhagsgrundvöllur hefur ekki fundizt fyrir hefðbundinni útgáfu seldra fjölmiðla né fyrir blaðamennsku þeirra á vefnum. Nýmiðlun hefur laskað fjárhag hefðbundinna fjölmiðla, til dæmis rænt smáauglýsingunum. Fréttir voru áður seldar í áskrift, en eru nú ókeypis. Fréttasafnarar á borð við Google og Yahoo, Digg og Wikio fara framhjá heimasíðum fjölmiðla. Verð fyrir auglýsingar á vefnum er brot af verði hefðbundinna auglýsinga. Gömlu fjölmiðlarnir eru samt dæmdir til að keppa á vefnum. Því að öll vonum við, að fjárhagsleg forsenda muni um síðir finnast í nýmiðlun, brauð af himnum.

Íslenzk lygi

Fjölmiðlun

Mynd Fréttablaðsins af bjórveizlu í viðhafnarsal Laugardagsvallar minnir á róttækan mun íslenzkrar og bandarískrar lygi. Þar hafa lygarar sjálfsvirðingu og reyna að hagræða sannleikanum. Hér eru þeir án sjálfsvirðingar og segja bara að svart sé hvítt. Enda sagðist bjórvertinn aðeins bjóða kaffi og kökur. Hann skammaðist sín ekki og hugsaði sem svo: “Það gengur betur næst.” Ég hef alltaf áminnt blaðamenn um að eiga öll samtöl á segulbandi. Hundrað sinnum hef ég heyrt: “Hvert orð í blaðinu er lygi.” Hundrað sinnum hef ég sagt: “Það er allt á bandinu”. Nú hafa menn allt á myndsímanum. Það er frábært.

Spunakerlingar

Fjölmiðlun

Pólitískur spuni felst í að taka fréttir og spinna þær inn á brautir, sem eru hagstæðar umbjóðandanum. Halldór Ásgrímsson hafði þrjár spunakerlingar til að spinna fyrir sig á vefnum, Björn Inga Hrafnsson, Pétur Gunnarsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Spunakerlingar prentmiðla hafa barizt um, hvort ný ríkisstjórn sé Baugsstjórn eða Þingvallastjórn. Feitasta spunakerling landsins er Morgunblaðið, sem framleiðir svonefndar fréttaskýringar, oft á forsíðu. Þær eiga að framleiða atburði, hanna atburðarásir, en ekki að segja fréttir. Mogginn hannar pólitík, en stundar ekki blaðamennsku.

Prentmiðlar og bloggið

Fjölmiðlun

Erlendis minnkar lestur dagblaða árlega og raunar einnig notkun annarra fréttamiðla. Það spillir fjárreiðum dagblaða, veldur uppsögnum á ritstjórn og rýrir þjónustuna. Það er dæmigerður vítahringur. Skúbbin flytjast á vefinn og miðlungs prentmiðlar hafa ekki ráð á rannsóknablaðamennsku. Það er samt ekki bloggið, sem drepur hefðbundna miðla. Dagblöð drepast einkum af því, að fólk venst því úr sjónvarpi og af vefnum, að fréttir séu ókeypis. Eina vörnin gegn því er, að prentmiðlar verði líka ókeypis. Prentmiðlar í áskrift eru orðnir tímaskekkja. Því miður, þeir voru góðir.

Hrammur Murdochs

Fjölmiðlun

Murdoch mun eyðileggja Wall Street Journal, ef hann nær eignarhaldi. Hann eyðilagði Times, eins og lesa má í bók Harold Evans ritstjóra, Good Times – Bad Times. Murdoch kaupir ekki fjölmiðla til að bæta blaðamennsku, heldur til að gæta hagsmuna. Hann passar, að Kína sé ekki gagnrýnt í fjölmiðlum sínum. Hann lét forlagið Harper Collins stöðva útgáfu bókar eftir Chris Patten, landstjóra Bretlands í Hong Kong. Hann keypti líka New York Post og eyðilagði það á fjórum dögum. Núna hafa sextíu blaðamenn Wall Street Journal skrifað undir mótmæli gegn Murdoch. Þar verður atgervisflótti.

Skrifa án stíls

Fjölmiðlun

Margir Íslendingar eru haldnir þeirri meinloku, að þeir geti skrifað. Þeir fylla prentsíður og vefsíður af texta. Og gerast jafnvel blaðamenn. Þeir kunna stafsetningu og fara rétt með orðtök. Samfélagið telur það nægja. En þeir kunna engan stíl, eru frosnir í afleitum ritgerðastíl úr menntaskóla og háskóla. Stílistar eru nánast engir í umræðunni. Það er fólk, sem kann að setja punkt og stóran staf. Fólk sem spúlar textann niður um helming. Fólk sem liðast um á sértækum sagnorðum, en höktir ekki á nafnorðum. Fólk sem notar germynd, ekki þolmynd. Og notar aldrei orðtök; þau eru klisjur.

Engan sakaði

Fjölmiðlun

Gissur Sigurðsson er lífsreyndur blaðamaður, sem hefur næmt auga fyrir nauðsyn þess að hreinsa froðu úr texta. Í umræðu um stíl milli mín og starfsfólks visir.is benti hann mér á klisjuna: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” Þetta þýðir á íslenzku: “Engan sakaði”. Froða af þessu tagi er megineinkenni íslenzks fjölmiðlstíls, einkum hinna yngri í faginu. Margir þættir blaðamennsku eru í góðu standi hér á landi, en stíl er almennt ábótavant. Sá er raunar stærsti munurinn á íslenzkri og vestrænni blaðamennsku. Þar hugsa blaðamenn um stíl og spúla burt froðunni.

Ný spunakerling

Fjölmiðlun

Markmið blaðamennsku er að segja satt, en markmið almannatengsla og spuna er að ljúga. Þótt Kristján Kristjánsson, áður í Kastljósi, leggi þetta að jöfnu í viðtali við Fréttablaðið. Í blaðamennsku er það sannleikurinn, sem þrýstir, en í almannatengslum og spuna er það lygin, sem þrýstir. Ég sé í mílu fjarlægð, hvaða blaðamenn muni enda sem spunakerlingar. Á þessu er grundvallarmunur, þótt sjaldgæfar undantekningar kunni að leynast. Í nánast hvert sinn sem blaðamaður fer úr rýrum högum blaðamennskunnar í grænni haga almannatengsla og spuna, hækkar meðaltal siðferðis í báðum stéttum.

Harold Evans skrifar

Fjölmiðlun

Ég borðaði í Mantova á Ítalíu með Harold Evans, sem þá var ritstjóri Sunday Times. Þá var Evans frægur fyrir uppljóstrunina um Thalidomide-málið, er börn fæddust vansköpuð vegna lyfs fyrir mæður. Evans hrökklaðist undan fasistanum Rupert Murdoch til Bandaríkjanna og varð þar þekktur útgefandi. Evans skrifaði fyrir helgina grein í International Herald Tribune um drápin á sendiboðum válegra tíðinda. Þúsund blaðamenn hafa verið drepnir á áratug, um hundrað á ári. Pútín í Rússlandi er orðinn mikilvirkur, hefur nú látið drepa Ivan Saffronov í Washington og Önnu Politkovskaja í Moskvu.

Herbert laug

Fjölmiðlun

Ég biðst afsökunar á siðblindu Herberts Guðmundssonar, sem var blaðamaður hjá mér fyrir löngu. Hann segist þá hafa falsað viðtöl við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra. Þetta er andstætt öllum reglum blaðamennsku. Hún sætir alls konar árásum og á sér þá vörn helzta, að hún fari með satt mál. Ef blaðamenn ljúga upp viðtölum, ráðast þeir að sjálfum hornsteini starfsins. Mér er stórlega brugðið. Ég vissi ekki af þessu atferli Herberts, fordæmi það eindregið og biðst afsökunar á því. Ég vona, að enginn taki upp þessi siðblindu vinnubrögð.