Fjölmiðlun

Sagnfræðin ritskoðuð

Fjölmiðlun

Menn í fréttum hafa áttað sig á, að hér gildir ekki lengur prentfrelsi að vestrænum hætti. Sannleikur er ekki lengur vörn fyrir dómstólum. Þeir spyrja bara, hvort einhver hafi móðgast. Ef svo er, þá eru fjölmiðlar bara látnir borga. Það heitir persónuvernd. Nú vilja menn í fréttum meira. Þeir vilja láta afmá nafn sitt úr stafrænum fréttasöfnum. Þannig nálgast þeir, að sannleikurinn hafi aldrei gerzt. Logi Freyr Einarsson hafi aldrei verið handtekinn, ef frétt um það sé afmáð. Þannig var sagnfræðin endurskoðuð í “1983” eftir George Orwell og í Sovétríkjunum. Lifi Sovét-Ísland árið 2007.

Lögbrot ekki fréttir

Fjölmiðlun

“Þetta er ekki fréttaefni”, sagði Sigurður Kjartansson, varaoddviti Bæjarhrepps. Þorgerður Sigurjónsdóttir oddviti hafði leyft tengdaforeldrum dóttur sinnar að byggja sumarhús í ríkislandi. Til þess hafði hún ekki leyfi hreppsnefndar. Og ekki heldur leyfi landbúnaðarráðuneytisins, sem fer með ríkislönd. Sumarhúsið er þarna ekki með neinu leyfi, segir talsmaður ráðuneytisins. Fyrrverandi oddviti hefur reynt að grafa upp þetta glæpamál, en engin viðbrögð fengið. Og varaoddvitinn telur það ekki vera neitt efni frétta, að hreppsnefndin sé utan laga og réttar. Dæmigerður Íslendingur.

Auglýst á ensku

Fjölmiðlun

Kaupþing auglýsir á ensku eftir starfsfólki í dagblöðum, sem að öðru leyti eru skrifuð á íslenzku. Það greiðir þeim, sem þess óska, launin í evrum. Á næstu mánuðum hyggst bankinn byrja að gera upp reikninga sína í evrum. Hnattvæðingin heldur linnulaust áfram. Þáttur í henni er aðför að íslenzku, sem kemur fram á fleiri sviðum. Vandamálafræðingar taka upp ensk heiti á viðkvæmum hugtökum minnihlutahópa og sjúklinga. Vandamálafélög skíra sjúkdóma enskum skammstöfunum. SMS-tungumál unga fólksins er skotið ensku. Kannski er íslenzka orðin úrelt tungumál í hnattvædda markaðssamfélaginu.

Vandamál á íslenzku

Fjölmiðlun

Vandamálasérfræðingurinn Hallfríður Þórarinsdóttir vill taka upp ensk orð í stað íslenzkra. Samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins á föstudaginn vill hún “integration” í stað “aðlögunar”. Þetta kann að vera rangt eftir haft, svo vitlaust er það. Það minnir á vandamálafélög, skírð erlendum skammstöfunum, svo að enginn móðgist. Út eru rekin orð á borð við eyðni og hvítblæði og krabbi, þykja of ruddaleg. Sýna á virðingu með því að taka upp erlend orð og skammstafanir. Það er angi af fjölmenningunni. Vandamálafræðingar eru komnir á hratt skrið. Kominn er tími til að stöðva vitleysuna úr þeim.

Tungumálið flýtur

Fjölmiðlun

Einu sinni var ágætt betra en gott. Nú er gott betra en ágætt. Merking orða breytist í tímans rás. Einu sinni var ljótt að vera krati og kommi. Síðar urðu menn stoltir af að kalla sig krata og komma. Vandamálafræðingar komu samt einn góðan veðurdag og vildu bannfæra orð vegna neikvæðrar merkingar. Svertingi getur verið hlutlaust orð í dag, en fordómaorð á morgun. Negri getur verið fordómaorð í dag, en verður hlutlaust orð á morgun. Vonlaust er að flýja undan tungumálinu. Það hefur lag á að koma að þér síðar úr öfugri átt. Bannfæringar félagslegs rétttrúnaðar eru dæmdar til að mistakast.

Bjánar í almannatengslum

Fjölmiðlun

Bezta slagorð síðustu áratuga er: “Toyota tákn um gæði”. Það stuðlar vel. Versta slagorð síðustu áratuga er “Ford nýtt tákn um gæði”. Það átti að vera viðbrögð við fyrra slagorðinu. Stuðlar ekki. Enn verra er, að Ford birti auglýsingu sína í formi kveðju til “strákanna á Toyota”. Ég held, að auglýsingar Ford á Íslandi séu í höndum bjána, sem ekki hafa vaxið upp úr fótbolta “strákanna”. Auglýsingar og almannatengsli eru því miður hér á landi í höndum fólks, sem skírir fyrirtæki “N1” og “A4”. Skírðu þau áður “Group”. Þar á undan “Lausnir”. Auglýsingastofa Fords heitir “Group”.

Yfirheyrslur Moggans

Fjölmiðlun

Mogginn hefur lengi haldið sig vera æðri mátt. Sem slíkur hefur hann smurt stjórnmálamenn í heimsóknum þeirra í musterið. Jafnvel stjórnarandstæðinga. Jafnframt flytur Mogginn yfirheyrzlur í Staksteinum og spyr menn hvasst. Af hverju gerir Össur eitthvað? Af hverju fór hann til Indónesíu. Hvað kemur honum málið við? Í hvaða erindrekstri? Sér hann ofsjónum yfir forsetanum? Er hann að æfa forsetaframboð? Spurningaleikur án svara eru sérkennileg blaðamennska. Kannski hafði Mogginn áhrif í gamla daga, en það var fyrir mitt minni. Ég þekki engan stjórnmálamann sem telur Moggann vera æðri mátt.

Fagrir prentmiðlar

Fjölmiðlun

Íslenzkir prentmiðlar eru fagurt hannaðir. Sum tímarit eru hrein listaverk, jafnvel Fréttabréf Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Dagblöðin eru hreint og skýrt brotin, hvert með sínu sniði. Ég þekki opnurnar úr hverju dagblaði fyrir sig. Fréttablaðið kom inn með skýra og faglega hönnun fyrir sex árum og önnur dagblöð fylgdu á eftir. Að baki þessa ferils er ný og fjölmenn stétt hönnuða, sem hafa risið til áhrifa á prentmiðlum. Flettið prentmiðlum frá því fyrir tíu árum. Þið sjáið þar brothætta hönnun með tilviljanasniði. Flettið tveggja áratuga fjölmiðli og sjáið skort á hönnun.

Kraftaverk í tímaritum

Fjölmiðlun

Sum tímarit hafa fókus, hafa því áskrifendur og eru traust til langs tíma. Svo sem Gestgjafinn og Hús & híbýli. Önnur reiða sig á frábæran ritstjóra, sem dregur að lausasölu, þótt fókus sé víður. Dæmi um það eru Ísafold og endurreist Mannlíf. Ef hann hættir, má ætla, að tímaritið hrynji. Þetta las ég úr fundi í gær. Hann héldu nemendur mínir á námskeiði í RITSTJÓRN með jöxlunum Reyni Traustasyni og Mikael Torfasyni. Þeir voru að svara þessu: Á fókus tímarita að vera víður eða þröngur? Kennslubókin mælir með þröngum fókus. En manískir ritstjórar geta sem kraftaverkamenn notað víðan fókus.

Kálbögglar á forsíðu

Fjölmiðlun

Nú fæst svar við spurningunni: Má Ítalíumatur vera á forsíðu Gestgjafans? Eða kálbögglar? Er að fara upp í Háskólann í Reykjavík, kenni þar RITSTJÓRN á haustönn. Í dag er von á Reyni Traustasyni og Mikael Torfasyni. Þeir ætla að taka þátt í umræðu um tímarit. Hvort efnisval í þeim eigi að vera vítt eða þröngt. Erlenda kennslubókin segir efnisval eiga að vera þröngt. En hér á landi eru kenningar um, að við íslenzkar aðstæður þurfi það að vera vítt. Þetta er mikilvæg spurning, sem verður vafalaust þaulrædd. Því fjölmargir ritstjórar tímarita sitja á bezt mannaða námskeiði sögunnar í blaðamennsku.

Yfirborðsfrétt dagsins

Fjölmiðlun

Í Fréttablaðinu í dag er ein af þessum dæmigerðu yfirborðsfréttum, þar sem ekki er talað við málsaðila. Hún snýst um nokkra dóma yfir ýmsum ritstjórum DV síðustu ár Sameiginlegt einkenni allra þessa mála er, að ekki var deilt um málsatvik. Þetta voru réttar fréttir. Dæmt var vegna ónærgætni við þá, sem skrifað var um. Íslenzkir dómstólar hafa byrjað að hunza rétt og rangt í fréttum. Dæma bara á þeim forsendum, að ekki skuli raska persónuvernd fólks. Ég hef áður bent á, að þetta sé hættulegt ferli, sem slúbbertar muni notfæra sér í auknum mæli. Fréttablaðið í dag varpar engu ljósi á það.

Letifrétt Fréttablaðsins

Fjölmiðlun

Hefðbundið er, að fréttir svari örfáum spurningum: Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo? Þetta virðist ekki flókið, en vefst samt fyrir þeim, sem kunna lítið til starfa. Fréttablaðið er fullt af yfirborðsfréttum, sem káfa utan í sumar þessar spurningar, en svara þeim ekki öllum. Blaðið virðist hafa sérstaka fíkn í að fjalla um mig með þessum lélega hætti. Sennilega af því að ég kenni blaðamennsku. Í dag birtir það letifrétt um sex málaferli, þar sem ég kem við sögu í þremur tilvikum af sex. Þar er ekki svarað spurningunum: Hvernig, hvers vegna og hvað svo?

Dómstólar á villigötum

Fjölmiðlun

Dómstólar landsins að Hæstarétti meðtöldum eru í herferð gegn fjölmiðlun. Hver dómurinn á fætur öðrum snýst um mál, þar sem fjölmiðillinn hafði rétt fyrir sér í stóru og smáu. En er dæmdur fyrir að særa persónu viðkomandi slúbberts. Þar á ofan er farið að vísa ábyrgð á efni frá ritstjórum yfir til forstjóra, sem er nýlunda. Dómarnir sýna breyttan forgang. Málfrelsi víkur fyrir persónurétti. Sá réttur snertir almenning lítið. En verndar slúbberta, þegar fjölmiðlar vilja réttilega fjalla um svínarí þeirra. Í þessum flótta frá málfrelsinu eru dómstólar landsins komnir á villigötur.

Kunnátta fyrir blaðamenn

Fjölmiðlun

Fjölmiðlafræði er fræðigrein, sem fjallar um fjölmiðla sem vandamál. Hún er grein af meiði vandamálafræða. Hún ræðir um kynjamisrétti, hliðvörzlu og fleira skemmtilegt. Gott er að fá slíka fræðinga, kannski tvo-þrjá árlega. Kannski fá þeir kaup einhvers staðar. Á sama tíma þurfa fjölmiðlar ekki tvo-þrjá blaðamenn árlega, heldur tuttugu-þrjátíu. Þeir þurfa að kunna textastíl. Þeir þurfa að kunna rannsóknir. Þeir þurfa að kunna ritstjórn fjölmiðla. Þeir þurfa að kunna nýmiðlun. Þeir þurfa að sjá, hvernig ekkert stendur kyrrt í faginu. En þeir þurfa ekki að kunna mikla vandamálafræði.

Frumkvæði atvinnulífsins

Fjölmiðlun

Tíu ritstjórar og níu fréttastjórar á 29 manna námskeiði mínu í ritstjórn við Háskólann í Reykjavík. Þetta þriggja mánaða námskeið er til marks um þorsta fólks og atvinnulífs fyrir símenntun. Sem ekki fæst á annan hátt og alls ekki með aðkomu ríkisins. Fyrirtækin og samtök blaðamanna hafa gert þetta námskeið kleift. Eins og önnur námskeið, sem ég hef verið með við skólann. Ríkið kemur auðvitað hvergi nærri. Það er upptekið við að veita fé til kennslu í fjölmiðlafræði. Þótt tæpast þurfi meira en þrjá-fjóra slíka vandamálafræðinga á ári. Frumkvæði menntamála rennur til atvinnulífsins.