Ferðir

New York göngur

Ferðir

Skoðunarferðir

1. ferð:

Circle Line

Fyrsta og skemmtilegasta skoðunarferðin í New York er jafnframt hin þægilegasta. Við förum út að 83. bryggju við vesturenda 43rd Street og tökum okkur far með bátnum, sem siglir umhverfis Manhattan. Þar komum við okkur fyrir í þægilegu útsýnissæti og sötrum uppáhaldsdrykkinn á meðan við sjáum borgina líða hjá. Þetta er allra bezta aðferðin til að átta sig á afstöðu einstakra skýjakljúfa og borgarhverfa án þess að þurfa að rekast um í mannþröng og borgarhita.

Bezt er að koma sér fyrir á bakborða, því að báturinn fer rangsælis umhverfis Manhattan. Ennfremur er skynsamlegt að velja sér gott skyggni til fararinnar, helzt að morgni dags, því að stórborgum fylgir oft mistur, sem spillir skyggninu. Ferðin tekur þrjár stundir.

(Circle Line, Pier 83 við 43th Street og Hudson River, sími 563 3200, við E1)

2. ferð:

Island Helicopter

Nýstárlegri og fljótvirkari aðferð til að átta sig á hlutföllum Manhattan er að fara í þyrluflug. Farið er frá mótum 34th Street og East River. Unnt er að velja mismunandi löng flug, allt frá sjö mínútum og USD 30. Hálftíma flug yfir eyjuna þvera og endilanga og suður að frelsisstyttunni kostaði USD 84. Um þessa ferð gildir eins og um hina fyrri, að gott skyggni skiptir mestu máli. Okkur er ekki kunnugt um, að slys hafi orðið í langri sögu þessa þyrluflugs.

(Island Helicopter, Heliport, 34th Street og East River, sími 895 5372, D5)

3. ferð:

World Trade Center

Við hefjum fyrstu gönguferðina við World Trade Center. Í suðurturninum, WTC nr. 2, tökum við örskjóta lyftuna upp á 107. hæð og virðum fyrir okkur nálægt útsýni yfir bankaturnana í Downtown og fjarlægara útsýni suður til frelsisstyttu og Verrazano-brúar og norður til skýjakljúfanna í Midtown. Frá 107. hæð er farið í rennistiga upp á sjálft turnþakið, 110 hæð. Svipað útsýni er að hafa úr veitingasölunum á 107. hæð í WTC nr. 1.

Byggingu turnanna var lokið árið 1974 og voru þeir þá um skeið hinir hæstu í heimi, átta hæðum hærri en Empire State. Þeir eru frekar einfaldir að útliti og skekkja raunar heildarmyndina af skýjakljúfaþyrpingu bankahverfisins. En þeir sjást alls staðar að og eru auðþekkjanlegir.

Byggingarnar í World Trade Center mynda hring umhverfis stórt torg. Undir torginu er stórt verzlunarsvæði, sem tengir húsin saman. Þar eru um 60 verzlanir, auk veitingahúsa, banka og annarrar þjónustu. Þar á meðal er útibú frá TKTS, stofnuninni, sem selur leikhúsmiða á hálfvirði á sýningardegi. Á torginu sjálfu eru frægar styttur eftir Koenig, Rosati og Nagare.

Battery Park City

Vestan við World Trade Center, þar sem áður voru bryggjur, hefur verið búið til nokkurra ferkílómetra land út í Hudson River. Þar er verið að reisa Battery Park City, stórborg íbúða með görðum í kring. Þessu hverfi er ætlað að veita mannlífi í syðsta hluta Manhattan, bankahverfið, sem hingað til hefur verið dautt um kvöld og helgar.

St. Paul´s Chapel

Úr WTC nr. 2 göngum við út á Liberty Street, skoðum bronzstyttuna af bankamanninum og rauða teninginn á rönd eftir Isamu Noguchi fyrir framan Marine Midland bankann. Síðan beygjum við til vinstri og göngum norður Broadway.

Þar verður fljótlega fyrir okkur á vinstri hönd elzta kirkja borgarinnar, St Paul´s Chapel, reist 1764-1766 í georgíanskum stíl, sennilega fegursta kirkja borgarinnar að innan jafnt sem utan.

Woolworth

Nágranni heilags Páls er Woolworth-turninn í gotneskum stíl að utanverðu og innanverðu. Hann var reistur 1913 og var hæsta hús í heimi, þar til Chrysler-turninn var reistur 1930. Gaman er að líta inn í anddyrið og skoða listaverkin í veggjum og lofti.

City Hall

Í garðinum andspænis Woolworth er ráðhús borgarinnar, City Hall, raunar minnsta ráðhús í Bandaríkjunum, í eins konar frönskum endurreisnar- eða hallarstíl. Þegar það var reist, þótti það svo langt út úr bænum, að norðurhliðin var ekki klædd marmara, þar sem ekki var búizt við, að neinn sæi það úr þeirri átt.

Garðurinn fyrir framan er ekki stór en einkar friðsæll. Þar er brunnur eftir Delacorte. Við hann fara fram ýmsar opinberar athafnir borgarinnar, hér áður fyrr hengingar.

Trinity Church

Við höldum til baka suður Broadway. Þar sem gatan mætir Wall Street, er Trinity Church á hægri hönd í friðsælum, grasi grónum kirkjugarði og snýr stefni að mynni Wall Street. Þessi gotneska kirkja var reist 1846 úr rauðum sandsteini, en er nú orðin kolsvört og ætti skilið að fá þvott.

Trinity Church er eins og dvergur innan um skýjakljúfana, en dregur þó að sér athygli, ekki aðeins sem verndarengill Wall Street, heldur einnig vegna áberandi langrar spíru á kröftugum turni. Við göngum inn í mjótt Wall Street og horfum til baka í átt til kirkjunnar.

Wall Street

Við erum í miðju bankagljúfri heimsins. Ef við erum hér í hádeginu, er varla hægt að komast leiðar sinnar í mannmergðinni. Hér var áður veggurinn, sem Hollendingar reistu til varnar gegn Indjánum. Gatan er enn dálítið undin eins og veggurinn var. Hér eru bankar á alla vegu, svo og kauphöllin á hægri hönd.

New York Stock Exchange

Kauphöllin í New York var reist 1903 í rómverskum musterisstíl. En það er ekki útlitið, sem skiptir okkur máli, heldur innihaldið. Úr hliðargötunni Broad Street er inngangur á nr. 20. Þar getum við fengið að fara inn og upp á svalir til að virða fyrir okkur atganginn á kauphallargólfinu.

Sérfræðingur í kauphallarviðskiptum reynir að skýra fyrir okkur, hvernig kauphöllin starfar. Við erum litlu nær, en horfum í leiðslu á vitfirringsleg köll og handapat 3000 braskara á 900 fermetra pappírs-ruslahaug kauphallargólfsins. Þeir horfa á risastóra talnaskjái á veggjunum og lemja lyklaborðin á tölvunum. Þær eru á 16 viðskiptaeyjum á gólfinu, 60 á hverri eyju, samtals 960.

Öll viðskipti eru samstundis sýnd á veggjunum, ekki bara hér, heldur um gervihnött í London og Tokyo, þar sem svipaður atgangur á sér stað. Raunar eru svona kauphallir, í smærri stíl, í öllum stórborgum hins vestræna heims, — nema Reykjavík.

Chase Manhattan

Þegar við komum aftur út undir bert loft, göngum við til baka Broad Street, yfir Wall Street og áfram inn Nassau Street. Eftir 50 metra göngu komum við að torginu fyrir framan Chase Manhattan bankann. Þar er frægt listaverk eftir Dubuffet, fjögur tré í svörtu og hvítu. Ennfremur kjallaragarður úr steini og vatni eftir Isamu Noguchi.

Bowling Green

Við snúum til baka Nassau Street og Wall Street að Trinity Church. Þar beygjum við til vinstri suður Broadway að Bowling Green. Það er lítill garður, umlukinn járngirðingu frá 1771, elzti opinberi garður borgarinnar.

Að baki garðinum er United States Custom House, tollbúðin í borginni, reist 1907 í Beaux Arts stíl.

Battery Park

Hér komum við á hægri hönd að Battery Park, syðsta oddi borgarinnar. Garðurinn heitir eins og batteríið í Reykjavík eftir gömlu fallbyssustæði, sem var borginni til varnar á dögum frelsisstríðsins. Garðurinn er hið notalegasta gönguferðasvæði. Í hádeginu er hann fullur af bankafólki að snæða upp úr pappírspokum.

Ellis Island

Frá Battery Park ganga ferjur yfir árnar Hudson River og East River. Meðal annars gengur ferja til Ellis Island, sem er vestarlega í Hudson River. Þar var áður innflytjendamiðstöð Bandaríkjanna. Allir þeir, sem flúðu sult og styrjaldir í Evrópu fóru þar í gegn til að fá heimild til að setjast að í sæluríki Bandaríkjanna.

Stöðin var lögð niður 1954 og er í niðurníðslu. Mikil hreyfing er í gangi við að safna USD 50 milljónum til að endurreisa hana sem safn og er viðgerðin raunar þegar hafin. Boðið er upp á leiðsögn fyrir ferðamenn.

Statue of Liberty

Meiri umferð er á ferjuleiðinni til Liberty Island, þar sem trónir frelsisstyttan, nýviðgerð og ljómandi. Hana hannaði franski listamaðurinn Bartholdi. Frakkar borguðu hana með samskotafé og gáfu Bandaríkjunum til minningar um sigurinn í frelsisstríðinu, sem Frakkar háðu með Bandaríkjamönnum gegn Bretum. Æ síðan hefur styttan verið tákn Bandaríkjanna og frelsis, kærkomið augnayndi öllum þeim, sem voru á leiðinni í innflytjendastöðina á Ellis Island.

Styttan er um 120 metra há og vegur 225 tonn. Erfitt er að ganga upp stigana, svo að bezt er að treysta á lyftuna fyrri helming leiðarinnar. Alls eru 22 hæðir upp í kórónu frelsisgyðjunnar. Þetta er pílagrímsför, sem allir sannir Bandaríkjamenn fara einu sinni á ævinni eins og Múhameðstrúarmenn til Mekka.

Frá Battery Park sigla ferjur líka til Staten Island. Þær sigla framhjá frelsisstyttunni. Þar sem farið kostar aðeins fáa tugi centa, bjóða þær ferjur upp á ódýrustu skoðunarferðina í borginni, með frábæru útsýni til bankahalla niðurbæjarins.

Fraunces Tavern

Úr garðinum göngum við rétt inn í Water Street og beygjum strax til vinstri í Broad Street. Á næsta horni, þar sem mætast Broad Street og Pearl Street, er lágreist húsalengja í gömlum stíl, kennd við veitingahúsið Fraunces Tavern, sem þar er á horninu.

Þetta tígulsteinshús frá 1719 er frægast fyrir, að þar kvaddi George Washington liðsforingja sína í lok frelsisstríðsins. Útlitið er upprunalegt, en innihald hússins er frá 1927. Maturinn á kránni er ekki góður, líklega frá 1927. Í húsinu er einnig safn.

Water Street

Við höldum til baka og snúum til vinstri inn Water Street, sem áður var hafnargata borgarinnar. Þar verður strax á vegi okkar á hægri hönd steingarðurinn Jeannette Park, sem verið er að umskíra í Garð hermanna úr Vietnam-stríðinu. Þetta er fremur ljótur garður, en þar er þétt setið í hádeginu.

Skýjakljúfarnir eru í röðum við Water Street, hver með sínu yfirbragði, sumir hverjir með viðleitni til mannlegs umhverfis á jarðhæð.

Schermerhorn Row

Við komum brátt að Schermerhorn Row, þar sem byrjar ferðamannasvæðið í South Street Seaport. Þessi húsalengja er hluti hinna upprunalegu vöruhúsa við höfnina, reist í georgískum stíl með síðari framhliðum jarðhæða úr steypujárni. Þar eru nú þekktar verzlanir og veitingahús. Skemmtilegust er járnvöruverzlunin Brookstone, sem er andspænis gangstéttarkaffihúsinu Gianni´s.

Fulton Market

Næst komum við að miklu húsi hins fræga fiskmarkaðar Fulton Market. Sjálfur heildsölu-fiskmarkaðurinn er í fullu fjöri eldsnemma — fyrir klukkan sex — á morgnana, þegar fáir ferðamenn eru á fótum, en við sólarupprás eru opnaðar í markaðsbyggingunni smábúðir, þar sem hægt er að kaupa margvíslegt góðgæti.

Smábúðirnar og veitingasalirnir eru á þremur hæðum. Þar eru sérverzlanir osta, fiskjar, kaffis, brauða, sultu, svo að dæmi séu nefnd, og matstaðir af ótal tagi, þar sem hægt er að fá smárétti margra þjóða.

South Street Seaport

Úti á bryggjunni við Fulton markaðinn hefur verið komið fyrir sjóminjasafni undir beru lofti. Það er eitt bezta dæmið um, hvernig hægt er að taka gömul hús og mannvirki, fríska þau upp og búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn. South Street Seaport er orðin einn helzti áfangastaður ferðamanna í New York.

Í höfninni eru sögufræg skip frá upphafi aldarinnar, svo sem teflutninga-seglskipið Peking og riggarinn Ambrose, svo og fljótandi viti. Í sjálfu nítjándu aldar bryggjuhúsinu á bryggju nr. 17 hefur verið komið fyrir fjölmörgum smáverzlunum, sem freista ferðamanna. Þar fæst allt frá tízkufötum yfir í hvalveiðibúnað. Þar eru líka veitingasalir og þaðan er ágætt útsýni yfir East River til Brooklyn-brúar og Brooklyn.

Allt er þetta úthald eins konar Disneyland, miðað við að létta pyngju ferðamanna og ekki verður betur séð en, að fórnardýrin séu hæstánægð.

Brooklyn Bridge

Eftir skoðunina er gaman að rölta 50 metra eftir Front Street í átt að Brooklyn-brúnni. Við þvergötuna Peck Slip er blekkimálverk á vegg, eftirlíking af Brooklyn-brúnni.

Að baki rís sjálf hengibrúin við himin. Hún er ein fegursta brú borgarinnar, reist 1883 og var þá talin verkfræðilegt afrek, fyrsta stálvírahengibrú heimsins og þá lengsta brú veraldar, spannar 486 metra haf. Af gangbraut brúarinnar er frábært útsýni.
Héðan er stuttur spölur að upphafspunkti fjórðu ferðar, sem liggur um gömul þjóðahverfi.

4. ferð:

Mott Street

Gönguferðina um Chinatown hefjum við á Chatam Square á Bowery. Það er suðurendinn á Skid Row, rónabæli borgarinnar. Skid Row er heiti neðsta hluta Bowery, frá Chatam Square norður til 4th Street. Rónarnir eru meinlausir, en sums staðar þarf að sæta lagi við að klofa yfir þá.

Við ætlum ekki að skoða Bowery, heldur förum til vesturs frá Chatam Square inn í Mott Street, ás kínverska hverfisins. Þar mætir okkur krydduð matarlykt úr verzlunum og veitingahúsum, hafsjór óskiljanlegra auglýsingaskilta á kínversku og símaklefar með kínversku pagóðu-þaki.

Við förum rólega, lítum inn í tvær þvergötur til hægri, Pell og Bayard Streets, og njótum þess að vera um stundarsakir í allt annarri heimsálfu, þar sem meira að segja blöðin sjö í söluturnunum eru á kínversku. Við höfum valið sunnudag til gönguferðarinnar, því að þá koma Kínverjar úr öðrum hverfum og þá er mest um að vera í Mott Street.

Við fáum okkur að lokum hádegismat á einhverju hinna betri veitingahúsa, Hee Sung Feung, Say Eng Look, Hwa Yuan Szechuan, Canton eða Phoenix Garden. Hinna þriggja fyrstu er getið framar í þessari bók.

Mulberry Street

Við Canal Street beygjum við eina húsablokk til vinstri og höldum svo áfram til norðurs eftir Mulberry Street, ás ítalska hverfisins. Eins og í Chinatown er mest um að vera í Little Italy á sunnudögum, þegar Ítalir koma úr úthverfunum til að verzla og borða.

Mulberry Street er löng og mjó gata, sem gæti hafa verið flutt í heilu lagi frá Palermo eða Napoli. Þar eru smábúðir, sem selja spaghetti, makkaroni og ótal aðrar tegundir af pasta. Þar situr fólk úti á gangstétt og sötrar rauðvín meðan það bíður rólegt eftir því að klukkan verði nógu margt til að hægt sé að fara að borða. Við sláumst í þann hópinn.

Þegar við komum norður að Houston Street, beygjum við til hægri eftir þeirri götu. Ef við vorum ekki búin að snæða í Chinatown og ef ekki er sunnudagur, fáum við okkur hádegisverð í Ballato, bezta ítalska matstaðnum.

Houston Street er borið fram “háston” á newyorsku. Það er mikil skransölugata gangstéttarkaupmanna, full af lífi og fjöri. Eftir að hafa litið á varninginn, yfirgefum við hávaðann og göngum austur götuna, allt að Orchard Street.

Orchard Street

Orchard Street er markaðsgata gyðingahverfisins Loiasada eða Lower East Side, eins konar austrænn bazar eða souk. Einnig þar er mest um að vera á sunnudögum. Þar er hægt að prútta um verð og rétt og skylt að halda fast um veskið. Þar má sjá rétttrúaða kaupmenn með langa lokka framan við eyrun, kollhúfu og alskegg. Þangað fara borgarbúar til ódýrrra innkaupa.

Við göngum Orchard Street frá Houston Street til Delancey Street, þar sem þessari skoðunarferð má ljúka. Ef klukkan er orðin fjögur, getum við skotizt inn á Sammy´s Rumanian Jewish Restaurant og fengið okkur saðsaman mat að gyðinglegum hætti.

5. ferð:

Washington Square

Við getum líka fengið okkur leigubíl eða rölt í stundarfjórðung inn í hjarta Greenwich Village, að Washington Square, þar sem næsta ferð hefst. Það gerum við, af því að Washington Square er skemmtilegast á sunnudegi, en að öðru leyti kann að vera betra að fara þessa 5. ferð á laugardegi eða öðrum virkum degi, þegar listsýningarsalirnir eru opnir.

Washington Square er stærsti garðurinn á sunnanverðu Manhattan. Hann er sunnudagsstofa þorpsbúa í Greenwich Village. Þar getum við sezt niður til að tefla skák, hlýtt á farandhljómsveitir, horft á hjólabrettis-akróbata og neitað okkur um að kaupa duft. Lífið í garðinum er skemmtilegast að áliðnum degi og að kvöldi.

Fyrir nokkrum árum var Washington Square óþolandi vegna háværra útvarpstækja. Eftir innreið vasatækja með heyrnartólum hefur lífið færzt aftur í skaplegt horf í garðinum. Nú má aftur fá frið til að tapa nokkrum dollurum í fimm mínútna skák.

Að baki garðinum norðanverðum eru tvö skemmtileg húsasund, þar sem áður voru hesthús hefðarfólksins, sem bjó við garðinn, en núna íbúðir menntamanna, er hafa þar fullkomið næði rétt við skarkala torgsins. Þetta eru Washington Mews og MacDougal Alley og þar ríkir andrúmsloft afskekktra þorpsgatna.

Jazzland

Úr MacDougal Alley förum við til hægri MacDougal Street, síðan til vinstri West 8th Street og aftur til vinstri Christopher Street. Þar lítum við inn í West 4th Street, áður en við beygjum enn til vinstri í Bleecker Street.

Á þessu svæði er fullt af leikhúsum og jazzklúbbum, matvöruverzlunum og handverkstæðum, forngripabúðum og sérvizkuverzlunum, kaffistofum og veitingahúsum, þótt hverfið sé fyrst og fremst íbúðarhverfi. Göturnar eru krókóttar og villugjarnar. Þær minna frekar á London en New York, enda eru húsin ekki háreist. Þetta er Jazzland eða Off-Broadway, bezt þekkt undir nafninu Greenwich Village.

Hér ríkir ekki hraðinn og streitan, sem við sjáum í bankahverfinu og miðbænum. Þetta er notalegasti hluti borgarinnar, sums staðar rólegur, annars staðar fjörlegur. Hérna megin eða austan við Christopher Street er hinn hefðbundni hluti Greenwich Village, en hommahverfið handan eða vestan við götuna.

Þegar við komum í Bleecker Street, færist fjör í leikinn. Í þeirri götu og í þvergötunum MacDougal og Sullivan Street er verzlunarmiðstöð hverfisins með fögrum ávaxta- og blómabreiðum úti á gangstétt.

Á svæðinu, sem við höfum rölt um, eru jazzholurnar Blue Note, Village Vanguard og Sweet Basil, þjóðlagakrárnar Folk City og City Limits, matgæðingabúðin Balducci´s, veitingahúsin Sabor og Texarkana, gangstéttarkaffihúsið Reggio og barinn Chumleys. Allra þessara staða er getið framar í þessari bók.

West Broadway

Úr Bleecker Street beygjum við til hægri suður La Guardia Place, yfir West Houston Street og áfram suður West Broadway. Á West Houston Street, sem við könnumst við frá fjórðu ferð, gefum við okkur tíma til að fylgjast með gangstéttarverzluninni.

West Broadway er myndlistargata New York. Þar eru margir af þekktustu listsýningarsölum borgarinnar, svo sem Leo Castelli, Mary Boone og Dia Art. Við göngum suður að Broome Street, beygjum þar til vinstri og svo aftur til vinstri norður Wooster Street, alla leið aftur til West Houston Street. Þar beygjum við til vinstri og svo aftur til vinstri suður Greene Street, alla leið suður að Canal Street.

Á leiðinni lítum við inn í listsýningasali, sem eru þéttastir við West Broadway og Wooster Street. Við lítum líka inn í vínbarina Wine Bar og Soho Kitchen og bjórkrána Fanelli´s, frábæra áningarstaði á rólegu rölti okkar um listahverfið SoHo.

Greene Street

Í Greene Street, einkum syðst, sjáum við falleg dæmi um byggingarlist vöruhúsanna, sem einkenna þetta hverfi. Framhlið húsanna prýða gjarna tveggja hæða hásúlur. Þessar framhliðar eru yfirleitt úr steypujárni, sem hefur verið látið renna í mót eftir margvíslegu hugmyndaflugi, er fékk að leika lausbeizlað á síðari hluta nítjándu aldar. Þá var frelsi járnsteypunnar notað til að verksmiðjuframleiða stælingar alls kyns stíla fyrri tíma, einkum endurreisnar og nýgnæfu. Síðar hafa bætzt við brunastigar. 50 slík hús hafa verið varðveitt við Greene Street.

Í þessum húsum var áður fataiðnaður, annar léttaiðnaður og vörugeymslur, en nú búa þar vel stæðir listamenn og þeir, sem vilja búa í listamannahverfi.

Syðst í götunni Mercer Street, sem liggur samsíða Greene Street, er Museum of Holography, þar sem leikið er með leysigeislum á þrívídd á afar sannfærandi hátt. Þetta er sérstætt safn, en farið að gerast þreytulegt.

White Street

Úr suðurenda Greene Street beygjum við til hægri eftir Canal Street og síðan til vinstri suður West Broadway. Við yfirgefum listamannahverfið SoHo og förum gegnum listamannahverfið TriBeCa. Við tökum eftir, hvaða vöruhús eru orðin að vinnustofum, því þar hanga plöntur í gluggum.

Í þvergötunni White Street, sem liggur til vinstri frá West Broadway, sjáum við einna beztu dæmin um steypujárnshús hverfisins, sem eru hliðstæð slíkum húsum í SoHo.

Við endum þessa göngu í kvöldverði í veitingahúsinu Odeon við West Broadway. Þar má sjá margan furðufuglinn úr hópi þorpsbúa TriBeCa.

6. ferð:

Times Square

Við hefjum sjöttu ferð á Times Square, miðpunkti leikhús-, bíó- og klámhverfis borgarinnar. Við lítum yfir auglýsingaskiltin og hina löngu biðröð við leikhúsmiðasöluna TKTS við Father Duffy Square.

Síðan göngum við norður eftir Broadway, sem er ás þessa hverfis. Á vinstri hönd er Marriott-hótelið, sem reynir að mynda virðuleika í annars glannalegu hverfinu. Á daginn er þetta svæði fremur hráslagalegt, en eftir sólarlag verður það að neonljósa-draumaheimi.

Í hliðargötunum eru leikhúsin hlið við hlið, samtals 42 að tölu, flest milli 7th og 8th Avenues. Hins vegar er lítið um sómasamleg veitingahús. Ágætar pylsur fást hjá Nathan´s Famous og grísk mússaka á Pantheon. Aðeins norðar er betra fæði í nokkrum veitingahúsum, sem getið er framar í þessari bók, Café des Sports, Siam Inn, Tastings I og ekki sízt í Russian Tea Room.

Columbus Circle

Við göngum framhjá hinu fræga Carnegie Hall og förum út á Columbus Circle, þar sem ferðamálaráð borgarinnar býr í marokkönskum turni andspænis suðvesturhorni Central Park.

Við höldum áfram eftir Broadway, framhjá Lincoln Center, þar sem við stöldrum við áður en við tökum stefnuna eftir Columbus Avenue. Frá Carnegie Hall og Lincoln Center er sagt framar í þessari bók, í menningarkaflanum.

Columbus Avenue

Ein nýjasta tízkugata borgarinnar er Columbus Avenue, sem hefur blómstrað, síðan Lincoln Center var opnað. Þar hafa skotið rótum tízkuverzlanir, barir og veitingahús. Gangstéttarverzlun stendur og þar með blóma og útimarkaður er vestan götunnar, milli 76th og 77th Streets. Þar blasir við American Museum of Natural History. Við göngum meðfram því út í Central Park.

Central Park

Central Park er lunga borgarinnar, orðið til fyrir baráttu skáldsins W. C. Bryant, hannað af Olmsted og Vaux árið 1856 og var 15 ár í uppbyggingu. Garðurinn er risastór, 840 ekrur milli 5th og 8th Avenues, 59th og 110th Streets. Vötn og hæðir voru gerðar með handafli og plantað 100.000 trjám.

Helzta einkenni hans er, að umferð akandi og gangandi fólks er skilin í sundur. Hægt er ganga um garðinn þveran og endilangan án þess að fara yfir bílagötu, enda er bílaumferðin að mestu leyti neðanjarðar. Gönguleiðirnar liggja í sveigjum um allan garðinn, yfir brýr og boga, 46 talsins, með síbreytilegu útsýni.

Central Park skiptist í stórum dráttum í tvennt um vatnsþróna í miðjum garði. Norðurhlutinn er minna skipulagður og skiptist í tiltölulega stór svæði. Suðurhlutinn er skipulagðari, smágerðari og raunar fjölbreyttari, með smávötnum, skógarlundum og klettahæðum.

Skemmtilegast er að fara um garðinn á sunnudögum, þegar Manhattan-búar nota hann fyrir stofu. Sumir eru þar með garðveizlu í farangrinum, aðrir skokka eða hjóla. Hópar eru í blaki eða hornabolta. Nokkrir keppa á hjólabrettum og aðrir róa um á bátum. Og svo eru þeir, sem lesa bækur eða sofa hreinlega með dagblaðið yfir andlitinu.

Ekki er ráðlegt að fara um Central Park í myrkri og ekki heldur fáförular slóðir hans að degi til. Haldið ykkur í kallfæri við mannþröngina.

Belvedere Castle

Við göngum beint frá 77th Street inn í garðinn og komum að The Lake, þar sem við beygjum til vinstri. Þar verður fyrir okkur Balcony Bridge, sem liggur yfir norðurenda vatnsins. Þaðan er ágætt útsýni yfir vatnið, skógarhæðirnar, Ramble, að baki þess og skýjakljúfana aftast.

Við höldum áfram til norðurs að Belvedere Castle, sem stendur einna hæst í garðinum. Það er lítil kastalabygging í Disneyland-stíl með ágætu útsýni til norðurs yfir hornaboltavöllinn stóra, þar sem fjöldi leikja er háður samtímis, og til suðurs yfir skógarhæðirnar.

Við austurhlið garðsins sjáum við Metropolitan Museum of Art og hérna megin við það einsteinung frá Egyptalandi, kallaðan Nál Kleópötru. Við getum tekið krók að nálinni, framhjá bókalesendum og sofandi fólki, eða bara farið umhverfis litla vatnið hér fyrir neðan, Belvedere Lake. Í nágrenni nálarirnar eru oft útitónleikar sinfóníuhljómsveita.

The Ramble

Fyrir sunnan vatnið tekur við villtasti hluti garðsins, The Ramble. Það eru skógi vaxnar hæðir og klettaásar með mjögsveigðum gangstígum til allra átta, svo og nokkrum síkisbrúm. Þetta er vinsælt svæði ástarlífs. Úr Ramble förum við suður yfir The Lake á Bow Bridge, steypujárnsbrú, sem býður gott útsýni til beggja handa.

Handan brúarinnar förum við til vinstri og komumst að stalli, sem formlega séð er miðja garðsins. Á stallinum er Bethesda-brunnurinn með styttu af englum vatnsins. Þar í kring eru oft sveitir hjólaskautara. Og þar er líka hljómsveitarpallur, sem oft er notaður um helgar.

The Mall

Hér getum við tekið krók til austurs að tjörninni Conservatory Pond. Þar er stytta af H. C. Andersen, ásamt með ljóta andarunganum, og önnur af Lísu í Undralandi, ásamt með brjálaða hattaranum, báðar vinsæl klifurtæki barna.

Við snúum til baka að Bethesda-brunni og förum þaðan til suðurs eftir beinu götunni, sem heitir The Mall. Hún liggur framhjá hljómsveitarpalli, þar sem oft er eitthvað um að vera. Síðan förum við framhjá The Dairy, sem er upplýsingamiðstöð svæðisins.

Frá upplýsingamiðstöðinni förum við til vinstri að dýragarðinum, Zoo, sem er í austurhlið garðsins. Það er gamall dýragarður, mikið sóttur og nokkuð þreytulegur, enda handhægur ferðamönnum. Hann stenzt engan samanburð við aðaldýragarð borgarinnar í Bronx. Norðan við hann er sérstakur dýragarður fyrir börn, Children´s Zoo.

Avenue of the Americas

Úr dýragarðinum förum til suðvesturs að skautavellinum og vestan megin hans út úr garðinum og inn í 6th Avenue, sem formlega heitir Avenue of the Americas, en er sjaldnast kölluð því nafni. Hér í þessari bók hefur orðið 6th Avenue jafnan verið notað.

Við 6th Avenue eru nokkrir frægir skýjakjúfar hægra megin götunnar, þegar komið er framhjá Hilton-hótelinu. Þeir ná ekki alveg út að götu og hafa fyrir framan lítil torg með gosbrunnum og listaverkum. Þetta eru byggingar Equitable Life, Time & Life, Exxon og McGraw Hill.

Mikið hefur verið lagt í þessa turna og í að reyna að fegra umhverfi þeirra. Samt eru þeir taldir dæmi um gerilsneydda byggingarlist. Gosbrunnatorgin draga ekki að sér fólk til að gæða þau lífi. Betur hefur tekizt til við síðari tíma skýjakjúfa, sem reistir hafa verið austan við 5th Avenue, svo og fyrri skýjakjúfa, einkum í Rockefeller Center.

Við endum einmitt þessa göngu aftan við Rockefeller Center.

7. ferð:

Empire State

Auðvelt er að rata í sjöundu ferð, því að hún leiðir okkur eftir 5th Avenue endilangri. Við hefjum ferðina syðst, í Empire State Building, að morgni dags, þegar skyggni er líklegt til að vera hagstæðast.

Einu sinni var þetta hæsta hús í heimi og síðast, þegar við vissum, enn hið þriðja hæsta. Turninn hefur oft verið notaður sem tákn borgarinnar, enda er hann stórfenglegt og virðulegt dæmi um byggingarlist skýjakljúfanna.

Tvær lyftur flytja okkur upp á 86. hæð, þar sem er opið útsýnissvæði, og hin þriðja upp á 102. hæð, með lokuðu útsýnissvæði, sérstaklega skemmtilegu að kvöldlagi. Áður en aðgangseyrir er greiddur er skynsamlegt að líta á töfluna, þar sem sagt er frá skyggni líðandi stundar. Við beztu aðstæður að degi til má sjá yfir 70 kílómetra í allar áttir.

Í anddyrinu er sýning á vegum Guinnes Book of World Records.

New York Public Library

Þegar við komum út úr Empire State, getum við tekið leigubíl eða rölt norður frá 34th Street til 40th Street, en þar er borgarbókasafnið í nýgnæfustíl með kórintusúlum, tveimur frægum ljónum og miklu tröppuverki, þar sem fólk situr í hópum, horfir á ysinn og þysinn í kring og reykir vöru, sem það hefur keypt í Bryant Park að safnbaki. Hér og þar við tröppurnar eru fluttar ræður eins og á Speakers´ Corner í London.

Inni eru geymd 5,5 milljónir eintaka af bókum. Þetta er næststærsta bókasafn Bandaríkjanna á eftir Library of Congress í Washington. Lestrarsalir eru margir, en áhrifamestur er aðalsalurinn á þriðju hæð. Á jarðhæðinni eru oft merkar sýningar.

Bryant Park

Að baki NY Public Library er Bryant Park, löngum ein helzta miðstöð fíkniefnasölu í borginni. Á síðustu árum hefur verið reynt að endurreisa hann með hádegis-konsertum, fornbókavögnum og skyndibitastöðum. Árangurinn er sá, að nú orðið notar margt skrifstofufólk í nágrenninu garðinn sem hádegisverðarstað og virðir ekki höndlarana viðlits. Við hliðina, sem snýr að 42nd Street, er hægt að taka fimm mínútna skák eða spila backgammon (kotru).

Diamond Row

Við höldum áfram norður 5th Street. Við beygjum til vinstri inn í 47th Street. Kaflinn milli 5th Avenue og 6th er kallaður Diamond Row, af því að þar eru gimsteinsalar í röðum. 80% allrar heildsölu skartgripa í Bandaríkjunum fara fram á þessum hundrað metrum.

Heildsalan fer fram í bakhúsum og á efri hæðum, en smásalan við götuna. Sumir kaupmennirnir eru með gimsteinana í vösunum og gera út um viðskiptin úti á gangstétt. Þau eru handsöluð án þess að peningar sjáist fara á milli.

Channel Gardens

Við förum áfram 5th Avenue framhjá mörgum söluskrifstofum flugfélaga og vaxandi fjölda frægra tízkubúða.
Milli 49th og 50th Streets, andspænis tízkuverzluninni Saks, förum við til vinstri inn í Channel Gardens, þar sem söluskrifstofa Flugleiða er á vinstri hönd. Channel Gardens er notaleg gróðrar- og lækjarbunuvin í stál- og glerfrumskógi miðborgarinnar, kjörinn staður til að mæla sér mót. Þetta er eins konar Austurvöllur borgarinnar, því að þar er sett upp jólatré borgarinnar.

Rockefeller Center

Framundan er Rockefeller Plaza á lægra gólfi, þar sem skautað er að vetrarlagi og drukkið kaffi á sumrin. Yfir torginu vakir gullhúðuð bronzstytta af Prómeþeifi.

Þetta er miðja Rockefeller Center, sem aftur á móti er af mörgum talin vera miðja New York. Turnarnir við torgið voru reistir í Art Decco stíl árin fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þeir eru tengdir saman neðanjarðar um Rockefeller Plaza. Þar niðri eru verzlanir og veitingahús á fjörlegu neðanjarðarsvæði.

Tignarlegastur turnanna í Rockefeller Center er RCA-höllin, sem gnæfir í 70 hæðir yfir torginu. Þar uppi er ágætt útsýni frá þaksvölunum. Að baki RCA-hallarinnar er Radio City Music Hall, stærsta tónlistarhöll heims, með sætum fyrir 6.000 manns.

St. Patrick´s Cathedral

Við göngum til baka Channel Gardens og snúum til norðurs eftir 5th Avenue. Andspænis er tízkuverzlunin Saks. Hérna megin götunnar er International Building með hinni frægu styttu af Atlasi eftir Lawrie fyrir framan.

Handan götunnar er höfuðkirkja kaþólikka í borginni, St Patrick´s Cathedral, reist 1879. Hún var langt uppi í sveit, þegar hún var reist, en er nú eins og dvergur á milli skýjakljúfanna. Samt er hún ellefta stærsta kirkja í heimi. Í höfuðdráttum er hún í gotneskum stíl, þótt svifsteigurnar vanti.

Endalausum skrúðgöngum írskra landnema lýkur við kirkjuna á degi heilags Patreks. Þá er allt á hvolfi í bænum og allar krár fullar af þyrstu fólki.

Paley Park

Við göngum til hægri inn í 53rd Street. Þar er á vinstri hönd auð lóð, sem hefur verið gerð að yndislegum, litlum garði, Paley Park. Þar drekkja fossaföllin umferðarhávaðanum og þar er hægt að fá sér eina með öllu og kók. Paley Park er skólabókardæmi um, hversu vel er hægt að nýta lítið svæði. En við förum til baka út á 5th Avenue.

Við 53rd Street, handan 5th Avenue, er Museum of Modern Art, höfuðsafn borgarinnar, sem frá er sagt framar í þessari bók.

5th Avenue

Við erum komin í þungamiðju hins fína verzlunarhverfis Manhattan. Hér við 5th Avenue rekur hver tízkubúðin aðra, Cartier, Botticelli, Lapidus og Gucci.

Einmana bókabúð er þó vinstra megin, milli 52nd of 53rd Streets. Það er Dalton. Síðast, þegar við vorum þar, var Johnny Cash að árita nýju bókina sína um Pál postula. Uppi yfir búðinni gnæfir turn, sem hefur heimilisfangið 5th Avenue 666. Þar uppi er ágætur útsýnisbar, sem heitir Top of the Sixes.

Síðan halda tízkubúðirnar áfram. Við sjáum nöfnin Elizabeth Arden, Godiva og náum hámarki í Tiffany og Bergdorf Goodman á horninu, þar sem 5th Avenue mætir 57th Street.

Trump Tower

Við hliðina á Tiffany hefur nýlega verið reistur sérkennilegur turn með skemmtilega gróðursælu stallaflúri á neðstu hæðum. Það er skýjakljúfurinn Trump Tower með sex hæða meginsal dýrra tízkuverzlana neðst og gífurlega dýrum lúxusíbúðum þar fyrir ofan, sjá mynd á bls. 5.

57th Street

57th Street er álíka fín verzlunargata og 5th Avenue. Þar eru kunnar tízkuverzlanir í röðum, þar á meðal áðurnefndar Bergdorf Goodman og Henri Bendel, svo og gjafavörubúðin Tiffany. En gatan er jafnfræg sem gata listmunasala. Tízkuverzlanirnar eru á jarðhæð húsanna, en listaverkasalirnir á efri hæðum.

Í næsta nágrenni horns 57th Street og 5th Avenue eru ýmis þekkt hótel og veitingahús, sem sumra hverra er getið framar í þessari bók.

Grand Army Plaza

Milli 58th og 59th Street er Grand Army Plaza, virðulegt torg með dýrum verzlunum og hótelum á alla vegu, svo og boðflennu General Motors hússins. Á miðju torginu er Pulitzer minningarbrunnurinn. Hér bíða hestvagnarnir eftir viðskiptavinum, sem vilja — eins og í Hollywood-bíómyndunum — fá sér ökutúr um Central Park.

Museum Mile

Norðan við Grand Army Plaza tekur við Museum Mile. Það er sá hluti 5th Avenue, sem liggur meðfram Central Park. Þar eru söfnin í röðum, fyrst Frick Collection, síðan Metropolitan Museum, Guggenheim og Cooper-Hewitt. Aðeins innar er svo Whitney við Madison Avenue. Frá öllum þessum söfnum er sagt framar í bókinni.

8. ferð:

United Nations

Við hefjum þessa síðustu gönguferð bókarinnar á horni 1st Avenue og 43rd Street, við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna á bakka East River. Aðalstöðvarnar eru einna glæsilegastar séðar frá þessu sjónarhorni.

Þær voru reistar 1947-1953, hannaðar af nefnd heimskunnra arkitekta á borð við Le Corbusier, Oscar Niemeyer og Sven Markelius. Ytra útlit er talið að mestu leyti verk Corbusiers. Skýjaklúfurinn er hinn fyrsti í borginni, sem er alglerjaður að utanverðu. Í honum eru skrifstofur Sameinuðu þjóðanna.

Sérkennilega, lága húsið fyrir framan, þar sem fánaborgin er, hefur að geyma fundarsal Allsherjarþingsins. Að baki þess eru lágreist hús með ýmsum öðrum fundarsölum. Flesta merkustu salina má sjá, þegar fundir standa ekki yfir. Gengið er inn að norðanverðu, frá 45th Street.

Andspænis aðalstöðvunum, milli 43rd og 44th Streets, er einn af fegurstu skýjakljúfum borgarinnar, UN Plaza hótelið, með veitingasalnum Ambassador Grill í kjallaranum.

Chrysler Building

Við göngum 42nd Street frá aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Senn verður fyrir okkur á hægri hönd hinn gamli skýjaklúfur frá 1930, Chrysler Building. Hann var hannaður í art decco stíl og undir áhrifum frá bílahönnun þess tíma, þar á meðal turninn, sem minnir á vatnskassa úr módel 1929.

Um skeið, þótti þetta ljótur skýjakljúfur, en á síðustu árum hefur fólk á ný farið að meta hann sem einn hinn fegursta í borginni. Þetta var um skamman tíma hæsta hús í heimi. Ljósaskreytingin í turninum var endurnýjuð fyrir nokkrum árum.

Grand Central Terminal

Örlitlu lengra eftir götunni, einnig vinstra megin hennar, komum við að framhlið Grand Central Terminal, aðaljárnbrautarstöðvar borgarinnar. Þetta feiknarflykki frá árunum 1903-1913 rúmar brautarteina, vegi og göngupalla á mörgum hæðum. Hálf milljón manna fer um stöðina á hverjum virkum degi.

Framhliðin er í Beaux Art stíl og ber um fjögurra metra breiða klukku. Inni er mikið, 10 hæða anddyri, þar sem 38 metrar eru upp í hvelfingu, lengra en í Notre Dame í París. Hvelfingin er skreytt stjörnumerkjum.
Niðri í kjallara er Oyster Bar, eitt allra skemmtilegasta veitingahús borgarinnar.

Pan Am Building

Við förum úr járnbrautarstöðinni til norðurs gegnum Pan Am Building, sem ekki er lengur eign samnefnds flugfélags. Efst í skýjakljúfnum er bar, og þaðan gott útsýni suður til niðurbæjarins og austur til aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna.
Þegar við förum úr Pan Am Building að norðanverðu og göngum út á Park Avenue, lítum við til baka. Við sjáum hvernig sveigður skýjakljúfurinn situr klofvega á brautinni. Hann var hannaður 1963 af hinum frægu arkitektum Walter Gropius, Pietro Belluschi og Emery Roth, þótti lengi fremur ljótur, en hefur nú öðlazt virðulegri sess í sögu byggingarlistar.

Park Avenue

Við göngum norður eftir Park Avenue, einu langbraut Manhattans, sem hefur gróðureyju í miðjunni endilangri, og tökum eftir, hvernig komið hefur verið fyrir risastórum glerhýsum og innigörðum á neðstu hæðum skýjaklúfanna austan megin götunnar.

St. Bartholomew´s Church

Síðan förum við framhjá hótelunum Intercontinental og Waldorf Astoria og komum að kirkju sömu megin götunnar. Kirkjan er afar skrautleg, í býzönskum stíl, rauðleit á litinn, frá 1919. Við hana er lítill garður, sem stingur í stúf við kuldalega skýjakljúfana í kring. Það gerir raunar einnig kirkjan sjálf.

Dagar kirkjunnar kunna að vera taldir, því að söfnuðurinn er fremur blankur og fær í sífellu girnilegri tilboð í lóðina frá æstum athafnamönnum, sem vilja reisa þar enn einn skýjakljúfinn.

Villard Houses

Ef við förum til vinstri inn 51st Street, komum við á næsta horni, við Madison Avenue, að Villard Houses. Það eru þrjú hús frá 1884, hönnuð á þann hátt, að þau líta sameiginlega út eins og ítölsk endurreisnarhöll að utanverðu. Að innan eru þau með skreytingum í svifstíl eða rókokkó.

Þessum byggingarsögulega merku húsum í miðri skýjakljúfaþyrpingunni var bjargað með þeim hætti, að hóteleigandinn Helmsley gerði þau að anddyri, börum og veitingasölum hótelhallar, sem hann reisti að baki.

Lever House

Eftir að hafa virt fyrir okkur Madison Avenue, förum við til baka út á Park Avenue og höldum hana áfram til norðurs. Brátt komum við á vinstri hönd að Lever House, sem er auðþekkjanlegt vegna dimmbláa litarins á glerveggjunum.
Lever House var reist 1952 eftir hönnun Skidmore, Owings og Merrill í hreinræktuðum módernisma að hætti Bauhaus. Skýjaklúfurinn er sérstakur að því leyti, að hann nýtir loftrýmið ekki út í yztu æsar og leyfir sólarljósinu að streyma niður í kringum sig.

Lever House nýtur svo mikils álits í sögu byggingarlistar, að það fellur undir húsfriðunarreglur borgarinnar. Húsinu má ekki breyta að neinu leyti.

Citycorp Center

Við förum 54th Street til austurs frá Park Avenue til Lexington Avenue. Þar á horninu blasir við okkur einn hinna yngri skýjakljúfa borgarinnar, Citycorp Center, frá 1977, teiknaður af Hugh Stubbins, afar sérkennilegur útlits bæði neðst og efst.

Skýjakljúfurinn þekkist langt að vegna bratta skúrhallans, sem er á toppi hans. Upphaflega áttu þar að vera lúxusíbúðir, sem ekki voru leyfðar, og síðan sólarorkustöð, sem ekki reyndist framkvæmanleg. En hallinn þykir vera turninum til fegurðarauka.

Niðri hvílir turninn á voldugum, níu hæða súlum, sem standa ekki undir hornunum, heldur miðjum hliðunum. Fyrir bragðið næst rými á horninu við gatnamótin fyrir kirkjuna St Peter´s, sem kúrir hér undir, í skemmtilegri þversögn við himinháan turn hins veraldlega valds.

Undir Citycorp Center er kjallaragarður. Þaðan er gengt inn í óvenju skemmtilega og líflega verzlunar- og veitingamiðstöð, sem er allt í kringum garðinn. Garðurinn heitir The Market og er þægilegur hvíldarstaður.

AT&T

Við snúum á hæli sömu leið út á Park Avenue og höldum enn áfram göngu okkar til norðurs. Á vinstri hönd verður fyrir okkur einn allra nýjustu skýjakljúfa borgarinnar, AT&T, frá 1984. Hann er teiknaður af Philip Johnson og John Burgee, auðþekkjanlegur af Chippendale-stólbaksstíl toppsins. Um leið er hann einn umdeildasti turn borgarinnar.

AT&T er eitt helzta dæmið um fráhvarf nútímans frá modernisma. Hliðar skýjaklúfsins eru virðulega klæddar rauðleitum marmara, en ekki áli, gleri eða stáli. Í heild minnir turninn á ímyndaða ævintýrahöll, sem andinn í lampa Aladíns hefur flutt hingað fyrir misskilning.

Skýjakljúfur þessi stendur á risaháum súlum yfir eins konar almenningsgarði, þar sem franskir garðstólar og kaffiborð eru á víð og dreif. Að því leyti minnir AT&T á Citicorp Center.

Madison Avenue

Þegar við komum á hornið, þar sem Park Avenue mætir verzlanagötunni 57th Street, eigum við kost á þremur leiðum. Hin fyrsta liggur til vinstri eina húsaröð eftir 57th Street og síðan til hægri inn í Madison Avenue.

Sú gata gengur næst 5th Avenue og 57th Street sem hin þriðja af fínustu verzlanagötum borgarinnar. Allt frá 57th Street norður að 72nd Street er óslitin röð verzlana og listsýningarsala.

Madison Avenue er að öðru leyti þekktust sem miðstöð auglýsinga- og áróðursfyrirtækja í borginni.

Greenacre Park

Við eigum þess líka kost að ljúka ferðinni á annan hátt. Þá beygjum við til hægri eftir 57th Street og göngum suður 3rd Avenue. Þegar við komum að 51st Street, beygjum við til vinstri.

Þar vinstra megin götunnar er garðurinn Greenacre Park, örlítill að flatarmáli eins og áðurnefndur Paley Park. Þar getum við hvílst á stólum við lítil borð innan um tré og með notalegan foss að bakgrunni. Rennandi vatnið drekkir umferðarhávaðanum í kring.

Roosevelt Island

Loks eigum við þess kost að ganga 57th Street alla leið vestur að 2nd Avenue og beygja þar til vinstri. Við 60th Street komum við að endastöð Roosevelt Island Tramway, opnaður 1976.

Gaman er að skreppa með skartlitum loftvíravögnum yfir vesturkvísl East River og njóta útsýnisins. Athugið að hafa með ykkur farseðil neðanjarðarlestakerfisins, því að miðar eru ekki seldir á þessari stöð.

Ferðin út í Roosevelt Island, sem er eyja í miðri East River, tekur aðeins fjórar mínútur. Þar í eyjunni hefur verið skipulagt nýtízku íbúðahverfi án bílaumferðar. Af bökkum eyjarinnar er gott útsýni til miðbæjarins.

Þar með lýkur göngu okkar um Manhattan, nafla alheimsins.

Góða ferð!

1988

© Jónas Kristjánsson

London inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

HEIMSBORGIN

LONDON

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Ljósmyndir:

KRISTÍN HALLDÓRSDÓTTIR

Fjölvaútgáfa

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Heimsborgin London, samsafn þorpa

Ljúfa London er ein örfárra miðpunkta mannkyns, heimsmiðstöð kaupsýslu og stjórnmála, — og sú þeirra, sem hefur einna mestan alþjóðabrag. Gangstéttir miðborgarinnar eru iðandi af allra þjóða fólki, mörgu frá fjarlægum heimshornum. Enda fjallar einmitt einn kafli þessarar bókar um ferðalag kringum jörðina á 30 veitingahúsum í London.

Fólk fer samt ekki bara í viðskiptaerindum til heimsborgarinnar. London er nefnilega engin venjuleg stórborg með ys og amstri. Hún er einnig róleg borg, þar sem gott er að hvílast. Hún er heimur ótal garða, stórra og smárra. Hún er þorp lágreistra húsa við mjóar og sveigðar götur.

Um leið er hún íhaldssöm borg gamalla hefða. Indælust er hún vegna íbúanna, sem kunna að umgangast náungann á siðmenntaðan hátt. Engir heimsborgarbúar eru jafn lausir við taugaveiklun og æðibunugang og heimamenn þessarar borgar. Þeir hafa t.d. nógan tíma til að leiðbeina ókunnugum.

London er sérkennilegt safn nokkurra smábæja, sem hver hefur sína persónu, sitt aðdráttarafl. Alveg eins og Westminster er annar heimur en City, er Covent Garden annar heimur en Soho. Í stað þess að kalla London alþjóðaborg, mætti alveg eins kalla hana safn alþjóðaþorpa.

Frístundalífið í London sogar einnig að sér fólk. Hún er heimsins mesta knattspyrnuborg og heimsins mesta leikhúsborg. Ölstofur hennar eru frægar. Kvikmyndahúsin bjóða allt hið nýjasta. Hún er höfuðborg popptónlistar og ein magnaðasta tízkuborg heims.

Frægar kirkjur og enn frægari söfn eru einn segull borgarinnar, sem annars státar ekki af eins merkilegri byggingalist og margar aðrar stórborgir. London er ekki falleg borg, en hún er notaleg borg, ágætur hvíldarstaður og skemmtistaður. En fyrst og fremst er hún ferðamanninum endalaus röð uppgötvana nýrra yndisefna.

Almennar upplýsingar

Bankar

Bankar eru opnir 9:30-15:30 mánudaga-föstudaga. Á flugvellinum eru þeir opnir allan sólarhringinn.

Barnagæzla

Childminders, 67 Marylebone High Street W1, sími 935 9763, Universal Aunts, 36 Walpole Street SW3, sími 730 9834, og Baby-Sitter Unlimited, 313 Old Brompton Road SW3.

Ferðir

Miðstöð upplýsingaþjónustu enska ferðamálaráðsins er við 4 Grosvenor Gardens SW1, sími 730 3400.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér og getur varðað sektum.

Flug

Til Íslands er flogið frá Terminal 2 á Heathrow-flugvelli. Piccadilly-leið neðanjarðarlestarinnar er 45 mínútur úr miðborginni út á völl. Dæmi eru um klukkustundar biðröð við farþegaskráningu þar. Í síma 759 2477 eru gefnar upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla.

Flugleiðir

Skrifstofa Flugleiða er við 73 Grosvenor Street í Mayfair, opin 9-17:30 mánudaga-föstudaga, sími 499 9971. Á komu- og brottfarartímum flugvéla hafa Flugleiðir mannaða afgreiðslu á efri hæð flugstöðvar á Heathrow, sími 759 7051.

Framköllun

Fotomagic, 110 Charing Cross Road WC2 og 130 Baker Street W1, svo og Foto Inn, 35 South Molton Street W1, framkalla og kópera á klukkustund.

Gisting

Tourist Information Centre upplýsingastofur í Heathrow Central Station og við brautarpall 15 á Victoria járnbrautarstöðinni útvega húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Götunúmer

Engin rökhyggja er í götunúmerum. Stundum er númerað eins og á Íslandi. En stundum er númeruð önnur götuhliðin fyrst og síðan hin til baka.

Hjálp

International Travellers´ Aid, Victoria Station, pallur 8, sími 834 3925, aðstoðar erlenda ferðamenn, sem hafa glatað peningum, vegabréfi, farangri eða lent í öðrum vandamálum.

Hótel

Pantaðu frekar “twin” herbergi með tveim rúmum en “double” með einu hjónarúmi af brezkri breidd, ef herbergin eru á sama verði, því að “twin” eru oft stærri.

Leigubíll

Venjulega er kallað af gangstéttarbrún í hina frægu og rúmgóðu leigubíla í London. Bílstjórarnir eru yfirleitt þaulkunnugir í borginni. Fargjald er lágt.

Lyfjabúð

Boots við Piccadilly Circus W1, sími 734 6126, er opin allan sólarhringinn, svo og Bliss, 54 Willesden Lane NW6, sími 624 8000.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 999.

Peningar

Brezki gjaldmiðillinn er sterlingspund, £ eða GBP, sem skiptist í 100 pence, p. Krítarkort eru mikið notuð í ferðamannaþjónustu.

Póstur

Pósthúsið í 24-28 William IV Street við Trafalgar Square er opið allan sólarhringinn.

Samgöngur

Álagið á samgöngutækjum er mest 8-9:30 og 17-19 mánudaga-föstudaga. Í lestir og strætisvagna er hægt að kaupa eins dags, fjögurra daga og sjö daga kort með ótakmörkuðum aðgangi að kerfinu. Strætisvagnar ganga 6-23/23:30 og sumir alla nóttina. Neðanjarðarlestir ganga 6-24.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við 1 Eaton Terrace SW1, opið 9:30-16 mánudaga-föstudaga, símar 730 5131 og 730 5132.

Sími

Mun ódýrara er að hringja heim úr almenningssímum en frá herbergjum hótela. Ef þú hringir milli landa, þarftu annað hvort að hafa nóg af 5p og 10p mynt eða vera búinn að kaupa sérstök segulspjöld, sem duga í mörg símtöl úr vissum sjálfsölum á brautarstöðvum. Símtöl eru ódýrust kl.18-20 og um helgar. Til Íslands er síminn 010 354.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 999.

Sjúkrahús

Sjúkrahús með slysadeildum í miðborginni eru Middlesex Hospital, Mortimer Street W1, sími 636 8833, St Mary´s Hospital, Praed Street W2, sími 262 1280, og St Thomas´s Hospital, Lambeth Palace Road SE1, sími 928 9292.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritunum Time Out og What´s On og í síðdegisblaðinu Standard. Miðasölur eru víða, þar á meðal í anddyrum stórra hótela.

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 999.

Tannlæknir

Á daginn er neyðarþjónusta tannlækna á Royal Dental Hospital, 32 Leicester Square WC2, sími 930 8831. Eftir kl. 17 er hún á St George´s Hospital, Tooting Grove, Tooting SW17, sími 672 1255.

Vatn

Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Veður

Hringdu í 246 8091 til að fá veðurfregnir.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá ofanverðum vetri 1987. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 5% verðbólgu í Bretlandi.

Verzlun

Flestar verzlanir eru opnar mánudaga-laugardaga 9-17:30 og sumar lengur, í Chelsea á miðvikudögum og í Oxford Street á fimmtudögum. Í mörgum verzlunum geta útlendingar fyllt út eyðublað til að sýna í tolli við brottför og fá síðar endurgreiddan 15% virðisaukaskatt.

Þjórfé

Þjórfé er yfirleitt innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa. Ef svo er ekki, er venja að greiða 15% ofan á reikninginn. Leigubílstjórnar búast við 15% þjórfé. Smápeningar eru gefnir burðarmönnum, hársnyrtifólki og fatagæzlum.

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson

New York veitingar

Ferðir

Veitingahúsin eru eitt bezta dæmið um, að í New York mætast allar þjóðir heims. Af 10.000 matstöðum á Manhattan er aragrúi af erlendum uppruna. Þar er hægt að fara hringferð um hnöttinn án þess að gera annað en sækja veitingastofur. Og það ætlum við einmitt meðal annars að gera í þessum kafla um eina 40 úrvals-matsali.

Þar sem sérgrein New York er hin ýmsa svæðamatreiðsla Bandaríkjanna og matargerð rómönsku Ameríku, látum við hana að sjálfsögðu ganga fyrir asískri og evrópskri matreiðslu, sem einnig er unnt að kynnast í öðrum borgum, svo sem London.

Að öðru leyti er leiðsögnin svipuð og í fyrri bókum þessa flokks. Fyrst er getið uppáhaldsstaða okkar og matargerðarmusteranna, síðan nokkurra fagurra og dýrra veitingasala, þá steikhúsa og annarra bandarískra matstofa, svo rómansk-amerískra og annarra frá enn fjarlægari stöðum, og klykkjum síðast út með delis og diners, pizzum, hamborgurum og pylsum.

Kannanir sýna, að New York búar fara út að borða þriðja hvern dag að meðaltali, enda þarf mikil viðskipti til að halda uppi 10.000 matstofum. Margir þeirra kunna vel að meta góðan mat, svo að mikið er af prýðilegum veitingastöðum í borginni, þótt líka sé töluvert af lélegum og ómögulegum.

Verðið, sem hér er skráð, er miðað við þriggja rétta veizlumáltíð með tiltölulega ódýru víni og kaffi á eftir að kvöldlagi. Þannig eru allir salir metnir á sambærilegu verðlagi. Auðvitað geta menn fengið sér einn rétt og bjór fyrir miklu minna verð, til dæmis í hádeginu.

Í grófum dráttum eru stofurnar í fjórum verðflokkum. Hinar ódýrustu hafa verðlag pizzu-, hamborgara-, deli-, diner- og kínverskra staða. Þar kostaði veizlan fyrir tvo USD 30-50. Næst er meðalflokkurinn, skipaður flestum þjóðlegu húsunum, þar sem veizlan kostaði USD 60-80 fyrir tvo.

Í þriðja lagi koma svo dýru salirnir með USD 100-120 veizlu fyrir tvo og loks hinir ofsadýru, þar sem tveggja manna veizlan fór í USD 140-180, sem er jafnvel dýrara en á Íslandi.

Oyster Bar

Vildarstaður okkar og gamall kunningi frá hverri einustu heimsókn er Oyster Bar niðri í kjallara aðaljárnbrautarstöðvarinnar, Grand Central. Hann er tvímælalaust bezti sjávarréttasalur borgarinnar, enda er hráefnið hvergi ferskara né varfærnislegar eldað.

Yfir gluggalausum salnum eru víðar hvelfingar, skreyttar ljósaperum eins og síkisbrýr í Amsterdam. Þó minnir salurinn fremur á neðanjarðarbrautarstöð í París. Gólfið og hvelfingarnar eru lagðar flísum, sem gera salinn hljóðbæran og hávaðasaman, einkum þegar hann er sneisafullur í hádeginu. En hávaðinn rennur saman í samfelldan klið, sem minnir helzt á baktjaldatónlist.

Þeir, sem ekki þola þennan frábæra merkisbera bandarískrar byggingarlistar veitingahúsa, geta fengið góðu sjávarréttina á rólegri stað í Saloon Room. Milli þessara tveggja sala er bar, þar sem fólk sötrar Manhattan, meðan það bíður eftir borði.

Þjónustan er hraðvirk og örugg, alúðleg og blátt áfram að ítölskum hætti. Þar á ofan vita þjónarnir vel um matinn og matreiðsluna, sem þeir eru að bjóða. Þeir vita til dæmis nákvæmlega, hverjar eru hvaða ostrur og skeljar af tíu-sextán tegundum, sem á boðstólum eru.

Við höfum að sjálfsögðu prófað bandarísku ostrurnar, sem eru öðruvísi en hinar evrópsku. Þær eru Apalachicola, Maine Belon, Bluepoint, Box, Bristol, Chatham, Chincoteague, Cotuit, Golden Mantle, Kent, Malpeque, Maine Marenne, Wellfleet og Westcott Bay.

Þær eru seldar í stykkjatali og kosta USD 1,05-1,85 stykkið. Skeljarnar eru Little Neck og Cherrystone á USD 1 stykkið.
Ostrurnar hafa alltaf reynzt ferskar, svo og humarinn, sem er lifandi til sýnis í stóru glerbúri og seldur eftir vog, á USD 18 pundið. Þriggja punda humar er meðalstór og hæfir tveimur í aðalrétt. Er hann þá ristur eftir endilöngu og beztur snögggrillaður. Munið, að klærnar eru ljúffengastar.

Beztir eru þó fiskréttirnir. Sjálfar fisktegundirnar hafa aldrei verið færri en tuttugu á boðstólum, þegar við höfum verið hér, allar ferskar og raunar nýveiddar, engin fryst. Oyster Bar notar blessunarlega hvorki frystikistu né örbylgjuofn, sem út af fyrir sig eru nytsamlegir hlutir, en mega ekki koma nálægt fiski.

Gestirnir velja sjálfir matreiðsluaðferðina. Skynsamlegast er að biðja um einfalda meðhöndlun, sem hentar góðfiski, fremur en flókna, sem hentar afgangsfiski. Grillun og gufusuða er okkar uppáhald á Oyster Bar. Við höfum prófað bláfisk (bluefish), glefsara (red snapper) og steinbít (catfish), karfa (perch) og bassa (grouper) og getum ekki gert upp á milli þeirra. Flestir fiskréttirnir kosta USD 17-20.

Hin sérgreinin felst í bandarískum hvítvínum. Af þeim hefur Oyster Bar um 120 tegundir á boðstólum, allar á mjög hóflegu verði miðað við almennan markað. Þar á meðal eru mörg fágæt og eftirsóknarverð vín, en engin, sem ekki geta talizt mjög góð.

Miðjuverð þriggja rétta málsverðar með víni var USD 94 fyrir tvo.

(Oyster Bar, Grand Central Station, sími 490 6650, lokað laugardaga og sunnudaga, E3)

Russian Tea Room

Hinn óskastaðurinn er Russian Tea Room, næsti nágranni Carnegie Hall við vestanvert 57. stræti. Hann er sérkennilega búinn eins og Oyster Bar, en býr ekki yfir eins fínlegri matreiðslu. Hins vegar er stemningin svo sérstök og evrópsk, að slíka höfum við ekki séð vestan hafs.

Russian Tea Room var stofnað 1926 af félögum keisaralega rússneska balletflokksins, sem varð innlyksa í New York í sovézku byltingunni. Veitingahúsið hefur æ síðan verið áningarstaður listamanna, einkum þeirra, sem koma fram hverju sinni í Carnegie Hall. Á síðari tímum einnig hins svokallaða fræga fólks, svo sem Nureyevs, Bernsteins, Belafontes, Albees og svo framvegis. Slíkir staðir bjóða yfirleitt vondan mat, en þessi er ein af fáum undantekningum reglunnar.

Matsalurinn er rauður, grænn og gylltur, þungt hlaðinn margs konar skarti, þar á meðal jólaskrauti, sem aldrei virðist tekið niður. Málverkin eru óteljandi og hvert úr sinni áttinni. Þá eru ótal speglar, ljósakrónur, gljáandi tehitunarvélar að rússneskum hætti, svo og klukkur, sem sýna allar misjafnan tíma. Kraðakið er svo smekklaust, að það er fallegt!

Ef fólk vill sitja hér, verður það að taka fram við pöntun, að það vilji ekki fara til Síberíu. Það er óopinbert nafn salarins á efri hæðinni. Þar er rólegra að vera og þar er ekkert af fræga fólkinu. Á báðum stöðum veita rússneskt klæddir þjónar góðan beina.

Fyrst fær fólk sér vodkaglas. Síðan pantar það sér blini-pönnukökur með kavíar af tegundunum beluga, oscietre eða sevruga, og skolar þessu niður með frönsku kampavíni. Kavíarinn er borinn fram í glerskálum á ís, ein únsa eða tæp 30 grömm í glasinu og verðið USD 34-42. Hann gefur munaðinn og rússnesku pönnukökurnar fyllinguna. Þær eru bornar fram með smjöri og léttsýrðum rjóma og eru sérstaklega góðar hér.

Annar ágætis rússaréttur og ekki aðalsættar, heldur bændaættar er borsjt, matarmikil súpa með rauðrófum, gulrótum, kartöflum og öðru grænmeti, einnig eitt af því, sem Russian Tea Room getur verið stolt af. Ýmsir fleiri rússnesskir réttir eru fáanlegir og er þeim lýst á matseðlinum.

Ólíkt öðrum góðum veitingahúsum borgarinnar er staðurinn opinn alla daga vikunnar.

Miðjuverð málsverðar var USD 116 fyrir tvo.

(Russian Tea Room, 150 West 57th Street, milli 6th og 7th Avenues, sími 265 0947, opið alla daga, F2)

Lutece

Nú er röðin komin að matarmusterunum tveimur. Hið fremra þeirra og hið eina í Bandaríkjunum, sem getur att kappi við allra beztu veitingahús Frakklands, er Lutece. Það leynir á sér niðri í illa merktum kjallara nálægt Sameinuðu þjóðunum, milli 2. og 3. strætis.

Flest borðin eru í björtum glerskála að húsabaki, önnur í tveimur litlum herbergjum uppi á hæðinni. Allt er innréttað að frönskum hætti. Í skálanum eru pálmatré, flísagólf, múrsteins-hálfsúlur og smágert tígla-grindverk undir glerþaki.

Hinn heimskunni meistarakokkur, André Soltner frá Alsace í Frakklandi, á þetta musteri, kunnur af því að vera aldrei á fyrirlestraferðum, heldur alltaf á staðnum, gestum sínum til geðs. Kona hans tók afar alúðlega á móti okkur og sjálfur kvaddi hann okkur eins og gamla vini. Auk þess heimsótti hann alla matargesti og ræddi stuttlega við þá, jafnt þá, er hann þekkti, og okkur hina, sem voru þarna í fyrsta sinn.

Geðþekkni þeirra hjóna endurspeglast í þjónustu staðarins. Hinir frönsku þjónar eru jafn alúðlegir við alla, tala frönsku sín á milli, en ágæta ensku við gestina. Okkar þjónn las upp matseðilinn á rólegri ensku, svo að skilja mátti. Hann sinnti okkur mjög vel og var hvorki hofmóðugur upp á frönsku né kumpánlegur upp á amerísku. Þægilegri þjónustu er tæpast hægt að fá í neinu hliðstæðu musteri í Frakklandi.

Mun dýrara er að borða kvöldverð en hádegisverð. Fastur átta smárétta kvöldverður kostaði USD 60, svipað og þrír réttir af matseðli, en þriggja rétta hádegisverðurinn USD 35. Í bæði skiptin stjórnar Soltner matreiðslunni. Hádegisverðurinn hefur auk þess þann kost, að hann þarf ekki að panta með margra vikna fyrirvara eins og kvöldverðinn.

Í okkar hádegi mátti velja milli 23 forrétta, þriggja aðalrétta og ellefu eftirrétta á föstu USD 35 verði. Við prófuðum frábæra artistokka og mjög góða villibráðarkæfu, fengum fína kræklingasúpu að auki, síðan sérstaklega gott, fyllt lambalæri og loks annars vegar mjög góða stikilsberjatertu og hins vegar nákvæmlega rétt þroskaða osta frá Frakklandi. Allir réttirnir voru fallega upp settir og bragðmildir á nýfranska vísu.

Með þessu fékkst hið kunna Chateau Brane-Cantenac 1979 rauðvín á viðráðanlegu verði. Það var á stuttum lista hagkvæmnisvína, en auk þess mátti fá fokdýr vín af löngum lista.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 132 í hádegi, 160 að kvöldi. Eurocard og Visa eru ekki tekin gild.

(Lutece, 249 East 50th Street, austan 2nd Avenue, sími 752 2225, lokað sunnudaga og í hádegi á laugardögum, E/F4)

Cote Basque

Hinn meistarakokkurinn á Manhattan, Jean-Jacques Rachou, á afar fallegan veitingastað, Cote Basque, í hjarta miðborgarinnar.
Bezt er að biðja um borð í aðalsalnum að baki eldhúsganginum. Þar er hlýlegt og bjart, nóg rými milli borða með fögrum búnaði. Litir eru skarpir, ljósir veggir milli dökkra bita. Salurinn einkennist af stórum lágmyndum eftir Bernard Lamotte af höfninni í Saint-Jean-de-Luz.

Þjónustan er afar góð og veitti okkur nytsamleg ráð í matarvali. Glaðværum gestum leið greinilega vel, enda var yfirþjónninn á stöðugum þönum við að fylgjast með, að allt væri í lagi á hverjum stað.

Eins og Lutece er Cote Basque miklu dýrari á kvöldin en í hádeginu, þegar boðið er upp á þriggja rétta málsverð á USD 27. Þá er valið milli um 20 forrétta, um 20 aðalrétta og fjögurra eftirrétta.

Með aðstoð þjónsins völdum við annars vegar frábæra sjávarrétta-kastarholu með saffran og góða kæfu hússins. Síðan mjög góðan mjólkurlambageira og turnbauta með Bordelaise-sósu. Og loks frábæra marens-tertu með skógartíndum jarðarberjum og rjóma.

Raunar gildir um Cote Basque eins og Lutece, að marklaust er að benda lesendum á sérstaka rétti, því að yfirleitt er allt gott. Fólk á því bara að velja það, sem því lízt bezt á. Fara verður varlega í vali víns, því að flest eru dýr.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 110 í hádegi og USD 140 að kvöldi.

(La Cote Basque, 5 East 55th Street, milli 5th og Madison Avenues, sími 688 6525, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, F3)

Four Seasons

Þá víkur sögunni að glæsistöðunum tveimur. Four Seasons er af mörgum talið fegursta veitingahús borgarinnar, teiknað af hinum heimskunna arkitekt, Philip Johnson skýjakljúfa-sérfræðingi, með stuðningi hins enn þekktari Mies van der Rohe, er teiknaði sjálfan skýjakljúfinn, sem veitingastaðurinn er í, Seagram-turninn.

Gengið er upp á aðra hæð, farið um gang með risastóru Picasso-málverki, framhjá Grill Room, sem er kunnasti staður viðskipta-hádegisverða í borginni, inn í Pool Room, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Fyrir gluggum bærast þúsundir málmþráða í léttum andvara. Borðum er lýðræðislega og rúmt skipað á alla vegu umhverfis tjörn í miðjum sal.

Four Seasons er einn af þessum stöðum, þar sem á hverju strái eru þjónar af ýmsum gráðum, sem hver hefur sínu hlutverki að gegna. Enda er þetta einn af allra dýrustu veitingasölum borgarinnar.

Í samræmi við nafn staðarins er skipt um búnað, matseðla, plöntur og þjónsbúninga fjórum sinnum á ári, að hausti, vetri, vori og sumri.

Matseðillinn er snyrtilega saminn í Macintosh-tölvu. Af honum völdum við í forrétt annars vegar kræklinga í karrí með papaya og mangó og hins vegar afar gott, hrásteikt og meyrt dúfubrjóst.

Með aðalréttunum fengum við annars vegar góða sveppi í sítrónusafa og piparsósu og hins vegar mjög gott spínat, saxað og hitað við borðið, borið fram með rjómasósu. Aðalréttirnir sjálfir voru meyr, en bragðdauf filet mignon nautasteik og afar góð kálfasneið, bleiksteikt, borin fram með góðu krabbamauki í artistokkabotni.

Hápunkturinn var svo stoltarterta hússins, sem trónaði efst á eftirréttavagni, afar fallega gerð og enn betri á bragðið.

Matreiðslumeistarinn Seppi Renggli er mikils metinn, en reyndist okkur þó standa að baki hinum tveimur, sem áður er getið í þessum kafla. Réttir hans voru misjafnari að gæðum, sumir mjög góðir, aðrir bara góðir.

Miðjuverð var USD 174 fyrir tvo.

(Four Seasons, 99 East 52nd Street, milli Park og Lexington Avenues, sími 754 9494, lokað laugardagskvöld og sunnudaga, F3)

Ambassador Grill

Hinn glæsisalur borgarinnar er speglasalurinn í kjallara UN Plaza hótels andspænis höll Sameinuðu þjóðanna. Staðurinn er eitt allsherjar speglaverk. Varla er til óspeglaður flötur, nema gólfin. Í veggjum eru stórir speglar og litlir í loftum. Þannig teygist salurinn til allra hliða og endalaust upp til himna. Þetta er engu líkt, ekki einu sinni speglaverkinu á Grand Véfour í París, sem að vísu er fegurra.

Þjónusta og matur er hvort tveggja mjög gott, betra en í Four Seasons, og er Ambassador Grill þó mun ódýrari. Þar er fast verð á mat, USD 24 á mann. Þegar við sóttum staðinn, var boðinn fastur seðill fransks gestakokks og var þar val milli nokkurra rétta í hverjum lið. Auk þess var kostur á seðli hússins, þar sem valið var hliðstætt.

Við völdum í forrétti gott laxa- og lifrarsalat á grænum beði og ágætt lagskipt humarfrauð. Í aðalrétti góða humarköku, vafna í soðið hvítkál, og lítið steikt andabrjóst, afar skrautlega fram borið. Góður spergill fylgdi hvoru tveggja. Í eftirrétti jarðarber með rjóma og eins konar Napóleons-köku með hindberjum í lögum.

Miðjuverð var USD 100 fyrir tvo.

(Ambassador Grill, UN Plaza Hotel, 44th Street og 1st Avenue, sími 702 5014, opið alla daga, E4)

Windows on the World

Útsýnisveitingasalir í skýjakljúfum eru yfirleitt lélegir matsalir, því að útsýnið er látið koma í stað matargerðarlistar. Á slíkum stöðum er skynsamlegast að borða ekki, heldur skreppa aðeins á barinn og njóta útsýnisins fyrir verð eins drykkjar, — brot af verði máltíðar. Þannig er til dæmis kjörið að kíkja inn á barinn á Top of the Sixes.

Skemmtileg undantekning frá þessari reglu er Windows on the World í nyrðri turni World Trade Center. Þar ræður ríkjum ágætis matargerðarlist, þrátt fyrir útsýnið. Veitingasalirnir eru þrír, The Restaurant, Cellar in the Sky og Hors d´Oeuvrerie.

Aðalveitingasalurinn snýr til austurs yfir Brooklyn og norðurs yfir miðbæ Manhattan. Bezt er að biðja um borð með útsýni norður til Midtown, koma nógu snemma til að sjá borgina í björtu og taka kvöldmáltíðina síðan rólega fram í myrkur og ljósadýrð skýjakljúfanna. Sumir telja þetta eitt merkasta útsýni veraldar.

Við prófuðum í forrétti sæmilega sjávarréttasúpu og góðan, grænan spergil, í aðalrétti góða, hrásteikta piparsteik og mjög gott, hrásteikt dádýrakjöt, og í eftirrétti appelsínufroðu og heslihnetuköku. Og komumst að raun um, að fleira væri við staðinn en útsýnið eitt.

Miðjuverð var USD 110 fyrir tvo.

(Windows on the World, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, opið alla daga, A4)

Cellar in the Sky

Ódýrast er að borða á sömu hæð í World Trade Center á Hors d´Oeuvrerie, sem snýr til suðurs yfir sundin og er því kjörið til að fylgjast með undirleik jazzhljómsveitar með sólarlagi á fögrum aftani.

Dýrast er að borða í hinum litla, 36 sæta Cellar in the Sky, þar sem útsýnið er raunar lítið annað en rekkar af flöskum. Samt er hann hinn fegursti og notalegasti af sölunum þremur. Útsýnið fá matargestir af barnum City Lights.

Cellar er eins konar matargerðarmusteri, þar sem gestir setjast allir á nokkurn veginn sama tíma kl. 19:30 að kvöldi að langvinnum, fjögurra stunda og sjö rétta málsverði, þar sem sérstakt vín fylgir hverjum rétti. Allt er innifalið í matarverðinu.

Þrír kunnir kokkar skiptast á um að matreiða tvær vikur í senn. Þetta er einn beztu matstaða borgarinnar. Panta þarf borð með löngum fyrirvara.

Verð fyrir tvo var USD 170.

(Cellar in the Sky, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, lokað laugardaga, A4)

Palm

Þykkar nautasteikur af grilli eru svo bandarískt fyrirbæri, að engin umsögn um veitingahús Manhattan er fullnægjandi án þess að fjallað sé um steikhús borgarinnar. Annað tveggja hinna beztu er Palm í nágrenni hallar Sameinuðu þjóðanna.

Palm er síður en svo fínlegur staður. Gólfið er þakið sagi og veggirnir skrípamyndum af kunnum blaðamönnum. Sérstaklega hávaðasamir karlmenn fylla salina tvo á neðri og efri hæð. Vinsælla er að fá borð á neðri hæðinni. Það er hægt að panta í hádeginu, en ekki er tekið við kvöldverðarpöntunum.

Til skamms tíma komu konur alls ekki í þennan helgidóm karlmanna, en nú hafa manhattanskar blaðakonur gert hann að stammbúlu sinni. Að öðru leyti er Palm sem fyrr einkum matstaður kaupsýslumanna og blaðamanna, jafnan yfirfullur af gestum.

Enginn matseðill er á boðstólum. Í þess stað romsa kærulausir þjónarnir upp úr sér hinu litla, sem þeir muna af framboði staðarins. Það skiptir að vísu engu, því að menn panta sér grillaðan humar eða humarsalat í forrétt, örugglega grillaða sirloin eða filet mignon í aðalrétt og hugsanlega ostaköku á eftir. Annað er út úr kortinu.

Við prófuðum einmitt ágætt humarsalat í forrétt og góða, rosalega stóra sirloin-steik í aðalrétt og sannfærðumst enn einu sinn um, að það, sem Bandaríkjamenn kalla hrátt, er í rauninni meðalsteikt á franska vísu. Fyrirtaks Cabernet Sauvignon frá Mondavi var vín hússins.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 120.

(Palm, 837 2nd Avenue við 44th Street, sími 687 2953, lokað sunnudaga og í hádegi á laugardögum, E4)

Christ Cella

Hitt góða steikhúsið er Christ Cella, borið fram “Krissella” á manhattönsku, á svipuðum slóðum og Palm, en þó nær Grand Central. Það er mun fínlegra en Palm og hefur fleiri konur að gestum, en býður í stórum dráttum sama mat, sömu matreiðslu og sama verð.

Christ Cella er á tveimur hæðum í nokkrum litlum herbergjum, einfalt í sniðum, en ekki með sagi á gólfi eða kroti á veggjum. Neðri hæðin er betri. Þjónarnir eru miklu kurteisari en í Palm og muna meira af framboði staðarins. Það skiptir að vísu ekki máli hér, því allir kalla “Lobster salad, grilled sirloin medium rare, cheesecake, please”.

Í stað humarsalats prófuðum við mjög gott krabbasalat og gott rækjusalat. Með steikunum fengum við annars vegar gott Caesarsalat og hins vegar fyrirtaks tómatsalat. Við prófuðum að gamni bæði filet mignon og sirloin steikur og fannst filet mignon betra. Það var meyrara, nánast eins og smjör og alveg jafn bragðmikið og sirloin-steikin. Alveg eins og í Palm voru steikurnar hnausþykkar og víðáttumiklar, nægilegar til viku viðurværis. Samt bað enginn gestanna um “doggy bag”.

Með steikum af þessu tagi er tilvalið að drekka kalifornísk rauðvín. Við vorum heppin, er við völdum Simi Cabernet Sauvignon frá Alexander Valley.
Miðjuverð var USD 120 fyrir tvo.

(160 East 46th Street, milli Lexington og 3rd Avenues, sími 697 2479, lokað sunnudaga, E4)

American Place

Bandarískur matur í nýfrönskum stíl hefur verið í tízku á Manhattan í nokkur ár. Tízkan felst í, að teknar eru gamlar ömmu-uppskriftir frá ýmsum héruðum landsins og lagaðar að hinni léttu nútímamatreiðslu, sem átti uppruna sinn í Frakklandi um og upp úr 1970. Þannig hefur mörgu gömlu og góðu verið bjargað frá gleymsku, alveg eins og þegar gömlum og góðum húsum er bjargað frá rifi með því að innrétta þau til nútímanota.

Helzta matargerðarmusteri þessarar stefnu er hið rándýra veitingahús An American Place í hinu auðuga Upper East Side hverfi. Það á matreiðslumeistarinn Larry Forgione, sem áður gerði garðinn frægan á River Cafe, meðan það var og hét.

Bleikur salurinn er einfaldur og menningarlegur, svo og notalegur eins og þjónarnir, sem útskýra í smáatriðum, hvernig hver réttur er hugsaður og framinn, svo og hvaðan hann er upprunninn. Þeir kunna líka að útskýra, hvers vegna þeir telji þetta rauðvínið henta betur en hitt með hinum útvalda aðalrétti.

Fast verð er á málsverði í American Place. Fyrir það er hægt að velja milli um átta forrétta, átta aðalrétta, átta eftirrétta og amerískra osta af bakka.

Í forrétt prófuðum við ágætan Maine humar með blaðlauk, hvort tveggja grillað, borið fram með ristaðri papriku í vínigrettu. Í aðalrétti fengum við annars vegar góðan innanlærisvöðva af vorlambi með lambakjötssoði og kartöflustöppu. Hins vegar frábæra, kryddlegna og grillaða kornhænu með kartöflustöppu og smurðum sykurbaunum. Í eftirrétt prófuðum við Banana Betty, sem reyndist vera sérstaklega ljúf og létt vanillusósa með banönum og skorpu úr púðursykri og brauðmylsnu. Amerísku ostarnir voru flestir góðir geitaostar.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 180, hið hæsta í þessari bók.

(An American Place, 969 Lexington Avenue milli 70th og 71st Streets, sími 517 7660, lokað sunnudaga, H4)

Odeon

Annar, mun ódýrari matsalur af þessu nýbandaríska tagi, en samt dýr, er Odeon í gamalli kaffistofuinnréttingu suður í hinu nýlega listamannahverfi TriBeCa. Það er líka hressilegri staður, einkum seint á kvöldin og eftir miðnætti, þegar hátízku-listafólkið mætir í ræflarokkstuði, gult og rautt og blátt. Þá er hér setinn bekkurinn, mannhaf á barnum og mikið um að vera.

Í hádeginu er yfirbragðið annað, rólegra og hversdagslegra, þegar matvísir bankamenn koma frá hinu nálæga Wall Street, þar sem hvergi er hægt að fá mat, sem jafnast á við þennan.

Ritað hefur verið, að tízkumatstofum sé skylt að bjóða skítafæðu. Sé maturinn góður, muni verða talið, að fólk troðist inn vegna matarins, en ekki til að glápa á frægðarliðið. Slíkt muni skerða sjálfsálit og sjálfstraust frægðarliðsins.

Kunnasti staður af því tagi á Manhattan er Elaine, þar sem Woody Allen situr nánast daglega og nýtur þess að láta ferðamenn horfa á sig borða óþverramat, sjálfur í sælli vissu þess, að ferðamennirnir séu að horfa á hann og ekki að hugsa um matinn eða ónotalegheitin í kerlingunni, sem á staðinn.

Samkvæmt þessu felast mistök Odeon í að hafa ráðið ágætan matreiðslumann, Patrick Clark, til að framreiða meistaramat að ný-bandarískum hætti. Sömuleiðis hlýtur frægðarliðið að eiga eftir að átta sig á, að maturinn er góður. Þegar það gerist, hlýtur Clark að verða rekinn.

Erfitt er að benda á sérstaka rétti í Odeon, því að ört er skipt um matseðil. Gáið að sniglum, kræklingi og ostrum, ferskum fiski, kálfa- og kjúklingalifur, jafnvel nautasteikum.

Miðjuverð var USD 100 fyrir tvo.

(The Odeon, 145 West Broadway við Thomas Street, sími 233 0507, opið fyrir matarpantanir til 02:30, lokað í hádegi á laugardögum, A3)

Tastings I

Nú finnst flestum sjálfsagt tímabært að bókarhöfundar flytji sig af dýru veitingahúsunum til þeirra, sem bjóða mat á því meðalverði, sem gildir á Manhattan. Og svo vel vill til, að einmitt eitt beztu veitingahúsanna, sem bjóða áðunefndan ný-bandarískan mat, er einmitt í þeim flokki. Það er Tastings I, vel í sveit sett í miðbænum.

Staðurinn er lítill og langur og grænleitur, einkar notalegur, að nokkru leyti slitinn sundur af löngum borðvínsbar og rekkum með flöskum frægra borðvína. Einn vegghlutinn er klæddur trégöflum kassa utan af heimskunnum vínum.

Hvítvín og rauðvín eru einmitt sérgrein hússins. Vínlistinn spannar 290 tegundir, flestar sérstaklega vel valdar. Af þeim er hægt að fá hverju sinni um 24 tegundir í glasavís, bæði í 5 únzu glösum og 3 únzu glösum fyrir smakkara. Glasið af hinum síðarnefndu kostaði yfirleitt um USD 2,25. Þetta er kjörinn staður til að reyna sum af hinum frægu góðvínum Kaliforníu, sem sjást svo sjaldan í Evrópu.

Matseðillinn er stuttur. Af honum prófuðum við í forrétti ágæta tómat- og sveppasúpu, svo og jafngóða smjördeigsbollu með hörpufiskjafningi. Í aðalrétti mjög gott salat kokksins með tómat-, krabba- og kartöflubitum í sósu, svo og sæmilegar gular hveitilengjur með papriku-, rækju- og hörpufiskbitum. Á eftir fengum við frábæra osta með kexi og ávöxtum.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 76.

(Tastings I, 144 West 55th Street milli 6th og 7th Avenues, sími 757 1160, lokað sunnudaga, F2)

Texarkana

Röðin er komin að svæðisbundnu veitingastöðunum, er bjóða mat frá þeim héruðum, sem hafa búið við sérkenni í matargerðarlist. Eitt svæðanna er Texas, þar sem orðið hefur til sérstök matreiðsla, er byggist á mexikönskum grunni og er með bandarísku ívafi.

Texarkana er bezti fulltrúi þessarar matreiðslu á Manhattan. Það er stórt veitingahús í Greenwich Village, skammt norðan við Washington Square. Að innan eru kúrekakrár lítillega stældar, svo sem með innanhússvölum. Þar uppi eru borð, en aðallega er þó snætt niðri.

Ekkert kúrekalegt er við bleika veggi né borðbúnað, hvíta dúka og munnþurrkur, né heldur við elskulega þjónustu. Að flestu leyti er þetta hinn notalegasti staður, ef til vill of virðulegur rammi utan um hina bragðsterku og ákveðnu matreiðslu.

Við prófuðum í forrétt gumbo, hina frægu súpu Mexikóflóasvæðisins. Þetta var bragðsterk, krassandi og seðjandi okrafræbelgja- , hrísgrjóna- og kjúklingasúpa, krydduð með lárviðarberki. Ennfremur kryddlegnar og léttsoðnar rækjur, sérkennilega skemmtilegar á bragðið.

Annar aðalrétturinn var hinn kunni “stolni svartfiskur”. Að þessu sinni var það sjóbleikja, sem var þakin þykkri kryddblöndu og brennd á pönnu, svo að úr varð stökk og bragðsterk skorpa utan um mjúkan fiskinn. Þetta var skemmtilegur réttur og óvenjulegur.

Hinn aðalrétturinn fólst í “krabbakökum”, einhverjum beztu pönnusteiktu fiskibollum, sem við höfum fengið, bornum fram með tveimur sósum, tartarasósu og sterkri cayenne-eggjasósu. Með aðalréttunum fengum við svartaugnabaunir og “skítug hrísgrjón”, það er að segja blönduð smáum lifrar- og kjötbitum.

Texarkana er nokkuð dýr staður. Miðjuverð var USD 104 fyrir tvo. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.

(Texarkana, 64 West 10th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 254 5800, lokað í hádegi sunnudaga og mánudaga, B1)

Cajun

Cajun er slangur yfir franskættaða landnema, sem fyrst settust að á austurströnd Kanada, en fluttust síðan til New Orleans og Louisiana. Um leið er orðið stundum notað um New Orleans matreiðslu, þótt orðið creole sé raunar oftar notað. Og á Manhattan er hinn ódýri veitingastaður Cajun bezti fulltrúi slíkrar matargerðar.

Cajun er nokkuð stór matsalur sunnarlega í hverfinu Chelsea, nálægt mörkum Greenvich Village. Innréttingar eru einfaldar og á veggjum hanga plaköt, sem minna á Mardi Gras, sprengidag þeirra í New Orleans. Í fyrsta skipti á Manhattan sáum við pappírsþurrkur á borðum alvörustaðar.

Aðalvopn staðarins, þegar við sóttum staðinn, var sjö manna dixie-band, Stanley´s Washboard Kings, sem lék af þrótti fyrir fjörugum og góðglöðum hópum gesta. Dixie-sveitir eru jafnan í Cajun á kvöldin.

Þarna var að sjálfsögðu hægt að fá gumbo og jambalaya, svo og “svartfisk” eins og í Texarkana. Við prófuðum hins vegar í forrétt afar gott creóla-salat, eins konar Caesar-salat á Louisiana-vísu.

Í aðalrétti fengum við okkur fjórar stórar, sprengdar úthafsrækjur með plokkfiskfyllingu og hrísgrjónum, grillaðar og góðar. Einnig góðar, soðnar rækjur, bornar fram með hrísgrjónum og grænmetisjafningi.

Tvær sérgreinar urðu fyrir valinu í eftirrétti. Pecan-hnetutertan var mjög góð og heiti brauðbúðingurinn með viskísósu var skemmtilegur, en líklega sérstaklega fitandi.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 62. Erum við þá loks komin niður í hófsamleg verð í þessum kafla.

(Cajun, 129 8th Avenue við 16th Street, sími 691 6174, lokað í hádeginu á laugardögum, A1)

Carolina

Enn einn markverði suðurríkjastaðurinn er Carolina í leikhúshverfi miðbæjarins. Þótt hann heiti eftir Carolina-ríkjunum, leitar hann fanga víðar í matreiðslu Bandaríkjanna, þar á meðal í heitreykingu suðvesturríkjanna, þar sem maturinn er eldaður afar hægt við mjög vægan hita frá viðarreyk.

Flestir vilja borða í speglasal garðhússins að baki fremri salarins og eldhússins. Þar eru aðeins um tuttugu sæti, en virðast þúsund, því að veggirnir eru alspegla. Þjónustan fellur hinum atvinnulausu leikurum vel úr hendi. Bezt er að fá sæti kl. 20:30, þegar fyrri hópur gestanna er farinn í leikhús og hinn síðari ekki kominn úr því.

Við prófuðum í forrétti eins konar paprikugraut með nautakjötbitum og viðarkolaeldað kjöt á grænmetisbeði, hvort tveggja ágætt. Í aðalrétti fengum við ágætar, rauðpipraðar rækjur og sérstaklega góða sérgrein hússins, heitreykt nautarif að hætti suðvesturríkjanna. Viskívætt rúgkaka með kremi var frábær eftirréttur.

Sérkennilegt var að sitja í glitrandi nýtízkulegum matsal og snæða stóra skammta af sérkennilega groddalegum og þrælkrydduðum mat.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 82.

(Carolina, 355 West 46th Stret, milli 8th og 9th Avenues, sími 245 0058, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, E2)

Sabor

Við yfirgefum nú Bandaríkin og höldum suður álfuna. Fyrst verður fyrir okkur Kúba. Bezti fulltrúi kúbanskar matreiðslu á Manhattan er Sabor, valinkunn og óformleg matarhola, annasöm, hávær og glaðvær, á jazzklúbbasvæðinu í Greenwich Village.

Við fengum í forrétti ágætis gufusoðna kræklinga í saffranblandaðri tómatsósu (zarzuela de mejillones) og enn betri kældan, soðinn graffisk (escabeche). Í aðalrétti prófuðum við afar góðan heilbakaðan bláfisk í grænni, kryddaðri vínsósu (pargo en salsa verde) og sæmilegan kolkrabba með ýmsu kryddi (pulpo a la Sabor). Að lokum snæddum við ferskan ananas og skemmtilega óvenjulegan sérrívættan kókoshnetugraut með kanil og þeyttum rjóma (coco quemado).

Miðjuverð nam USD 72 fyrir tvo.

(Sabor, 20 Cornelia Street, milli Bleecher og West 4th Street, sími 243 9579, opið alla daga, A2)

Rosa Mexicano

Bezta mexikanska matstofan á Manhattan er Rosa Mexicano austast í miðbænum, á mótum hans og Upper East Side, snyrtilega og vandlega innréttaður staður, brúnn og bleikur á litinn, í nútímalegum stíl með veggjaflísum og renndum húsbúnaði. Líta má á hann sem lúxusútgáfu slíks veitingahúss, en verðið er í meðallagi á Manhattan-mælikvarða, þótt þjónustan sé í bezta lagi.

Í annan forréttinn fengum við mexikanska réttinn guacamole, búinn til úr avocados-ávöxtum, lagaðan við borðið, frábæran á bragðið. Hinn var ágætur sítrónuleginn og kryddaður hrár fiskur, ceviche.

Annar aðalrétturinn var ekki síður mexikanskur, enchiladas. Það voru tvær tortilla-maískökur, fylltar kjúklingakjöti og hlaðnar lauk og osti, góður matur. Hinn var ágætis rauð nautasteik í samloku, pepitos, með pönnusteiktum baunum.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 76.

(Rosa Mexicano, 1063 1st Avenue, við 58th Street, sími 753 7407, opinn alla daga, F4)

Brazilian Pavilion

Brazilía á einnig sinn höfuðstað á Manhattan, Brazilian Pavilion á svipuðum slóðum og Rosa austast í miðbænum. Þetta er notalegur salur í grænum og hvítum litum, teppalagður og mildilega lýstur. Þjónusta er afar góð, eins og raunar víðast hvar í veitingahúsunum, sem getið er í þessum kafla.

Við prófuðum ágætt Brazilíu-salatið, sem var með olífum og verulega hvítlaukskryddað, svo og umfangsmikla súpu dagsins. Annar aðalrétturinn var að sjálfsögðu saltfiskur (bacalhau) dagsins, þeyttur í frauð og með vægu saltfiskbragði, borinn fram með góðri baunasósu, fínn matur. Hinn var gott kálfakjöt með snitzel-sniði. Eftirréttirnir voru guava-ávöxtur með osti, svo og kókoshnetumauk með rjóma, hvorir tveggja góðir. Fyrirmyndar Brazilíu-kaffi fylgdi á eftir.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 60, sem er einkar hagstætt.

(Brazilian Pavilion, 316 East 53rd Street, milli 1st og 2nd Avenues, sími 758 8129, lokað sunnudaga, F4)

Sammy´s Rumanian

Nú víkur sögunni að veitingastöðum annarra álfa en Ameríku. Við byrjum á flóttamannastöðum Evrópu og þá verður fyrst fyrir frægasta veitingahús gyðinga á Manhattan. Það er Sammy´s Rumanian Jewish Restaurant niðri í kjallara í fátæklegu gyðingahverfinu Lower East Side, rétt hjá skranmarkaði Orchard Street.

Lágt er til lofts og veggir hlaðnir þreytulegum minjagripum og póstkortum. Að miðevrópskum hætti er oft leikið á píanó og fiðlu, meðan gestir hesthúsa ókjörin öll af fylltum kálbögglum, grillsteikum, kálfabjúgum og kartöflu-pönnukökum.

Miðjuverð er USD 80 fyrir tvo.

(Sammy´s Rumaninan, 157 Chrystie Street við Delancey Street, sími 673 0330, lokað í hádeginu, C3)

Ballato

Ítalskir veitingastaðir eru einkennisstaðir New York, en því miður ekki margir í samkeppni um gæði. Hinn bezti þeirra er hinn litli og notalegi Ballato, sem lætur lítið yfir sér við Houston Street, hina kunnu götu gangstéttaverzlunar milli Greenwich Village og Little Italy.

Úr matsalnum sést beint inn í eldhúsið, þangað sem margir gesta eiga erindi og kunningsskap. Borðvín verða menn að koma með sjálfir, en það fæst í næstu búðum.

Hin aldna frú Ballato eldar hér ítalskan heimilismat, spaghetti, maccaroni, manicotti, tagliatelli og svo framvegis, fyrir utan ágætis kolkrabba og rækjur, svo ekki sé talað um frábært kálfakjötið. Hér má fá í eftirrétt óvenjugott zabaglione
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 76. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Ballato, 55 East Houston Street milli Mott og Mulberry Streets, sími 226 9683, lokað sunnudaga, B2)

Café des Sports

Til eru fleiri frönsk matsöluhús en dýru matarmusterin. Bezti fulltrúi venjulegrar matreiðslu frá Gallíu á hóflegu verði er Café des Sports í leikhúshverfinu vestan Broadway, dæmigerð sveita-bistró. Þar borða vinir eigandans og kokksins Lucien Lozach, þar á meðal matreiðslumenn nágrannastaðanna, og hlæja hátt á frönsku.

Eins og víða á Manhattan er komið inn á langan bar, sem einstæðingar geta borðað og drukkið við, með einni borðaröð við hliðina og lítilli veitingastofu innan við. Innréttingar eru broddborgaralega og heimilislega gamaldags. Í tveimur heimsóknum okkar reyndust flestir gestirnir vera frönskumælandi og margir þeirra hálfgerðir heimilisvinir.

Við prófuðum frambærilega snigla og mikið magn af mjög góðum lárperum (avocados) í forrétti, í aðalrétti ofeldaðar froskalappir í hvítlauk og ágæta piparsteik. Vegna yfirvofandi leikhúss misstum við af eftirréttum. Annars er rólegast hér og bezt, einmitt meðan leiksýningar standa.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 64.

(Café des Sports, 329 Eest 51st Street milli 8th og 9th Avenues, sími 581 1283, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, F2)

Rincón de Espana

Rétt sunnan við Washington Square í Greenwich Village er aðalstaður spánskrar matreiðslu á Manhattan, dimmur og hávaðasamur salur með gítarspili og gestasöng. Þrengra hafa sáttir sjaldan setið, en þjónusta er góð og flestir gestir virtust hinir kátustu.

Við prófuðum sæmilegt kóngskrabbasalat í forrétt og ágætis lambakótilettur í aðalrétt. Einnig fengum við hinn kunna spánska rétt, paella, matarmikla, með humri, rækjum, kræklingi, hörpudiski og kjúklingi.

Miðjuverð var USD 64 fyrir tvo.

(El Rincón de Espana, 226 Thompson Street milli Bleecker og West 3rd Streets, sími 260 4950, opið alla daga, B2)

Pantheon

Tiltölulega ódýr og góður grískur staður, vel í sveit settur í leikhúshverfinu, er Pantheon, bjartur og yfirlætislítill staður góðrar þjónustu. Þar má fá ágætis taramosalata, kefteðes, músaka, baklavas og aðra rétti ættaða frá Miðjarðarhafslöndunum austanverðum.

Miðjuverð fyrir tvo var USD 60. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Pantheon, 689 8th Avenue milli 43th og 44th Streets, sími 664 8294, lokað laugardaga, E2)

Siam Inn

Bezti fulltrúi thailenzkrar matreiðslu er hinn ódýri Siam Inn í norðurenda leikhúshverfisins, nálægt Central Park. Það er lítil og hreinleg hola með thailenzkum heimilisiðnaði á veggjum, sérstaklega kurteisri þjónustu og skemmtilegum Thailandsmat, svo sem karríréttum, kryddhúðuðu kjöti og austrænum ávöxtum.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 47. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.

(Siam Inn, 916 8th Avenue milli 54th og 55th Streets, sími 489 5237, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, F2)

Kuruma Zushi

Japanskir matsölustaðir eru fleiri og fjölbreyttari á Manhattan en í samanlögðum höfuðborgum Evrópu. Beztir þeirra eru sushi-barirnir og þar er fremstur í flokki Kuruma Zushi í miðju verzlanahverfi miðbæjarins.

Sushi eru smáréttir, eins konar hanastélspinnar úr þangsoðnum hrísgrjónum, sem eru látin loða saman með blöndu ediks, salts, sykurs og krydds -og þakin ýmsu smakki, aðallega hráu og kryddlegnu úr sjónum. Á sushi-börum kemst austræn matargerðarlist næst hinni beztu matreiðslu Frakklands.

Kuruma Zushi er sérstaklega hreinlegur og stílhreinn staður, svo sem títt er um japanska veitingasali. Skemmtilegast er að sitja á barnum og horfa á matreiðslumennina búa til smáréttina. Þar er líka auðveldast að velja sjávarréttina, sem eru undir gleri á barnum, og snæða þá hvern á fætur öðrum, unz úr er orðin heil máltíð.

Handbragð kokksins og þjónusta var hvort tveggja frábært, sem og maturinn, er hann útbjó fyrir okkur. Það var allt saman hrár, kryddleginn fiskur, svo sem túnfiskur, kolkrabbi, rækjur, hrogn og ótalmargt fleira. Sumt fengum við vafið inn í þangblöð. Með þessu drukkum við japanskt saki. Í eftirrétt prófuðum við gott mangó og melónur.

Miðjuverð var USD 80 fyrir tvo. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.

(Kuruma Zushi, 18 West 56th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 541 9030, lokað laugardaga og sunnudaga, F3)

Hatsuhana

Mjög svipaður sushi-bar sunnarlega í verzlunarhverfi miðbæjarins er Hatsuhana, mun ódýrari og ekki eins frábær að gæðum. Öll húsaskipan og aðferðafræði er svipuð og í Kuruma Zushi. Eins og þar er hér bezt og skemmtilegast að sitja við barinn, velja úr glerskápunum og horfa á matreiðsluna.

Við prófuðum túnfisk, bleikju, reyktan lax, rækjur, smokkfisk, kolkrabba, sæfífil, laxahrogn, skelfisk, makríl og þorskhrogn, allt gott.

Miðjuverð nam USD 60 fyrir tvo.

(Hatsuhana, 17 East 48th Street milli Madison og Park Avenues, sími 355 3345, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, E3)

Dárbar

Engin stórborg er án hressilegrar matargerðar Indlands. Bezti indverski veitingastaðurinn á Manhattan er Dárbar í miðju verzlanahverfi miðbæjarins. Hann er afar indverskt skreyttur ótal listaverkum og óvenju virðulegur af slíkum stað að vera, með sveigðum stiga upp á innisvalir á annarri hæð. Þetta er notalegur staður kurteisrar þjónustu með indverskan sítar að tjaldabaki.

Við prófuðum verðtilboð staðarins, sunnudagshlaðborð í hádeginu. Þar mátti fá sýnishorn af ýmsum þekktustu réttum Indlands, svo sem kryddhúðaðan kjúkling, stökkt brauð, spjótrekið kjöt, kryddað lambakjöt, baunarétti og blandað grænmeti. Þetta var gott, en hefði auðvitað verið bæði betra og dýrara, ef það hefði verið sérpantað og ekki af hlaðborði. Með þessu þurfti mikið af bjór til að slökkva í kryddinu.

Við borguðum USD 40, en af matseðli hefði miðjuverð fyrir tvo orðið USD 84.

(Dárbar, 44 West 56th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 432 7227, opið alla daga, F3)

Bombay Palace

Hinn góði Indlandsstaðurinn á Manhattan er Bombay Palace, einnig í miðju verzlanahverfi miðbæjarins, glæsilegur salur, einkum niðri, þar sem borðað er eftir matseðli. Uppi er svipað hádegishlaðborð og í Dárbar.

Við fengum okkur einn af föstum málsverðum staðarins. Hann fólst í kryddlegnum kjúklingi og rækjum úr leirofni, krydduðum kjúklingi og lambakjöti á spjóti, ýmsu grænmeti og stökku brauði, flest mjög gott. Einkum var gott höfuðatriði máltíðarinnar, kryddlegni kjúklingurinn.

Allt í kringum okkur sátu Sikhar að snæðingi og voru hinir friðsamlegustu að sjá.
Miðjuverð var USD 70 fyrir tvo.

(Bombay Palace, 30 West 52nd Street milli 5th og 6th Avenues, sími 541 7777, opið alla daga, F3)

Say Eng Look

Fyrir hamborgaraverð er skynsamlegast að borða í hinum ódýru kínversku matsöluhúsum og er þó kínversk matreiðsla með hinni virðulegustu í heimi, það er að segja á þeim stöðum, sem ekki einkennast af ferðamönnum. Bezt er auðvitað að borða, þar sem Kínverjarnir borða sjálfir. Say Eng Look er einn af slíkum veitingasölum, í austurjaðri Kínahverfisins, við austurhlið Bowery.

Kínversk matreiðsla er margvísleg og skiptist í ýmsa flokka, svo sem Kanton, Sjanghai, Hunan, Sikkuan og Peking. Say Eng Look er Sjanghai-staður, hinn bezti slíkra í borginni. Hann er líka óvenjulega snyrtilegur, jafnvel á salerni. Í matsalnum eru veggir rauðir, súlur og bitar svartir og á veggjum eru mildar drekaskreytingar kínverskar.

Meðan við skoðuðum gífurlega langan matseðilinn fengum við kjötsultu og keyptum góðan, kínverskan bjór. Síðan völdum við fisk, rækjur og kjúkling, allt góðan og bragðsterkan mat, valinn úr matseðils-kaflanum yfir sérrétti hússins.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 47, frábær kaup.

(Say Eng Look, 5 East Broadway við Chatham Square, sími 732 0796, opið alla daga, C4)

Hee Sung Feung

Bezti smáréttastaður kantonskar Kína-matreiðslu er Hee Sung Feung í austurkanti Kínahverfisins, við hina frægu rónagötu Bowery. Smáréttir þessir eru bragðmildir, nefnast dim sum og fást aðeins í hádeginu. Staðurinn er einfaldur í sniðum, með kínverskum drekum á veggjum og jafnan fullur af Kínverjum. Ekki er ráðlegt að heimsækja salernin.

Dim sum er afgreitt þannig, að um salinn er ekið vögnum, hlöðnum smáréttum, flestum gufusoðnum. Gestirnir benda á það, sem þeir vilja. Samtals eru smáréttirnir um eða yfir 50. Við völdum kjúklingafætur, svínarif, sesam-kjúklinga, rækjunúðlur, smárækjurúllur og krabbaklær, flest gott og sumt mjög gott.

Miðjuverð var USD 30 fyrir tvo, hlægilega lágt verð fyrir veizlumat á Manhattan. Við notuðum USD 20. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Hee Sung Feung, 46 Bowery sunnan við Canal Street, sími 374 1319, opið alla daga, C3)

Hwa Yuan Szechuan

Bezti kínverski staður sikkuan-matreiðslu er Hwa Yuan Szechuan, nágranni Say Eng Look í Kínahverfinu. Ekki er mikið lagt í innréttingar, en maturinn er þeim mun betri. Kokkarnir heimsækja gesti að frönskum sið. Maturinn er mun kryddaðri og bragðsterkari í sikkuan-matstofum en til dæmis á kantonskum stöðum og svo er einnig hér.

Miðjuverð var USD 40 fyrir tvo, afar góð kaup.

(Hwa Yuan Szechwan, 40 East Broadway milli Catherine og Market Streets, sími 966 5534, lokað föstudaga og laugardaga, C4)

Brasserie

Dæmigerðir fyrir Manhattan eru matsölustaðir, sem eru opnir allan sólarhringinn, fæstir kunnir að góðri matargerð. Undantekning er Brasserie austarlega í verzlunarhverfi miðbæjarins, afar snyrtilegur og nýtízkulegur staður glaðværra gesta, einkum þeirra, sem koma í morgunmat klukkan þrjú að morgni. Morgunmaturinn er raunar tromp staðarins. Brasserie er kjörinn áningarstaður þeirra, sem hafa annað tímaskyn en hefðbundið fólk.

Við prófuðum í kvöldverð sæmilega lauksúpu og Búrgundarsnigla sem forrétti og sem aðalrétti jafn sæmilega nautasteik og afleitt tartarabuff.

Miðjuverð fyrir tvo nam USD 70.

(Brasserie, 100 East 53rd Street milli Park og Lexington Avenues, sími 751 4840, opið alla daga allan sólarhringinn)

Carnegie Deli

Deli er stytting úr Delikatessen, sérstöku fyrirbæri veitingahúsa, sem bandarískir gyðingar hafa gert frægt. Þetta eru ódýrir staðir, eins konar hamborgarasjoppur, en með allt öðrum og betri mat, einkum samlokum. Frægasta, ein elzta og sennilega bezta matstofa af þessu tagi á Manhattan er Carnegie Deli norðarlega í leikhúshverfinu, vinsæll áningarstaður leikara og sýningargesta að lokinni leiksýningu.

Í Carnegie Deli höfum við fengið í morgunverð þá beztu ostaköku, sem við munum eftir. Annars er staðurinn frægur fyrir samlokur og eggjarétti. Hamborgarar kosta tæpa USD 5.

Miðjuverð máltíðar fyrir tvo var USD 62. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Carnegie Deli, 854 7th Avenue milli 54th og 55th Streets, sími 757 2245, opið alla daga, F2)

Empire Diner

Diners eru al-bandarískt fyrirbæri, málmkenndir staðir, sem minna á járnbrautarvagna, oft í Art Decco stíl upphafsára þessarar aldar. Svo er um Empire Diner, hinn frægasta þeirra, svartan og krómaðan, nokkuð afskekktan í Chelsea og raunverulega utan við kortasvið þessarar bókar.

Empire Diner er opinn næstum allan sólarhringinn, vinsælastur sem morgunverðarstaður nátthrafna klukkan þrjú-fjögur að morgni.
Miðjuverð matar fyrir tvo var USD 40.

(Empire Diner, 210 10th Avenue við 22nd Street, sími 243 2736, opið alla daga nema 05-08 á mánudagsmorgnum)

John´s Pizzeria

Pizzur eru dæmigert bandarískt fyrirbæri, þótt þær kunni að vera upprunnar á Ítalíu. Þær hafa flætt frá Bandaríkjunum um heiminn. Á Manhattan er auðvitað fullt af pizzeríum. Bezt þeirra er John´s Pizzeria í Greenwich Village.

Matsalurinn er orðinn nokkuð laslegur og þjónustan er ekki upp á marga fiska, en pizzurnar eru alltaf jafngóðar. Þær eru bakaðar í tígulsteinsofnum, afgreiddar með léttbrenndri skorpu og ferskum hráefnum í fyllingu. Fólk fer langar leiðir til að standa í biðröð eftir pizzu á John´s.

Miðjuverð máltíðar fyrir tvo var USD 30, góð kaup. Krítarkort eru ekki tekin.

(John´s Pizzeria, 278 Bleecker Street sunnan við 7th Avenue, sími 243 1680, opið alla daga, A1)

Nathan´s Famous

Elzti og frægasti pylsusali New York er Nathan, upprunnin á Coney Island. Nú er þekktast risastórt útibúið á Broadway, þar sem menn sitja við barinn og fá sér bjór og eina, ekki með öllu, heldur því, sem hugurinn girnist í það skiptið. Betri pylsur eru ekki fáanlegar á Manhattan, en ýmislegt fleira fæst þar, ekki í frásögur færandi.

Miðjuverð máltíðar fyrir tvo nam USD 30. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Nathan´s Famous, 1482 Broadway við Times Square og 43rd Street, sími 382 0620, opið alla daga, E2)

Jackson Hole

Til viðbótar við delis, diners, pizzuhús og pylsukrár eru auðvitað hamborgarastaðirnir eitt hið bandarískasta af öllu bandarísku. Hinn bezti þeirra er Jackson Hole í Upper East Side. Þar fást sérstaklega þykkir og safaríkir og hæfilega mildilega steiktir hamborgarar fyrir matgæðinga.

Miðjuverð máltíðar fyrir tvo nam USD 30. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Jackson Hole Burgers, 232 East 64th Street milli 2nd og 3rd Avenues, sími 371 7187, lokað sunnudaga, G4).

1988

© Jónas Kristjánsson

London skemmtun

Ferðir

Ekkert er auðveldara en að drepa tímann í London. Sumum finnst fátt skemmtilegra en að láta aka sér um í heimsins beztu leigubílum. Veitingahúsin eru heill heimur, svo sem fram hefur komið í kaflanum hér að framan.

En svo er fjölbreytt skemmtanalífið með eitthvað fyrir alla. Sumir sækja leikhúsin fast og aðrir bíóin. Enn eru þeir, sem láta sig dreyma um að dveljast löngum stundum á ölstofum. Svo eru það diskó-klúbbarnir og jazzstaðirnir. Ekki má heldur gleyma knattspyrnunni á laugardögum. Loks er ýmiss konar vel auglýst skemmtun handa ferðamönnum, sem er svo ómerkileg, að hennar verður ekki frekar getið í þessari bók. En víkjum að þeirri skemmtun, sem er sönn í London.

Covent Garden

Kraftaverkið hefur gerzt. London hefur, eins og aðrar borgir, eignazt sitt Lækjartorg, sína þungamiðju heimamanna og ferðamanna, Covent Garden (F2).
Fyrir áratug var fluttur á brott hinn frægi ávaxta- og grænmetismarkaður og eyðimörk varð eftir. En nú hefur markaðssvæðið verið gætt lífi á nýjan leik með skipulögðu átaki. Það er iðandi af lífi með útikaffihúsum, ölsvölum, hljóðfæraslætti og húllumhæi.

Sjálft markaðshúsið er frá 1832, en járn- og glerhvolfin eru nokkru yngri. Nú hafa hér verið innréttuð kaffihús, ölstofur og vínbarir, smáverzlanir, tízkubúðir og útimarkaður.

Fyrir framan er hin næstum 350 ára kirkja heilags Páls, eftir hinn kunna arkitekt Inigo Jones, fegursta og fyrsta gnæfræna hverfiskirkjan í London. Nú er hún útfararkirkja leikarastéttarinnar.

Á opna svæðinu milli markaðs og kirkju eru jafnan uppákomur í hádeginu, þegar fjörugast er á svæðinu, og oft einnig á öðrum tímum. Við fylgdumst í einu og sama hádeginu, fyrst með manni, sem stjórnaði strengbrúðu, síðan hlustuðum við á rokkhljómsveit og loks sáum við látbragðsleikara.

Bezt er að fylgjast með af svölum ölstofunnar Punch & Judy, því að þaðan sést yfir áhorfendaskarann. Útikaffihúsið Bar Creperie á gangstéttinni fyrir neðan er kjörinn staður til að fylgjast með lífinu á svæðinu, en þar skyggir mannfjöldinn á uppákomurnar.

Inni í miðjum markaði er útikaffihúsið Cafe Delicatessen og í hinum endanum ágætis vínbarinn Crusting Pipe. Allt eru þetta einkar vel heppnaðir hvíldarstaðir á rápi manna um markaðinn og fjörugar nágrannagöturnar.

Covent Garden hefur hrakið þá firru, að London sé svo mikið rigningarbæli, að þar sé ekki hægt að hafa gangstéttarkaffihús og útilíf. Hugmyndin um endurreisnina hefur tekizt vonum framar.

Þetta er langþráður arftaki Soho, sem var um tíma og er að nokkru leyti enn eyðilagt af klámbúlum og ljósaskiltum. Það er einnig langþráður arftaki markaðsins í Petticoat Lane, sem orðinn er að ómerkilegustu skransölu.
Covent Garden markaðurinn er orðinn að allra skemmtilegasta staðnum í London, eins konar “Strøget”.

Krár

“Pöbbarnir” eru heimskunn miðstöð mannlegs lífs í London sem annars staðar á Bretlandseyjum. Hver þeirra hefur sitt andrúmsloft, sem dregur bæði dám af innréttingum og fastagestum.

Því miður hafa sumar ölstofur orðið griðland iðjulausra drykkjusvola og dregizt niður í svaðið. Í aðrar hafa leiktæki haldið innreið sína.
Enn eru þó til krár, sem halda sæmilegri reisn og eru notalegar til heimsóknar milli dagskrárliða í ferð til London. Í miðborginni eru þær yfirleitt opnar 11-15 og 17:30-23 og sunnudaga 12-14 og 19-20:30. Hér verður sagt frá nokkrum beztu kránna.

Watling

Rétt að baki dómkirkju heilags Páls, St Paul´s, í City er gamla eikarbitakráin Watling, frá árunum eftir brunann mikla árið 1666. Hún er teiknuð af hinum fræga Christopher Wren, svo að kirkjusmiðir hans gætu fengið sér snarl og kollu milli vinnulota. Á þessum stað hafa ölstofur verið frá ómunatíð, því að hér lá hinn forni rómverski vegur Via Vitellina til Dover og Frakklands. Nú eru það bankamenn, sem einkenna krána. Matur er mun betri en gengur og gerist á ölstofum.

(Watling, 29 Watling Street, H1/2)

Black Friar

Hin sérkennilega Black Friar krá, andspænis samnefndri járnbrautarstöð í City, skartar lágmyndum af drukknum munkum innan um marmara, brons og alabastur. Þar sem hún er í nágrenni Fleet Street, er hún vin blaðamanna og rithöfunda, sem kunna vel við sig í ungstíls-innréttingunni. Takið eftir litla skotinu að baki aðalbarsins.

(Black Friar, 174 Queen Victoria Street, H2)

Cheshire Cheese

Cheshire Cheese er vingjarnleg ölstofa við norðurhlið Fleet Street, ein frægasta krá í heimi. Hér drukku áður rithöfundarnir Johnson og Boswell. Enn þann dag í dag er ölstofan ein helzta kjaftamiðstöð borgarinnar. Einn af börunum er frátekinn fyrir innvígða blaðamenn. Byggingin er frá 1667, árinu eftir brunann mikla. Andrúmsloftið er þrungið brezkri sögu, þótt ferðamenn séu orðnir í meirihluta meðal gestanna.

(Cheshire Cheese, Wine Office Court/Fleet Street, G1)

Globe

Þægilega í sveit sett rétt hjá Covent Garden er hin fjörlega krá Globe í Viktoríustíl, einkum fræg fyrir atriði úr kvikmyndinni Frenzy eftir Alfred Hitchcock.

(Globe, 37 Bow Street, F2)

Lamb & Flag

Vestast í Covent Garden hverfinu og þægilega nálægt Soho er hin eldgamla Lamb & Flag í húsasundi, sem ókunnugir geta átt erfitt með að finna. Ölstofan er frá 1623, ein hin elzta í borginni og er nú einkum griðland leikara úr nálægum leikhúsum. Hún er lítil og vinsæl, enda maturinn í betra lagi, svo að oft standa viðskiptavinir úti á götu vegna þrengsla.

(Lamb & Flag, Rose Street, E2)

Salisbury

Ein fegursta krá í London er Salisbury á hverfamótum Soho og Covent Garden, mikið sótt af leikhúsfólki, hommum og öðru “skrítnu” fólki. Gler, speglar og messing eru meginatriði innréttingar frá játvörzkum tíma. Hér má sjá ýmsa gesti sérkennilega klædda. Og auk þess er sennilega hvergi betri ölstofumat hægt að fá í allri miðborginni.

(Salisbury, Cecil Court/St Martin´s Lane, E2)

Red Lion

Red Lion er krá St James´s hverfisins, lítil og falleg, frá viktoríönskum tíma, með nettum glerskilrúmum. Raunar er þetta sú fyrirmyndar ölstofuinnrétting, sem menn hafa reynt að stæla á krám um allan heim.

(Red Lion, 2 Duke of York Street, D2/3)

Guinea

Mayfair hverfi hefur líka sína höfuðkrá. Guinea er lítil og ákaflega látlaust innréttuð ölstofa í öngstræti í rólegum hluta borgarinnar. Hún er jafnan sneisafull af fólki, á sumrin langt út á götu. Nautasteikurnar koma úr eldhúsi Guinea Grill Room, eins bezta steikhúss miðborgarinnar.

(Guinea, 30 Bruton Place, C2)

Grenadier

Grenadier er sögð ein ósviknasta krá í London, í torfundnu öngstræti í nágrenni Hyde Park Corner, aftan við Berkeley hótel. Í kjallaranum er upprunalega kráin, einkadraugur staðarins og gangur fyrir pílukast. Drukkið er í þremur litlum sölum, hlöðnum tilviljanakenndum skreytingum. Þetta er vinsæl stammbúla fína fólksins í Belgravia hverfi.

(Grenadier, 18 Wilton Row, C3)

Bunch of Grapes

Mitt á milli Harrods stórverzlunarinnar og safnanna í South Kensington er hin fagra Bunch of Grapes frá Viktoríutíma með frábærlega skornum speglum og blýgleri.

(Bunch of Grapes, 207 Brompton Road, A/B4)

Knattspyrna

Í London eru heimahagar nokkurra frægra knattspyrnufélaga með Arsenal og Tottenham í broddi fylkingar. Á vertíðinni má reikna með a.m.k. einum stórleik í London á hverjum laugardegi.

Leikirnir byrja oftast um kl. 14, en áhugamenn eru komnir á vettvang löngu fyrr. Varasamt getur verið að ætla sér nauman tíma, því að umferðaröngþveiti myndast, þegar líður að leikbyrjun. Þeir, sem gefa sér góðan tíma, geta skemmt sér við að fylgjast með aðdragandanum utan vallar og innan.

Leikhús og bíó

Bezta skemmtun margra, sem gista hér um lengri eða skemmri tíma, er að fara í leikhús. Í þessari háborg leiklistarinnar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir kjósa ballett, óperur, létta söngleiki, sakamálaleikrit, gamanleiki, hreina farsa eða leikrit af alvarlegra tagi. Og ekki spillir, að í mörgum þeirra leika gamlir kunningjar okkar úr leikritum og framhaldsþáttum sjónvarps.

Flest helztu leikhúsin eru í Covent Garden hverfi og sum í Soho, en þeir, sem vilja kynnast hinu allra nýjasta, finna tilraunaleikhúsin í úthverfunum. Upplýsingar um leikhús er að fá í dagblöðum og vikublöðum og kynningarritum af ýmsu tagi.

Á flestum góðum hótelum er hægt að fá aðstoð umsjónarmanna (hall porters) við útvegun leikhúsmiða og raunar líka fótboltamiða, ef ekki eru sérstakar miðasölur í anddyrinu. Á Leicester Square er söluturn, þar sem hægt er að kaupa miða á niðursettu verði á leiksýningar samdægurs. Er þá ágætt að hafa fleiri en eina sýningu í huga, áður en farið er í biðröðina, og vera viðbúin að velja það, sem bezt gefst.

Síðast var algengt miðaverð GBP 10-13, en hærra á söngleiki. T.d. átti að kosta GBP 18,50 að sjá hinn fræga söngleik Chess, en okkur voru útvegaðir miðar fyrir GBP 21 og má það teljast lítill milliliðakostnaður.

Margir kjósa eflaust líka að bregða sér í bíó í heimsborginni, þótt miðaverð sé talsvert hærra þar en á Íslandi. Bezti kosturinn er að fara til Leicester Square, þar sem kvikmyndahúsin standa allt um kring og bjóða það allra nýjasta og forvitnilegasta.

Barbican

Árið 1956 var ákveðið að reisa í Barbican, eyðimörk sprengjuárása síðari heimsstyrjaldar, nýtízku hverfi íbúða, skrifstofa, búða, skóla og fagurra lista. Framkvæmdum lauk loksins 1982 með opnun stærstu félags- og listamiðstöðvar Evrópu. Þar eru haldnar merkar listsýningar og þar hafa m.a. aðsetur London Symphony Orchestra og Royal Shakespeare Theatre.

Götulíf er dapurlegt og byggingarlistin misheppnuð, en mannmergðin lyftir stundum drunganum, þegar merkir listviðburðir eru á dagskrá. Hér sökkva menn sér í menninguna og stökkva úr henni aftur, án þess að gera hlé til að hanga á kaffihúsi.

Næturlíf

Glansinn á næturlífinu í London er mestur á diskótekum og hliðstæðum dansstöðum, sem stundum eru kallaðir næturklúbbar. En diskóin rísa og hníga örar en svo, að gott sé að henda reiður á því í leiðsögubók.

Hér eru nokkur diskó eða klúbbar, sem voru efst á baugi í miðborginni, þegar bókin var samin og voru jafnframt líkleg til úthalds allra næstu árin. Einnig fljóta með tveir gamlir og traustir jazzstaðir.

Annabel´s

Í aldarfjórðung hefur Annabel´s verið fínasti næturklúbburinn í London, staðurinn þar sem prinsarnir í konungsfjölskyldunni og aðallinn skemmta sér. Um tíma stóð hér yfir innrás olíu-araba, en þeir hafa nú verið hraktir á brott að verulegu leyti. Á veggjum eru skrípamyndir af frægu fólki. Í kjallaranum er dansað.

Mjög erfitt er að komast inn í Annabel´s. Félagsgjaldið er GBP 300. Bezt er að þekkja einhvern, sem getur boðið okkur með. Ágætan kvöldverð var hægt að fá á GBP 70 á manninn. Þetta er aðlaðandi og siðmenningarlegur skemmtistaður, ekkert auðkenndur að utanverðu.

(Annabel´s, 44 Berkeley Square, sími 629 5974, C2)

Stringfellows

Dansgólfið er voldugt í skemmtilegasta diskói heimsborgarinnar, Stringfellows. Gestir eru fjörugir og tónlist er góð. Maturinn er frambærilegur. Tímabundin félagsaðild kostaði GBP 6 mánudaga-miðvikudaga, GBP 7 fimmtudaga og GBP 10 föstudaga og laugardaga. Lokað sunnudaga.

(Stringfellows, 16 Upper St Martin´s Lane, sími 240 5534, E2)

Embassy

Síðustu fimm árin hefur Embassy verið eitt fremsta diskó í London. Lætin eru að vísu minni en voru, þegar hálfberir þjónarnir á satín-stuttbuxum fóru á rúlluskautum milli gesta. Sunnudaga er hommakvöld. Aðra daga er opið fyrir alla. Aðgangseyrir var GBP 7 og glas af víni eða áfengi kostaði GBP 2, bjórinn GBP 1,50. Ekkert skilti að utanverðu segir frá tilvist staðarins, svo að fólk verður að þekkja hann eða muna heimilisfangið.

(Embassy, 7 Old Bond Street, sími 499 5974, D2)

Valbonne

Mest er lagt upp úr innréttingunum á Valbonne. Þar er meira að segja sundlaug og pálmatré, eins konar blanda af Costa del Sol og Suðurhafseyjum. Einn barinn er bátur, annar strákofi og hinn þriðji er hellir undir fossi. Á einum stað er eins konar tívolí. Úr veitingasalnum er yfirsýn yfir mestöll herlegheitin. Aðgangseyrir var GBP 5 mánudaga-miðvikudaga, GBP 7 fimmtudaga, GBP 8 föstudaga-laugardaga.

(Valbonne, 62 Kingly Street, sími 439 7242, D2)

Legends

Tveggja hæða diskóið Legends hóf göngu sína fyrir átta árum. Hljóðburður er góður. Miðvikudagskvöld er jazz. Lokað sunnudaga. Aðgangur kostaði GBP 3 mánudaga-fimmtudaga, GBP 5 föstudaga-laugardaga.

(Legends, 29 Old Burlington Street, sími 437 9933, D2)

Xenon

Xenon er fremur uppáþrengjandi nýliði í diskólífinu, með töframönnum og látbragðsleikurum á sviði, tígrisdýrum og pardusdýrum. Bjórinn kostaði GBP 1 og flaska af víni hússins GBP 8. Aðgangur kostaði GBP 5 mánudaga til miðvikudaga, GBP 6 fimmtudaga og GBP 7 föstudaga og laugardaga. Lokað sunnudaga. Diskóið er ekki auðkennt að utanverðu.

(Xenon, 196 Piccadilly, sími 734 9344, D2)

Hippodrome

Nýjasta sköpunarverk Peter Stringfellows er Hippodrome á horni Charing Cross Road og Cranbourn Street, þar sem áður var Talk of the Town. Þetta er sagt vera stærsta diskó í heimi, útbúið gífurlega flóknum ljósa- og hljóðbúnaði, reykframleiðsluvélum og leysigeislum. Mánudaga eru hommakvöld.
Aðgangur kostaði GBP 4 mánudaga-fimmtudaga og GBP 7,50 föstudaga-laugardaga.

(Hippodrome, Charing Cross Road/Cranbourn Street, sími 437 4311, E2)

Ronnie Scott´s

Í rúma tvo áratugi hefur Ronnie Scott´s verið ein af tíu helztu jazzbúlum veraldar. Næstum því hver einasti þekktur jazzleikari hefur komið hér fram. Yfirleitt er sneisafullt hjá Ronnie og andrúmsloftið er einkar viðkunnanlegt. Á hæðinni fyrir ofan er Upstairs at Ronnie, en það er kunnasti rokkstaður miðborgarinnar.

(Ronnie Scott´s, 47 Frith Street, sími 439 0747, E1/2)

100 Club

Hinn kunni jazzstaðurinn í London er 100 Club, einfaldari í sniðum. Nútímajazz er fluttur mánudaga og föstudaga, en hefðbundinn jazz aðra daga vikunnar. Andrúmsloftið er í réttum stíl.

(100 Club, 100 Oxford Street, sími 636 0933, D1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson

New York verzlun

Ferðir

Heimsins fínu verzlanir, franskar, ítalskar, brezkar og bandarískar, eru við 5th Avenue og 57th Street í miðbænum. Þar kaupa frúrnar á USD 500 leiðurtösku, sem á stendur risastórum stöfum: Gucci. Það er maðurinn, sem fær USD 50 af hverri tösku og hlær að því að geta selt auglýsingar um nafn sitt. En frúin er sæl að geta sýnt heiminum, að hún hafi efni á að kaupa tösku frá Gucci á USD 500.

Á síðustu árum hafa tízkuverzlanir sprottið upp annars staðar í bænum. Listamannahverfið SoHo er að breytast í tízkuhverfi. Í Upper West Side er Columbus Avenue orðin tízkugata, frá 69th Street til 86th Street. Ræflarokkararnir hafa sínar búðir í svokölluðu NoHoí East Village, það er á sunnanverðum Broadway, frá 10th Street niður á Houston Street, mest við Astor Place. South Street Seaport er orðið öflugt verzlanahverfi fyrir ferðamenn.

Verzlunin hefur einnig færzt út á gangstéttarnar á síðustu árum. Alls staðar eru sölumenn með vörur sínar og gera blómleg viðskipti. Ekki má heldur gleyma hinum hefðbundnu markaðsgötum, Orchard Street í Gyðingahverfinu, Mott Street í Kínahverfinu, Mulberry Street í Ítalahverfinu og svo Houston Street á suðurmörkum Greenwich Village.

Í kaflanum um gönguferðir í borginni verður fjallað um alls konar verzlun eins og hún verður á vegi okkar. Hér er aðeins getið nokkurra heimsfrægra verzlana af bandarískum uppruna.

Macy´s

Stærsta verzlun í heimi er Macy´s suðvestast í miðbænum, meira en 200.000 fermetrar að samanlögðu gólfflatarmáli. Henni hefur ekki hnignað eins og svo mörgum bandarískum kaupgörðum. Þvert á móti blómstrar hún og er sífellt að verða fremri í tízkuvarningi á meðalverði. Á jarðhæðinni og svölunum er fullt af hálfsjálfstæðum smábúðum, svonefndum boutiques. Macy´s er opin alla daga, einnig sunnudaga frá kl.12.

(Macy´s, 34th Street og Broadway, sími 695 4400, D2)

Bloomingdale´s

Fíni kaupgarðurinn á Manhattan er hinn sjö hæða Bloomingdale´s á mörkum miðbæjarins og Upper East Side. Þar hafa leiktjaldahönnuðirnir fengið að fríka út, því að verzlunin er eins konar millistig austurlandabazars og diskóteks. Þúsundir New Yorkara fylgja tízkuboðskap Bloomingdale´s eins og í leiðslu.

Fyrir utan tízkuvarninginn eru á boðstólum hinar undarlegustu vörur frá Kína, Indlandi og öðrum heimshornum. Matar- og víndeildin í kjallaranum er víðfræg. Alltaf er eitthvað að gerast í Bloomingdale´s. Staðurinn er eitt allsherjar uppþot, athyglisverðasta leikhús borgarinnar, nauðsynlegur viðkomustaður ferðamanna. Bloomingdale´s er opinn á sunnudögum frá kl. 12.

(Bloomingdale´s, 1000 3rd Avenue við 59th Street, sími 355 5900, F/G4)

Henri Bendel

Aðaltízkuverzlun Manhattan er hin fjögurra hæða Henri Bendel við verzlanagötuna 57th Street. Hún er byggð upp eins og safn tindrandi smábúða, þar sem hver fatahönnuður hefur sitt rými. Sumir þeirra hafa einmitt öðlast frægð á vegum Henri Bendel, til dæmis Mary McFadden. Geraldine Stutz verzlunarstjóri hefur gert Henri Bendel að framúrstefnubúð í tízkuvarningi. Segja má, að þar byrji tízkan í Bandaríkjunum. Samt líta fötin yfirleitt út eins og hægt sé að nota þau.

(Henri Bendel, 10 West 57th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 247 1100, F3)

Saks

Fjórða tízkuverzlunin og hin íhaldssama í hópi þeirra er Saks við 5th Avenue andspænis Rockefeller Center. Hún er þægilega skipulögð og minnir dálítið á Harrods í London, að öðru leyti en því, að í Saks eru aðeins seld föt og matur. Þótt Saks sé íhaldssöm búð og jafnan í hæfilegri fjarlægð frá nýjustu framúrstefnu, þá er hún aldrei gamaldags. Hún er opin á sunnud. frá kl.12.

(Saks, 5th Avenue við 49th Street, sími 753 4000, E3)

Bergdorf-Goodman

Mesta lúxusverzlun tízkuheimsins á Manhattan er Bergdorf-Goodman á aðalhorninu, þar sem 5th Avenue og 57th Street mætast. Hún er innréttuð eins og höll og tekið er á móti viðskiptavinum eins og aðalsfólki. Hún er líka dýr eftir því. Bergdorf-Goodman á heiðurinn af að hafa kynnt ítalska tízkuhönnuði á Bandaríkjamarkaði.

(Bergdorf-Goodman, 754 5th Avenue við 57th Street, sími 753 7300, F3)

Tiffany

Bandarískasta búð í heimi er Tiffany, af því að hún gæti hvergi annars staðar verið til. Þar eru seldir skartgripir og allt til heimilisins, bæði smekklegt og smekklaust. Tiffany hefur sinn sérstaka stíl, sem fylgir ekki öðrum straumum. Hér kaupir fólk brúðkaupsgjafir og boðskort með áletruðu búðarmerkinu T, svo að öllum sé ljóst, hversu fín varan er. Barnahringlur úr silfri eru vinsælar fæðingargjafir, pakkaðar inn í hina frægu, bláu Tiffany-kassa. Sumar vörur eru ekki tiltakanlega dýrar, en eru samt afhentar í bláa kassanum. Tiffany er á aðalhorni verzlanahverfisins, þar sem 5th Avenue og 57th Street mætast.

(Tiffany, 727 5th Avenue við 57th Street, sími 765 8000, F3)

Brooks Brothers

Flestir bankastjórar í Bandaríkjunum ganga í fötum frá Brooks Brothers, sem hefur aðsetur í nágrenni Grand Central Station. Verzlunin er frá 1818 og hefur forustu í klæðaburði íhaldsmanna. Einnig fást þar föt á íhaldskonur og íhaldsbörn. Ekkert mark er tekið á tízkustraumum, því að það, sem var gott árið 1818, er gott enn þann dag í dag. Á tímum afkáralegra axlapúða er gott að vita af verzlun, þar sem axlapúðar hafa verið, eru og verða alltaf bannorð. Einnig er gott að vita, að frakkinn, sem keyptur var árið 1960, er enn í fullu gildi aldarfjórðungi síðar. Og verðið er lægra en ætla mætti.

(Brooks Brothers, 346 Madison Avenue við 44th Street, sími 682 8800, E3)

Hammacher & Schlemmer

Himnaríki hinna tæknisjúku er Hammacher & Schlemmer við 57th Street. Sú verzlun kynnti strokjárn, rafmagnsrakvélar og þrýstisuðupotta fyrir heiminum. Þar má sjá ótal furðuhluti af hugmyndaríkasta tagi, svo sem sjálfvirka pottasleif, spádómstölvu, fjarvirkan bílræsi og golf-flatir. Sagt er, að Hammacher & Schlemmer hafi einmitt nákvæmlega þá sérvizkulegu vöru, sem þig vantar, og að hún sé vönduð og fáist aðeins þar. Að sjálfsögðu blómstrar verzlunin á tölvuöld nútímans.

(Hammacher & Schlemmer, 145 East 57th Street milli Lexington og 3rd Avenues, sími 421 9000, F4)

Balducci´s

Matgæðingaverzlun Manhattan er Balducci´s í Greenwich Village. Þar er ferskasta grænmetið og ferskasti fiskurinn, þroskaðasti osturinn — af 550 tegundum — og bezti baksturinn. Hillurnar svigna undir alls konar krukkum með sérvizkulegri fæðu frá öllum heimshornum, mest frá Frakklandi og Ítalíu.

(Balducci´s, 424 6th Avenue við 9th Street, sími 673 2600, B1)

Casswell Massey

Elzta lyfjabúð borgarinnar er Casswell Massey á Intercontinental hótelinu. Hún er frá 1725 og minnir á gamla Lundúnabúð úr St James-hverfi. Þar er enn hægt að fá ilmvatn, sem var sérstaklega blandað handa konu Washingtons forseta, og næturkrem, sem var sérstaklega blandað handa Söru Bernhardt. Þarna er líka mesta sápuúrval í heiminum. Og svo er auðvitað gaman að virða fyrir sér átjándu aldar apótekarakrukkur.

(Casswell Massey, 518 Lexington Avenue við 48th Street, s. 755 2254, E4)

1988

© Jónas Kristjánsson

London söfn

Ferðir

Eins og hæfir höfuðborg fyrrverandi heimsveldis er London mikil safnaborg, sennilega hin mesta í heimi. Á einstökum sviðum kunna söfn á borð við Smithsonian í Washington, Louvre í París, Uffizi í Flórens og MoMA í New York að rísa hærra, en hvergi er breiddin meiri en í London. Sum þeirra eru hreinlega rosaleg að vöxtum, til dæmis Victoria & Albert Museum, sem er yfir ellefu kílómetra gönguleið.

British Museum

Frægasta safnið í London er fornminjasafnið British Museum. Það er móðir ýmissa safna, er síðan hafa orðið sjálfstæðar, risastórar stofnanir. Nú síðast er þjóðarbókhlaðan að flytja þaðan upp í sveit, svo að fornminjasafnið eitt er eftir hér í menntahverfinu Bloomsbury.

Hvergi í heiminum er í einu safni jafnmikið af fornminjum, einkum frá Egyptalandi, Austurlöndum, Grikklandi, Rómarveldi og miðöldum. Bókhlaðan taldi, þegar hún flutti, um átta milljón bindi, frægust fyrir risastóran lestrarsal með 45 kílómetrum af bókahillum og lestraraðstöðu fyrir 400 manns.

Safnhúsið lítur út eins og risastórt, grískt hof með forngrísku súlnariði og gaflaðsþríhyrningi að framan, reist 1823-47. Álmurnar eru fjórar umhverfis hinn mikla lestrarsal, sem hefur hvolfþak úr járni og gleri, breiðara en hvelfing Péturskirkju í Róm.

Bezt er að fara til vinstri, þegar inn er komið. Þar verður fyrst fyrir gríska og rómverska deildin í fimmtán sölum, ákaflega vel skipulögð. Hástigið er Duveen-salurinn með marmaralágmyndum, sem villimaðurinn Elgin lávarður rændi af Parþenon hofinu í Aþenu, endalaus röð þrígla, miðtæpa og gaflaðsþríhyrninga.

Í næstu sölum eru fornminjar frá Mesópótamíu, einkum Assyríu. Í Nimrud-salnum eru risastórar lágmyndir frá höll Assúrnasirpals og í sal 26 er svarti einsteinungurinn. Þá kemur röðin að Egyptalandi, þar sem þungamiðjan er salur 25. Í suðurenda hans er Rosetta-steinninn, sem var lykillinn að ráðningu myndleturs Egypta.

Í norðurendanum er salur Játvarðs 7. með ómetanlegum dýrgripum austrænnar listar, þar á meðal heimsins bezta safni fornkínverskra leirmuna. Þaðan liggur leiðin í austurálmuna með breytilegum sýningum miðalda-handrita og annarra bóka, til dæmis Lindisfarne-guðspjalla frá árinu 698. Að lokum er nauðsynlegt að líta inn í lestrarsalinn mikla. Á efri hæð eru svo fleiri fornminjar, einkum frá Bretlandseyjum. Þar eru líka múmíurnar.

(British Museum, Great Russell Street, opið 10-17, sunnudaga 14:30-18, E1)

National Gallery

Eitt mesta listaverkasafn heims er þjóðlistasafnið National Gallery við Trafalgartorg, vel skipulagt, greinilega merkt og vel lýst. Málverkin eru yfir 2000 talsins og ná yfir alla listasöguna, nema nútímalist og brezka list, sem eru í Tate Gallery.

National Gallery er heimsins mesta forustusafn í vísindalegu viðhaldi, hreinsun og endurnýjun málverka. Það er líka frægt fyrir breytilegar sýningar um ákveðin stef í listasögunni.

Vinstra megin eru ítölsk málverk í rúmlega tuttugu sölum, allt frá endurreisnartíma til síðari alda. Þar má m.a. sjá verk Botticelli, Leonardo da Vinci, Mantegna, Michelangelo, Rafael, Titian og Tintoretto.

Nyrst í sömu álmu eru Hollendingar og Flæmingjar, þar á meðal Rembrandt, Vermeer, van Dyck, Rubens, van Eyck, Hieronymus Bosch og Brügel, ennfremur Dürer hinn þýzki.

Austan til í safninu eru Frakkarnir, þar á meðal Delacroix og blæstílsmálararnir Manet, Monet, Renoir og Pisarro, svo og nútímamálarar á borð við Degas, Cézanne og van Gogh, Spánverjarnir Velasques, el Greco (grískur) og Goya, svo og Englendingarnir Hogarth, Gainsborough, Constable og Turner.

Sambyggt National Gallery að aftanverðu er National Portrait Gallery með yfir 5000 málverkum af frægu fólki úr sögu Bretlands, nú síðast einnig með ljósmyndum og skopmyndum.

(National Gallery, Trafalgar Square, opið 10-17, sunnudaga 14-18. National Portrait Gallery, 2 St Martin´s Place, sami opnunartími, E2)

Tate Gallery

Síðan Tate Gallery var stækkað, getur það haft til sýnis um þriðjung hinna 10.000 málverka í eigu safnsins. Og enn stendur til að stækka það. Þarna eru sýnd brezk málverk og alþjóðleg nútímalist. Tate er frægt fyrir innkaupastefnu sína, því að þangað eru oft keypt málverk, áður en þau eru þornuð á striganum. Þá má ekki gleyma, að í Tate er fyrsta flokks veitingahús með frábærum vínlista (bls. 44).

Í þremur stórum sölum beint inn frá anddyrinu eru yfirleitt tímabundnar sýningar til að sýna ákveðin stef, svo sem þróun ýmissa stíla myndlistar.
Vinstra megin við þessa miðju er brezka safnið með Hogarth, Gainsborough og Turner. Hægra megin er nútímasafnið, fremst Monet, Pisarro, van Gogh, Gauguin, Cézanne, Degas, Picasso, Braque og Rouault, síðan Mondrian, Kandinski, Munch, Moore, Arp, svo Chagall, Klee, Dali, Miro, Pollock og loks innst hin yngstu málverk frá því eftir 1960.

(Tate Gallery, Millbank, opið 10-17:50, sunnudaga 14-17:50, E5)

Natural History Museum

Náttúrufræðisafnið í London er hluti stórrar safnamiðstöðvar í South Kensington, þar sem á einum og sama stað eru einnig jarðfræðisafnið, vísindasafnið og nytjalistasafnið. Safnhöll náttúrufræðisafnsins er orðin glæsileg að utanverðu, síðan hún var hreinsuð, svo að enn á ný sjást hinir fögru, ljósbrúnu og bláu litir. Hún er í rómönskum stíl og minnir á dómkirkju.

Í anddyri trónir beinagrind risaeðlu. Í sölunum til beggja handa eru samtals nokkrar milljónir sýningargripa af um það bil 40 milljónum í eigu safnsins. Árlega bætast við um 350.000 safnmunir. Mesta athygli vekur nútímaleg sýning á mannslíkamanum og svo hvalasalurinn með risavöxnum beinagrindum.

(Natural History Museum, Cromwell Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Geological Museum

Að baki náttúrufræðisafnsins er Geological Museum, frábært jarðfræðisafn með kristöllum, gimsteinum og venjulegu grjóti. Skemmtilegust er jarðhæðin með óslípuðum og slípuðum eðalsteinum, svo sem demöntum, roðasteinum, safírum og smarögðum.

(Geological Museum, Exhibition Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Science Museum

Við sömu götu er Science Museum, hrikalega stórt safn um vísindi og uppgötvanir mannsandans. Börn hafa gaman af tölvudeildinni, sem hefur margvísleg leiktæki, svo og barnadeildinni, er einnig hefur ótal hnappa, sem styðja má á. Til vinstri í anddyrinu er frægur pendúllinn, sem sýnir með fráviki sínu frá lóðréttu, að jörðin snýst.

(Science Museum, Exhibition Road, opið 10-18, sunnudaga 14:30-18, A4)

Victoria & Albert Museum

Þessi hrærigrautur er sennilega eitt stærsta safn í heimi. Gönguleiðin um það er rúmir ellefu kílómetrar og sýningarsalirnir eru 155. Safnið er líflegt og óformlegt og sýnir einkum nytjahluti eins og byggðasöfnin heima á Fróni, þótt stærðin sé önnur.

Engin leið er að skipuleggja ferð um völundarhúsið, en góð kort fást við aðalinnganginn. Í öðrum hluta safnsins er sýningargripum raðað eftir viðfangsefnum, svo sem leir, gleri, járni og vefnaði. Í hinum er raðað eftir tímabilum menningarsögunnar. Alltaf má uppgötva hér eitthvað nýtt. Í rauninni er skoðun safnsins mánaðarvinna fyrir áhugafólk um þjóðfræði og nytjalist.

(Victoria & Albert Museum, Cromwell Road, opið mánudaga-fimmtudaga og laugardaga 10-17:30, sunnudaga 14:30-17:30, lokað föstudaga, A4)

Wallace Collection

Wallace Collection er eitt bezta safn franskrar listar, sem til er utan Frakklands. Upphaflega var það einkasafn og er enn til sýnis í höll hins upprunalega eiganda, fjórða markgreifans af Hertford. Beztu verkin eru á annarri hæð.

(Wallace Collection, Manchester Square, opið 10-17, sunnudaga 14-17, C1)

Zoo

Dýragarðurinn í London er nyrst í Regent Park, hinn elzti í heimi og einn hinn mikilvægasti. Þar eru yfir 5.000 dýr af yfir 1.100 tegundum á 14 hektörum lands.

Gömlu járnbúrin hafa að verulegu leyti verið lögð til hliðar og í staðinn er reynt að hafa dýrin á rúmgóðum og eðlilegum svæðum, sem endurspegla heimahaga þeirra. Enda eru dýrin hér ekki eins þreytuleg og tómleg og víða má sjá í dýragörðum. Mestur hluti þeirra tímgast, þótt hinum vinsælu pandabjörnum hafi ekki tekizt það.

Börn gátu fengið að fara á bak kameldýrum og hestum og að aka í vagni, dregnum af lamadýrum, þegar við vorum þar síðast.

(London Zoo, Regent´s Park, opið mánudaga-laugardaga 9-18, sunnudaga 9-19, aðgangseyrir, norðan við B/C1)

Madame Tussaud´s

Þetta er frægasta vaxmyndasafn í heimi. Madame Tussaud´s sameinar sögulega frægt fólk, nútímastjörnur og hryllingsdeild í kjallara. Við hliðina er Planetarium með stjörnufræðilegum sýningum.

(Madame Tussaud´s, Marylebone Road, opið 10-17:30, aðgangseyrir, norðan við B/C1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson