G. Útrásir – Villa Adriano

Borgarrölt, Róm

Villa Adriana, Tivoli, Roma

Villa Adriana

Um 30 km austan Rómar er sumardvalarbærinn Tivoli, á latínu Tibur, við rætur sabínsku hæðanna. Árin 126-134 lét Hadrianus keisari reisa sér sumarhöll í 5 km löngum garði 5 km austan við bæinn. Hadrianus hannaði sjálfur svæðið og notaði fyrirmyndir, sem hann hafði séð á ferðalögum sínum.

Rústir svæðisins hafa verið grafnar upp og eru til sýnis.

Canopus, Villa Adriana, Tivoli, Roma

Canopus, Villa Adriana

Frá innganginum á svæðið göngum við gegnum vegg, sem stendur eftir af eftirlíkingu Aþenuports, sem hét Poikile. Við förum fyrir enda tjarnarinnar og höldum áfram meðfram litlu og stóru baðhúsi að langri tjörn. Við hinn enda hennar er Canopus, stæling á egypzku Serapis-hofi.

Á leiðinni til baka förum við upp í rústirnar hægra megin, fyrst um hermannaskálana, Prætorium og síðan framhjá fiskatjörninni að hinni raunverulegu sumarhöll. Þar er efst ferhyrnt Gulltorg, Piazza d’Oro. Neðan við það eru rústir af vistarverum keisarans, svo sem borðsal og setustofu. Enn neðar eru leifar bókasafna.

Hægra megin við bókasöfnin er súlnarið umhverfis hjóllaga tjörn með eyju í miðjunni. Hér erum við komin aftur að Poikile, þar sem við byrjuðum skoðunarferð okkar.

Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir frá Róm til Tivoli og er þá einnig skoðuð sumarhöllin Villa d’Este með miklum görðum frá miðri 16. öld.

Næstu skref