2. Útrásir – Ostia Antica

Borgarrölt
Forum & Capitolum, Ostia, Roma

Forum & Capitolum, Ostia

Ostia Antica

Hinn gamli hafnarbær Rómar, Ostia Antica, er 25 km suðvestan borgarinnar. Þangað má komast í lest, sem fer frá Porta San Paolo og tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Bærinn hefur verið grafinn upp og er til sýnis. Hann er að mestu leyti frá 2. öld. Árframburður olli því, að hafnarstæðið eyðilagðist og bærinn lagðist niður, grófst í sand og hefur þannig varðveitzt.

Rústirnar eru tæplega 1,5 km að lengd. Frá innganginum er farið eftir aðalgötunni, Decumanus Maximus, framhjá kirkjugarðinum að baðhúsi Neptunusar, þar sem eru fagrar steinfellumyndir. Við hlið þess er nokkuð heillegt leikhús og að baki þess ferhyrnt fyrirtækjatorg, þar sem verzlunar- og siglingafyrirtæki höfðu búðir og skrifstofur í súlnagöngum.

Leiðin liggur svo eftir aðalgötunni beint að höfuðtorginu, Forum, þar sem er aðalhofið, Capitolum, reist á fyrri hluta 2. aldar. Marmarinn er horfinn, en undirstöður hofsins og hluti veggjanna stendur enn.

Í Ostia Antica má víða sjá merki svokallaðra Insulæ sem voru íbúðablokkir þess tíma, reistar umhverfis lokaðan, ferhyrndan húsagarð, stundum 3ja eða 4ra hæða.

Hægt er að verja miklum tíma í að rölta um hliðargötur bæjarins. Að því loknu er farin sama leið til baka eftir Decumanus Maximus.

Næstu skref