F. Pall Mall

Borgarrölt, London

Pall Mall

St. James's Palace, London

St. James’s Palace

Aðalgatan í St James´s hverfinu er Pall Mall, þar sem við hófum gönguferð nr. 1 um skemmtilegustu búðir miðborgarinnar. Í þetta sinn ætlum við hins vegar að kynnast öðrum þáttum andrúmsloftsins í St James´s,
hverfi hinna fínu karlaklúbba.

Pall Mall, London

Pall Mall

Við förum enn frá Trafalgar Square, í þetta sinn til suðvesturs eftir Pall Mall. Hérna megin við horn Regent Street er fyrsti klúbburinn sunnan götunnar, Institute of Directors. Síðan koma Travellers Club á nr. 106 og Reform á nr. 104, þaðan sem Phileas Fogg átti að hafa farið kringum jörðina á áttatíu dögum. Stóra höllin er Royal Automobile Club. Síðan kemur Oxford & Cambridge Club á nr. 71. Norðan götunnar er Army & Navy andspænis RAC.

St James´s Palace

Við enda götunnar komum við að St James’s Palace, hinni raunverulegu konungshöll Bretaveldis, þar sem drottningin tekur á móti erlendum sendiherrum. Þaðan kemur nafnið, að vera við hirð St James´s. Buckingham Palace er bara konungsbústaður, ekki konungshöll.

Í þessari lágreistu og sérkennilegu höll frá Túdor-tíma, reistri árið 1532, bjuggu konungar Bretlands frá 1698, þegar Whitehall-höll brann, til 1837, er Buckingham-höll tók við. Frá svölunum á hliðhúsinu úr rauðum tígulsteini með áttstrendum turnum tilkynnir kallari valdatöku nýrra konunga.

Í St James´s Palace búa nú ýmsir hirðmenn. Áfast höllinni til vesturs er Clarence House, heimili drottningarmóður. Til hliðar og aftan við St James´s Palace eru tvær hallir, Marlborough House til austurs og Lancaster House til vesturs.

St James´s Street

Klúbbarnir eru áfram í röðum við St James´s Street, sem liggur til norðvesturs frá höllinni. Við hlið Berry Brothers vínbúðarinnar  er mjótt sund inn í Pickering Place. Handan götunnar, aðeins ofar, er Carlton, mesti íhaldsklúbburinn. Nokkrum skrefum ofar er mjó gata, sem liggur að hótelunum Dukes og Stafford. Enn ofar, hvor sínum megin götunnar, eru klúbbarnir Brook´s á nr. 61 og Boodle´s á nr. 28. Loks uppi undir Piccadilly gatnamótum er klúbburinn White´s.

Við eigum bara eftir að rölta meðfram Ritz-hóteli við Piccadilly vestur að Green Park neðanjarðarstöðinni til að ljúka stuttri gönguferð um fínasta, brezkasta og rólegasta hverfi miðborgarinnar. Nú kemur röðin að Mayfair.

Næstu skref