E. Soho – Covent Garden

Borgarrölt, London
Covent Garden, London 2

Covent Garden

Covent Garden

Skemmtilegsta hverfið í London er leikhúsahverfið Covent Garden. Við förum létt með að skoða það, þar sem við sitjum að mestu um kyrrt á sjálfum markaðnum, svo sem lýst var fyrr hér í bókinni.

Austur frá markaðnum liggur Russell Street, þar sem mannþröngin á vínbörunum nær út á götu. Örlitlu austar við götuna er Konunglega leikhúsið. Við fyrstu þvergötu til norðurs er Konunglega óperan og Blómahöllin, sérkennilegt dæmi um byggingarlist undir áhrifum frá Crystal Palace, úr járni og gleri.

Covent Garden, London 4

Covent Garden

Auk King Street norðan markaðar, Henriette Street sunnan markaðar og Russel Street austan markaðar, er skemmtilegast að ganga Tavistock Street, sem liggur sunnan við Henrietta Street, og New Row í framhaldi af King Street. Í þessum götum er kaffihúsalífið og göturápið skemmtilegast í borginni.

Syðst í hverfinu er leikhúsgatan Strand, sem liggur milli Fleet Street og Trafalgar Square. Vestast er önnur leikhúsgata, St Martin´s Lane, milli Trafalgar Square og Long Acre. Norðarlega í hverfinu er Neal´s Yard og Neal Street með heilsufæði- og handíðabúðum.

Segja má, að Covent Garden sé hverfi hins náttúrulega skemmtanalífs, meðan Soho var um tíma hverfi hins ónátturulega, þótt veitingahúsin góðu hafi jafnan haldið þar velli og hverfið sé aftur á uppleið. Sem betur fer er Covent Garden í uppgangi um þessar mundir. Skemmtilegar smáverzlanir, kaffihús og vínbarir eru sífellt að bætast við.

Næstu skref