2. City – Tower

Borgarrölt

Við höldum áfram meðfram síkinu, sem var þurrkað á síðustu öld og gert að grasvelli, og nálgumst innganginn í Tower of London, eitt helzta einkennistákn borgarinnar.

Middle Tower, London

Middle Tower

Miðkastalinn, sem gnæfir hæst, er Hvítiturn, White Tower, elzti hluti kastalans, reistur af Vilhjálmi sigursæla (bastarði) árið 1077 og árin þar á eftir, í fyrstu fremur til viðvörunar borgarbúum en til ytri varna. Hann er einn elzti kastali slíkrar stærðar í Vestur-Evrópu, ágætt dæmi um ferköntuð turnvirki Normanna.

Þá voru Rómverjar horfnir á braut fyrir meira en sex öldum og litlar sögur höfðu farið af London á engilsaxneskum tíma. Borgin byrjaði fyrst að dafna sem miðstöð kaupsýslu eftir valdatöku Normanna.

Tower of London 2

Tower of London

Ríkharður ljónshjarta byrjaði á virkisveggjum umhverfis Hvítaturn seint á 12. öld. Undir lok 13. aldar var Tower í stórum dráttum búinn að fá á sig þá mynd, sem hann ber enn í dag.

Löngum var Tower konungssetur, allt fram á 17. öld, vopnageymsla og fjárhirzla. Enn eru krýningardjásnin geymd þar og höfð til sýnis. Þar er m.a. stærsti demantur heims, 530 karata Star of Africa úr Cullinan-steininum, og hinn sögufrægi, 109 carata Kohinoor-demantur. Fjársjóðanna og Tower í heild er gætt af hinum frægu Beefeaters í einkennisbúningi frá túdorskum tíma á 16. öld.

Í Tower voru hafðir í haldi frægir fjandmenn ríkisins, svo sem Anne Boleyn, María Stúart og síðastur manna Rudolf Hess á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Frá Middle Tower förum við yfir fyrrverandi síkið inn um hliðið á Byward Tower og erum þá komin inn á milli innri og ytri virkisveggja. Við förum framhjá Bell Tower, sem Jóhann landlausi reisti snemma á 13. öld, okkur á vinstri hönd, og göngum að Traitors Gate á hægri hönd. Þar í gegn var fyrrum hægt að flytja fanga á bátum inn í kastalann.

Hér fyrir innan er Bloody Tower, þar sem Ríkharður III er sagður hafa látið myrða ungu prinsana. Um turninn förum við inn í miðgarðinn, þar sem við sjáum brátt biðröðina að krýningardjásnunum. Hún hreyfist hratt, svo að ekkert er að óttast. En ráðlegt er að vera komin sem fyrst eftir kl. 9:30, þegar Tower er opnaður, til að forðast manngrúann.

Yfir miðgarðinum gnæfir Hvítiturn með 4-5 metra þykkum veggjum og turnum á hornum. Innan dyra er merkilegt vopnasafn á neðri hæðunum, en uppi á hinni þriðju er Kapella heilags Jóhannesar frá 1080, enn nokkurn veginn í upprunalegu horfi, eitt fegursta dæmið um snemm-normanska byggingarlist í Englandi.

Tower of London

Tower of London

Næstu skref