D. Law Courts

Borgarrölt, London

Gray´s Inn

Gönguferðina um hulin port og yfirskyggða garða lögmannastéttar borgarinnar hefjum við hjá Chancery Lane neðanjarðarstöðinni). Frá götunni High Holborn göngum við eitt af þremur sundum, nr. 21 eða Fulwood Place eða Warwick Court, inn í völundarhús sunda, porta, stílhreinna húsa og fagurra garða, indæla vin í skjóli fyrir skarkala borgarinnar.

Hér eru skrifstofur lögfræðinganna í Gray´s Inn, einu af fjórum lögmannafélögum borgarinnar, Inns of Court, stofnað á 14. öld. Elztu húsin eru frá 17. öld, en garðarnir nokkru yngri, teiknaðir af Sir Francis Bacon. Gray´s Inn er opið almenningi 8-19.

Staple Inn, London

Staple Inn

Staple Inn

Lincoln's Inn, London

Lincoln’s Inn

Við förum eitt sundið aftur út á High Holborn. Andspænis, nokkru austar við götuna, sjáum við Staple inn, tvö timburhús, fjögurra alda gömul, frá 1586-96. Þessi framhlið er eina dæmið í borginni um, hvernig fínu göturnar litu út á dögum Elísabeter I. Taktu eftir bindingsverki bita og gafla og alls konar útskotum. Í miðjunni veita bogagöng aðgang að portunum að baki.

Lincoln´s Inn

Rétt vestar mætir Chancery Lane aðalgötunni High Holborn. Þar beygjum við til vinstri suður meðfram austurhlið Lincoln´s Inn. Við förum framhjá Stone Buildings Gate, því að við ætlum inn um Gatehouse með upprunalegum eikarhliðum frá 1518, hátt í fimm alda gömlum.

Hliðhúsið úr tígulsteini er með ferningslaga hornturnum, opið 8-19. Að baki er Old Square með gömlum húsum frá Túdor-tíma, öll úr rauðum tígulsteini, endurgerð 1609. The Old Hall er frá 1490. Kapellan við norðurhlið torgsins er frá 1619-23.

Við förum áfram til vesturs inn í sjálfa garðana, aðlaðandi og friðsæla, umlukta gamalli og gróinni byggingarlist frá því áður en góður smekkur komst úr tízku. Úr görðunum göngum við til suðurs um New Square og hlið frá 1697 út í Carey Street, þar sem við erum að baki hallar Borgardóms í London.

Næstu skref