C. City

Borgarrölt, London

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

London Wall, London

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöð-inni, skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Næstu skref