C. Írland

Borgarrölt, Dublin
Monasterboice, Írland

Monasterboice

Kurteisi, alúð og hjálpsemi Íra verður því meiri, sem fjær dregur höfuðborginni. Á vesturströndinni heilsa menn bílstjórum með handarsveiflu, alveg eins og væru þeir gamlir kunningjar. Hvarvetna leggja menn sig í líma við að greiða götu ókunnugra og draga þá inn í samræður heimamanna.

Bezta leiðin til að kynnast Írlandi á stuttum tíma er að fá sér bílaleigubíl. Þá erum við frjáls, getum valið hvaða sveitavegi, sem við viljum;
og látið staðar nema, hvar sem okkur lízt á góða bændagistingu. B&B er hvarvetna á boðstólum og felur venjulega í sér fullnægjandi aðstöðu samkvæmt íslenzkum kröfum.

Írland ber mildan og grænan svip. Flestir vegir eru varðaðir trjám og beitilöndum, þar sem una sér kýr og kindur, hestar og geitur. Sveitabæir og þorp kúra í landslaginu eins og eðlilegur þáttur þess. úti við ströndina, einkum að vestan, rís náttúran í svipmeiri dráttum.

Forn mannvirki segja gamla sögu, einkum frá fyrstu öldum kristni, þegar Írland var miðstöð kristinnar kirkju á myrkum miðöldum. Við kynnumst klaustrum, þaðan sem munkar fóru norður og vestur um höf; og skráðu eins og Íslendingar frægar sögur á vandlega lýst bókfell. Við kynnumst líka kastölum og hústurnum, sem voru miðpunktar í erjum milli smákónga og í styrjöldum milli Íra og Englendinga.

Allt þetta þræðum við upp á eina langa perlufesti, sem nær hringinn um landið. Það getur tekið nokkrar vikur að aka þennan hring, en það er líka unnt á skemmri tíma, af því að fjarlægðir eru stuttar í landinu.

Lýsingin nær einkum til fornra mannvirkja og sérstæðs landslags, svo og halla og herragarða, sem yfirleitt leika nú hlutverk hótela og veitingahúsa. Gaman er að skoða þessar hallir og herragarða, þótt menn kjósi svefnstað í bændagistingu.

Hér er ekki bent á einstaka ferðabændur, enda skipta þeir þúsundum og eru oft ekki auðfundnir í leit. Bezt er að velja bændagistingu, B&B, eftir hendinni. Ef „en suite“ stendur á skiltinu, þýðir það, að herbergið sé með einkabaðherbergi, sem algengt er orðið nú á tímum.

Við förum norður úr Dublin, höldum fyrst til Norður-Írlands, síðan vestur með ströndinni og aftur inn í írska lýðveldið, förum einkum um slóðir keltneskrar tungu á vesturströndinni, síðan suður um og norður austurströndina til Dublin. Öllum er auðvitað frjálst að taka króka og útúrdúra af þeirri perlufesti, sem hér er lýst. Bezt er að taka lífinu með ró og setja sér ekki skýrt markaða áfanga.

Við skulum leggja af stað