B – Madrid – vesturbær – Plaza Puerta del Sol

Borgarrölt, Madrid
Plaza Puerta del Sol, Madrid

Plaza Puerta del Sol

Plaza Puerta del Sol, Madrid 4

Plaza Puerta del Sol

Torgið Puerta del Sol er miðja borgarinnar, bæði að formi til og í reynd. Frá því eru mældar allar vegalengdir á Spáni. Kílómetrasteinn “0” er fyrir framan höll öryggislögreglunnar, sem er við suðurhlið torgsins. Í turni hallarinnar er klukkan, sem allar aðrar klukkur á Spáni eru miðaðar við. Frá torginu er skammur vegur til flestra staða, sem ferðamenn vilja skoða í Madrid. Það er umlokið samræmdum og rjómalitum húsum frá 18. öld.

Íbúar í Madrid mæla sér mót á torginu á öllum tímum dagsins og koma þangað í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Allan daginn iðar torgið af lífi. Það er líka staður útifunda og mótmælaaðgerða. Við bjuggum á hótelum við torgið og komumst að raun um, að það er helzt milli klukkan fimm og sjö á morgnana, að kyrrð færist yfir torgið.

 

Norður frá því liggja göngugöturnar Preciados og Carmen í átt til verzlunargötunnar Gran Vía. Við þessar göngugötur eru helztu vöruhús borgarinnar, El Corte Inglés og Galerias Preciados. Suður frá torginu er helzta gleðskaparhverfi borgarinnar, fullt af skyndibitastöðum, kaffihúsum, vín- og snarlbörum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar er líka “hitt” torgið í bænum, Plaza Mayor.

Descalzas Reales

Descalzas Reales, Madrid

Descalzas Reales

Vestur frá Plaza Puerta del Sol liggja tvær götur, Mayor og Arenal. Við höldum þá síðari í átt til óperuhússins. Við getum tekið stuttan krók eftir annarri þvergötu til hægri, San Martín, til að skoða Monasterio de Descalzas Reales við samnefnt torg. 

Það er nunnuklaustur frá 16. öld fyrir aðalskonur og safnaði fljótt miklum auði, m. a. í listverkum. Því hefur verið breytt í safn, þar sem sjá má fræg verk eftir Brüghel eldri, David, Titian og Rubens. Miðja safnsins er húsagarður með þrjátíu kapellum allt um kring.

Næstu skref