2 – Madrid – vesturbær – Palacio Real

Borgarrölt
Palacio Real, Madrid

Palacio Real, séð frá Plaza de Oriente

Plaza de Oriente

Við hverfum til baka og göngum Arenal áfram, förum framhjá óperuhúsinu Teatro Real, sem er frá fyrri hluta nítjándu aldar, og komum inn á torgið Plaza de Oriente  fyrir framan langhlið konungshallarinnar. Á torginu er stytta af Filipusi IV Spánarkonungi, gerð eftir teikningum eftir Velázquez. Við torgið suðaustanvert er útikaffihúsið Café de Oriente, þar sem við getum hvílt okkur.

Ef við nennum, getum við farið norður fyrir höllina og gengið tröppurnar niður í Sabatini-garða, sem eru með klipptum trjám að frönskum hætti. Þaðan er virðulegt útsýni til konungshallarinnar.

Annars förum við suður fyrir höllina, því að gengið er inn í hana að sunnanverðu, þar sem hallarportið er. Konungsfjölskyldan býr ekki lengur í Palacio Real. Höllin er notuð fyrir opinberar móttökur og gestaboð, en að öðru leyti er hún safn, opið almenningi.

Palacio Real, Madrid 2

Palacio Real hásætissalur

Palacio Real

Palacio Real var byggð á átjándu öld á grunni eldri hallar, sem brann árið 1734. Í henni eru 2.800 herbergi, en frá árinu 1931 hefur enginn búið þar. Hápunktur safnsins er hásætissalurinn, sem er sennilega skrautlegasti salur heimsins, klæddur gullflúruðu pelli og purpura, með loftmálverki eftir Tiepolo.

Íbúð Maríu Kristínu drottningar er til sýnis sem veggteppasafn. Íbúð Ísabellu prinsessu er til sýnis sem málverka-, útsaums-, postulíns- og kristalssafn. Þar eru til dæmis verk eftir Goya, Bosco, Rubens, Greco og Velázquez. Bókasafn Filipusar V er til sýnis sem bóka- og myntsafn. Einnig er til sýnis lyfjasafn hallarinnar og herklæðasafn. Inn í skrautvagnasafn er gengið á öðrum stað, úr garðinum Campo del Moro, sem er vestan hallar. Þaðan er glæsilegt og bratt útsýni upp til hallarinnar.

Næstu skref