Author Archive

Ríkisstjórnin komin í rugl

Punktar

Ríkisstjórnin er á hálum ís. Hún fæst ekki til að staðfesta kjördaginn í lok apríl, sem bendir til óhreins mjöls í pokahorninu. Hún þykist vera með tugi mála, sem hún þurfi að leggja fyrir þingið. Eins og hún viti ekki, að hún er minnihlutastjórn, sem þarf að semja við aðra um hvert einasta mál. Hún er komin í rugl, sem getur reynzt henni skeinuhætt. Hún þarf að átta sig á, að hún getur bara náð fram fjórum-fimm málum. Hin verða verkefni næstu stjórnar eftir kosningar. Hún þarf að semja við Framsókn um þessi fjögur-fimm mál. Og hún þarf á sama tíma að verjast firru Framsóknar um 20% afslátt af skuldum.

Fjölmiðlar og flýtimeðferð

Fjölmiðlun

Enginn íslenzkur fjölmiðill hafði burði til að kanna, hvort Björgólfur Thor væri að segja satt. Fullyrti í Kompási í haust, að brezk yfirvöld hefðu boðizt til að taka IceSave yfir í flýtimeðferð. Ef íslenzk stjórnvöld hefðu lánað Landsbankanum skitnar 200 milljónir punda. Til að kanna málið þurfti óháðan blaðamann, Friðrik Þór Guðmundsson. Hann sendi fyrirspurn til brezkra stjórnvalda, sem nú hafa svarað. Kannast ekki við flýtimeðferð Björgólfs. Ég skil, að þrælslundaði Mogginn vantreysti sér til að efast um eiganda sinn. En margir aðrir fjölmiðlar eru í landinu. Þeir kiknuðu líka fyrir Bjögganum.

Sunddeilan harðnar

Punktar

Hitnað hefur í kolunum í deilu Seltirninga og Vesturbæinga um aðferðir við sund. Á sunnudagsmorgni komu nokkrir Vesturbæingar í Seltjarnarneslaugina og syntu þar í O. Þá geta nokkrir plebejar verið í hverri rás. Seltirningar eru hins vegar patrísear, vilja synda í 1 og hafa hverja rás fyrir sig. Ekki kom til handalögmála. En enginn veit, hvað muni gerast, þegar illindi magnast. Seltirningar kalla Vesturbæingana hringorma og geta þess um leið, að þeir þekkist af tattóveringum. Mér lízt ekki á. Til öryggis ætla ég á næstunni bara að vera í ræktinni og gufunni, en ekki í heita pottinum.

Börnin borga Moggann

Punktar

Ekki er hægt að láta eins og þriggja milljarða afskrift handa Morgunblaðinu komi skattgreiðendum lítið við. Ríkið yfirtók bankana og spýtti i þá tugum milljarða. Ef margar afgreiðslur verða eins og milljarðar Morgunblaðsins, þarf ríkið áfram að kasta góðum peningum eftir vondum. Reikningurinn vegna Moggans verður altjend sendur skattgreiðendum framtíðarinnar. Börnin okkar borga fyrir Moggann, hvort sem þau vilja eða ekki. Það er pólitísk spilling. Meðferð bankans á sukki Moggans boðar váleg tíðindi. Betra er að pólitískar stofnanir fái að fara í friði á hausinn án afskipta samfélagsins.

Bílar lífeyrismanna

Punktar

Ótækt er, að Lífeyrissjóður verzlunarmanna verðlauni glæframennina Þorgeir Eyjólfsson og Gunnar Pál Pálsson. Þeir sukkuðu með fé sjóðfélaga í spilavíti Kaupþings. Töpuðu yfir þrjátíu milljörðum af innistæðum sjóðfélaga. Fáránlegt er, að undir þá séu settir bílar, sem kosta nýir meira en tíu milljónir hvor. Út af kortinu er, að þeir taki tvær milljónir króna á mánuði fyrir afglöpin. Þeir fóru á herðablöðunum í spilavítið. Þar gættu þeir hagsmuna krosseignarfélaga og útrásarvíkinga og yfirmanna í bankanum. Þeir gættu alls ekki hagsmuna sjóðfélaga. Ættu að vera landflótta. Og bíllausir.

Ítrekuð mistök Ingibjargar

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er ekki farsæl. Hún er sterkur leiðtogi, sem hefur hvað eftir annað tekið rangar ákvarðanir. Leiddi Samfylkinguna inn í Blair-isma, brezka frjálshyggju með ívafi af fasisma. Tók upp samstarf við misheppnaðan Sjálfstæðisflokk. Gekk berserksgang um heiminn til að komast í Öryggisráðið. Hlustaði ekki í apríl á aðvaranir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og norrænu seðlabankana. Með Geir Haarde stýrði hún þjóðinni út í hrunið. Hún hélt mánuðum saman dauðahaldi í ríkisstjórn, sem nú er orðin alræmd fyrir verkkvíða. Hún er sterkur, en engan veginn farsæll kafteinn.

Fólkið og stefnan brugðust

Punktar

Fremstu frjálshyggjugaurar Sjálfstæðisflokksins töluðu gegn eftirliti. Pétur H. Blöndal. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson kölluðu það eftirlitsiðnað í háðungarskyni. Þeir trúðu þeirri kenningu frjálshyggjunnar, að auðhyggjan bæri í sér mátt til að leiðrétta kúrsinn. Trúbræður þeirra í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu voru sama sinnis. Þess vegna tók Davíð ekkert mark á aðvörunum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og norrænna seðlabanka í apríl 2008. Þessi trúarbrögð leiddu þjóðina út í hrunið. Það voru ekki bara frjálshyggjugaurarnir, sem brugðust, heldur frjálshyggju-ofsatrúin sjálf.

Pressan er á klafa

Fjölmiðlun

Lengi hafa fjölmiðlar viljað teljast frjálsir og óháðir. Sumir hafa ekki staðið undir þeim væntingum. Fráleitast er þó, að vefritið Pressan segist vera óháð. Í raun er hún uppvakningur gamla Tímans, málgagn flokkseigenda Framsóknar, höll undir fjármálafursta. Í forsvari eru ímyndunarfræðingar úr Framsókn, Björn Ingi Hrafnsson og Steingrímur Sævarr Ólafsson. Björn Ingi reyndi fyrir ári að einkavæða mannauð Orkuveitunnar gefins. Peningarnir koma frá Róbert Wessmann, sem vill ná undir sig sjúkrastofnunum suður með sjó. Wessmann á líka Viðskiptablaðið og færir núna út kvíarnar í fjölmiðlun.

Tíðarandinn tekur við sér

Fjölmiðlun

Tidarandinn.is, hefur endurnýjazt. Hann er blogggátt, sem tínir upp blogg þekktra manna og flokkar það. Þar eru þingmenn og bæjarstjórnarmenn, ýmsir flokksmenn, fjölmiðlamenn og áhugamenn. Einnig eru þar söfn frétta og bloggs á ýmsum sviðum. Tíðarandinn keppir við Blogg.gattin.is og Fretta.gattin.is, sem hingað til hefur haft forustu í þessu. Þær birta þó alla nafngreinda bloggara, en Tíðarandinn grisjar þá. Þetta eru öðru vísi gáttir en mbl.is, visir.is, dv.is og eyjan.is, sem ná bara til eigin bloggara. Líf er að færast í þennan bransa og Tíðarandinn er kominn í hörku fína samkeppni.

Sjóuð kvótagreifynja

Punktar

Guðbjörg Matthíasdóttir er ekkja Sigurðar Einarssonar kvótagreifa í Eyjum. Hún er í fréttum vegna aðildar að nýju félagi um Moggann. Það er ekki í fyrsta skipti, sem Guðbjörg kaupir dagblað. Fyrir nokkrum árum keypti hún DV til að setja það undir Óla Björn Kárason. Verðið var milljarður, enda hafði blaðið skilað hagnaði árum saman. Óli Björn keyrði það hins vegar í gjaldþrot á tæpu ári. Guðbjörg tapaði hlutafénu og Landsbankinn tapaði enn meira. Í haust gekk henni betur, þegar hún seldi hlutabréf sín í Glitni einum sólarhring fyrir gjaldþrot bankans. Það var aldrei rannsakað.

Útifundadampurinn farinn

Punktar

Dampurinn er farinn úr mótmælum á útifundum. Hástigið var 21. janúar fyrir utan Þjóðleikhúskjallarann, þegar Samfylkingin fór á taugum. Það leiddi til falls ríkisstjórnarinnar. Lokahnykkurinn var á fimmtudag, er Davíð Oddsson fór úr Seðlabankanum. Þetta voru tvö meginverkefni byltingarinnar, að losna við vanhæfa ríkisstjórn og vanhæfa bankastjóra. Önnur verkefni eru smærri í sniðum og megna ekki að draga þúsundir á Austurvöll. Ekki einu sinni kröfur um eignaupptöku, stjórnlagaþing og stjórnarskrá. Fjórflokkurinn hefur náð vopnum sínum og dregur til sín fylgið með yngri andlitum í gamla stílnum.

Feitu öndinni lokað

Veitingar

Einu þekktasta veitingahúsi heims hefur verið lokað um óákveðinn tíma. Tæplega 40 manns fengu í vikunni matareitrun hjá Heston Blumenthal á Fat Duck í nágrenni Lundúna. Grunur leikur á sniglagraut, en engin örugg niðurstaða hefur fengizt. Þetta er áfall fyrir veitingahús, sem rukkar hvern gest að meðaltali um 130 pund. Það eru rúmlega tuttugu þúsund krónur. Mér finnst líklegt, að veitingahúsum, sem leika sér með matinn, sé hætt við matareitrun. Mikil forvinnsla og mikil notkun bindiefna í nýklassískri myndlistar-matreiðslu býður hættunni heim.

Verður vondur forstjóri

Punktar

Verður vondur forstjóriEkki er ég hissa á, að norsk stjórnvöld hafi efasemdir um Anders Fogh Rasmussen sem næsta framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Anders hefur verið eindreginn stuðningsmaður heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Hann hefur sent danska hermenn henni til stuðnings. Hann er eins konar Svarti-Pétur í hópi norrænna forsætisráðherra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hins vegar ánægð með Anders og segir hann verða góðan framkvæmdastjóra bandalagsins. Ég held, að hún sé ekki í umtalsverðu sambandi við raunveruleikann. Anders getur ekki sveigt bandalagið af óheillabraut þjónustulundar við Bandaríkin.

Áfram gamla vanhæfa liðið

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur handvalið sig og Össur Skarphéðinsson í annað og þriðja sæti lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það gerir hún í skjóli Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skipar fyrsta sætið. Ekki er þetta í bókstaflegu samræmi við prófkjörsreglur. En Samfylkingin lætur handvalið samt yfir sig ganga. Þótt þetta séu ábekingar að hruni þjóðarinnar sem ráðherrar í vanhæfu ríkisstjórninni. Þannig halda gömlu andlitin áfram hjá flokknum. Jafnvel Kristján L. Möller, sem er kjördæmispotari, sérfræðingur í jarðgöngum. Skyldu sumir Samfylkingarmenn ekki finna óbragð að þessu öllu?

25% án nokkurrar ábyrgðar

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn á bágt. Hann telur frjálshyggjuna ekki hafa brugðizt, heldur fólk í útrás, bönkum, Seðló og ríkisstjórn. Bara Geir Haarde og Árni Mathiesen tóku ábyrgð. Áfram er í boði fólk úr bankasukkinu, svo sem Illugi Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Einnig fólk, sem eindregið styður róttæka frjálshyggju án eftirlits, svo sem Pétur H. Blöndal. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson. Ég efast um, að þetta fólk selji í kreppunni. Kannski hafa flokksmenn vit fyrir því, hafna því í prófkjöri. Eða kannski nær Flokkurinn sjálfkrafa 25% fylgi án þess að axla neina ábyrgð.