Author Archive

Vestrænir sem fyrr.

Greinar

Viðhorf Íslendinga til Varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins hafa ekki breytzt. Af þeim, sem afstöðu taka í skoðanakönnunum, eru tveir af hverjum þremur fylgjandi Varnarliðinu og fjórir af hverjum fimm fylgjandi Atlantshafsbandalaginu.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun um Varnarliðið, sem birtist hér í blaðinu á fimmtudaginn, og um Atlantshafsbandalagið, sem birtist í dag. Þetta eru nokkurn veginn sömu tölur og verið hafa frá upphafi slíkra kannana árið 1968.

Sérstaklega er þessi festa áberandi í viðhorfum manna til Varnarliðsins. Árið 1008 voru 63,3% því fylgjandi og 36,7% andvígir. Árið 1980 voru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir. Og nú eru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir.

Frávik frá þessum stöðugleika hafa einungis komið í ljós í þorskastríðum okkar við Breta. Þá rýrnaði stuðningurinn, bæði við Varnarliðið og Atlantshafsbandalagið, en fór samt aldrei niður úr öruggum meirihluta.

Með því að bera saman skoðanir Íslendinga á Varnarliðinu annars vegar og Atlantshafsbandalaginu hins vegar má skipta þjóðinni í þrjá misstóra hluta í afstöðunni til þessa mikilvæga þáttar í utanríkismálum okkar.

Fjölmennastir eru þeir, sem bæði styðja varnarliðið og Atlantshafsbandalagið. Þeir eru 64%. Á hinum kantinum eru svo þeir, sem hvorki styðja Varnarliðið né Atlantshafsbandalagið. Þeir eru aðeins 21% þjóðarinnar.

Á milli þessara póla er svo fámennasti hópurinn, sem fylgir Atlantshafsbandalaginu, en ekki Varnarliðinu. Þeir eru 15%. Það eru þeir þjóðernissinnar sem eru fylgjandi vestrænu varnarsamstarfi, en vilja ekki her í landi.

Athyglisvert er, að andstæðingar aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu og veru Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru litlu fjölmennari en kjósendur Alþýðubandalagsins. Hinir fyrrnefndu eru 21% og hinir síðarnefndu 18% þjóðarinnar.

Festan í fimmtán ára tímabili skoðanakannana um þessi mál verður enn athyglisverðari, ef tekið er tillit til, að margt hefur gerzt í heiminum síðan 1968. Forsendur viðhorfanna hljóta að hafa breytzt að einhverju leyti.

Sovétstjórnin er nú berari en áður sem hættulegt óróaafl í heiminum. Nú orðið þarf að leita með logandi ljósi að fólki, sem styður atferli sovétstjórnarinnar heima fyrir, í leppríkjunum og úti um allan heim.

Hin aukna óbeit manna á Sovétstjórninni hefur samt ekki orðið til að fjölga stuðningsmönnum vestræns varnarsamstarfs. Þar hljóta að hafa komið til sögunnar atriði, sem vega á móti skilningi manna á eðli Sovétstjórnarinnar.

Annars vegar gæti verið um að ræða áhrif hinnar meira eða minna einhliða friðarhreyfingar á Vesturlöndum. Óttinn við kjarnorkuvopn hefur dregið úr áhuga margra á, að Vesturlönd etji vígbúnaðarkappi við fangabúðarstjórana.

Hins vegar gæti einnig verið um að ræða tímabundin áhrif af setu Ronald Reagan í stóli forseta Bandaríkjanna. Margir óttast, að hann sé síðri friðarsinni en undanfarandi forsetar. Þeir bíða eftir öðrum skárri.

Allar hugleiðingar um ýmsar slíkar forsendur eru þó lítils virði í samanburði við tölurnar sjálfar. Þær sýna, að almenningsálit Íslendinga styður eindregið vestrænt varnarsamstarf og þátt Keflavíkurflugvallar í því samstarfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Siðlaus slagorðabæklingur.

Greinar

Svonefndur Upplýsingabæklingur ríkisstjórnarinnar, sem sendur var til allra heimila landsins, er ómerkilegur áróðursbæklingur af því tagi, er stjórnmálaflokkarnir senda kjósendum til að rugla þá fyrir kosningar.

Bæklingurinn er greinilega framleiddur á auglýsingastofu, þar sem umbúðir eru taldar brýnni en innihald. Enda hefur hún ekki séð ástæðu til að merkja sér bæklinginn, svo sem slíkar gera, þegar þær eru ánægðar með sig.

Bæklingurinn felst í skreytingum og slagorðum til varnar bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar og öðrum gerðum hennar í sumar. Hann gerir enga tilraun til að útskýra gerðirnar eða rökstyðja þær á annan hátt.

Ríkisstjórnir hér og erlendis hafa einstaka sinnum gefið út svonefndar Hvítar bækur til að skýra meiriháttar stefnubreytingar. Þar hefur verið beitt rökum og útreikningum til að koma umræðunni á málefnalegt stig.

Ekkert fordæmi er hins vegar fyrir hinum nýkomna auglýsingabæklingi ríkisstjórnarinnar. Í honum eru eingöngu tuggin upp gömul slagorð úr stjórnmálarimmum sumarsins. Hann er gersamlega laus við að vera málefnalegur.

Áróður þessi fyrir stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kostar skattgreiðendur í landinu 320 þúsund krónur. Stjórnarflokkarnir hyggjast nefnilega ekki borga sinn áróður sjálfir.

Steingrímur Hermannsson hefur hér í blaðinu reynt að verja þennan óverjandi slagorðabækling með því að verið sé “að reyna að upplýsa fólk sem mest um það, sem verið sé að gera”. Hvílíkt endemis rugl.

Hugsanlega hefði verið verjandi að gefa út Hvíta bók með ítarlegum upplýsingum um gerðir ríkisstjórnarinnar ásamt útskýringum á þeim og þá ekki síður athugasemdum og efasemdum, sem komið hafa úr ýmsum áttum.

Bæklingur með einhliða upphrópunum um ágæti stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og engu öðru innihaldi á hins vegar ekkert skylt við Hvítar bækur og á auðvitað að greiðast úr flokkssjóðunum.

Stjórnarandstaðan á alþingi þarf að fylgja þessu hneykslismáli vel eftir alla leið yfir í ríkisendurskoðun, – með kröfum um, að 320 þúsunda reikningurinn verði sendur þeim tveimur flokkum, sem peningunum stálu.

Hitt er svo athyglisvert, að ráðherrar tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skuli vera á svo lágu siðferðisstigi, að þeir sjái ekki, hvað er athugavert við útgáfu pólitískra áróðursbæklinga á kostnað skattgreiðenda.

Þetta er alveg í stíl við þá yfirlýstu skoðun forsætisráðherra, að honum finnist óviðkunnanlegt og raunar ófært að fara á skíði í ríkisbíl. Þess vegna hefur ríkið þurft að gefa honum hálfan bíl og skatt af hlunnindunum.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á þessu stigi sjálftektar á fjármunum almennings, er engin von til, að almenningur öðlist traust á stjórnmálamönnum og hætti að líta á þá sem lukkuriddara og hálfgildings sjóræningja.

320 þúsund króna slagorðabæklingur í umbúðum frá auglýsingastofu og alls engu efnislegu innihaldi er dapurlegur áróður fyrir ríkisstjórn, sem með þessu hefur einkum auglýst, að hún þurfi á siðvæðingu að halda.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ekki lengur fasteignir.

Greinar

Skoðanakönnunin í DV í dag um fylgi stjórnmálaflokkanna staðfestir, að kjósendur bera takmarkað traust til þeirra. Nærri helmingur hinna spurðu treysti sér ekki til að lýsa yfir fylgi við neinn þeirra.

Þetta stafar ekki af tregðu fólks til þáttöku í skoðanakönnunum sem þessari. Við sama tækifæri var einnig spurt um afstöðuna til ríkisstjórnarinnar og efnahagsaðgerða hennar. Allur þorri manna treysti sér til að svara þeim spurningum.

Í mörg ár hafa skoðanakannanir sýnt, að kjósendur hafa losað um tengslin við flokkana og ákveða sig ekki fyrr en rétt fyrir kosningar og jafnvel ekki fyrr en í kjörklefanum. Þeim fækkar, sem flokkarnir geta gengið að sem vísum.

Afleiðingin hefur komið í ljós í miklum sveiflum á fylgi flokkanna. Í vor sigruðu Sjálfstæðisflokkurinn og nýju framboðin. Þar á undan hafði Framsóknarflokkurinn verið sigurvegari og þar áður Alþýðuflokkurinn.

Hinn mikli fjöldi, sem ekki svaraði spurningunni um fylgi við flokka í þessari nýjustu könnun, veldur því að erfitt er að túlka niðurstöðurnar, bera þær saman við síðustu kosningaúrslit og spá um horfurnar í hinum næstu.

Þeir, sem nú eru óvissir, munu í næstu kosningum ekki raðast á flokkana í sömu hlutföllum og hinir, sem nú eru ákveðnir í vali sínu. Reynslan sýnir til dæmis, að slíkar kannanir vanmeta fylgi Alþýðubandalagsins og ofmeta Sjálfstæðisflokkinn.

Með þessum fyrirvara er þó hægt að benda á sérstaklega góða útkomu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni. Fjórðungur hinna spurðu og helmingur hinna ákveðnu lýsti yfir stuðningi við þennan flokk harkalegra efnahagsaðgerða.

Að meðtöldum sérframboðum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 39,2% atkvæða í kosningunum í vor. Í hinni nýju könnun náði hann 47,9% þeirra, sem afstöðu tóku. Þetta er hvorki meira né minna en 8,7 prósentustiga aukning.

Ekki er þetta eingöngu aðgerðum stjórnvalda að þakka, því að hinn stjórnarflokkurinn fær í könnuninni verstu útkomu allra flokka. Það er Framsóknarflokkurinn, sem fékk í vor, að meðtöldum sérframboðum, 19% atkvæða.

Í könnuninni hlaut Framsóknarflokkurinn hins vegar ekki nema 14,8% stuðning þeirra, sem afstöðu tóku. Það er 4,2 prósentustiga minnkun. Hún hlýtur að kynda undir óánægju framsóknarmanna með stjórnarsamstarfið.

Næst Sjálfstæðisflokknum eru það Samtök um kvennalista, sem beztum árangri náðu í könnuninni. Þau fengu nú í sinn hlut 7,2% þeirra, sem afstöðu tóku, en höfðu 5,5% atkvæða í kosningunum í apríl síðastliðnum.

Þetta bendir til, að Samtök um kvennalista séu ekki dægurfluga einna kosninga, heldur varanlegra stjórnmálaafl. Þá koma Alþýðuflokkurinn og Bandalag jafnaðarmanna illa út úr þessari skoðanakönnun.

Að venju snerta sveiflurnar, sem hér hefur verið lýst, Alþýðubandalagið minnst allra flokka. Það hlaut 18% fylgi þeirra, sem afstöðu tóku. Það er örlitlu betra en 17,3% útkoma flokksins í kosningum ársins.

Öllum þessum niðurstöðum þarf að taka með fyrirvara, nema þeirri, að kjósendur eru ekki trúir flokkunum og eru til alls vísir í næstu kosningum. Þeir eru ekki lengur fasteignir flokkanna og geta í mesta lagi talizt lausafé þeirra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Með ær og kýr við barm.

Greinar

Ríkissjóður er alls ekki eins fátækur og almennt virðist vera talið. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru ýmsir liðir, sem bera vitni um örláta ríkisstjórn, er hyggst dreifa þjóðarsilfri út um holt og hæðir.

Að vísu hafa ýmsir þarfir eða réttlátir liðir verið skornir niður eða hreinlega strikaðir út. En það stafar ekki af fátækt, heldur breyttu verðmætamati. Þannig fer þjóðarbókhlaðan út og millilandaflugstöðin inn.

Óbeit ríkisstjórnarinnar nær allt frá sjóðum til eflingar iðnaðar yfir í flugbjörgunarsveitir og námsstuðning við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er krumpaða útgáfan af hugsjóninni um ríkissparnað.

Eina verulega stóra hugsjón á ríkisstjórnin í fjárlagafrumvarpinu. Hún er að sem allra mest verði framleitt af óþörfum afurðum kinda og kúa. Til þeirrar hvatningar á að verja 8,4% af öllum útgjöldum fjárlaga á næsta ári.

Þessi hluti af útgjöldum ríkisins til landbúnaðar á að nema hálfum öðrum milljarði króna á næsta ári. Þetta eru beinu styrkirnir, niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar, aðeins þrír af mörgum landbúnaðarliðum.

Stundum hefur verið deilt um, fyrir hverja niðurgreiðslurnar séu. Það breytir ekki því, að áhrif þeirra eru fólgin í meiri neyzlu og meiri framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum en væri við ófalsaðar aðstæður.

Ef við hugsum okkur, að þessar vörur væru ekki framleiddar hér frekar en korn og sykur, þyrfti engar niðurgreiðslur, enga styrki og engar útflutningsuppbætur. Og þá ætti ríkissjóður 1,5 milljarða í árlegan afgang.

Þessi upphæð er svo rosaleg, að hún mundi nægja til að veita öllum kúa- og kindabændum landsins einnar milljónar króna húsnæðislán á næstu þremur árum. Samt væri afgangur í smotterí á borð við íslenzkan iðnað og munaðarleysingja.

Einnig er hugsanlegt, að skattgreiðendur vildu renna hýru auga til upphæðarinnar. Hún mundi rúmlega nægja til að fella niður allan tekjuskatt íslenzkra launþega. Segjum svo ekki, að kotungsbragur sé á ríkissjóði.

Loks má benda á, að þessi 8,4% fjárlaga mundu nægja til að greiða öllum kinda- og kúabændum landsins heil þingmannslaun. Og losa þá um leið undan ánauð vinnslustöðva, sem heimta síaukna veltu upp í offjárfestinguna.

Þjóðarsilfur þetta fellur ekki aðeins í grýtta jörð. Það hvetur til framleiðslu á rándýrum afurðum, sem þjóðin getur ekki notað. Þannig bindur það ekki aðeins fjárlagafrumvarp næsta árs, heldur ókominna ára líka.

Meðan 1.500.000.000 krónum er varið á ári til að halda úti skaðlegum kindum og kúm, eru auðvitað ekki aflögu 5.000 krónur til námsstuðnings við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er spurning um forgangsröð.

Ef leiftursókn ríkisstjórnarinnar gegn ofneyzlu á að ná árangri, verður hún að hafa fé til þess annars vegar að vernda smælingjana og hins vegar til að stuðla að eflingu arðbærrar iðju og flutningi starfskrafta til hennar.

En það hefur hún ekki meðan hún hefur önnur eins gæludýr og ær og kýr sér við barm. Og fjárlagafrumvarpið er einmitt ömurlegast fyrir þá sök, að það byggist á úreltu verðmætamati og úreltri forgangsröð.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórn í helgum steini.

Greinar

Ríkisstjórninni hefur gengið vel að ná þjóðinni úr skýjunum niður á jörðina, – að laga hana að raunveruleika þjóðarteknanna. En stjórnin virðist í bili ekki hafa ráð til að hjálpa þjóðinni við að vinna sig upp á nýjan leik.

Að þessu leyti staðfesti þjóðhagsáætlunin í gær það, sem kom fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir viku. Og þar sem þjóðhagsáætlunin er skrifuð í stíl pólitískrar stefnuskrár, er við því að búast, að forsætisráðherra segi hið sama í stefnuræðunni í kvöld.

Stefnan felst í stórum dráttum í, að á næsta ári haldi lífskjör þjóðarinnar áfram að vera í lægðinni, sem þau eru í núna. Árið 1984 á þjóðin ekki að lifa um efni fram og þar af leiðandi ekki safna skuldum í útlöndum.

Þetta er út af fyrir sig nauðsynlegt. En þó hefðu margir kosið, að þessari “lausn” efnahagsvandans fylgdu tilraunir til að gera atvinnulífinu kleift að leggja nýjan grundvöll að bættum lífskjörum á næstu árum.

Raunar hlýtur það að vera eitt helzta atriði sérhverrar stefnu í efnahagsmálum, að lífskjörin batni. Þess vegna er dálítið sorglegt, ef ríkisstjórnin ætlar nú að sitja með hendur í skauti og láta fyrsta skrefið nægja.

Fjárlögin hafa að vísu verið skorin niður til að halda óbreyttum hlut ríkisins af þjóðartekjum og stöðva hina árvissu aukningu hans. Ef lánsfjáráætlunin gerir slíkt hið sama, hefur ríkisstjórnin sýnt örlitla sparsemi.

Hins vegar er ekki hægt að lofa ríkisstjórnina fyrir fjárlagafrumvarpið að öðru leyti. Eins og fyrri frumvörp verndar það heimskulegustu útgjaldaliði ríkissjóðs, en sparar margt af því, sem er þarft og nauðsynlegt.

Til dæmis er gert ráð fyrir að verja hálfum öðrum milljarði króna til að hvetja til aukinnar framleiðslu á mjólkurvörum og kindakjöti, sem þjóðin þarf ekki hið minnsta á að halda. Þessi hvatning felst í styrkjum, niðurgreiðslum og uppbótum.

Þarna fara ekki aðeins 1,5 milljarðar í súginn á tímum sparnaðarhyggju. Fjárútlátin hafa varanlegri afleiðingu. Meira en ella verður um kinda- og kúabúskap, sem ríkissjóður þarf að standa undir á næstu árum og áratugum.

Í þjóðhagsáætlun gærdagsins var ekkert fjallað um, hvernig ríkisstjórnin hyggst létta þessu fáránlega oki af þjóðinni. Aðeins er sagt, að laga þurfi landbúnaðinn að markaðsaðstæðum, en ekkert minnst á aðferðir.

Í þjóðhagsáætluninni er ekki heldur fjallað um, hvernig eigi að minnka togaraflotann. Þar er ekki einu sinni minnzt á, að hann þurfi yfirleitt að minnka. Aðeins er sagt, að veita þurfi aðhald í skipakaupum.

Fjárlagafrumvarp, þjóðhagsáætlun og stefnuræða forsætisráðherra, sem ekki taka á hrikalegustu vandamálum þjóðarinnar, eru ekki nógu góð plögg handa þjóð, sem hefur af stakri þolinmæði sætt sig við umtalsverða kjaraskerðingu.

Ríkisstjórnin og ráðstafanir hennar njóta enn nokkurs stuðnings með þjóðinni. Sumir skilja vandann og vilja taka þátt í að bera byrðar hans. En það er ríkisstjórninni skammgóður vermir, ef hún ætlar að setjast í helgan stein.

Framkomin gögn hennar benda ekki til, að hún hyggist opna augun árið 1984. Ef til vill hefur hún ekki haft til þess nægan tíma. Kannski tekur hún við sér í ráðagerðum fyrir árið 1985. Betra er seint en aldrei.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjóra í nýtingu.

Greinar

Deilurnar í borgarstjórn um skipulagshugmyndir við Skúlagötu snúast að verulegu leyti um keisarans skegg. Þær fjalla um svokallað “nýtingarhlutfall”, það er að segja gólfflatarmál húsa deilt með flatarmáli byggingareita.

Meirihlutinn vill geta komið þessu nýtingarhlutfalli upp í tvo, meðan minnihlutinn vill einn eða hálfan annan. En þessar tölur skipta í rauninni minna máli en að yfirvöld láti skoða nákvæmlega allt samhengi málsins.

Nýtingarhlutfall gæti sem bezt verið fjórir, ef rétt er að farið. Slíkt hlutfall gæti stuðlað að samningum við hina mörgu lóðaeigendur, sem eiga sumir hverjir litla skika og hafa ekki áhuga á endurreisn svæðisins.

Við skulum ímynda okkur, að kjallarar fylltu út í alla byggingareiti svæðisins frá Skúlagötu upp fyrir Laugaveg. Í þessum kjöllurum væru bílastæði fyrir íbúa svæðisins, starfsfólk fyrirtækja og viðskiptavini þeirra.

Þar með væri þegar fengið nýtingarhlutfallið einn, áður en komið væri upp úr jörðinni. Ef svo við hugsuðum okkur áfram, að allir byggingareitirnir væru þaktir jarðhæð með verzlunum út að götu, væri hlutfallið komið upp í tvo.

Ef við enn hugsuðum okkur, að ofan á verslunarjarðhæðinni væru sums staðar ein og sums staðar tvær hæðir undir skrifstofur og ýmsa þjónustu við íbúana, svo og skjólsæl leiksvæði og önnur opin svæði, væri hlutfallið komið í þrjá.

Ef við loks hugsuðum okkur, að upp úr þessum mannvirkjum risu í öllu norðanverðu Skólavörðuholti um tuttugu íbúðaturnar, fimmtán hæða og með sex íbúðum á hverri hæð fyrir ofan þá þriðju, væri nýtingarhlutfallið komið upp í fjóra!

Nóg svigrúm væri samt um þessa íbúðaturna, hátt til lofts og vítt til veggja. Úr öllum íbúðum væri gott útsýni og andrúmsloft væri gott. Skjót leið væri með lyftu niður í þjónustustofnanir og sjálfa miðborg Reykjavíkur.

Ef svæðið væri þar á ofan skipulagt á þann hátt, að íbúar turnanna og viðskiptavinir miðborgarinnar gætu komizt innanhúss inn á yfirbyggðan Laugaveg, væri í fyrsta sinn á Íslandi búið að reisa byggð með tilliti til hnattstöðunnar.

Í framhjáhlaupi má minna á, að kostnað við gagnsæ þök á götum má greiða með ódýrari einangrun húsveggja, sem snúa að götunni, og með lægri hitunarreikningum húsanna, svo framarlega sem komið er í veg fyrir dragsúg á götunum.

Þetta dæmi um skipulagshugmynd er rakið hér til að sýna fram á að nýtingarhlutfall skiptir litlu máli, en heildstæð skipulagshugsun miklu. Minnihlutinn í borgarstjórn er á villigötum í gagnrýni á nýtinguna.

Það er meirihlutinn líka, ef hann hyggst skipuleggja út frá einum byggingareit við Skúlagötu. Slíkt er ekki hægt að gera af viti, nema vitað sé, hvernig endanleg mynd norðurhlíðar Skólavörðuholts eigi að vera.

Til dæmis er hugsanlegt, að útidyr íbúðaturna við Skúlagötu ættu ekki að vera eingöngu á fyrstu hæð, heldur til dæmis einnig á þriðju eða fjórðu hæð til að létta samgöngur gangandi fólks við verzlanir, og þjónustu ofar í hlíðinni.

Norðurhlíð Skólavörðuholts gefur svo stórfenglega möguleika á vönduðu skipulagi veðursællar miðborgar með þéttri íbúðabyggð, að því má ekki glata í vinstra rugli um nýtingarhlutfall eða í hægri asa skipulags á of afmörkuðum reitum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Árangur er takmarkaður.

Greinar

Eftir velheppnaða leiftursókn gegn verðbólgu og lífskjörum er ástæða til að óttast, að hin nýja ríkisstjórn hafi ekki kjark til að ráðast af sama krafti gegn ýmsum óvættum í vegi endurnýjaðrar hagþróunar í landinu.

Nokkuð er til í því, sem Ásmundur Stefánsson hjá Alþýðusambandinu hefur sagt, að ríkisstjórnin hafi raunar ekki gert annað en að ráðast gegn kaupi almennings. Altjend er ljóst, að hún hefur gert það af miklum krafti.

Snúið hefur verið við þróun síðustu þrettán ára, þegar kaupmáttur jókst umfram aukningu þjóðartekna og safnað var til skulda í útlöndum til að kosta umframeyðsluna. Þessi falski kaupmáttur hefur verið tekinn aftur.

Á einu sviði til viðbótar hefur ríkisstjórnin látið til sín taka. Hún hefur lagað ýmsar gjaldeyrisreglur í átt til þess, sem tíðkast í nágrannalöndunum. Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hafa sýnt lofsvert framtak.

Lagt hefur verið niður hið tvöfalda gengi krónunnar, sem fólst í sérstöku álagi á ferðamannagjaldeyri. Bönkum og sparisjóðum hafa almennt verið heimiluð gjaldeyrisviðskipti. Og nú er krónan orðin skiptifrjáls í útlöndum.

Allt er þetta til bóta. Og ástandið mundi batna enn frekar, ef þetta nýja frelsi næði einnig til fjármagnshreyfinga og ef heimilað yrði að gera viðskiptasamninga innanlands í erlendri mynt. Þá yrði erfitt að endurreisa verðbólguna.

Á öðrum sviðum fer lítið fyrir afrekum ríkisstjórnarinnar, enda hefur hún ekki setið lengi að völdum. Eftir helgina verður lagt fram frumvarp til fjárlaga og áætlun um lántökur, sem fela í sér takmarkaðan árangur.

Hið jákvæða í þessum plöggum er, að þau gera ráð fyrir stöðvun hinnar árvissu útþenslu ríkisbáknsins á kostnað launafólks og atvinnuvega. Þessi útþensla varð óbærileg, þegar þjóðartekjur byrjuðu að dragast saman á síðasta ári.

Að vísu er aldrei fyllilega að marka áætlanir af þessu tagi. Það er til dæmis alveg sama, hverju ráðgert er að sóa í landbúnað, – sukkið fer alltaf langt upp fyrir mörkin, einnig eftir tilkomu þessarar ríkisstjórnar.

Samanlagt gera fjárlagafrumvarpið og lánsfjáráætlunin ráð fyrir, að Ísland taki ekki erlend lán fyrir vöxtum af fyrri erlendum lánum og ekki hærri erlend lán en sem svarar afborgunum af fyrri erlendum lánum.

Allt er þetta árangur, en takmarkaður árangur. Það er út af fyrir sig gott að geta stöðvað öfugþróunina, en þá hefði verið enn betra að snúa henni við. Vonandi tekst það í hliðstæðum plöggum, sem verða lögð fram að ári.

Leiftursóknin gegn verðbólgu og lífskjörum verður ekki að leiftursókn fyrir atvinnuuppbyggingu og endurreistum lífskjörum í kjölfarið, nema hið opinbera hætti að vernda úrelta starfsemi gegn innreið nýrrar.

Í staðinn þarf að beina starfskröftum þjóðarinnar frá tilgangslausri iðju á borð við sauðfjárrækt og mjólkurbúskap og að framtíðargreinum á borð við laxarækt og örtölvutækni. Og togurunum þarf að fækka hið bráðasta.

Í frumvörpunum tveimur felst nokkur niðurskurður á sóun fjármagns hins opinbera í sjálfvirka sjóði vonlausrar fjárfestingar. En í stórum dráttum er þó enn í gildi peningaforgangur hefðbundinnar vitleysu á borð við kýr og kindur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hundaeigenda-vandinn.

Greinar

Hundahald í tiltölulega dreift byggðu nágrenni Reykjavíkur hefur sumpart haft jákvæð áhrif. Börn hafa til dæmis víða vanizt hundum og eru að mestu hætt að stríða þeim. Þannig hafa hundar að nokkru leyti fallið inn í þetta umhverfi.

Um leið hefur aukið hundahald haft í för með sér aukin vandamál. Hluti hundaeigenda fer ekki eftir neinum reglum, hverjar svo sem þær eru, og jafnvel ekki þeim, sem beinlínis eru settar til að liðka fyrir hundahaldi.

Flestir eigendur hunda fara eftir reglum og eru ekki til vandræða. Á milli er þó fólk, sem á erfitt með að stunda mannleg samskipti á jafnréttisgrundvelli. Það hefur fengið sér hund, svo að til sé þá einhver, sem líti upp til þess.

Sumt þetta fólk tekur ekkert mark á hefðum í mannlegum samskiptum, til dæmis ekki þeim, sem felast í lögum og reglum. Það fer sínu fram, hvað sem tautar og raular. Það tekur sér hreinlega rétt, sem það á ekki.

Raunar er sumt af þessu fólki hið viðskotaversta, sem hugsast getur. Hundarnir draga síðan dám af húsbændum sínum. Þeir geta ekki umgengizt ókunnuga og valda óhjákvæmilega vandræðum, þótt bæjarstjórnir kjósi að loka augum.

Konan, sem viðraði hundinn í Gróttu, alfriðaðri um varptímann, er dæmi um fólk, sem er lokað fyrir umhverfi sínu. Ekkert kemst að, nema þess eigin sjálfselska. Þetta fólk er hið raunverulega vandamál hundahaldsins.

Sumir halda því fram, að hundahald með skilyrðum í nágrenni Reykjavíkur, það er í Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, hafi gefizt vel. Staðreyndin er hins vegar, að ástandið hefur í heild versnað.

Eftirlit með, að farið sé eftir skilyrðum hundahalds, er í lágmarki. Þótt eftirlitsmenn séu allir af vilja gerðir, er ógerlegt að sinna þessu í hlutastarfi. Í 3000 manna bæjarfélögum á þetta að vera minnst fullt starf.

Á sumum tímum kann að vera þörf á enn harðara eftirliti. Um varptímann er til dæmis nauðsynlegt að hafa 24 klukkustunda vakt í Gróttu og Suðurnesi til að stöðva hundaeigendur í að útrýma fuglalífi í þessum vinjum.

Svo að hægt sé að herða eftirlitið, þarf að hækka árgjöldin, sem hundaeigendur greiða. 1.500 króna gjald er gersamlega ófullnægjandi til að standa undir nauðsynlegum kostnaði, þar á meðal hertu eftirliti.

Auk þess þarf að setja reglur um háar fjársektir þeirra, sem láta sér ekki segjast. Á núverandi verðlagi mætti til dæmis sekt við fyrsta broti vera um 10.000 krónur og fara síðan ört hækkandi við endurtekin vandræði.

Raunar væri snöggtum skynsamlegra að beina þannig refsingunni að hinu raunverulega vandamáli, heldur en hundunum. Í stað þess að lífláta óábyrga hunda er miklu heppilegra að sekta hundaeigendur, sem eiga að vera hinir ábyrgu aðilar.

Ef á slíkan hátt reynist unnt að hindra hinn sjálfselska hluta hundaeigenda í að sleppa hundum sínum lausum, væri stigið mikilvægt skref í að gera hundahald þolanlegt öðru fólki í tiltölulega dreifðri nágrannabyggð Reykjavíkur.

Hins vegar verður að draga í efa, að unnt yrði að lina hundavandann á sama hátt í tiltölulega þéttri byggð Reykjavíkur. Ef til þess kæmi, þyrfti örugglega að hafa fleiri og harðari skilyrði en þau, sem mistekizt hafa í nágrenninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Bíll Steingríms.

Greinar

Vel getur verið, að Steingrímur Hermannsson sé á þessu ári fimmtán Sóknarkvenna virði. Vel getur verið, að hann ætti að fá í laun á þessu ári tvær milljónir króna í stað einnar milljónar króna ráðherralauna.

Opinberlega hefur forsætisráðherra um einnar milljónar króna laun á þessu ári, auk margvíslegra fríðinda, sem fylgja. En í ofanálag hefur hann nú gefið sér skattfrjáls 0,6 milljóna innflutningsgjöld af 1,2 milljóna bíl.

Þar sem þessar 0,6 milljónir eru skattfrjálsar, jafngilda þær um einni milljón króna í skattskyldum tekjum. Þannig tvöfaldar Steingrímur laun sín á þessu kjaraskerðingarári með því að beita úreltum spillingarákvæðum.

Eðlilegra væri, að almennt samkomulag ríkti í þjóðfélaginu um laun forsætisráðherra, svo að þeir séu ekki eins og útspýtt hundsskinn við að komast yfir undirborðsfé með aðferðum, sem samrýmast ekki sómatilfinningu manna.

Meðal stjórnmálamanna er ekki einu sinni eining um, að þeir eigi að fá að krækja sér í svart fé með þeim hætti, sem Steingrímur hefur gert. Það eru aðeins ráðherrar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem haga sér svona.

Alþýðuflokkurinn hætti þátttöku í þessari spillingu árið 1970 og Alþýðubandalagið gerði það árið 1974. Spillingarstimpillinn stendur eftir á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, sem nú virðast raunar telja sér flest leyfilegt.

Hér er verðugt verkefni fyrir áhrifamenn í þessum tveimur flokkum. Þeir mættu gjarna reyna að leiða ráðherrum sínum fyrir sjónir, að þeir séu ekki riddarar úr þrjátíu ára stríðinu, sem megi taka það, sem þá langar í.

Þjóðinni ber auðvitað að greiða ráðherrum sínum gott kaup í þeirri von, að það skili sér á annan hátt. En skilja ber á milli þeirrar nauðsynjar annars vegar og meðferðar hins opinbera á þessum tekjum hins vegar.

Alltof mikið er um, að ráðherrar og raunar stjórnmálamenn yfirleitt láti gilda um sig aðrar reglur en aðra landsmenn. Þingmenn hafa til dæmis hert skattheimtu um leið og þeir hafa ákveðið að undanskilja sig sömu ákvæðum.

Þannig eru ýmis fríðindi þingmanna ekki skattlögð, þátt sömu fríðindi annarra manna séu skattlögð. Þingmenn greiða ekki í lífeyrissjóð með sama hætti og aðrir menn gera. Að baki alls þessa er sjúk hugsun.

Reglan á að vera sú, að sömu lög, reglugerðir og hefðir gildi um alla landsmenn, hvort sem þeir heita Jón eða séra Jón. Sérstaklega er nauðsynlegt að koma þessu jafnvægi á í lögum, reglugerðum og hefðum um skatta og tolla.

Hitt er svo annað mál, að vert er að kanna, hvort kjör stjórnmálamanna séu nógu góð. Ef þeir eiga meira skilið en þeir fá með sömu reglum og annað fólk, eiga þeir að fá meira fé á sama hátt, en ekki undir borðið.

Siðbót er raunar orðin mjög brýn, þegar samtrygging stjórnmálaflokkanna hefur rofnað á þann hátt, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið treysta sér ekki til að taka þátt í verstu útgáfu spillingarinnar.

Og ekki verður séð, að milljón króna sjálfsgjöf forsætisráðherra stuðli að þjóðarsátt um lífskjaraskerðinguna. Samkomulag stjórnarflokkanna um afnám hinna fáránlegu toll- og skattsvika mundi hins vegar stuðla að vinnufriði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gunnar Thoroddsen.

Greinar

Gunnar Thoroddsen var í hópi merkustu stjórnmálamanna landsins á þessari öld. Hann var einn sá allra síðasti af hinum stóru, sem gnæfðu upp úr meðalmennsku íslenzkra stjórnmála og gáfu þeim reisn umfram hið hversdagslega.

Stjórnmálaferill Gunnars var óvenju langur, spannaði hálfa öld. Hann var kjörinn á þing árið 1933, aðeins 23 ára, þá enn laganemi í háskóla. Á þessari hálfu öld sat hann samtals 43 þing og var því reyndasti þingmaðurinn.

Gunnar aflaði sér líka þekkingar og reynslu á öðrum sviðum þjóðlífsins. Hann var lengst af prófessor við Háskóla Íslands. Einnig var hann um tíma sendiherra í Kaupmannahöfn og ennfremur hæstaréttardómari.

Hinn óvenju næmi skilningur Gunnars á kjósendum kom fljótt í ljós, þegar hann varð borgarstjóri í Reykjavík árið 1947, aðeins 37 ára gamall. Þá jók hann meirihluta flokks síns í hverjum kosningunum á fætur öðrum.

Í þá daga var þröngsýni flokkanna meiri en nú. Gunnar vék sér undan flokksaga í forsetakosningunum 1952 og mátti æ síðan þola hatur ýmissa flokksmanna. Nú á tímum þættu atvik af þessu tagi varla í frásögur færandi.

Hámarki ferils stjórnmálanna náði Gunnar sem forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat fram á þetta ár. Óvíst er, að nokkur ríkisstjórn hafi notið eins mikilla vinsælda lengst af valdatímanum, þótt ósamstæð væri.

Hæfileikar Gunnars nutu sín vel í þeirri ríkisstjórn. Meðalmennin í ráðherrastólunum vildu yfirleitt fara í hár saman, eins og þeir höfðu áður vanið sig á, en honum tókst með kurteisi að koma þeim upp úr slíku.

Gunnar var meiri ræðumaður en aðrir stjórnmálamenn síðustu ára. Hann forðaðist þras og illindi og hafði lag á að lyfta sér í orðaval, sem almenningur skildi og samþykkti.

Á réttum tímamótum flutti hann setninguna: “Vilji er allt, sem þarf”. Þessi fimm orð áttu áreiðanlega meiri þátt en þúsund önnur í að afla skilnings á gerðum þáverandi ríkisstjórnar og veita henni endurnýjaðan vinnufrið.

Einnig skar Gunnar sig úr í æðruleysi. Þegar aðrir sýndu óþolinmæði og jafnvel angist, var hann hinn rólegasti. Hann vissi, að einstakir bardagar skiptu minna máli en styrjöldin í heild og lét sér því hvergi bregða.

Þetta var þáttur í nákvæmri taflfléttulist Gunnars. Hann hafði lag á að flétta saman leikjum og tefla skákum í stöður, þar sem hann gat valið milli leikja, eftir viðbrögðum þeirra stjórnmálaafla, sem hann tefldi við hverju sinni.

Alla tíð ræktaði Gunnar önnur áhugamál en stjórnmálin ein. Hann var mikill tónlistarmaður og samkvæmismaður. Hann var menntaður í þess orðs víðasta og bezta skilningi, enda hvatti hann stjórnmálamenn til að skilja hið mannlega.

Mesta lán Gunnars var að vera kvæntur Völu Ásgeirsdóttur, sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu og naut persónulegrar hylli í svipuðum mæli og hann sjálfur. Hún átti mikinn þátt í að gera heimili þeirra að miðstöð í þjóðlífinu.

Við andlát og útför Gunnars Thoroddsen vill DV flytja Völu og börnum þeirra, öðrum ættingjum og vinum sérstakar samúðarkveðjur og minna um leið þjóðina á síðustu hvatningu Gunnars: “Hið mannlega sjónarmið verður að fá að njóta sín.”

Jónas Kristjánsson.

DV

Full atvinna í verðhjöðnun.

Greinar

Hingað til hefur þótt tíðindum sæta, ef ríkisstjórn nær einhverju markmiði sínu. Því er það núna töluvert ánægjuefni, að fátt virðist geta komið í veg fyrir, að núverandi ríkisstjórn nái verðbólgunni niður í 30% um áramót.

Enn gleðilegra er, að þetta virðist munu takast án atvinnuleysis. Hingað til hafa menn trúað, að leiftursókn gegn verðbólgu mundi óhjákvæmilega leiða til stórskertrar kaupgetu og samdráttar í atvinnulífinu.

Í iðnaði ríkir bjartsýni. Gengisskráningin er nær raunveruleika en oftast áður og styrkir á þann hátt samkeppnisgetu íslenzkrar framleiðslu. Hið sama á sér stað í sjávarútvegi, þar sem skortur er á vinnuafli, þrátt fyrir barlóminn.

Meira að segja byggingariðnaðurinn, sem talinn er viðkvæmur fyrir sveiflum, er enn á fullri ferð með rífandi atvinnu, þótt kreppt hafi að húsbyggjendum. Með auknu fjármagni til íbúða í vetur á þessi grein að blómstra áfram.

Gagnrýnendur aðgerða ríkisstjórnarinnar harma, að hún hefur einhliða ráðizt gegn kaupmætti launataxta, en ekki lagt hliðstæðar byrðar á atvinnulífið. Launþegar hafi orðið einir að bera byrðarnar, en fyrirtækin ekki.

Ef til vill er þetta einmitt lykillinn að þeirri velgengni aðgerðanna, að full atvinna hefur haldizt í hruni verðbólgunnar. Vel stæð fyrirtæki geta frekar en illa stæð haldið uppi atvinnu og fært út kvíarnar til aukinnar atvinnu.

Segja má, að um nokkurra mánaða skeið hafi ríkt hér japanskt kerfi. Það felst í, að fyrirtækjum er leyft að blómstra, en kaupmætti er haldið í skefjum. Þannig urðu Japanir ríkir á nokkrum áratugum og komu sér fyrir á heimsmarkaði.

Bætt lífskjör fylgdu í kjölfarið, en ætíð í kjölfarið og ekki fyrirfram. Japanir öfluðu fyrst og eyddu svo. Með þessu tókst þeim á furðanlega skömmum tíma að koma lífskjörum sínum upp í þau, sem ríkja á Vesturlöndum.

Sumir gagnrýnendur geta viðurkennt þetta, en telja of geyst hafa verið farið í sakirnar hér. Þeir hafa sagt í allt sumar, að heimilin þoli ekki þessa leiftursókn gegn lífskjörum og verði hreinlega gjaldþrota.

En raunar er merkilegt, hversu lítið hefur borið á samdrætti í lífskjörum. Mjög margir höfðu raunar svigrúm til að spara kaup á vörum og þjónustu, sem ekki geta talizt til nauðsynja. Þetta svigrúm hafa þeir notað.

Samdráttur í innflutningi bifreiða og heimilistækja, svo og tízkuvarnings, er dæmi um, hvernig fólk hefur búið sér til svigrúm til að mæta erfiðleikunum. Mikil aukning krítarkorta bendir til hins sama.

Ríkisstjórnin má samt ekki gleyma, að til eru fjölskyldur, þar sem fyrirvinnan er aðeins ein og hefur aðeins hið lága taxtakaup Sóknar eða Iðju og fær hvorki yfirvinnu né yfirgreiðslur. Það er til undirstétt í landinu.

Það er hinn mannlegi þáttur, sem ríkisstjórnin þarf nú að láta kanna sérstaklega, svo að leiftursóknin verði ekki að hreinum harmleik hjá þeim minnihluta íslenzkra fjölskyldna sem býr við 11.000 króna raunveruleika.

Ef hægt er að hindra slíkan harmleik, er sennilegt, að ekki verði unnt að framleiða verkfallsáhuga hjá þjóðinni upp úr næstu áramótum, þegar samningar verða lausir. Þá getur ríkisstjórnin fengið vinnufrið til framhaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kindur víki fyrir hrossum

Greinar

Langt er síðan beitarþolsrannsóknir á íslenzkum afréttum leiddu í ljós, að mikil ofbeit er á flestum íslenzkum afréttum. Helzta undantekningin er á norðanverðum Ströndum, sem eru í eyði og sæta ekki ágangi sauðfjár.

Kindasinnar hafa lengst af neitað að viðurkenna þessa staðreynd. Þeir hafa einnig reynt að kenna öllu öðru en sauðfé um rýrnandi gróður á afréttum. Fyrrum búnaðarmálastjóri sagði raunar, að kindur bættu gróðurinn.

Á sama tíma hefur ástandið sums staðar orðið svo alvarlegt, að félög bænda hafa neyðst til að beita ítölu, það er að segja ákveða hámarkstölu leyfilegra kinda á afrétt. Þessi aðgerð hefur sums staðar dregið úr ofbeit.

Í leitinni að öðrum skaðvöldum hafa kindasinnar upp á síðkastið einkum beint geiri sínum að hrossum. Þeir segja, að frekar sé rúm fyrir sauðfé á afréttum, ef fækkað sé hrossum og helzt bannað að hafa þau þar.

Í fyrradag var upplýst hér í blaðinu, að 747.000 ær og 1.045.000 lömb þurfa 107,5 milljón fóðureininga sumarbeit. Ennfremur var upplýst, að 52.000 hross og 5.000 folöld þurfa 19 milljón fóðureininga sumarbeit.

Ekki er því fjarri lagi að álykta, að kindur noti 85% af gæðum afréttanna og hrossin 15%. Kindasinnar telja að vísu, að hrossin noti töluvert meira og fari verr með landið. En einkum segja þeir, að hesturinn sé efnahagslega óæðri skepna.

Sú er trú og firra þessara manna, að kindur og kýr séu sá landbúnaður, sem máli skipti, enda er hann hinn eini, sem hefur málfrelsi á þingum Stéttarsambands bænda. Hrossin eru hins vegar á óæðri bekk með svínum og hænsnfuglum.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Hrossarækt á Íslandi er ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera. Hún þarf ekki á neinum niðurgreiðslum að halda, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum né sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Ræktun reiðhesta er raunar orðin að arðbærum atvinnuvegi, sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði. Árlega koma inn tugir milljóna í gjaldeyri fyrir sölu hrossa og önnur viðskipti, sem byggjast á þeirri sölu.

Erlendir eigendur íslenzkra hesta hafa á þessu ári ferðast um landið fyrir 40 milljónir króna, keypt hesta fyrir 10 milljónir, auk lopapeysa og íslenzka hundsins, sem orðinn er að stöðutákni hinna erlendu hestaeigenda.

Margir kindasinnar viðurkenna mikilvægi ræktunar reiðhesta. Þeir segja hins vegar, að ekki þurfi nema 19.000 hross af 52.000 til að standa undir þeirri útgerð. Aðrir hafa nefnt töluna 38.000 um heppilega stofnstærð.

Hvora töluna, sem menn nota, er ljóst, að hrossin í landinu eru fleiri en nauðsynlega þarf til að ná upp reiðhestum. Afgangurinn er notaður til framleiðslu á hrossakjöti, sem kindasinnar telja heldur tilgangslitla iðju.

En staðreyndin er hins vegar sú, að hrossakjöt er framleitt og selt, án þess að ríkið komi þar til skjalanna. Hrossakjötsframleiðsla byggist ekki frekar en reiðhestaútflutningur á niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum eða sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Skattgreiðendur og neytendur þurfa því ekki að hafa áhyggjur af hrossarækt, þótt hún sé umfram það, sem þarf til að fá reiðhesta. En ofbeit kindanna á afréttum kostar hins vegar neytendur og skattgreiðendur á annan milljarð á hverju ári.

Kindurnar eiga því að víkja, fremur en hrossin.

Jónas Kristjánsson

DV

Víða leynist gjaldeyrir.

Greinar

Árum saman hafa Íslendingar haft ómældan arð af alþjóðlegri flugstjórn á Atlantshafi og Dumbshafi milli Noregs og Grænlands alla leið til norðurpóls. Alþjóða flugmálastofnunin hefur greitt vel fyrir þessa þjónustu.

Ríkið hefur beinan hagnað af þessu. Þar að auki hafa margir menn hálaunaðar stöður við flugstjórn og greiða tilsvarandi háa skatta til hins opinbera. Þannig græðir ríkið tvisvar á að veita þessa nauðsynlegu þjónustu.

Þetta er gott dæmi um, að miklar gjaldeyristekjur má hafa af fleiru en fisksölu í útlöndum. Fiskurinn er að vísu og verður hornsteinninn, en hann er þegar afar mikið nýttur. Við þurfum fleiri þætti til að lifa á í framtíðinni.

Í kjölfar þátttöku 10.000 manna í alþjóðlegu móti íslenzkra hesta í Þýzkalandi höfum við verið minntir á gífurlegar tekjur, sem við höfum beint og óbeint af hestasölu. Í ár hafa 230 hestar verið seldir á 10 milljónir króna.

Jafnframt hefur aukizt sala á lopapeysum til erlendra hestaeigenda og meira að segja sala á íslenzkum hreinræktarhundum. Yfir 300 slíkir hafa verið seldir og er verðið nú 8.000 krónur á hundinn heima í hlaði.

Þá hefur verið áætlað, að erlendir ferðamenn, sem hingað hafa komið á þessu ári vegna íslenzka hestsins eingöngu, hafi varið hér rúmlega 40 milljónum króna. Það munar um allar þessar tölur, þegar gjaldeyrisdæmi þjóðarinnar er gert upp.

Um langt skeið hafa íslenzkir verkfræðingar selt þjónustu til útlanda. Sérstakt fyrirtæki hefur verið stofnað til að efla þessi viðskipti. Íslenzkir verkfræðingar hafa smám saman unnið sér traust, einkum í jarðhitafræðum.

Sérfræðiþjónusta er dýr. Hún fjölgar hátekjumönnum, sem greiða háa skatta og eru umhverfi sínu þarfir á annan hátt. Þeir hafa tiltölulega mikinn kaupmátt og auka því veltuna í þjóðfélaginu á vöru, þjónustu og menningu.

Á síðasta ári voru 115 sjúklingar fluttir til hjartaskurðaðgerða í útlöndum á kostnað hins opinbera. Í Bandaríkjunum er kostnaður á sjúkling 400-900 þúsund krónur. Það er dýrt að leyfa sér að nýta erlenda sérhæfingu.

Íslenzkir læknar segjast geta þetta sjálfir og vilja flytja hjartaskurðaðgerðirnar heim. Skrifstofa ríkisspítalanna hefur reiknað út, að með sjö ára afskriftatíma mundi arður ríkisins af þessu nema 20% á ári.

Þetta mundi einnig spara gjaldeyri og fjölga íslenzkum hátekjumönnum. Gera má ráð fyrir, að ríkið nái í beinum og óbeinum sköttum til baka um helmingi af launum læknanna. Hinn óbeini hagnaður ríkisins yrði því mun meiri en tölurnar sýna.

Því miður er ekki til handbært fé til að ráðast í hinn mjög svo arðbæra innflutning þessarar dýru sérfræðiþjónustu. Ríkið hefur ekki efni á að spara á þessu sviði og einstaklingar hafa ekki bolmagn til að koma upp þjónustunni.

Á Bretlandi og Írlandi eru heilsugæzlustofnanir í eigu hins opinbera og einstaklinga farnar að bjóða útlendingum þjónustu framhjá eigin heilbrigðiskerfi. Þetta hefur reynzt arðbær þjónusta og ætti að verða okkur til fyrirmyndar.

Við getum fengið fleiri íslenzka lækna frá útlöndum og hreinlega lagt fé í að byggja upp heilsugæzlustofnanir handa erlendu fólki til að auka gjaldeyristekjur okkar og til að fjölga hátekju- og háskattamönnum heima fyrir.

Jónas Kristjánsson.

DV

140 húsnæðismilljónir.

Greinar

Eftir linnulaus loforð forsætis- og félagsmálaráðherra um gull og græna skóga húsbyggjendum og kaupendum til handa, er hversdagslegur raunveruleikinn kominn í ljós. Ekki fundust nægir peningar til að efna loforðin.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram fyrir ári, féllu 220 milljónir í hlut Húsnæðisstofnunar ríkisins og Byggingasjóðs verkamanna. Í frumvarpinu, sein nú verður lagt fram, eiga 400 milljónir að fara í þessa tvo staði.

Ef fé til húsnæðismála hefði aukizt milli ára um 20% eins og fjárlagafrumvarpið í heild, stæði talan 260 milljónir í frumvarpinu, sem nú verður lagt fram. Það þýðir, að stjórnin hyggst leggja fram 140 milljónir umfram verðbólgu.

Árangurinn af húsnæðishvellinum er, að ríkið hyggst spara 140 milljónir á öðrum sviðum til að auka húsnæðisfé milli ára um 50% í stað 20%, sem ella hefði verið. Þetta er takmarkaður árangur, en árangur samt.

Svo er það aftur á móti hrein sjónhverfing, þegar ríkisstjórnin bókar 1.200 milljónir til húsnæðismála á lánsfjáráætlun. Þetta fé á nefnilega að koma frá lífeyrissjóðunum, sem hvort sem er lána fé sitt til húsnæðismála.

Með þessum 1.200 milljónum er ekki beinlínis verið að auka húsnæðisfé. Það er verið að færa þær frá einum lánveitanda til annars. Þær fela ekki í sér neitt nýtt átak ríkisstjórnarinnar til fjármögnunar íbúða.

Raunar segir félagsmálaráðherra, að þetta sé einmitt upphæðin, sem lífeyrissjóðirnir mundu hvort sem er láta af hendi í samræmi við gildandi nauðungarsamninga um, að þeir afhendi ríkinu 40% af ráðstöfunarfé sínu.

Hinar sjálfvirku peningauppsprettur og 140 milljón króna aukaátak ríkissjóðs þýða, að á næsta ári getur Húsnæðisstofnunin lánað húsbyggjendum tæplega 30% af verði staðalíbúðar í stað 20%, sem verið hefur á þessu ári.

Þessi 30% eru öflugri tala en virðist við fyrstu sýn. Þau jafngilda nefnilega tæplega 50% af verði vísitöluíbúðar, af því að svokölluð staðalíbúð er miklu stærri en vísitöluíbúð. Það munar því töluvert um peningana.

Lán veðdeildar til tveggja-fjögurra manna fjölskyldna munu hækka úr 389 þúsund krónum í 584 þúsund krónur. Þetta er veruleg framför, þótt enn sé langt í milljónina, sem húsbyggjendur töldu, að sér hefði verið lofað.

Ofangreindar tölur fjalla eingöngu um vanda þeirra, sem hyggjast varpa sér út í kviksyndi húsnæðiskaupa eða -byggingar. Hinn stærri og áþreifanlegri vanda þeirra, sem berjast þegar um í kviksyndinu, á að létta á annan hátt.

Ríkið hyggst bjóða út skuldabréfalán á almennum, innlendum markaði upp á 200-250 milljónir króna. Það fé á að duga til að veita húsnæðislánþegum síðustu tveggja. ára 50% viðbótarlán ofan á þau lán, sem þeir höfðu áður fengið.

Þetta nær skemur aftur í tímann en menn höfða vonað. Ennfremur tekur lausnin ekki tillit til verðbólgunnar frá þeim tíma, er þeir tóku upphaflegu lánin og þangað til þeir fá þessi 50% viðbótarlán.

Í rauninni er þó með öllu þessu búið að gera stórátak í húsnæðismálum, sem ber að lofa. Hitt má svo lasta, að ríkisstjórnin skuli í leiðinni hafa vakið falskar vonir um enn gylltari úrlausn, sem engin leið var að láta rætast.

Jónas Kristjánsson

DV

Þinghald á að lengja.

Greinar

Nýlega krafðist stjórnarandstaðan þess, að alþingi yrði kallað saman í byrjun þessa mánaðar. Þetta er eðlilegt framhald af fyrri kröfu hennar um sumarþing, sem mikill hluti þingflokks sjálfstæðismanna studdi.

Ríkisstjórnin vísaði hins vegar þessum kröfum á bug í bæði skiptin. Hafði hún uppi margvísleg mótrök. Ný stjórn þyrfti starfsfrið. Og þinghald í september kæmi í veg fyrir, að fjárlagaframvarp yrði til við byrjun þings, svo sem stjórnarskráin mælir fyrir.

Ljóst er, að álit þingmanna og almennings skiptist mjög í tvö horn. Allir ættu þó að vera sammála um, að slæmt sé að ekki gildi fastmótaðar reglur um samkomutíma alþingis. Það eigi ekki að vera geðþáttaákvörðun ríkisstjórnar, hvort þing sé kallað saman eða ekki.

Í stjórnarskrá lýðveldisins segir, að “reglulegt alþingi skal saman koma ár hvert hinn 15. dag febrúarmánaðar eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti lýðveldisins ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu”.

Engin ákvæði eru um lengd þingtímans önnur en þau að “forseti stefnir saman alþingi ár hvert og ákveður hvenær því skuli slitið”. Forseti getur hins vegar kvatt alþingi til aukafunda þegar nauðsynlegt er.

Ekki er fjallað um það í stjórnarskránni hvernig haga skuli málum, þegar þingkosningar eru á óvenjulegum tíma, svo sem var á þessu ári.

Sú hefð hefur mótazt á undanförnum áratugum, að þing er kallað saman 10. október ár hvert og stendur með hléum í sjö mánuði eða fram í maí. En nú hefur alþingi ekki setið síðan í mars.

Eina stjórnarskrárbundna skylda ríkisstjórnarinnar er að leggja frumvarp til fjárlaga fyrir þingið, þegar það er saman komið. Hefur það verið skilið svo, að frumvarpið skuli liggja frammi í upphafi þings.

Meðan þjóðfélagið var einfaldara í sniðum og þingmennska var hliðarstarf flestra, ef ekki allra þingmanna, var ekki óeðlilegt, að þinghald væri stutt. Nú er svo komið, að þingmennska er aðalstarf, launað allt árið. Og óneitanlega eru þingstörf flóknari en áður var.

Af þeim ástæðum sýnist það vera tímaskekkja að binda þinghald við sjö mánuði og veita þingmönnum fimm mánaða sumarleyfi, svo ekki sé talað um sjö mánaða leyfi eins og er á þessu ári.

Þau rök eru einnig þung á metunum, að í togstreitu framkvæmdavalds annars vegar og löggjafar- og fjárveitingavalds hins vegar eigi hið síðarnefnda, það er alþingi, undir högg að sækja.

Ríkisstjórnin, stjórnarráðið, embættismennirnir, – framkvæmdavaldið í heild sölsar stöðugt undir sig aukin völd og á auðveldara með það, þegar þinghaldið takmarkast við vetrarmánuðina.

Ef þjóðin vill hamla gegn þessum breytingum og reyna að stuðla að virkara lýðræði með jafnara vægi milli valdaþátta, þá er ljóst, að samkomutíma alþingis verður að lengja og hætta misbeitingu bráðabirgðalaga.

Samkomutími þingsins á ekki að vera þrætuepli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin á ekki að hafa það í hendi sér, heldur eiga að vera fastar reglur um slíkt. Og til eflingar þingræðinu er rétt að lengja þingið.

Jónas Kristjánsson.

DV