Author Archive

Laut

Veitingar

Mér brá rækilega, þegar ég las: “Þessi vínseðill er saminn samkvæmt tillögum frá Jónasi Kristjánssyni ritstjóra”. Það rifjaðist upp fyrir mér, að ég hafði einu sinni gefið veitingamanni Lautar góð ráð í síma. Hvorki í því samtali né síðar var ég beðinn leyfis um slíka notkun nafns míns. Enda hefði ég aldrei lagt nafn mitt við tvær tegundir af Liebfraumilch og eina af Moselblümchen.

Því miður hafa síðari tíma athuganir mínar leitt í ljós, að ráðleggingarnar voru úreltar í þessu tilviki. Samt hafa þær dugað til að gera vínlista Lautar hinn bezta á Akureyri og með hinum betri á landinu. Það er nógu ánægjulegt til þess, að ég læt hér með niður falla frekara rex út af máli þessu.

Laut er einn nýjasti vonarpeningurinn í yfirfullu framboði vínveitingahúsa á Akureyri. Salurinn hefur verið innréttaður í kjallara Hótels Akureyrar sem þáttur í alhliða endurnýjun þess. Helzt trompið er legan við göngugötuna í bæjarmiðju. Laut er eini veitingasalurinn, sem beinlínis er við þá götu. Enda eru gestirnir byrjaðir að slæðast inn.

Laut er snyrtilega innréttaður staður fyrir 35 manns í sæti. Tveir falskir bogagluggar veita þægilegri birtu í gluggalausan salinn. Veggir ofanverðir og loft eru í ljósu. Dökkbrúnir burðarbitar eru lítt áberandi. Ein mjó spegilsúla er í salnum. Á gólfi eru stórar flísar. Gamaldags ljósakrónur með síðu kögri eru yfir hverju borði. Húsbúnaður er vandaður og borðin klædd brúnum dúkum. Að kvöldi voru munnþurrkur úr taui, en úr pappír í hádegi.

Rjómakökuskápur úr gleri skilur að matsal og blending af skenk og bar. Þar er vifta í lofti og spegill yfir rauðplussuðum langsófa, sem raunar endurtekur sig á tveimur stöðum í sjálfum borðsalnum. Á milli er múrsteinsstæling, sem er eina smekkleysan um borð, ef gestir láta sér málverkin í léttu rúmi liggja.

Matseðill Lautar er miðlungi langur, með fimm forréttum, níu aðalréttum og fjórum eftirréttum. Til viðbótar eru helgarkvöldseðill og hádegisseðill með þremur aðalréttum hvor. Flestir réttirnir hljóma kunnuglega og lítt spennandi. Þó má sjá þar rauðvínssteikta smálúðu og túnfíflasósu með turnbauta, svo og appelsínutertu.

Á lágu kaupi

Þrátt fyrir nokkuð myndarlegt verðlag reynir Laut að sleppa billega frá þjónustukostnaði. Í stað fagfólks eru notaðar stúlkur, væntanlega á lágu kaupi. Þær eru elskulegar og gera sitt bezta, en kunna auðvitað ekki nóg. Glös voru hellt næstum eins full og hjá Íslandsbersa á Pallas. Vatn fékkst ekki sjálfkrafa. Hvítvín var ekki geymt í kælingu við borð. Kaffið kom með eftirréttunum, svo að þeir, sem vildu drekka það á eftir, urðu að hafa það kalt. Útvarpsauglýsingar glumdu í hádeginu.

Í Hótel- og veitingaskólanum lærir fólk að forðast ótal smáatriði af þessu tagi. En heimtar auðvitað hærra kaup í staðinn.

Ristaðar flautusneiðar með rækjuídýfu voru skemmtilegur og ókeypis lystauki fyrir kvöldverð meðan matseðillinn var skoðaður. Þetta er ánægjuleg og eftirtektarverð nýjung.

Stóra slysið í Laut var matreiðslan. Grundvöllur hennar reyndist vera ofurást á bráðnu smjöri, sem flaut í stríðum straumum um aðalréttina og eyðilagði allan mat, sem það komst í tæri við. Þessi sorgarsaga endurtók sig í tveimur atrennum, svo að þetta hlýtur að stafa af ásetningi.

Einna bezti maturinn reyndist vera bragðsterk humarsúpa með stórum humarbitum, þykk af rjóma. Blaðlaukssúpa var sæmileg. Báðar voru bornar fram með hveitiflautu og smjöri í álpappír fyrir flugfarþega og Þjóðverja.

Svokölluð rækjumús reyndist hvorki vera nagdýr né stappa, heldur tartalettur undir fölsku flaggi. Rækjurnar voru meyrar, en komust ekki að í bragði, af því að sveppirnir og brandíið yfirgnæfðu. Sveppirnir voru ánægjulega ferskir.

Reyktur lax og graflax saman á diski voru svipaðir og við má búast. Sá reykti minnti raunar skemmtilega á saltreyð. Rjómasósan með öflugu sítrónubragði og nærri engu sinnepsbragði var í sjálfu sér nýjung, en ég er ekki viss um, að hún henti þessum rétti.

Hrásalat á undan eða með aðalréttum var ekki á dagskrá Lautar, þótt allt í kring séu matsalir, sem ýmist bjóða upp á salatdiska eða jafnvel sérstök salatborð.

Hlutföll í ólagi

Skötuselurinn var eini aðalrétturinn, sem ekki flaut í smjöri. En einnig hann einkenndist af sama ruglinu í hlutföllum og aðrir réttir. Hann var borinn fram með sveppum, er yfirgnæfðu bragðið, sem ella hefði getað fundizt af skötuselnum.

Pönnusteiktur karfi var borinn fram með reyktum laxi, sem líka var hitaður. Karfinn beið herfilegan ósigur, því að reykti laxinn var eins og skinka á bragðið, þegar hann hafði verið hitaður. Sú hitun er nánast forkastanleg út af fyrir sig, þótt hún sé ekki einnig notuð til að misþyrma karfa. Í þessu tilviki var samkeppnin milli skinkubragðsins og bragðsins af smjörinu, sem flaut um allt.

Smálúðan var fyrst pönnusteikt og síðan ofnbökuð með osti. Eftir þá meðferð alla var hún orðin þurr, borin fram á floti í smjöri, fremur vondur matur, en þó skásti aðalrétturinn.

Lambahryggjarsneiðarnar voru bornar fram undir gífurlegu fjalli af skinkuræmum, sem yfirgnæfðu lambið algerlega og háðu harða samkeppni við smjörflóðið. Kjötið var pönnusteikt, grátt í gegn og minnti helzt á snitzel.

Eftirréttirnir björguðu málum í horn. Blandaðir, ferskir ávextir, appelsínur, kiwi og blá vínber, voru bæði fallegir og góðir. Afar líkjörsþrungin appelsínuterta með sterku barkarbragði var bæði óvenjulegur og fínn eftirréttur. Þunnt kaffi var borið fram með After Eight.

Af þessum lýsingum má ráða, að í matreiðslu Lautar hafi skort tilfinningu fyrir, hvað ætti saman í rétti og í hvaða hlutföllum. Smjörástin kom svo í ofanálag eins og fjandinn úr sauðarleggnum.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni var 1076 krónur á mann af fastaseðli. Ef tekið er tillit til helgarseðils og hádegisseðils, lækkar þetta um 15-30 krónur. Að þessu leyti er Laut í verðflokki með Kjallaranum, nokkru ódýrari en Smiðjan, Mánasalur og Kea, en dýrari en Bautinn.

Ef hins vegar eingöngu er valið af þriggja rétta hádegisseðli og eftirrétturinn þá tekinn úr aðalseðlinum, verður útkoman 700 krónur á mann. Verðið er samkeppnishæft við Bautann, en úrvalið miklum mun minna.

Taka verður fram, að verð Lautar rokkaði upp og niður í sumar, var aldrei eins í þremur heimsóknum. Það var eins og enn væri verið að leita að verðlagi staðarins.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
90 Rjómalöguð blómkálssúpa
270 Steikt smálúða með kræklingi og rækjum
390 Litlar lamba-piparsteikur
420 Grísasneiðar Óskar

Helgarkvöldseðill:
110 Humarsúpa með koníaki
320 Steiktur karfi með reyktum laxi
460 Lambalundir með rauðvínssósu og piparsósu
590 Grísasneiðar með appelsínusósu
140 Ferskt ávaxtasalat

Fastaseðill:
280 Reyktur lax og graflax með chantilly-sósu
240 Rækjumús með koníaks-flamberuðum sveppum
180 Gratineruð lauksúpa með púrtvíni
160 Villisveppasúpa
420 Fiskisúpan okkar
420 Sjávarréttagratín
440 Rjómasoðinn skötuselur í sveppasósu
380 Steikt smálúða með rækjum, möndlum og rúsínum í rauðvíni
890 Turnbauti með túnfíflasósu
780 Piparþrenna með piparsósu
530 Lambahryggur með hvítlauk og steinselju
490 Lambakótilettur með kryddjurtum
560 Grísasneiðar Gorgonzola
420 Kjúklingabringa með vínberjum og rjómabrandísósu
140 Appelsínusorbet með grenadin-rjóma
95 Blandaðir ísar með líkjör
130 Kökuvagninn
150 Ostabakki

DV

Mánasalur

Veitingar

Hinn nýlegi Mánasalur, stolt Sjallans, er sennilega snotrasta og þægilegasta matstofa Akureyrar. Að öðru leyti eykur salurinn ekki matarmenningu norðan fjalla. Hátt verð og metnaðarlaus matreiðsla falla í farveg Smiðjunnar og Hótels Kea. Raunar er Mánasalur dýrastur þessara og matreiðsla hans sjónarmun lakari en Smiðjunnar.

Auðvitað hlýtur að leika vafi á, að rúm sé fyrir þrennt af nokkurn veginn hinu sama á 13.000 manna Akureyri. Og nú eru fínu og dýru staðirnir þar nyrðra orðnir fimm, ef ekki sex, því að Laxdalshús, Laut og jafnvel Kjallarinn hafa bætzt við. Aðsóknin bendir ekki til, að markaður sé fyrir þessi ósköp.

Málverk og skreytingar eru á grænum veggjum hins 60 manna salar, sem liggur um hús þvert, með gluggum til beggja átta. Efst á veggjum eru speglar og í loftum bæði ljósakrónur og speglunarperur. Rautt teppi er á gólfi, svo og lítill parkettflötur. Notalegur, lítill bar er fyrir miðjum langvegg. Armstólarnir eru þægilegir. Snyrtilegir, rauðir dúkar og reisuleg, fersk blóm voru á borðum.

Flygill er á staðnum og leikin matartónlist 19-22, annan hvern hálftíma, því að píanistinn hefur líka kjallarann á herðunum á sama tíma. Oft er þetta Ingimar Eydal, sómi staðarins.

Mánasalur er stundum frátekinn. Okkur var ekki skýrt frá því, er borð var pantað. Þegar við komum, lentum við fyrst á áhugasnauðum barmanni á jarðhæðinni. Á endanum var okkur og fleira hugsjónafólki vísað í Rauðu stjörnuna, sem er Ingimarslaus og gluggalaus, 24 sæta salur í tengslum við efri hæð hins eiginlega Sjalla. Þar voru kerti og þreytuleg blóm á slitnum borðdúkum. Spegilveggur á aðra langhliðina og glerveggur á hina kom í veg fyrir innilokunarkennd. Í næstu atrennu fengum við svo aðgang að Mánasal.

Í öll skiptir var þjónusta mjög góð. Hún var raunar heldur betri en í Smiðjunni og á Hótel Kea, að henni öldungis ólastaðri á síðarnefndu stöðunum. Í Mánasal fór saman skólagengin fagþekking og eðlislæg og fumlaus háttvísi. En annir voru líka engar. Í hádeginu var raunar alls ekkert að gera.

Versnandi matseðill

Eldhúsið er hið sama fyrir alla veitingasali Sjallans. Sambúð við dansstaði um eldhús er sjaldan af hinu góða. Sérstakur matseðill er fyrir Mánasal. Hann var fyrst handskrifaður og virtist breytast milli daga. Þá var hann mjög stuttur, með níu réttum, þar af aðeins fjórum aðalréttum og einum eftirrétti. Slíkir matseðlar eru girnilegri en langir, því að þeir gefa í skyn, að kokkurinn kunni fleira en færa mat úr frystikistu í örbylgjuofn.

Nú er kominn langur matseðill með tólf forréttum, ellefu aðalréttum og sex eftirréttum. Þetta virðist vera fastur seðill, eins í hádegi og að kvöldi. Ekki er, svo ég viti, boðið upp á neina rétti dagsins eftir árstíðum og aflabrögðum. Fátt er spennandi á þessum seðli, helzt sérríbætt Kínasúpa, silungssúpa með saffran, gufusoðinn silungur og rabarbaraís.

Í staðinn er nokkuð af gamalkunnum og lítt frumlegum réttum á borð við franska lauksúpu, síldartríó, graflax, ostgljáða hörpuskel, dósasnigla, pönnusteikta stórlúðu, blandaða sjávarrétti, grillsteiktar lambalundir, mínútusteik, turnbauta, vanilluís og djúpsteiktan camembert.

Vínlistinn er kapítuli út af fyrir sig, hinn ómerkilegasti, sem ég hef séð á Akureyri. Hann byggðist á Liebfraumilch og Beaujolais í ýmsum útgáfum. Ekkert drykkjarhæft hvítvín fann ég þar, en meðal rauðvínanna var blessunarlega til Chateau de Saint Laurent.

Matreiðslan rokkaði nokkuð upp og niður. Það trausta var hrásalatið. Í eitt skiptið einkenndist það af lauk og karrí, í annað skipti af olífum og ediki. Á þessu sviði virtist eldhúsið þora að víkja frá hinu hversdagslega. Þá var smjörið jafnan borið fram á ís, en ekki í hinum hvimleiða álpappír, sem er í tízku annars staðar á Akureyri og raunar víðar. Loks var kaffið jafnan gott, borið fram með konfektmolum.

Segja má, að brauðið hafi verið dæmigert fyrir metnaðarleysið í eldhúsinu. Í eitt skipti var borið fram ágætt, þrenns konar brauð, en í annað skipti gamlar heilhveitiflautur. Á svipaðan hátt voru súpurnar stundum góðar og stundum vondar, kjötið stundum gott og stundum vont.

Ýmsar súpur í dulargervi

Silungssúpa með saffran var ágætis súpa, en var í rauninni humarsúpa í dulargervi. Ennfremur reyndist hvítvínsbætta humarsúpan ekki vera humarsúpa, heldur rækjusúpa í dulargervi, full af þurrum rækjum, sem höfðu dvalizt of lengi í súpunni.

Sérríbætt Kínasúpa reyndist vera góð, tær súpa, með nokkuð flóknu ívafi káls, maís og svínakjöts, svo og skemmtilegu ostabrauði til hliðar. Skelfisksúpa var í góðu meðallagi, hæfilega mild súpa með humri, rækjum, hörpudiski og dósasveppum.

Grillsteiktur silungur var áferðarfallegur, en þurr undir tönn og án silungsbragðs, svo sem oft er raunin með fisk, er flytzt úr frysti í örbylgjuofn. Að því leyti minnti hann á annan fisk, sem eldhúsið afgreiddi til Kjallarans. Til að bæta gráu ofan á svart var gífurlegt magn af ofsoðnu brokkáli borið fram með silungsgreyinu.

Steiktar lambalundir áttu að vera lítið steiktar, en reyndust vera miðlungi steiktar. Sem slíkar voru þær frambærilegar, en að þessu sinni fólst hið gráa ofan á svart í miklu magni af ofsoðnu og ólystugu rósakáli.

Koníakssteikti turnbautinn var hæfilega hrásteiktur, borinn fram með dósasveppum og hrúgu af ofsoðnu brokkáli. Hin mjög svo bragðsterka rauðvínssósa fékk fljótlega á sig ólystuga hveitiskán.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af Chateau de Saint Laurent var 1.357 krónur á mann, sem er allt of dýrt, um 100 krónum dýrara en í Smiðjunni og Kea, sem líka eru of dýrir staðir. Engir réttir dagsins með milduðu verði bættu úr skák Mánasalar, ekki einu sinni í hádeginu.

Með þessu verði getur Mánasalur ekki keppt við Smiðjuna í hádeginu. Vegna innréttinga og þjónustu gæti hann gert það á kvöldin, ef matreiðslunni væri kippt í lag. En Mánasalur liggur ekki eins vel við aðkomufólki og verður því frekar að treysta á heimamenn. Og þeir voru lítið farnir að láta sjá sig, þegar ég leit þar síðast inn. Enda geta þeir alveg eins borðað betur og ódýrar heima hjá sér.

Jónas Kristjánsson

Matseðill:
235 Gratineruð frönsk lauksúpa
198 Sérríbætt Kínasúpa
246 Koníaksbætt skelfisksúpa
250 Sniglasúpa að hætti Sjallans
330 Síldartríó með grófu brauði
345 Reyktur lax með ferskum sveppum og piparrótarsósu
215 Kavíar með hrárri eggjarauðu og lauk
370 Grafinn lax með dillsósu
340 Ostgljáð hörpuskel með ristuðu brauði
370 Hvítlauksgljáðir sniglar með brauði
600 Pönnusteiktur humar í raspi og hvítlauk
440 Pönnusteikt stórlúða með tómötum og piparrótarsmjöri
475 Gufusoðinn silungur með grænmeti og rjómasósu
530 Soðinn lax með tómatsmjöri og sýrðum gúrkum
455 Grillsteikt rauðspretta með rósapipar og vínberjum
585 Blandaður sjávarréttadiskur
940 Pönnusteiktur humar í raspi og hvítlauk
670 Grillsteiktar lambalundir með djúpsteiktum tómat og mintusósu
540 Kalt hangikjöt með rjómasoðnum kartöflum
765 Gráðostfyllt svínamörbráð, steikt í sinnepi með grænpiparsósu
845 Mínútusteik með smjörristuðum sveppum og Maitre d’Hotel smjöri
870 Koníakssteiktur turnbauti með rósapipar og rauðvínssósu
170 Vanilluís með súkkulaðisósu
185 Rabarbaraís með rjóma
185 Bananaís með bláberjasósu
230 Blandaðir úrvalsostar
225 Djúpsteiktur camembert með ávaxtahlaupi
120 Skyr með rjóma

DV

Búðir

Veitingar

Íslendingum er tamt að leggjast á lárviðarsveiga sína. Við setjum undir okkur hausinn og brjótumst gegnum eld og brennistein. Þegar markmiði almennrar viðurkenningar er náð, hættir okkur til að slaka á í kröfunum. Þetta er áberandi í viðskiptalífinu. Og það er að byrja að gerast að Hótel Búðum á Snæfellsnesi.

Í fyrra voru Búðir í miðjum verðflokki íslenzkra veitingastaða. Í ár nálgast þær efsta flokkinn. Í fyrra var matreiðslan laus við klisjur hinna lærðu matreiðslumanna. Í ár hafa klisjurnar læðst inn, matreiðslunni til minnkunar. Í fyrra var salarfólk stolt af ölkelduvatninu. Í ár tókst okkur ekki að fá ölkelduvatn.

Áður en þessi reiðilestur verður lengri, er rétt að taka fram, að Búðir eru enn næstbezta veitingahús landsins. Enn er verðið ekki komið alveg upp til skýja. Enn stendur hin náttúrlega matargerðarlist upp úr skólagengnum hversdagsleika. Og enn er þjónusta að Búðum með hinni betri, sem gestum er boðin hér á landi.

Búðir eru afar rólegur staður. Úti er dulmagnað hraunið og stundum útsýnið til jökulsins. Inni er notaleg setustofan, sem kerfiskarlar heilbrigðiseftirlitsins hötuðust hvað mest við á sínum tíma. Herbergin sjálf eru lítilfjörleg og svo hljóðbær, að engin einkamál er þar hægt að hafa. Sem betur fer eru næturgestir yfirleitt rólegt fólk.

Andrúmsloftið í matsalnum er það, sem sízt hefur bilað að Búðum. Öll snið eru smá eins og rúðurnar í gluggunum. Þau endurspegla rótgróinn matstofustíl, er hrífur meira en hinar nýsmíðuðu fornminjar, sem eru í tízku beggja vegna fjalla. Þjónustan er í stíl við þetta, þótt ég hafi sárlega saknað ölkelduvatnsins.

Soðnar hrúgur

Matreiðslan hefur látið mest undan síga. Farinn er franski stærðfræðingurinn, sem hafði góð áhrif í eldhúsi. Í staðinn er komin skólagengin eldamennska, sem felst sumpart í að raða nokkrum hrúgum af soðnu grænmeti á diska og vona, að allir verði belgfullir. Þetta er sú matargerð, sem Íslendingar verða að þola á flestum matsölustöðum landsins, síðustu leifar danskra yfirráða.

Hinn dæmigerði íslenzki réttur er steik á miðjum diski með stórum hrúgum í kring af soðnum gulrótum, soðnu rósakáli, soðnu brokkáli, feiknarstórri kartöflu í álpappír og hrásalati á floti í béarnaise-sósu. Þetta meðlæti endurtekur sig með öllum réttum. Slík stöðlun hefur haldið innreið sína að Búðum, þótt hrúgurnar séu hvorki eins óhugnanlegar og víða annars staðar né eins og lýst er í þessum málslið greinarinnar.

Eina meðlætið, sem var staðnum til sóma, voru krydduðu hrísgrjónin. Kryddun þeirra var í hinum milda og fínlega stíl, er áður einkenndi alla matreiðslu staðarins, ekki bara fiskinn eins og nú.

Það væri í stíl við upprunalega matreiðslu Búðinga að leggja áherzlu á hrásalat, en því miður hverfur það innan um soðnu hraukana. Enn er brauðið heimabakað, en sjaldnar en áður, svo að það verður gamalt, og færri tegundir eru bakaðar, stundum aðeins ein.

Hrásalatið hefur bilað, brauðið hefur bilað og ölkelduvatnið hefur bilað.

Ég hef einu sinni heyrt um mann, sem bað um steik að Búðum og fékk það, sem hann átti skilið. Engin leið er að mæla með kjötréttum að Búðum, allra sízt nautasteikum, enda er þetta fyrst og fremst fiskréttahús. Það er í fiski, sem matargerðarlistin hefur notið sín og nýtur sín raunar enn.

Rjómalöguð humarsúpa var fínleg, bragðmikil og full af humri. Fiskikæfa hússins var ágæt, en ekki eftirminnileg. Grafin bleikja var fyrsta flokks og sömuleiðis eggjalaus sinnepssósan. Súpa dagsins var að þessu sinni tær grænmetissúpa með tómatkeim, góð súpa. Hörpuskelfiskurinn var stór og meyr.

Möndluhúðuð og smjörsteikt sjóbleikja var mátulega lítið soðin og ljómandi góð á bragðið, en möndlurnar of fyrirferðarmiklar. Skötuselurinn var ekki síðri. Daginn eftir voru gellur frábærar, pönnusteiktar í eggjahjúp, bornar fram með sérstaklega góðri og hveitilausri sósu.

Sigríðarterta hin meiri var skemmtilegur eftirréttur, mjög þétt ávaxtaterta, rækilega vínlegin. Þá voru vínlegnir ávextir ferskir ekki síðri. Kaffi var gott. Vínlistinn er í sæmilegu meðallagi, en tekur ekki nægilegt tillit til þýzku hvítvínsárganganna 1982 og 1983.

Stirðnaður matseðill

Í fyrra voru matseðlar Búða stuttir og sífelldum breytingum undirorpnir eftir fáanlegum hráefnum og eldhúskenjum hverju sinni. Stundum var skipt um matseðil daglega. Í staðinn er nú kominn lengri matseðill, sem sjaldan er skipt um og þá aðeins lítillega breytt hverju sinni. Þetta er dæmi um, að hin stirðnaða og skólagengna meðalmennska og kerfishugsun er að læðast inn.

Í fyrra ók ég glaður í þrjá og hálfan tíma hvora leið til að komast í mat á Búðum. Eftir reynslu þessa árs er hugsanlegt, að letin nái yfirhendinni. Kannski er líka til of mikils ætlazt, að reisn á þessu sviði sé lengi haldið uppi úti á landsbyggðinni. Þeir sitja ef til vill um kyrrt, sem vilja góðan mat, en hinir, sem eru á ferð, verða að láta sig hafa það, sem býðst á réttum stað á réttum tíma.

En vonandi kemur aftur að því, að ferð til Búða verði tilhlökkunarefni og að lárviðarsveigar staðarins verði aftur nýir og ferskir.

Miðjuverð þriggja rétta, víns og kaffis að Búðum er 1230 krónur á mann.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
200 Rjómalöguð humarsúpa bætt með koníaki
140 Fiskikæfa hússins
210 Kálfalifrarpaté
195 Grafin bleikja með sinnepssósu
290 Sniglar með hvítlaukssmjöri
390 Fyllt smálúða bökuð með osti
440 Möndlupaneruð sjóbleikja steikt í smjöri
470 Skötuselur jöklarans
470 Skarkoli með dalayrju, rækjum og banana
495 Hörpuskelfiskur eftir kenjum kokksins
750 Smjörsteiktur humar með hvítlaukssmjöri og ristuðu brauði
670 Kryddlegin lambasteik með bakaðri kartöflu og sveppasósu
720 Fylltar kálfalundir með púrtvínssósu
695 Grísasneið með gráðostsósu
790 Nautahryggsneið Hótel Búðir
150 Ostakaka
130 Blandaðir ferskir ávextir með líkjör og rjóma
250 Sigríðarterta hin meiri
230 Djúpsteiktur dalabrie með rifsberjahlaupi

DV

Oflofi lokið

Veitingar

Íslenzkir matreiðslumeistarar eru orðnir sjálfsánægðir úr hófi fram. Þeim hefur verið hrósað of mikið. Þeir vita réttilega, að þeir eru að meðaltali heldur betri en starfsbræðurnir á Norðurlöndum. Þeir vita hins vegar ekki, að Norðurlönd eru meðal útkjálkahéraða matargerðarlistar. Samanburður við frændur okkar er því ekki meira virði en Kalott-kappleikar.

Fyrir nokkrum árum, aðallega 1980-1982, var líf og fjör í þróun íslenzkrar veitingamennsku og matargerðarlistar. Nýir staðir risu og eldamennska gerðist mun betri en verið hafði. Fjöldi manna vandist á að fara stundum út að borða. Þá var gaman að fylgjast með þessu og segja frá því á prenti.

En allra síðustu árin hefur ríkt stöðnun og jafnvel afturför. Nýjum veitingahúsum fjölgar að vísu stöðugt, en þau hafa fátt að bjóða umfram hin gömlu. Um leið hefur daprazt flugið á sumum hinna, sem fyrir voru. Kannski er það vegna þess, að viðskiptavinirnir hafa ekki verið undir það búnir að fá betri mat.

Aukinn miðlungur

Topparnir eru lægri en þeir voru í fyrra, nema Arnarhól, sem heldur sínu, bezti matstaður landsins. En hann er alls ekki nógu vel sóttur. Líklega er hann yfir smekk Íslendinga hafinn. Tilboð staðarins í hádeginu á veizlumat fyrir smánarverð minnir á neyðaróp úr tómum sal. Það er sorglegt, því að Arnarhóll á skilið betri viðtökur.

Næstbezti staðurinn, Búðir á Snæfellsnesi, er orðinn dýrari og lakari. Hin staðlaða matreiðsla skólagenginna matreiðslumanna hefur haldið innreið sína. Bornir eru fram diskar, sem eru hrokaðir af alls konar soðnu, stöðluðu grænmeti. Boðið er upp á of langan og of tregt breytilegan matseðil. Búðir eru að vísu enn næstbezti staðurinn, en ekki eins góður og í fyrra.

Sumir staðir úti á landi, sem gáfu vonir á sínum tíma, hafa valdið vonbrigðum. Svo er til dæmis um veitingamennsku á Akranesi og í Vestmannaeyjum. Á síðari staðnum þori ég varla að borða, síðan mér varð illt af humrinum. Taka verður þó fram, að ég hef ekki næga reynslu af þessum stöðum til að fara út í nákvæmt mat.

Á Akureyri eru dýru og fínu staðirnir, sem voru tveir, orðnir fimm, án þess að nokkur framför hafi orðið. Ég færi ekki út að borða, ef ég væri Akureyringur. Annað er, hvað við gestkomandi látum bjóða okkur. Akureyri er dæmi um, að margir apa háu verðin eftir hinum hefðbundnu hótelsölum í Reykjavík, en hafa upp á fátt að bjóða, sem stenzt samjöfnuð við þá.

Verstar eru viðbæturnar á Reykjavíkursvæðinu. Enda hef ég grun um, að sumir nýju staðanna hafi matinn að yfirvarpi, svo að þeir geti selt hið andstyggilega bjórlíki, sem er orðinn þjóðardrykkur Íslendinga vegna ofurvalds bindindismanna, áfengisvarnarráðs, dómsmálaráðherra, alþingismanna og annarra valdshyggjumanna.

Hvarvetna rekst ég á sömu réttina, gerða á sama hátt, allt frá rækjukokkteil og franskri lauksúpu um graflax og grillaða humarhala yfir í turnbauta béarnaise og djúpsteiktan camembert. Þetta er svo sem ágætt einu sinni eða tvisvar. En ekki aftur og aftur.

Nýjasta sjónhverfingin í bransanum felst í þjóðernisstöðunum, kínverskum, grískum, spánskum, kóreskum og svo framvegis. Ég get ekki dæmt um þá alla. En það, sem ég hef séð, er yfirleitt fremur ómerkilegt og gefur enga minnstu hugmynd um listgreinina í viðkomandi löndum.

Skandinavísk stöðnun

Það, sem lagazt hefur, er, að eldunin er vægari en áður og að hráefni er betra en áður, svo og meira notað af fiski og grænmeti. Þess vegna er eldamennskan betri en hún var fyrir byltinguna 1980-1982. En síðan hefur hún staðnað. Enda sækja matreiðslumennirnir allt sitt vit og sjálfsálit til Kaupmannahafnar, síðasta vígis Escoffier-stíls smáborgaraskeiðs millistríðsáranna.

Vel getur verið, að íslenzkir veitingagestir vilji hrokaða diska af ýmsum tegundum soðins grænmetis, aðallega gulrótum, rósakáli og brokkáli, svo og bakaða kartöflu og béarnaise-sósu með öllum mat. Vel getur verið, að breytingin 1980-1982 hafi gengið of langt og að matargerðarlist nútímans eigi ekki hljómgrunn í svo frumstæðu landi, sem Ísland er.

En það er ástæðulaust hjá matreiðslumönnum að halda, að þeir séu að fremja einhver listaverk í matargerð. Réttir þeirra geta litið fallega út í keppni á Bella Center í Kaupmannahöfn, en þeir eru ekki orðnir ætir fyrir það. Og alténd er ég orðinn þreyttur á að tala kurteislega um mat, sem er lakari og margfalt dýrari en ég og margt fleira fólk getur fengið heima hjá sér.

Stöðnunin í matargerð veitingahúsa er studd af Hótel- og veitingaskólanum, sem er staðráðinn í að kenna ekki aðra tegund matreiðslu en hina hefðbundnu, ekki einu sinni sem hliðargrein. Ennfremur er hún studd af einu útbreiddasta tímariti landsins, matargerðarriti, sem greinilega hefur nokkurn veginn sömu stefnu og skólinn.

Þessi hefðbundna matreiðsla er útdauð í upprunalandi hennar, Frakklandi, og í hinum betri veitingahúsum Þýzkalands, Belgíu, Sviss og Norður-Ítalíu. Nýja línan mun leggja Bandaríkin að fótum sér og renna saman við merka matargerðarstíla frá Japan og Kína. Hin nýja stefna kann að víkja síðar, en það verður ekki fyrir Bella Center stíl íslenzkra og skandinavískra veitingahúsa, skóla og matarrita.

Í framangreindu veizlutímariti er ekki fjallað um matargerðarstefnu nútímans. Þar var þó á einum stað tekið fram, að nýja línan felist ekki lengur í örsmáum sultarskömmtum. En ekkert er það sagt um, í hverju þá í ósköpunum hún felist. Ég er farin að halda, að það sé eins í matargerðarlist og öðrum listum, að þeir, sem taka próf úr hefðbundnum skólum, séu ófærir um að tileinka sér breyttan tíðaranda, byltingu og nýjan sið.

Reglur hinnar nýju, frönsku matargerðarlistar eru fáar og einfaldar:

1. Aðeins eru notuð fersk hráefni árstíðarinnar.
2. Lítið er notað af frystum hráefnum og ekkert af niðursoðnum.
3. Grænmeti og fiskur er notað í stórauknum mæli.
4. Fita er spöruð sem mest, ekki sízt í brúnuðu formi.
5. Hveiti er ekki notað í sósur eða súpur til þykktar.
6. Afnumin er forvinna og upphitun fyrir máltíð.
7. Eldunartími er ekki hafður lengri en nákvæmlega er þörf.
8. Borin er virðing fyrir eðlisbragði og næringarefnum hráefna.
9. Matseðlar eru stuttir og breytilegir eftir árstíðum og fáanlegum hráefnum, helzt hreinir seðlar dagsins.
10. Eldamennskan tekur tillit til staðbundinna hráefna og hefða.

Skammargreinar?

Á næstunni verða væntanlega birtar hér nokkrar greinar um íslenzk veitingahús. Vona ég, að þar takist mér að sleppa óhóflegri kurteisi gagnvart ríkjandi sið, sem hefur því miður kúgað skrif mín fram að þessu. Það getur vel verið, að þorri viðskiptavina veitingahúsanna sé annarrar skoðunar. En það er þá þeirra böl.

Í greinum þessum verða veittar kokkahúfur, ekki eftir smekk afturhaldsins, heldur því, sem ég tel vera strangar kröfur nútímafólks. Þar verða ennfremur veitt blóm fyrir aðra þætti veitingamennskunnar, aðallega andrúmsloft og innréttingar annars vegar og þjónustu hins vegar, en einnig fyrir vínlista. Af ásettu ráði er þessi einkunnagjöf með öðrum hætti en var hjá mér í fyrra, svo að hún verði ekki sambærileg.,

Ágætan Jón Hjaltason þarf ég að upplýsa um reikningskúnstirnar, sem liggja að baki krónupeningunum í einkunnagjöfinni. Fastaseðli og dagsseðli er sameiginlega skipt í fimm hluta, súpur, forrétti, fiskrétti, kjötrétti og eftirrétti. Í hverjum hluta fyrir sig er fundinn sá réttur eða þeir tveir réttir, sem eru eftir í verðmiðjunni, þegar búið er að strika út hina dýrari og ódýrari. Þannig er fundið svonefnt miðjuverð (median).

Síðan er tekið meðaltal af miðjuverðum súpa og forrétta sem miðjuverð fyrstu rétta. Ennfremur meðaltal miðjuverða fiskrétta og kjötrétta sem miðjuverð annarra rétta. Tölur fyrsta, annars og þriðja réttar gefa síðan heildartöluna, þegar búið er að bæta við kaffi og hálfri heilflösku á mann af ódýrasta borðvíni, sem ég tel frambærilegt á listanum.

Sem nokkuð lærðum líkindareikningsmanni tel ég líklegt, að útkoman endurspegli betur en aðrar aðferðir verðlag viðkomandi veitingahúss. Ef Jón eða aðrir vilja reikna á annan hátt, er það þeirra böl.

Með þessum skýringum, sem ekki verða endurteknar, hefst nú leiðsögn mín um veitingahús. Ekki veit ég, hversu langt úthaldið verður, því að fremur lítil ánægja fylgir heimsóknum á tilgangslausa matstaði og í skrifum, sem fela í sér gagnrýni á lélegan mat. En einhver verður að fórna sér fyrir góðan málstað.

Kominn er tími til, að gersamlega ástæðulaus sjálfsánægja íslenzkra matreiðslumeistara breytist í verðskuldað sjálfstraust. Oflofi er hér með lokið. Upp með gelusil og antacid og af stað!

Jónas Kristjánsson

DV

Fjárhúsveislan mikla.

Greinar

Í skýrslu sérfræðinga á vegum forsætisráðuneytisins segir, að til séu hér á landi fjárhús yfir 1.142 þúsund fjár og að sauðfé þurfi að fækka úr 714 þúsund í 400-460 þúsund. Þessar tölur gefa gott dæmi um offjárfestinguna og offramleiðsluna í hinum hefðbundna landbúnaði.

Ef við lítum sérstaklega á offjárfestinguna í fjárhúsum, þá er hún 60% meiri en sem svarar fjölda fjár í landinu og allt að 185% meiri en sem svarar þeim fjölda, sem ætti að vera að mati skýrslugerðarmanna. Þetta er miklu meiri offjárfesting en menn hafa gert sér grein fyrir.

Samkvæmt tölum skýrslunnar er sauðfé í landinu allt að 80% fleira en vera ætti. Þar kemur fram hin hliðin á vandamálinu. Offjárfestingin í hinum hefðbundna landbúnaði leiðir til offramleiðslu, sem kostar þjóðfélagið uppbætur, niðurgreiðslur og margvíslega aðra styrki.

Annað dæmi um offjárfestinguna í hinum hefðbundna landbúnaði eru graskögglaverksmiðjurnar. Þeim hefur fjölgað, þótt þær hafi safnað birgðum allt frá árinu 1977. Síðast var reist slík verksmiðja árið 1983. Sumar þeirra eiga enn óselda nokkurn veginn alla framleiðsluna frá í fyrra.

Leggja þarf til stofnkostnað verksmiðjanna af einkar takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar. En þar með er ekki öll sagan sögð. Á lánsfjárlögum þessa árs er heimild til 24 milljón króna lántöku handa verksmiðjunum, svo að unnt sé að halda áfram að framleiða óseljanlega vöru.

Ef marka má af annarri reynslu frá hinum hefðbundna landbúnaði, má reikna með, að lánunum verði breytt í styrki, þegar gjaldþrotið blasir við. Til slíks hefur Framleiðsluráð landbúnaðarins fengið nægilegt fjármagn eftir mikla stækkun kjarnfóðursjóðsins umdeilda.

Samkvæmt lánsfjáráætlun þessa árs er ráðgert, að samtals verði fjárfestur heill milljarður í landbúnaði. Obbinn af því fé fer í hefðbundna landbúnaðinn og stuðlar að þörfinni á uppbótum, niðurgreiðslum og margvíslegum öðrum styrkjum á næstu árum og áratugum.

Milljarður ársins sýnir, að offjárfestingin í hinum hefðbundna landbúnaði er ekki vandi frá gömlum tíma, heldur böl, sem haldið er við frá ári til árs með nýrri fjárfestingu. Sem dæmi má nefna, að síðan 1960 hafa verið reist fjárhús yfir fleira fé en rúm er fyrir í landinu.

Samkvæmt áðurnefndri skýrslu, sem gerir ráð fyrir, að rúm sé fyrir 400-460 þúsund fjár í landinu, hafa frá 1960 verið byggð fjárhús yfir 557 þúsund fjár eða allt að 40% umfram það, sem skýrslugerðarmennirnir telja vera heildarþörf landbúnaðarins á þessu sviði.

Þjóðina skortir fjármagn til byggingar íbúða og til nýrra atvinnugreina á borð við fiskeldi og tölvutækni. Á síðustu misserum hefur pólitíkin farið nokkrum sinnum á hvolf út af húsnæðisvandræðunum. Jafnframt eru nýju atvinnugreinunum skammtaðir smáaurar úr hnefa.

Á sama tíma siglir hinn hefðbundni landbúnaður fram í sjálfvirkri fjárfestingu. Ofan á allt forréttindafjármagnið, sem þessi grein hefur setið að, bætist nú við stórfé í kjarnfóðursjóði. Þess vegna má búast við, að úrelt atvinnugrein efli fjárfestingu sína á næstu árum.

Fjárhúsin og graskögglaverksmiðjurnar eru aðeins tveir af mörgum flokkum minnisvarða um brennslu íslenzks sparifjár og um skuldasöfnun þjóðarinnar í útlöndum. Hinn hefðbundni landbúnaður er í heild skólabókardæmi um, í hvaða veizlur þjóð á ekki að verja peningum sínum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Of dýr samtrygging.

Greinar

Austfirzkir sveitarstjórnarmenn skoruðu nýlega á iðnaðarráðherra að hraða undirbúningi að byggingu kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð. Þeir vilja gera stóriðjudraum sinn að veruleika, þótt komið hafi í ljós, að raunveruleikinn er kuldalegri en draumurinn.

Vafalaust gerir ráðherrann sitt bezta, enda er hann þingmaður Austfirðinga, alveg eins og gerði fyrrverandi ráðherra, sem líka var þingmaður þeirra. En kísilmálmverksmiðjan er pólitískt loforð, sem hefur reynzt afar erfitt að efna og mun líklega reynast ókleift.

Hinir góðviljuðu stjórnmálamenn standa andspænis tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi yrði að greiða niður stofnkostnað verksmiðjunnar um 600 milljónir króna, ef hún yrði reist við Reyðarfjörð. Í öðru lagi yrði að greiða niður orkuverð til hennar úr 18 mills í 14.

Síðara vandamálið er raunar almennt rothögg á stóriðjudrauma Íslendinga. Samninganefndarmenn um stóriðju hafa nýlega upplýst, að unnt sé að ná 14 mills á kílóvattstundina í samningum við erlend stóriðjufyrirtæki. Orkuverð hafi verið á niðurleið að undanförnu.

Jafnframt hefur rækilega verið upplýst, að orkuverð frá nýjum stórvirkjunum, svo sem orkuverinu við Blöndu, verði ekki undir 18 mills á kílóvattstundina. Stóriðjudæmið gengur því ekki lengur upp. Það kann að lagast síðar, en ekki á allra næstu árum.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að orka er ekki ódýr hér á landi eins og menn töldu fyrr á árum. Orkan er þvert á móti dýrari hér en í flestum nágrannalöndunum. Þar með er fallin forsendan fyrir þeirri skoðun, að Ísland sé framtíðarland orkufrekrar stóriðju.

Erlendu fyrirtækin, sem beðin hafa verið um samstarf, vilja ekki greiða 18 mills í stað 14. Og þau vilja ekki greiða 600 milljónir króna aukalega til að taka þátt í byggðastefnu íslenzkra stjórnvalda. Þessi fyrirtæki eru í viðskiptum, en ekki góðgerðarstarfsemi.

Hætt er við, að þetta ástand leiði til, að góðviljuðum stjórnmálamönnum þyki henta, að ríkið byggi kísilmálmverksmiðjuna. Þá er hægt að láta skattgreiðendur annast 600 milljón króna byggðastefnuna og láta orkunotendur annast fjögurra millsa verðmuninn.

Fyrirmyndina sjáum við á Grundartanga. Þar semur ríkið við sjálft sig um orkuverð. Það er haft fáránlega lágt, svo að járnblendiverksmiðjan beri sig. Reikningurinn er hins vegar sendur öðrum orkunotendum. Orkuverðið til Straumsvíkur er barnaleikur hjá þessu rugli.

Stóriðjustefnan á að vera hrein og klár. Ef við höfum samkeppnishæfa orku, eigum við að selja hana einhverjum, sem vilja kaupa á sanngjörnu verði. Íslenzka ríkið á ekki að sitja báðum megin við samningaborðið eins og það gerði í Grundartangadæminu.

Stóriðjudraumurinn á Reyðarfirði verður kominn í 50 milljón króna undirbúningskostnað í lok þessa árs. Ástæðulaust er að sjá svo mikið eftir þessu fé, að kastað sé 600 milljónum króna í stofnkostnaðarmismun og fjórum millsum í hverja kílóvattstund.

Við áttum að taka út þroska okkar í Kröflu. Þar var reist pólitískt orkuver í skjóli samtryggingar stjórnmálaflokkanna. Kísilmálmdraumurinn er að því leyti verri, að þar þarf þjóðin ekki bara að taka erlend lán til orkuvers, heldur einnig til stóriðjunnar. Það er of dýr samtrygging.

Jónas Kristjánsson

DV

Botha er ekki sá eini.

Greinar

Lögreglan í Suður-Afríku hefur drepið um 500 blökkumenn á undanförnum vikum. Flestir voru skotnir í hryðjuverkum, er lögreglan breytti friðsamlegum mótmælum í blóðbað. Ríkisstjórnin kennir blökkumönnum um þetta, hefur hneppt um 650 þeirra í varðhald og lýst yfir neyðarástandi.

Með atburðum síðustu vikna er aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku komin í þrot. Hún á ekkert vopn eftir nema tilraunina til að kúga blökkumenn til hlýðni og það vopn virðist ekki bíta lengur. Hryðjuverk stjórnvalda magna andstöðu hins kúgaða meirihluta blökkumanna.

Íslenzk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þessa eins og stjórnvöld annarra ríkja hafa gert og eru að gera. Efst á baugi er, hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við stjórn Suður-Afríku og hvort reyna eigi að beita efnahagsþvingunum á borð við verzlunarbann.

Ályktanir Sameinuðu þjóðanna eru okkur lítilvægt veganesti. Þar ráða ferðinni harðstjórnir austurblokkarinnar, arabaríkjanna og þriðja heimsins. Þessir aðilar hafa beitt Sameinuðu þjóðunum gegn Suður-Afríku, þótt þeim væri nær að líta í eigin barm.

Í Suður-Afríku hefur þorri íbúanna lítil mannréttindi og sætir hryðjuverkum stjórnvalda. Það er mjög svipað ástand og er í flestum ríkjum heims. Munurinn er aðeins sá, að í Suður-Afríku er það húðliturinn, sem ræður, en í öðrum ríkjum sum önnur atriði.

Í Sovétríkjunum kúgar yfirstéttin, hin svonefnda Nomenklatura, allan þorra íbúanna. Þannig er ástandið í leppríkjum Sovétríkjanna. Í mörgum ríkjum araba og þriðja heimsins er yfirstéttin mun fámennari, allt yfir í að einn harðstjóri kúgi alla hina.

Við höfum ekki slitið stjórnmálasambandi við Sovétríkin né reynt að beita sovézk stjórnvöld efnahagslegum þvingunum á borð við verzlunarbann. Hvers vegna skyldum við þá einskorða okkur við að hlýða fyrirmælum harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum gagnvart Suður-Afríku?

Suður-Afríka hefur það umfram flest önnur kúgunarríki heims, að við getum fengið upplýsingar um ástandið þar. Ríkisstjórnin þar hefur ekki enn gert alvarlegar tilraunir til að skipuleggja upplýsingastrauminn, það er að segja koma í veg fyrir réttar upplýsingar af ástandinu.

Í Sovétríkjunum, fylgiríkjum þeirra, arabaríkjunum og flestum ríkjum þriðja heimsins er hins vegar farið eftir hugmyndum, sem harðstjórar heimsins hafa komið á framfæri í menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco, að óþægilegur flutningur neikvæðra frétta skuli stöðvaður.

Varasamt er að fá Suður-Afríku á heilann, þótt auðveldara sé að fá fréttir þaðan en frá öðrum kúgunarríkjum. Við verðum að skoða málin í samhengi og meta hugsanlegar aðgerðir okkar út frá hliðstæðum aðgerðum gegn Nomenklatura og harðstjórum annarra ríkja heims.

Hvað á að gera andspænis blóðugri harðstjórn Obote í Uganda, Suharto í lndónesíu, Marcos á Filippseyjum, Gorbatsjov í Sovétríkjunum, Deng í Kína, Pinochet í Chile og Karmal í Afganistan? Nauðsynlegt er að skoða slík mál í samhengi, en ekki Botha í Suður-Afríku einan.

Ályktanir harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum og Unesco um sambandsslit stjórnmála og verzlunar eiga ekkert erindi til okkar. Við eigum hins vegar að nota tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að víta harðstjórnina í Suður-Afríku eins og í öðrum ríkjum heims.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við erum farin að spara.

Greinar

Ekki eru allar fréttir slæmar af efnahagslífinu. Gleðilegt er, að jafnvægi virðist hafa náðst á lánamarkaði. Raunvextir eru orðnir svo háir, að peningar streyma til lánastofnana og gera kleift að fjármagna ótal verkefni án þess að auka skuldasúpu þjóðarinnar í útlöndum.

Þessi hagstæða þróun hófst í árslok 1983. Frá þeim tíma hafa innstæður aukizt um 18% í raunverulegum verðmætum. Sókn þessi hefur magnazt í ár. Innlán hafa aukizt tvöfalt meira en útlán á fyrri hluta ársins. Fólk kýs að leggja fyrir í stað þess að nota féð til misþarfra kaupa.

Raunvextir eru afar misjafnir hér á landi eftir tegundum fjárskuldbindinga. Áætlað hefur verið, að meðaltal þeirra sé um 5%. Í alþjóðlegum samanburði eru þetta fremur háir raunvextir. Algengast er, að þeir séu um 4% eins og í Bandaríkjunum og Japan.

Í Bretlandi og Kanada eru raunvextir um 5% eins og hér. Og til eru lönd, þar sem þeir eru mun hærri, svo sem Svíþjóð, þar sem raunvextir eru um 7%. Allar eru þessar tölur úr tímaritinu Economist. Samkvæmt þeim eru íslenzkir raunvextir ekki fjarri meðallagi.

Hér á landi er fjármagnshungur meira en í flestum öðrum löndum. Slík umframeftirspurn hlýtur að kalla á hærri raunvexti en venjulegir eru. Hún gerir meiri kröfur en ella til arðsemi framkvæmda og rekstrar, sem lánunum er ætlað að fjármagna.

Heyrst hafa raddir um, að raunvextir megi nú lækka, þar sem jafnvægi hafi náðst. Sú skoðun er varhugaverð. Lækkaðir raunvextir geta hæglega dregið úr, stöðvað eða snúið við sparifjáraukningunni. Ef svo verður, þurfum við að sækja meira af lánsfé til útlanda.

Flestir eru sammála um, að miklar og vaxandi skuldir okkar í útlöndum séu eitt allra geigvænlegasta vandamál þjóðarinnar. Ef hægt er að lina þann vanda með eflingu innlends sparnaðar, er það einna gleðilegasti árangur raunvaxtastefnu núverandi stjórnvalda.

Ennfremur verður að hafa í huga, að lækkaðir raunvextir geta leitt til þess, að sparifé verði notað til kaupa á ýmsum óþarfa, til dæmis á innfluttri vöru og þjónustu. Þannig getur vaxtalækkun verið verðbólguhvetjandi, jafnvel í meira mæli en vaxtahækkun.

Ekki eru öll ljón úr veginum, þótt stjórnvöld standist freistingar vaxtalækkunar. Við höfum dæmi frá því í fyrrahaust, að langur aðdragandi gengislækkunar olli flótta fjármagns úr lánastofnunum til kaupa á mismunandi þarfri vöru og þjónustu frá útlöndum.

Þegar gengislækkun er í aðsigi, telja menn sig ná betri raunvöxtum úr spákaupmennsku heldur en sparnaði. Og þeim mun meira sem stjórnvöld tregðast við að lækka gengið, þeim mun meira spá menn í, að gengislækkunin verði umtalsverð og gróðavænleg.

Ef gengið fellur hins vegar oft og lítið í senn, er ekkert upp úr slíkri spákaupmennsku að hafa. Við slíkar aðstæður gefa venjulegir raunvextir meira í aðra hönd. Þetta virðast stjórnvöld ekki skilja, því að þau hafa leyft dollaranum að lækka í verði að undanförnu.

Ef gengi er jafnan rétt skráð eða alls ekki skráð, er komið í veg fyrir, að spillt sé árangrinum af jafnvægi í raunvöxtum. Við erum nú á réttri leið í eflingu innlends sparnaðar. Þeim árangri má hvorki spilla með lækkun raunvaxta né frestun gengislækkana yfir í stóru stökkin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lífróður að feigðarósi.

Greinar

Engin skýring hefur fengizt á ofurkappi þingmanna Sjálfstæðisflokksins við skyndiafgreiðslu framleiðsluráðslaga landbúnaðarins á síðustu dögum Alþingis í sumar. Hvers vegna gengu þeir harðar fram en framsóknarþingmenn, sem sumir efuðust um gagn frumvarpsins?

Enn síður er hægt að skilja viðbrögð formanna flokks og þingflokks sjálfstæðismanna við fyrstu afleiðingu laganna, stórhækkun kjarnfóðurgjalds. Þeir virðast halda, að kjósendur við sjávarsíðuna og neytendur almennt trúi því, að hækkunin sé ákvörðun Framsóknarflokksins.

Áram saman hafa stjórmnálamenn verið varaðir við áformum landbánaðarmafíunnar, sem hefur virki sín í framleiðsluráði, búnaðarfélagi, stéttarsambandi og ráðuneyti. Hún hefur stefnt að aukningu eigin valda og yfirfærslu ríkisrekstrar hefðbundinna búgreina á allar búgreinar.

Landbúnaðarmafían vill stöðva verðsamkeppnina, sem hingað til hefur ríkt í eggjum, alifuglum og svínum. Hún vill stöðva, að upp rísi stórvirkir framleiðendur, sem lækka verð fyrir hinum. Hún vill, að hver framleiðandi fái kvóta og einokunarverð fyrir það magn.

Um leið vill landbúnaðarmafían stöðva minnkunina á neyzlu hefðbundinna afurða nautgripa- og sauðfjárræktar á kostnað neyzlu eggja, alifugla og svína. Hún vill nota kjarnfóðurgjaldið til að gera hefðbundnu afurðirnar ódýrari og afurðir hliðarbúgreinanna dýrari.

Ennfremur vill landbúnaðarmafían ná betri tökum á peningastraumum landbúnaðarkerfisins. Með 130% kjarnfóðurgjaldi nær hún til sín verulegum fjármunum, sem hún getur síðan skammtað á þann hátt, að gæludýrum sé gert hærra undir höfði en hinum, sem malda í móinn.

Við höfum reynsluna frá síðasta ári. Þá greiddu eggja-, alifugla- og svínabændur 79 milljónir króna í kjarnfóðurgjald til mafíunnar og fengu hálfa milljón til baka. Afgangurimi fór í hefðbundna landbúnaðinn, þar á meðal til niðurgreiðslu á verði áburðar.

Loks vill landbúnaðarmafían reyna að koma í lóg offramleiðslu fjölda grænfóðurverksmiðja, sem hafa verið reistar fyrir opinbert fé á síðustu árum. Í því skyni lýgur ráðherra því, að heimsmarkaðsverð á kjarnfóðri sé falskt verð, niðurgreitt af Efnahagsbandalaginu.

Hið rétta er, að Efnahagsbandalagið greiðir niður verð á sínu kjarnfóðri til að gera það samkeppnishæft við annað kjarnfóður frá löndum, sem hafa meiri framleiðni á þessu sviði og geta selt á lágu heimsmarkaðsverði, án þess að nokkrum niðurgreiðslum sé beitt.

Engin ástæða var til að koma framleiðslustjórn landbúnaðarmafíunnar á egg, alifugla og svín. Markaðurinn hefur hingað til séð um að halda framleiðslu og eftirspurn í jafnvægi. Í hinum framleiðslustýrðu greinum sauðfjár og nautgripa hefur hins vegar ríkt geigvænleg offramleiðsla.

Áform landbúnaðarmafíunnar hafa oft komið í ljós í ræðu og riti, beint og óbeint. Ekki hefur heldur staðið á aðvörunum, sem hefur verið beint gegn þessum ráðagerðum. Til dæmis voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins varaðir við lögunum, sem þeir knúðu í gegn.

Enginn vafi er á, að lög þessi munu reynast neytendum afar dýr, þar á meðal kjósendum Sjálfstæðisflokksins í þéttbýli og við sjávarsíðuna. Þingmenn flokksins flutu ekki sofandi að þessum feigðarósi, heldur reru þangað hreinan lífróður. Á að líta á það sem sjálfseyðingarhvöt?

Jónas Kristjánsson

DV

Lögregluofbeldið.

Greinar

Lögreglustjóraembættinu í Reykjavik ber að greiða sektir þær og skaðabætur, sem Hæstiréttur dæmdi nýlega fórnarlambi lögregluofbeldis. Starfsmaður lögreglunnar, sem dæmdur var, framdi ofbeldið í vinnutímanum og á vegum húsbóndans, lögregluríkisins.

Venja er, að vinnuveitendur greiði kostnað, sem hlýzt af mistökum starfsmanna, þótt sjálfir dómsúrskurðirnir beinist að starfsmönnum sem einstaklingum. Enn meiri er ábyrgð húsbóndans, þegar hann hefur mótað andrúmsloft, sem hvetur til slíkra mistaka.

Lögregluofbeldi er algengara hér á landi en sem svarar einu hæstaréttarmáli. Fáir hafa aðstöðu og bein í nefinu til að kæra lögregluna og fylgja kærunni á leiðarenda. Það reynir á þolrifin að sitja undir rógi lögreglunnar, lögmanna hennar og klappliðs hennar.

Brezk lögregluyfirvöld gera sér grein fyrir, að ofbeldishneigðar hlýtur að gæta hjá sumum lögreglumönnum. Þau hafa staðið fyrir rannsóknum á vandamálinu í því augnamiði að finna ráð til að halda ofbeldinu í skefjum og hindra útbreiðslu þess innan löggæzlunnar.

Hér á landi er viðhorf yfirstjórnar lögreglunnar þveröfugt. Sama er að segja um viðhorf samtaka lögreglumanna. Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi. Þeir eru varðir gegnum þykkt og þunnt, allt fram í rauðan dauðann.

Þetta stuðlar að ákveðinni hóphvöt, sem lýsa má á þann hátt, að hér erum við, vaktin, sem stendur saman, en þarna úti í umheiminum er pakkið, fyllibytturnar, þrasararnir, blaðamennirnir og aðrir óvinir okkar, vaktarinnar. Slík hóphvöt er þekkt fyrirbæri.

Það er lýsandi dæmi um ástandið, að lögregluofbeldi hefur haldið áfram að viðgangast, síðan hófust þau málaferli, sem nú hafa náð niðurstöðu í Hæstarétti. Lögreglumenn vita, að efnislega styður húsbóndinn þá, þótt hann virðist nú ekki vilja borga tjónið.

Að vísu kann þetta að breytast, ef lögreglustjóraembættið vill ekki borga fyrir starfsmanninn. Slíkt er auðvitað líklegt til að draga úr lögregluofbeldi í framtíðinni, því að einstaklingar hafa ekki efni á að tapa mörgum slíkum málum í Hæstarétti.

En þetta er ekki rétta leiðin til að draga úr lögregluofbeldi. Lögreglustjóraembættinu sem stofnun ber að standa við húnbóndaskyldu sína. Það átti sjálft og á enn að geta haldið uppi slíkum aga á liði sínu, að ekki leiði til mistaka, sem hér eru til umræðu.

Löngu áður en þetta mál kom upp lét dómsmálaráðuneytið kanna viðhorf almennings til lögreglunnar. Þetta var fyrir fimm árum. Þá kom í ljós, að fólk var hrætt við lögregluna. Hætt er við, að traust almennings hafi enn rýrnað eftir ofbeldi síðustu ára.

Fyrir fimm árum töldu flestir hinna spurðu, að lögreglan kynni ekki tök á drukknu fólki, hefði ekki lag á að róa fólk, beitti stundum óþarfri hörku, til dæmis við handtöku, og berði fólk, þegar aðrir sæju ekki til. Þetta er ekki félegt álit á verndurum borgaranna.

Rotnunin í lögreglunni kemur að ofan, en ekki frá einstaklingum, sem lenda í mistökum í hita andartaksins. Það er sjálf yfirstjórnin, sem er skyldug til að koma upp aga, svo að ofbeldi minnki og lögregluríkið hverfi. En ekki með því að neita að borga eftir á.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sprengjufiðrildi fyrir börn.

Greinar

Vesturþýzki stjórnmálamaðurinn Jürgen Todenhöfer var í vetur á ferð með skæruliðum í Afganistan. Hann sá þar nokkur hundruð börn, sem voru örkumla í andliti og á höndum af völdum leikfangasprengja. Hann áætlaði, að nokkrir tugir þúsunda barna hefðu sætt slíkum sendingum Rauða hersins.

Liður í hernaði Kremlverja í Afganistan felst í að dreifa sprengjum, sem líta út eins og fiðrildi og springa ekki, þegar þær koma til jarðar. Þær springa þá fyrst, er snert er á þeim. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum á Vesturlöndum hamast ekki gegn þessu.

Reynum að gera okkur í hugarlund, að bandaríski herinn varpaði slíkum sprengjum á Nicaragua. Vestrænir fjölmiðlar væru án efa mættir á staðinn. Reiðialda færi um hinn siðaða heim, ekki sízt í Bandaríkjunum sjálfum. Slíkur hernaður er óhugsandi.

Reynum að ímynda okkur, að 125 þúsund manna bandarískur her væri búinn að vera í Nicaragua í rúmlega fimm ár. Heilu þorpunum, konum, börnum og gamalmennum væri slátrað á skipulegan hátt, húsin jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Slíkt gæti engan veginn gerzt nú.

Reynum að sjá fyrir okkur, að stjórn Bandaríkjanna ynni miskunnarlaust að eyðingu landsbyggðarinnar í Nicaragua og hefði þegar hrakið þrjár-fjórar milljónir manna úr landi. Slíkt væri ekki hægt, ekki vegna neinna friðarhreyfinga, heldur vegna venjulegs almenningsálits.

Kremlverjar hafa ekkert almenningsálit heima fyrir. Fjölmiðlar þeirra segja það eitt, sem þeir eru látnir segja. Fólk í Sovétríkjunum heldur, að drengirnir þess séu að verjast innrás Bandaríkjanna í Afganistan. Þannig fær þjóðarmorðið í Afganistan að halda áfram.

Rauði herinn og leppstjórnin í Kabúl sjá til þess, að erlendir fréttamenn geti ekki flykkzt til Afganistan að sjá grimmdaræðið þar og flytja það inn í stofu til vesturlandabúa. Við fáum því stopular fréttir frá blaðamönnum, sem hafa hætt lífi sínu við að laumast um landið.

Sovétstjórnin fyrirlítur mannúð og mannréttindi, alveg eins og hún fyrirlítur alla samninga, sem hún skrifar undir, þar á meðal Helsinki-samkomulagið. Valdataka valdshyggjumannsins Gorbatsjovs hefur magnað forherðinguna, þar á meðal villimennskuna í Afganistan.

Á sama tíma er friðarfólk á Vesturlöndum að biðja um fleiri marklausar undirskriftir, til dæmis um, að svæði verði kjarnorkuvopnalaus og að enginn verði fyrri til að grípa til kjarnorkuvopna. Slíkir pappírar verða þá fyrst endanlega marklausir, þegar Kremlverjar hafa ritað undir.

Friðarfólk á Vesturlöndum veldur Kremlverjum óstjórnlegri gleði, þegar það beitir vestrænar ríkisstjórnir þrýstingi, sem enginn getur beitt austan járntjalds, en lætur framferði Kremlverja afskiptalaust, til dæmis í Afganistan. Þetta er óþolandi ástand.

Tími er kominn til, að almenningur og friðarfólk, þar á meðal villuráfandi klerkar, hætti að einblína í garð Vesturlanda og einbeiti kröftum sínum að þrýstingi á Sovétstjórnina, svo að hún láti af glæpum sínum í Afganistan og öðrum svikum við alþjóðlega samninga.

Enginn friður verður á jörðinni fyrr en Kremlverjar sjá, að þeir komast ekki lengur upp með að haga sér eins og naut í flagi. Núverandi starf vestrænna friðarhreyfinga stuðlar að framhaldi ófriðar Kremlverja og frekari dreifingu á sprengjum handa börnum í Afganistan.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aukin alræðisárátta.

Greinar

Í hvert sinn sem nýr höfðingi sezt að völdum í Sovétríkjunum fær óskhyggja manna á Vesturlöndum nýja útrás. Fjallað er um, að hinn nýi maður sé ef til vill hinn bezti karl, tæknilega og hagfræðilega sinnaður, taki brauð fram yfir skriðdreka og sé jafnvel vel kvæntur.

Gorbatsjov hinn nýi hefur það fram yfir Andropov að vera ekki með blóðuga fortíð frá innrásinni í Ungverjaland og yfirstjórn sovézku leyniþjónustunnar. Þar með fylgir ekki, að hann sé eitthvert gæðablóð, sem muni stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

Þegar er komið í ljós, að Gorbatsjov beitir Austur-Evrópu meiri hörku en fyrirrennarar hans gerðu. Það kom greinilega fram á síðasta fundi efnahagsbandalagsins Comecon. Þar fékk hann hærra verð fyrir sovézkar afurðir og lægra verð fyrir afurðir leppríkjanna.

Ennfremur hefur sannleiksmálgagnið Pravda hert gagnrýnina á austurevrópsk frávik frá sovézkum rétttrúnaði í efnahagsmálum. Þar eru fordæmdar tilraunir Ungverja og annarra til að beita markaðslögmálum í smáum stíl. Brezhnev, Andropov og Tsjernenko voru þó öllu frjálslyndari.

Verra er, að Gorbatsjov hefur hert villimennsku Rauða hersins í Afganistan. Þjóðarmorðið er stundað skipulegar en nokkru sinni fyrr. Konum, börnum og gamalmennum er slátrað í stórum stíl, þorp jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Pyndingar eru hrottalegri en annars staðar.

Heima fyrir bendir ekkert til, að Gorbatsjov muni slaka hið minnsta á klónni. Hann er á móti öllum frávikum. Það lýsir sér ekki aðeins í herferð gegn slóðaskap í atvinnulífinu, heldur einnig í auknum ofsóknum gegn öllum þeim, sem ekki eru nákvæmlega á hans línu.

Enn hefur fækkað þeim, sem fá að flytjast úr landi, og haldið er áfram ofsóknum gegn þeim, sem biðja um slíkt. Einnig hefur aukizt harkan við andófsmenn á borð við Sakharov. Hún kemur meðal annars fram í, að umheimurinn veit mánuðum saman ekki, hvort hann er lífs eða liðinn.

Að baki aukinnar hörku gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna er líklega meiri árátta Gorbatsjov en fyrirrennara hans að ráða öllu sjálfur. Þessi sama árátta kemur fram í hreinsunum á valdatindinum. Gromyko er sparkað upp og Romanov út, en jámenn settir inn.

Þessi fyrsta reynsla af Gorbatsjov lofar ekki góðu. Alræðisárátta af þessu tagi hefur tilhneigingu til að magnast í alræðisskipulagi, svo sem sást á Stalínstímanum. Á Vesturlöndum eru slíkir menn hreinsaðir út í kosningum, en þar eystra ríkja þeir fram í andlátið.

Gagnvart Vesturlöndum mun Gorbatsjov reynast slægur prins í stíl Macchiavelli. Hann hefur þegar reynzt brosmildur og gamansamur í umgengni. Hann er heimsmannlegur í fasi og klæðnaði eins og eiginkonan. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum munu dá nýju fötin keisarans.

Öfugt við Reagan Bandaríkjaforseta, sem geltir hátt og bítur lítið, er Gorbatsjov af þeirri tegund, sem geltir lágt og bítur mikið. Á skömmu valdaskeiði hans hefur ofbeldishneigð Kremlar aukizt gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna.

Engin ástæða er til að ætla, að leiðtogi, sem er alræðishneigðari en Tsjernenko, Andropov og Brezhnev, reynist Vesturlöndum sáttfúsari en fyrirrennararnir. Meiri líkur eru á, að sovézka kröfuharkan í samningum, sem áður var takmarkalítil, verði næsta takmarkalaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Rótgrónasti munurinn.

Greinar

Fólk skipast í stjórnmálaflokka eftir ýmsum hagsmunum og hugsjónum, sem mótazt hafa á þessari öld og tveimur hinum síðustu. Þessar sundurgreiningar eru afar ungar og rótlitlar í samanburði við muninn á hagsmunum og hugsjónum karla annars vegar og kvenna hins vegar.

Um aldir og árþúsund hafa þjóðfélögin, sem eru að baki hins vestræna nútímaþjóðfélags, notazt við tiltölulega fastmótaða verkaskiptingu kynja. Konan hefur unnið á heimilinu eða í nágrenni þess, en karlinn hefur unnið í meiri fjarlægð. Þetta endurspeglast í mörgu.

Hann hefur verið tiltölulega hreyfanlegur, en hún stað bundin með börnin. Hann hefur litið út á við, en hún inn á við. Hann hefur tekið áhættu, en hún viljað öryggi. Hann hefur verið í sókn gagnvart spennandi umheimi, en hún í vörn gegn þessum sama, ógnvekjandi umheimi.

Hann hefur viljað stríð og farið með hernaði, en hún hefur hafnað stríði og mátt þola hernað. Hann hefur verið maður vígbúnaðar, en hún maður friðar. Hann hefur stutt og stundað samkeppni, en hún samvinnu. Hann hefur trúað á mátt sinn og megin, en hún þurft að vernda lítilmagnann, börnin.

Í nútímanum leiðir þetta til meiri áherzlu hans á atvinnulíf og hennar á félagsmál. Hann vill framleiðslu verðmæta og hún dreifingu þeirra. Meðan hann talar um stóriðju og svigrúm til athafna, talar hún um skóla, tryggingar, heilsugæzlu og varnir gegn mengun.

Í atvinnulífinu leggur hann áherzlu á nauðsyn afkasta og hún á nauðsyn vinnuaðstöðu. Hann talar um bónuskerfi og hún um lágmarkslaun. Hann nær sér í launaskrið og hún krefst launajöfnunar. Hann er hálaunamaðurinn og hún er láglaunamaðurinn.

Engin stéttaskipting í tekjum er meiri en milli karla og kvenna. En skiptingin felst ekki aðeins í atriðum, sem snúa að framleiðslu og dreifingu verðmæta. Hún kemur líka fram í frítímunum. Karlarnir hafa löngum sótt sína karlaklúbba og konurnar eru farnar að stofna sína kvennaklúbba.

Á grundvelli þessa fjölbreytta mismunar, sem hér hefur verið rakinn, og annars, sem of langt mál væri að rekja í takmörkuðu rými, hefur hinum svokölluðu hörðu gildum karlsins verið stillt upp sem andstæðu við hin svonefndu mjúku gildi konunnar.

Þar sem karlinn hefur að mestu ráðið ferðinni á undanförnum öldum og árþúsundum, er ekkert skrítið, þótt hluti af kvenfrelsisbaráttu tuttugustu aldar felist í eins konar uppreisn mjúku gildanna gegn hinum hörðu. Sagnfræðin segir, að slíkt sé óhjákvæmilegt.

Að vísu hefur munurinn verið málaður nokkuð sterkum litum hér að ofan. Margar konur telja framleiðslu verðmæta merkilegri en dreifingu þeirra og margir karlar telja dreifingu verðmæta merkilegri en framleiðslu þeirra, svo að horft sé á aðeins eitt af mörgum ofangreindum dæmum.

Hitt stendur þá eftir, að munur karla og kvenna er mörg hundruð sinnum rótgrónara fyrirbæri en annar munur, sem veldur ágreiningi fólks og skiptir því í fylkingar. Ofan á líkamlegan mun kemur árþúsunda verkaskipting kynjanna í þjóðfélögunum, sem nútíminn byggist á.

Þess vegna er ekkert skrítið, þátt karlar og konur skipi sér sumpart í eigin stjórnmálaflokka, alveg eins og karlar og konur hafa skipað sér í eigin klúbba. Fremur er ástæða til að undrast, að ekki skuli vera meira um þetta en raun ber vitni um.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið um ströndina.

Greinar

Vegargerð í Laugarnesi hefur verið frestað eftir að náttúruverndarmenn bentu á, að eins kílómetra ströndin þar er hin eina í borgarbyggðinni, sem er að mestu með óspilltum ummerkjum náttúrunnar. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að taka tillit til þessa og færa veginn fjær ströndinni.

Þetta eru ánægjuleg viðbrögð, sem vonandi verða fordæmi öðrum sveitarstjórnum, sem þurfa að taka afstöðu til náttúruverndar í skipulagi og framkvæmdum. Hingað til hafa slík sjónarmið ekki átt upp á pallborðið hjá mörgum sveitarstjórnum, svo sem sjá má víða á Reykjavíkursvæðinu.

Fjörur eru meðal hins skoðunarverðasta í náttúrunni, enda eru þær á mótum lífsríkis hafs og lands. Jafnframt þurfa þær að sæta einna mestum ágangi mannfólksins, er sækist eftir að byggja hús sín, þorp og borgir sem næst sjávarmáli. Þetta tvennt er örðugt að sameina.

Kársnes í Kópavogi er dæmi um stórslys, þar sem náttúra strandlengjunnar hefur gersamlega mátt víkja fyrir áhuga manna á að byggja niður að sjó. Þetta nes, sem áður var fallegt, er nú aðeins hversdagslegt hverfi, þar sem fáum dettur í hug að njóta útivistar.

Á Seltjarnarnesi geisar þessi styrjöld enn. Hingað til hefur verið hægt að halda uppi vörnum fyrir strandlengjuna frá Bygggörðum á norðanverðu nesinu vestur um Gróttu og Suðurnes að Nesbala að sunnan. En því miður eru margir þeirrar skoðunar, að þarna megi byggja meira.

Slagurinn um Valhúsahæðina er forsmekkur þess, sem síðar mun verða. Valdamikill og skammsýnn bæjarstjóri reyndi að troða þar upp átján húsum, en fékk ekki nema jafntefli vegna einarðrar fyrirstöðu í bæjarstjórn, sem meira eða minna náði þvert gegnum stjórnmálaflokkana.

Þegar steinsteypuliðið snýr sér að strandlengjunni á Seltjarnarnesi, verður enn meira í húfi. Það hefur látið skipulagsarkitekta bæjarins teikna í nágrenni strandlengjunnar hringveg fyrir kappakstur óviðkomandi umferðar. Ennfremur fullt af húsum við þennan veg.

Náttúruverndarmönnum veitir ekki af að byrja strax að undirbúa varnirnar, því að sóknin verður án efa slóttug. Ef menn sofna á verðinum, munu þeir vakna upp við óbætanlegan skaða. Steinsteypuliðið er nefnilega reynslunni ríkara eftir pattið á Valhúsahæð.

Hundahald og vaxandi byggð hefur þegar stórspillt fuglalífi á ströndinni, sem teflt verður um. Áhugamenn hafa af mikilli elju megnað að hlúa að varpi æðarfugls, maríuerlu, þúfutittlings, tjalds og músarrindils í Gróttu. Á hverju vori er þetta varp í mikilli hættu.

Ekki bætir úr skák, að helzta lögregla svæðisins, krían, er á undanhaldi. Fyrir nokkrum árum hélt hún uppi grimmilegri vörzlu. Núna hefur aðsteðjandi byggð og eftirlitslítið hundahald þrengt svo að henni, að hinar fáu kríur, sem eftir eru, garga ekki einu sinni.

Ef enn verður þrengt að ströndinni vestan á Seltjarnarnesi, má búast við, að lífið verði snöggtum fábreyttara í fjörunni. Hið sama mun síðan verða uppi á teningnum á öðru nesi, Álftanesi, þar sem skipulag er skemmra á veg komið. Við blasir, að bæði þessi nes verði ný Kársnes.

Náttúruverndarmenn á öllu þessu svæði verða að taka saman höndum gegn hinu skammsýna steinsteypuliði. Sigurinn í Laugarnesi ætti að verða mönnum hvatning til að láta ekki deigan síga. Hann á að marka endalok sífelldra ósigra og upphaf nýs og betri tíma í umgengni við náttúruna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Veiran er ekki í fríi.

Greinar

Sumarfrí í heilbrigðisráðuneytinu valda því, að blóðþegar á Íslandi búa enn við rússneska rúllettu. Frestað hefur verið fram í ágúst eða september að ákveða, hvar og hvernig skuli leita í blóði Blóðbankans að einkennum sjúkdómsins Aids, sem hér er nefndur alnæmi eða ónæmistæring.

Landlæknir hefur fyrir sitt leyti ákveðið, að frá og með næsta hausti verði allt blóð og blóðefni greint, svo að tryggt sé, að hinn nýi og mikli vágestur berist ekki þá leið. Alnæmi berst ýmist með blóði eða sæði. En ekkert samkomulag hefur tekizt um greiningarstaðinn.

Oft hafa menn skroppið úr fríi af minna tilefni en almannavörnum af þessu tagi. Einhvers staðar þarf að koma fyrir greiningu, líklega annaðhvort á Landspítalalóð eða Borgarspítalanum. Ákvörðun um bráðabirgðalausn ætti raunar þegar að hafa verið tekin í ráðuneytinu.

Veirurannsóknastofnun háskólans vísaði til skamms tíma málinu frá sér vegna skorts á aðstöðu. Yfirlæknir stofnunarinnar lagði í staðinn til tíu milljón króna nýbyggingu, sem tekur alltof langan tíma að byggja. En svo virðist sem dregið hafi úr fyrirstöðu stofnunarinnar.

Raunar eru sumir sérfróðir læknar þeirrar skoðunar, að of mikið sé stundum gert úr öryggisþörf á greiningarstöðvum ónæmistæringar. Benda þeir á, að einungis sé eitt dæmi í heiminum um, að heilbrigðisþjónustufólk hafi í starfi smitazt af alnæmi.

Hins vegar eru sérfróðir læknar, sem fjallað hafa töluvert í DV um ónæmistæringu, sammála um, að sízt hafi hér í fjölmiðlum verið ofsagt frá hörmungunum, sem fylgja henni. Hafa þeir hvatt til skjótra og markvissra varna gegn vágestinum, sem fer um heiminn eins og eldur í sinu.

Haraldur Briem smitsjúkdómalæknir sagði í viðtali við DV, að búast mætti við fyrsta sjúklingnum innan tveggja ára. Við værum 2-3 árum á eftir Evrópu, sem væri 2-3 árum á eftir Bandaríkjunum. Þar bera veiruna tvær milljónir manna, sem jafngildir 2000 manns á Íslandi.

Mest er útbreiðslan í Kinshasa í Zaire, þar sem talið er, að annar hver maður beri veiruna. Áætla má, að hundraðasti hver veiruberi fái alnæmi, sem er ólæknandi. Svarti dauði og aðrir illræmdir sjúkdómar veraldarsögunnar blikna í samanburði við þessi ósköp.

Heilbrigðisyfirvöldum ber auðvitað skylda til að sjá strax um, að fólk smitist ekki af völdum blóðgjafar. Hér er enn á því misbrestur, þótt von sé á úrbótum. Ennfremur ber þeim skylda til að fræða almenning rækilega um, hvernig megi forðast ónæmistæringu.

Landlæknir hefur brugðist seint en vel við í þeim efnum. Gefinn hefur verið út bæklingur, sem dreift verður í skóla næsta haust. Þar kemur fram, að fólki ber að forðast lauslæti og nota að öðrum kosti gúmverjur. Þetta eru sömu ráð og læknar hafa gefið hér í blaðinu.

Í framhaldi af bæklingnum þarf að skipuleggja framhaldsfræðslu, svo að merkið sígi ekki eftir fyrstu lotu. Það verður að síast inn hjá fólki, að tímar hins ljúfa lífs eru að baki. Sérstaklega er nauðsynlegt, að lauslátir hommar taki upp aðra lifnaðarhætti.

Nokkurt fé kostar að standa undir fræðsluherferð og nothæfri greiningaraðstöðu. En það er mun ódýrara en að hafa tugi ólæknanlegra sjúklinga á sérstökum sjúkradeildum. Mestu máli skiptir þó, að ráðuneytið komi snöggvast úr sumarfríi. Veiran tekur sér ekki sumarfrí.

Jónas Kristjánsson.

DV