Botha er ekki sá eini.

Greinar

Lögreglan í Suður-Afríku hefur drepið um 500 blökkumenn á undanförnum vikum. Flestir voru skotnir í hryðjuverkum, er lögreglan breytti friðsamlegum mótmælum í blóðbað. Ríkisstjórnin kennir blökkumönnum um þetta, hefur hneppt um 650 þeirra í varðhald og lýst yfir neyðarástandi.

Með atburðum síðustu vikna er aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku komin í þrot. Hún á ekkert vopn eftir nema tilraunina til að kúga blökkumenn til hlýðni og það vopn virðist ekki bíta lengur. Hryðjuverk stjórnvalda magna andstöðu hins kúgaða meirihluta blökkumanna.

Íslenzk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þessa eins og stjórnvöld annarra ríkja hafa gert og eru að gera. Efst á baugi er, hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við stjórn Suður-Afríku og hvort reyna eigi að beita efnahagsþvingunum á borð við verzlunarbann.

Ályktanir Sameinuðu þjóðanna eru okkur lítilvægt veganesti. Þar ráða ferðinni harðstjórnir austurblokkarinnar, arabaríkjanna og þriðja heimsins. Þessir aðilar hafa beitt Sameinuðu þjóðunum gegn Suður-Afríku, þótt þeim væri nær að líta í eigin barm.

Í Suður-Afríku hefur þorri íbúanna lítil mannréttindi og sætir hryðjuverkum stjórnvalda. Það er mjög svipað ástand og er í flestum ríkjum heims. Munurinn er aðeins sá, að í Suður-Afríku er það húðliturinn, sem ræður, en í öðrum ríkjum sum önnur atriði.

Í Sovétríkjunum kúgar yfirstéttin, hin svonefnda Nomenklatura, allan þorra íbúanna. Þannig er ástandið í leppríkjum Sovétríkjanna. Í mörgum ríkjum araba og þriðja heimsins er yfirstéttin mun fámennari, allt yfir í að einn harðstjóri kúgi alla hina.

Við höfum ekki slitið stjórnmálasambandi við Sovétríkin né reynt að beita sovézk stjórnvöld efnahagslegum þvingunum á borð við verzlunarbann. Hvers vegna skyldum við þá einskorða okkur við að hlýða fyrirmælum harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum gagnvart Suður-Afríku?

Suður-Afríka hefur það umfram flest önnur kúgunarríki heims, að við getum fengið upplýsingar um ástandið þar. Ríkisstjórnin þar hefur ekki enn gert alvarlegar tilraunir til að skipuleggja upplýsingastrauminn, það er að segja koma í veg fyrir réttar upplýsingar af ástandinu.

Í Sovétríkjunum, fylgiríkjum þeirra, arabaríkjunum og flestum ríkjum þriðja heimsins er hins vegar farið eftir hugmyndum, sem harðstjórar heimsins hafa komið á framfæri í menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco, að óþægilegur flutningur neikvæðra frétta skuli stöðvaður.

Varasamt er að fá Suður-Afríku á heilann, þótt auðveldara sé að fá fréttir þaðan en frá öðrum kúgunarríkjum. Við verðum að skoða málin í samhengi og meta hugsanlegar aðgerðir okkar út frá hliðstæðum aðgerðum gegn Nomenklatura og harðstjórum annarra ríkja heims.

Hvað á að gera andspænis blóðugri harðstjórn Obote í Uganda, Suharto í lndónesíu, Marcos á Filippseyjum, Gorbatsjov í Sovétríkjunum, Deng í Kína, Pinochet í Chile og Karmal í Afganistan? Nauðsynlegt er að skoða slík mál í samhengi, en ekki Botha í Suður-Afríku einan.

Ályktanir harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum og Unesco um sambandsslit stjórnmála og verzlunar eiga ekkert erindi til okkar. Við eigum hins vegar að nota tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að víta harðstjórnina í Suður-Afríku eins og í öðrum ríkjum heims.

Jónas Kristjánsson.

DV