Author Archive

Gegn Serbíu-Hitler

Greinar

Samkvæmt yfirlýsingu utanríkisráðherra mun Ísland fylgja í kjölfar Þýzkalands og lýsa yfir í þessari viku, að Ísland muni með nótuskiptum viðurkenna Slóveníu og Króatíu sem sjálfstæð ríki, ef uppfyllt verði nokkur auðveld skilyrði um lýðræði og rétt minnihlutahópa.

Þýzkaland hefur raunar ekki sett nein skilyrði fyrir sinni viðurkenningu, enda má líta svo á, að Slóvenía og Króatía hafi þegar uppfyllt skilyrðin, að svo miklu leyti sem hægt er að ástunda lýðræði og mannréttindi, þegar verið er að verjast gegn landvinningastríði.

Tregðan við að viðurkenna Slóveníu og Króatíu segir ekki fagra sögu af áhuga vestrænna þjóða á lýðræði og mannréttindum í Austur-Evrópu. Útþenslustefna Serbíuforseta og serbneskra yfirmanna Júgóslavíuhers hefur óbeint verið studd sterkum öflum á Vesturlöndum.

Verstur er þáttur Bandaríkjastjórnar. James Baker utanríkisráðherra hefur margoft lýst stuðningi við kommúnistana í Júgóslavíu. Hann var í sumar á ferð þar til að vara Slóveníu og Króatíu við sjálfstæðisbrölti. Og nú neita Bandaríkin viðurkenningu.

Þetta minnir á, hversu treg Bandaríkin voru að viðurkenna Eystrasaltsríkin og hversu eindregið þau hafa stutt kommúnistann og fylgisleysingjann Gorbatsjov í varnarstríði hans gegn lýðræðisöflum í lýðveldum þess svæðis, sem áður var heimsveldið Sovétríkin.

Afstaða Bandaríkjastjórnar skýrir, hvers vegna Atlantshafsbandalagið, sem stofnað var til að hefta útbreiðslu kommúnismans í Evrópu, hefur orðið að horfa í aðgerðaleysi á vopnaða og blóðuga útþenslu síðustu móhíkana kommúnismans í Evrópu, stjórnenda Serbíu.

Aðild Javier Perez de Cuellar, forstjóra Sameinuðu þjóðanna, að Serbíubandalagi Bandaríkjastjórnar á síðustu vikum valdaferils hans verður ekki skýrð á neinn vitrænan hátt. Annaðhvort eru það elliórar eða þjónustulund gagnvart eina heimsveldinu, sem eftir er.

Þótt segja megi, að aldrei valdi einn, þegar tveir deili, er blóðbaðið í Króatíu fyrst og fremst af völdum Slobodan Milosevic Serbíuforseta. Hann er kommúnisti, sem hefur ræktað völd sín með því að beita aðferðum Hitlers og höfða til lægstu þjóðernishvata Serbíumanna.

Í blóðbaðinu er Serbíu-Hitler studdur af herforingjum, sem líka eru tilfinningalausir kommúnistar, og eru líka að bjarga starfi sínu, því að ekkert rúm eða fé er fyrir útblásinn her í þeim lýðveldum, sem eru að rísa á rústum ríkis, sem áður hékk saman á kommúnisma.

Það er út í bláinn, þegar ráðamenn í Bandaríkjunum, Sameinuðu þjóðunum og jafnvel í Evrópubandalaginu gefa í skyn, að þessir kommúnistar verði enn verri viðskiptis, ef Slóvenía og Króatía öðlast viðurkenningu. Þeir geta alls ekki orðið verri en þeir eru í raun.

Hitt er líklegra, að Milosevic og herforingjarnir leggi niður rófuna, ef Vesturlönd sýna einarðlega, að þau ætli ekki að láta þá komast upp með landvinningastríð sitt. Þeir eru að því leyti eins og Saddam Hussein, að þeir túlka sáttatilraunir sem vestræna linkind.

Bandaríkin, Nató og Sameinuðu þjóðirnar hafa svívirðu af máli þessu, en Evrópubandalagið sleppur fyrir horn á síðustu stundu. Og Ísland fyllir betri hópinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Eigin gæfu smiðir

Greinar

Tvíhliða viðræður Íslands við Evrópubandalagið um nýjan eða breyttan viðskiptasamning verða næsta verkefni okkar á sviði utanríkisviðskipta, ef evrópska efnahagssvæðið er úr sögunni í núverandi mynd, svo sem líkur benda til eftir rothögg Evrópudómstólsins.

Evrópubandalagið breytir ekki stjórnarskrá sinni til að standa við samninginn um evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar kann það að líta mildum augum á, að efni hans verði tekið upp í tvíhliða fríverzlunarsamningum við þau ríki, sem ekki hugsa sér að ganga í bandalagið.

Raunar er Evrópubandalaginu siðferðilega skylt að leysa málið eftir að hafa tvisvar sinnum klúðrað því. Sú verður væntanlega meginforsendan, sem samningamenn okkar gefa sér, þegar þráðurinn verður tekinn upp að nýju í tvíhliða eða marghliða viðræðum.

Ljóst er, að Ísland mun ekki stíga lengra skref til evrópskrar sameiningar en stigið var með hinu andvana fædda efnahagssvæði. Við fórum þar út á yztu nöf, enda er engin þjóðarsátt um árangur þeirrar göngu, heldur er þjóðin klofin í herðar niður í afstöðu til hennar.

Við munum til dæmis ekki geta sætt okkur við, að slátrari evrópska efnahagssvæðisins, Evrópudómstóllinn, fái meiri lögsögu yfir Íslandi. Enginn pólitískur vilji er á Íslandi fyrir slíku afsali fullveldis. Við viljum áfram hafa lykilinn að gæfu okkar í eigin höndum.

Við munum ekki feta braut Svía, Finna og Austurríkismanna inn í Evrópubandalagið. Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag.

Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.

Evrópubandalagið hefur líka galla, sem fæla okkur frá. Það er skriffinnskubákn, sem hefur tilhneigingu til að heyja viðskiptastríð út á við. Það er bákn, sem tekur örlagaríkar ákvarðanir, þar sem kvartmilljón manna á Íslandi skipta jafnlitlu og íbúarnir í Cardiff í Wales.

Við viljum ekki vera eins og Cardiff í Wales. Við viljum reka sérstakt þjóðfélag, alveg eins og Litháar og Króatar. Við viljum þetta, þótt leiða megi rök að því að ódýrara væri að haga málum á annan hátt. Við teljum, að þjóðríki sé heppileg eining, þótt lítil sé.

Nú hefur nýtt stríð tekið við af kalda stríðinu. Það er stríðið milli þjóðríkja og sambandsríkja, þar sem deyjandi Sovétríki, deyjandi Júgóslavía, Bandaríkin og forstjóri Sameinuðu þjóðanna mynda bandalag til að reyna að koma í veg fyrir fæðingu þjóðríkja.

Þetta bandalag er dauðadæmt, því að hinn stríði straumur sögunnar liggur í átt til þjóðríkja, sem vilja vera eigin gæfu smiðir, en eru fús til samstarfs við aðra um fríverzlun og önnur hagkvæmnismál, sem ekki skerða fullveldi þjóðríkjanna að neinu marki.

Evrópubandalagið er punkturinn eftir Evrópustríðin, eldra fyrirbæri en vakning þjóðríkja, sem einkennir nútímann. Það hefur í krafti stærðar öðlazt sitt eigið hreyfiafl, sem gerir það eftirsóknarvert fyrir marga, svo sem Svía og Finna. Við erum ekki í þeim aðdáendahópi.

Þegar Svíar og Finnar verða orðnir enskumælandi Evrópumenn, ætla Íslendingar áfram að vera íslenzkumælandi Íslendingar og sinnar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausir með lífsstíl

Greinar

Þegar illa árar, reynir mest á forustuna. Þá er gott að hafa stjórnskörunga á borð við Winston Churchill, sem rísa hæst, þegar þrautirnar eru mestar, og hrífa fólk með sér til sameiginlegra átaka gegn aðsteðjandi erfiðleikum. Slíka vantar okkur núna í kreppunni.

Við höfum hins vegar fjármálaráðherra, sem er búinn að setja um bílafríðindi ráðherra nýja reglugerð, er felur í sér frávik frá því, sem gildir um aðra forstjóra í þjóðfélaginu, og leiðir til, að ráðherrar borga ekki nema fjórðung af því, sem ríkisskattstjóri taldi rétt.

Þegar þessi sami fjármálaráðherra kemur með mæðusvip í sjónvarp og segir ástandið svo alvarlegt, að allir hópar þjóðfélagsins þurfi að leggja sitt af mörkum, er ekki ljóst, hvort rétt sé að hlæja eða gráta. Þarna er á ferð marklaus maður með marklausa prédikun.

Það er einmitt einkennisgalli núverandi rikisstjórnar, að hún sáir ekki trausti í hjörtu fólks. Hún er ekki skipuð stjórnskörungum, sem geta fengið þjóðina til að taka möglunarlítið á sig nýjar byrðar. Hún er skipuð eiginhagsmunastrákum, sem ekki njóta virðingar.

Hinn einkennisgalli ríkisstjórnarinnar er, að ráðherrar virðast telja starf sitt vera léttara en það er í raun. Þeir virðast fremur líta á ráðherratignina sem eftirsóttan lífsstíl en sem verkefni, sem þurfi að fást við. Þeir eru að leika ráðherra en ekki að starfa sem ráðherrar.

Þetta lýsir sér í, að verk ríkisstjórnarinnar reynast illa unnin, þegar þau koma fyrir Alþingi. Hún leggur fram bandorm tillagna um álögur út og suður og niðurskurð út og suður án þess að hafa rætt málin við þá aðila, sem helzt eiga að sæta álögum og niðurskurði.

Þegar virðingarlítil ríkisstjórn vinnur verk sín illa, mætir hún andófi og uppreisn utan þings og innan. Hennar eigin þingmenn hlaupa í allar áttir undan ábyrgðinni af verkum hennar. Afleiðingin er, að bandormur hennar um álögur og niðurskurð fer út um þúfur.

Ráðherrar verða að láta undan síga og falla frá hverju málinu á fætur öðru; falla frá tilfærslu kostnar af málum fatlaðara til sveitarfélaga, falla frá auknum skólagjöldum, falla frá frestun jarðgangna á Vestfjörðum, falla frá verulegum hluta af minnkun sjómannaafsláttar.

Það hriktir í flestum þáttum bandormsins nema niðurskurði barnabóta, af því að barnafólk á sér ekki málsvara á borð við þá, sem berjast gegn álögum og niðurskurði á öðrum sviðum. Hvert á fætur öðru bila áform ríkisstjórnarinnar um minni taprekstur ríkisins.

Komið hefur í ljós, að ráðherrarnir hafa meira eða minna látið hjá líða að tryggja málunum stuðning eða hlutleysi. Sveitastjórnir og samtök þeirra höfðu ekki hugmynd um ráðagerðir ríkisstjórnarinnar á þeirra sviði fyrr en þær birtust í margumræddum bandormi.

Þannig fer tvennt saman hjá ríkisstjórninni. Hún vinnur ekki verk sín af nauðsynlegri kostgæfni til að tryggja þeim brautargengi. Og hún nýtur ekki þeirrar virðingar innan og utan þings, að menn víki úr vegi til að auðvelda henni að koma málum sínum fram.

Svona fer fyrir strákum með lífsstíl. Svona fer fyrir þeim, sem gæta þess vendilega að leggja ekki niður dagpeningakerfi, sem er ferðahvetjandi fyrir ráðherra, af því að þeir vilja ekki draga úr lífsstíl sínum. Þeir halda lífsstíl sínum, en glata trausti og virðingu annarra.

Verst er, að ráðherrarnir virðast sáttir við þá stöðu, að þeir séu að leika ráðherra, án þess að mark sé tekið á þeim, svo framarlega sem þeir fái bara að leika sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandormur þjóðarviljans

Greinar

Þótt bandormur ríkisstjórnarinnar sæti andstöðu á Alþingi og jafnvel einstakra stjórnarþingmanna, er hann í töluverðu samræmi við ýmis helztu áhugamál þjóðarinnar, sem kærir sig kollótta um samdrátt í velferð lítilmagnans, í heilsugæzlu og í skólahaldi.

Það er í samræmi við vilja þjóðarinnar, að bandormurinn snertir nærri ekkert óskabarn hennar, hinn hefðbundna landbúnað. Þjóðin vill á þeim vettvangi óbreytt ástand, sem kostar hana um tólf milljarða á ári í innflutningsbanni og átta milljarða í innlendum stuðningi.

Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri lýsir meirihluti hinna spurðu yfir því, að ekki megi flytja inn búvöru í samkeppni við hina innlendu, jafnvel þótt það lækki vöruverð til neytenda. Þannig lýsir þjóðin því yfir, að hún sé reiðubúin að bera þessar byrðar.

Úr því að stærsti útgjaldaliður neytenda og skattgreiðenda er friðhelgur, má búast við, að þeim mun meira verði undan að láta á öðrum sviðum, þegar harðnar á dalnum. Niðurskurður hlýtur að verða þeim mun þyngri á öðrum sviðum sameiginlegra útgjalda.

Einnig hefur komið í ljós, að þjóðin hefur mikinn áhuga á, að til samgöngubóta verði boruð göt í fjöll. Samgöngur eru annað hjartans mál hennar næst á eftir landbúnaði. Enda hefur ríkisstjórnin aðeins treyst sér til eins árs frestunar framkvæmda á þeim vettvangi.

Ekki er heldur líklegt, að nein markverð andstaða verði við, að helmingur vandamálsins verði galdraður á brott með flötum niðurskurði ríkisútgjalda. Það er gamalkunn og vinsæl aðferð, sem hefur ævinlega falizt í, að niðurskurður verður í raun alls enginn.

Fáir gráta, þótt sveitarfélög verði fyrir kárínum, sem samtals nema tæpum milljarði króna. Sveitarfélög eru ópersónuleg fyrirbæri eins og ríkið sjálft og eru hvort sem er á hausnum eins og ríkið. Það er bara sveitarstjórnarfólkið, sem barmar sér yfir milljarðinum.

Þjóðinni er nokkurn veginn sama, þótt fjárveitingar til Háskólans leggist niður á 22 árum, ef svo fer fram, sem nú horfir. Henni er líka sama um annan niðurskurð í skólamálum og í heilsugæzlu, svo ekki sé talað um barnabæturnar, sem aðeins á að skera um 10%.

Það velferðarkerfi, sem Íslendingar vilja í rauninni hafa, er ekki velferðarkerfi heimilanna, heldur hins hefðbundna atvinnulífs. Menn vilja, að ríkisvaldið framleiði seðla handa opinberum sjóðum til að sjá um, að atvinnurekstur leggist ekki niður eða færist til.

Bandormur ríkisstjórnarinnar er fyrsta aðgerðin til að mæta mögru árunum, sem gengin eru í garð. Þessi mögru ár eru heimasmíðuð og eru leidd af vilja þjóðarinnar. Þau stafa af hátimbruðu velferðarkerfi atvinnulífsins og einkum þó hins hefðbundna landbúnaðar.

Þegar búið er að verja milljörðum til að framleiða laxeldisstöðvar með handafli og milljörðum til að tryggja, að hvert einasta frystihús landsins verði áfram í rekstri, má búast við timburmönnum á borð við þá, sem bandormi ríkisstjórnarinnar er ætlað að lina.

Þegar búið er að byggja upp varnarkerfi til að draga úr möguleikum á, að ferskur fiskur sé seldur dýru verði úr landi, má búast við slíkum timburmönnum. Þeir stafa einfaldlega af því, að undanfarnar ríkisstjórnir hafa verið önnum kafnar við að framkvæma þjóðarviljann.

Með bandormi ríkisstjórnarinnar hefur þjóðin fengið það, sem hún vill og á skilið. Hún sækist eftir sjálfspyndingum og hefur fengið þær. Í því felst lýðræðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðsamt andlát

Greinar

Andláti Sovétríkjanna var formlega lýst á laugardaginn, þegar undirritaður var samningur Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands um nýtt ríkjabandalag hins slavneska kjarna Sovétríkjanna. Jafnframt voru sovézk lög felld úr gildi og sovézkar stofnanir lýstar ógildar.

Nýja ríkjasambandið minnir að nokkru á Evrópubandalagið, því að gert er ráð fyrir nánu samstarfi ríkjanna þriggja, svo sem samræmdri utanríkisstefnu, tollastefnu, samgöngustefnu og umhverfisstefnu, auk þess sem þau mynda með sér fríverzlunarsvæði.

Í samningi Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands er gert ráð fyrir sameiginlegri stjórn ríkjanna þriggja á kjarnorkuvopnum svæðisins og sameiginlegum aðgerðum þeirra til eyðingar þessara vopna. Þá heita ríkin þrjú í samningnum að virða landamæri hvert annars.

Þessi tvö atriði hljóta að skipta miklu, þegar umheimurinn metur afleiðingarnar af andláti Sovétríkjanna. Með helgun núverandi landamæra lýsa ríkin yfir, að ekki verði júgóslavneskt ástand milli þeirra. Rússland ætlar ekki að feta í fótspor útþensluhneigðrar Serbíu.

Mikill fjöldi Rússa býr utan landamæra Rússlands, einkum í Úkraínu, á sama hátt og mikill fjöldi Serba býr utan landamæra Serbíu, til dæmis í Króatíu. Sumir hafa óttazt, að þetta mundi leiða til spennu og átaka á landmærunum, einkum milli Rússlands og Úkraínu.

James Baker, hinn seinheppni utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gekk svo langt á laugardaginn, að hann varaði við, að ástandið í Sovétríkjunum gæti leitt til svipaðs blóðbaðs og í Júgóslavíu, með þeirri viðbót, að kjarnorkuvopnum kynni að verða beitt í borgarastríði.

Þetta voru kaldar kveðjur af hálfu Bandaríkjastjórnar, sem sýknt og heilagt hefur reynt að vernda sambandsstjórnina í Kreml á sama hátt og hún hefur reynt að vernda sambandsstjórn Júgóslavíu. Þetta er liður í bandarísku dálæti á sambandsríkjum yfirleitt.

Með sameiginlegri yfirstjórn kjarnorkuvopna og yfirlýsingunni um eyðingu þeirra eru slavnesku ríkin þrjú ennfremur að lýsa yfir friðsamlegum viðhorfum gagnvart umheiminum. Efnahagslegur stuðningur að vestan verður svo háður framgangi þessarar viljayfirlýsingar.

Það er því ekki ástæða til að senda Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi kaldar kveðjur í stíl Bakers. Miklu fremur er ástæða til að fagna því, að óhjákvæmilegt hrun Sovétríkjanna skyldi leiða til vitsmunalegrar niðurstöðu í efnahagsbandalagi ríkjanna þriggja.

Öll sex árin, sem Gorbatsjov hefur verið forustumaður Sovétríkjanna, hefur mátt ljóst vera, að hann hefði ekki burði til að halda heimsveldinu saman. Í leiðurum DV hefur í sex ár verið varað við oftrú á Gorbatsjov, enda hefur hann verið og er enn trúaður kommúnisti.

Við lýðræðislegar aðstæður er það nánast náttúrulögmál, að þjóðir vilja vera út af fyrir sig í eigin ríki, þótt þær vilji líka vera í ýmsum fjölþjóðasamtökum. Þegar lýðræðisþróun er komin vel á veg, er tilgangslaust að reyna að halda sambandsríkjum og heimsveldum á lífi.

Sundrun Sovétríkjanna hefur nú leitt til þeirrar niðurstöðu, sem heppilegust er, friðsams ríkjabandalags hins slavneska og evrópska kjarna heimsveldisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýrari handboltalausn

Greinar

Komið hafa í ljós hugmyndir um ódýrari leiðir til að halda hér heimsmeistarakeppni í handbolta en áður hafði verið ákveðið að fara. Þessar leiðir ber að skoða í alvöru, því að leiðinlegt er fyrir Ísland að geta ekki staðið við samninga, sem á sínum tíma voru harðsóttir.

Þegar menn fóru að óttast, að framkvæmdir yrðu dýrari en 500 milljónir og færu hugsanlega langleiðina upp í milljarð, kom í ljós, að dæmið var byggt á sandi. Ríkið hafði bara lofað sem svarar 350 milljónum á núverandi verðlagi og Kópavogur réð ekki við afganginn.

Nýir valdhafar í Kópavogi telja dæmið farið úr böndum og hafa stuðning meirihluta bæjarbúa í skoðanakönnun um málið. Enda er auðvelt að sýna fram á, að hagsmunum Kópavogs sé betur borgið með annars konar íþróttahöllum eða annars konar framkvæmdum.

Bæjarfélög á borð við Kópavog þurfa yfirleitt lítil eins vallar hús með takmörkuðu áhorfendasvæði, fremur en stór hús með mörgum völlum og umfangsmiklu áhorfendasvæði. Þau þurfa hús, sem börn og unglingar geta sótt um skamman veg, fremur en langan.

Af þessum ástæðum er hætt við, að um sjálfsblekkingu sé að ræða, ef ráðamenn bæjarfélaga halda, að heimsmeistarahöll nýtist í fjárfestingu að fullu sem skóla- og íþróttahúsnæði. Alltaf verður einhver kostnaðarmunur, sem lendir á þeim, sem tekur að sér ábyrgð.

Athyglisvert er, að ráðamenn Hafnarfjarðar vilja ekki taka að sér hlutverk Kópavogs, heldur vilja, að frumkvæðið komi frá ríkinu og að Hafnarfjörður verði meðreiðarsveinn. En ríkið hefur haldið fast við samninginn, sem felur ekki sér ríkisfrumkvæði í málinu.

Hugsanlegt er að fara megi aðra leið og hengja málið á sýningarskála, sem einkum væri ætlaður fyrir vörusýningar. Slíkur skáli væri hagkvæmastur í Laugardal í Reykjavík, þar sem slík aðstaða er fyrir í smærri stíl og þaðan sem stutt er til hótela og veitingastaða.

Raunar þarf fyrr eða síðar að leggja út í kostnað við að gera Reykjavík að öflugri sýninga- og ráðstefnuborg en nú er. Hótel og veitingahús eru þar fjölmörg, fundarsalir dálítið takmarkaðir og sýningaraðstaða lítil.Ráðstefnu- og sýningagestir eru þeir ferðamenn, sem skila þjóðarbúinu mestum tekjum. Til að verða gjaldgengt á því sviði vantar Ísland enn, helzt í Laugardal, öfluga ráðstefnu- og sýningarmiðstöð, sem getur þjónað mjög misstórum hópum og einkum þó stórum hópum.

Erlend reynsla er fyrir, að ekki þýðir að hafa slíka miðstöð í hálfgerðum svefnbæjum á borð við Kópavog. Hún þarf að vera þar sem eru barirnir og böllin, hótelin og veitingahúsin. En ráðamenn Reykjavíkur hafa ekki enn sett slíka miðstöð efst á óskalista sinn.

Í varfærni sinni taka þeir tillit til, að núverandi aðstaða til ráðstefna og sýninga er fremur lítið notuð. Þeir reikna með, að langan tíma taki fyrir borgina að ná til baka kostnaði við enn meiri aðstöðu, enda mundi hagurinn af henni dreifast til margra óskyldra aðila.

Í erfiðri stöðu er freistandi að reyna að semja við Flugleiðir um skammtímaleigu á væntanlegu flugskýli á Keflavíkurvelli, innrétta það sætum og hreinlætisaðstöðu, sem síðan má flytja annað og nýta. Enda hafa Flugleiðir gagn af, að heimsmeistarakeppni verði hér.

Þetta er engin óskalausn. En skólahúsnæðislausn í svefnbæ hefur reynzt veikburða að mati Kópavogs og sýningarsalarlausn í höfuðborg virðist því miður ekki enn hafa náð fyllingu tímans að mati Reykjavíkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan

Veitingar

Perlan kom mér þægilega á óvart. Það var meira að segja nokkuð gott að borða þar, þótt slíkt sé fremur sjaldgæft í veitingasölum, sem byggja tilveru sína á útsýni. Ég man bara eftir einum góðum veitingasal í útsýnisturni, Jules Verne í Eiffelturninum. Perlan jafnast að vísu ekki á við Jules Verne, en er samt einkar frambærileg matstofa, ein af hinum beztu hér á landi.

Einstök og
innhverf
Hönnun veitingasalarins í Perlunni er svo einstök í sinni röð, að gestir gera meira af því að horfa inn á við en út á við. Það er helzt á meðan hringekja borðanna fer hjá eldhúsveggnum, að gestir gefa sér tíma til að líta yfir borgina. Þegar hún er komin framhjá, beinir fólk aftur augum að salnum sjálfum. Þannig má segja, að hönnunin sé innhverf fremur en úthverf.
Veitingasalurinn er hvorki kuldalegur né tiltakanlega geimskipslegur. Þótt hann sé rosalega víður, virðist hann ekki vera yfirþyrmandi. Hann nýtur sín að vísu bezt, þegar hann er fullur af matargestum, sem varla verður oft, þegar nýjabrumið er farið.
Bar og kaffihorni er skemmtilega komið fyrir uppi á eldhúsinu. Eini gallinn við þann hluta er, að lyftan margfræga nær ekki þangað upp, svo að hreyfihamlað fólk getur átt í erfiðleikum í stigunum.
Veitingabúðin á hæðinni fyrir neðan veitingasalinn er hins vegar ekki eins vel heppnuð í hönnun. Afgreiðsluborðið er í hálfgerðum felum og borðin eru á tiltölulega mjórri ræmu við gluggana.
Eini kuldalegi staðurinn í þessu húsi, sem líkist geimstöð að utan, er vetrargarðurinn á jarðhæðinni. Hann er afar gróðursnauður og óvistlegur, jafnvel þótt hann sé fullur af fólki í hanastéli. En úr því má auðvitað bæta með aukinni garðyrkju.

Tindrandi
glös og hnífar
Borðbúnaður var tindrandi fínn í veitingasalnum, jafnt stál sem kristall. Dúkar voru óvenjulega fagrir og sama gilti um þurrkurnar. Sódavatni var hellt í fínustu rauðvínsglös. Hins vegar var rauðvínið afgreitt með því að hella því í glös, sem víkka út að ofan, rétt eins og eftirréttaskálar. Þessi einkennilegu og djúpskornu kristalsglös voru feilnótan í umbúnaði borðhaldsins.
Þjónusta var afar góð í Perlunni og minnti á Hótel Holt. Á báðum þessum stöðum er strangasta fagmennska höfð í fyrirrúmi. Ég skal að vísu játa, að ég hef ekki sjálfur kynnzt, hvernig þjónustan í Perlunni stendur sig, þegar salurinn er fullur af matargestum.
Perlan er eitt dýrasta veitingahús landsins. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi, en án víns, er um 3.500 krónur. Það er mun hærra en í Holti og raunar hærra en á nokkrum öðrum stað, sem ég hef prófað á þessu hausti hér á landi, nema í Blómasal Hótels Loftleiða, sem er enn dýrari. Samt eru málsverðir í Perlunni niðurgreiddir af notendum Hitaveitu Reykjavíkur.

Frumlegt og
misjafnt

Eldhúsið í Perlunni er ekki bara betra en ég átti von á í útsýnisturni. Það er líka frumlegra. Matseðillinn var ekki safn gamalkunnra rétta, sem flestir geta sætt sig við og auðvelt er að elda, heldur kenndi þar ýmissa óvenjulegra rétta, sem spennandi var að prófa. Þar að auki er margt gert í eldhúsinu, sem aðrir flytja að, svo sem bakstur brauða og ísgerð að ítölskum hætti.

Eins og tíðkast um veitingahús hér á landi, sem eru í betri flokki, en ekki á toppi gæðanna, eru kaldir forréttir og eftirréttir bezti þátturinn, en misbrestir í heitu réttunum, einkum aðalréttunum. Þetta þýðir, að forunnir réttir eru vandaðir, en bilanir verða í eldamennskunni í hita leiksins, þegar allir þurfa að fá heita matinn sinn í einu. Sá er algengastur munurinn á góðum stöðum eins og Perlunni og úrvalsstöðum eins og Hótel Holti.

Forréttir taka
aðalréttum fram

Carpaccio nefndust örþunnt sneiddar nautalundir hráar, kryddaðar með basillaufum og furuhnetum. Þessar sneiðar voru fínar, mildar, meyrar og raunar hinar beztu, sem ég hef fengið af þessu tagi hér á landi.

Rauðvínslegnir og hvítlaukskryddaðir sniglar, ofnbakaðir í smjördeigskænum, bornir fram með búrgundarsósu voru sjálfir meyrir, en yfirgnæfðir í bragði af kryddi, einkum í sósunni. Þetta var heitur réttur og bar sömu einkenni óhóflegrar kryddunar og síðar varð vart í aðalréttum.

Andakæfa með appelsínusósu var hins vegar frábær, nákvæmlega í nýfrönskum stíl, fínleg og bragðljúf, bezt í bænum. Kalkúnafroða með fullsterkri kraftsósu féll í skugga kæfunnar, en var samt fremur góð.

Rjómasoðin skötubörð með afar vandaðri humarsósu voru mjög góð, hæfilega lítið soðin og eftir því ljúf. Með fylgdi skemmtilegt grænmeti með baunaspírum, sem hefðu mátt vera með minna sítrónubragði. En þetta var bezti aðalréttur kvöldsins.

Hreindýra-hryggsneiðar voru ekki merkilegur matur, að vísu meyrar undir tönn, en án nokkurs bragðs, sem minnt gæti á hreindýr. Léttsteiktur lambahryggvöðvi var meyr og góður, en borinn fram með yfirgnæfandi bragðsterkri kryddjurtasósu. Glóðarsteiktur nautahryggvöðvi með grænpiparsteik var afar vel eldaður, en var greinilega af of mögru og seigu nauti.

Eftirréttir
eru beztir

Eftirréttirnir bættu úr misgengi aðalréttanna, hver öðrum betri. Þar á meðal var ítölsk ostakaka, létt og fínleg. Einnig loftmikil og bragðmild súkkulaðifrauðterta með pistasíusósu. Ennfremur sérríterta með ís og ávöxtum, létt og ljúf. Og loks þrjár tegundir af ítalskt löguðum ís, sem var heilum flokki ofan við flestan þann ís, sem ég hef prófað annars staðar í bænum.

Eftirréttirnir koma úr sama eldhúsi og ísar og tertur veitingabúðarinnar á hæðinni fyrir neðan, svo að fólk getur prófað gæði þeirra án þess að þurfa að kosta til verði heillar máltíðar.

Perlan býður fínustu Davidoff-vindla úr rakakassa. Vínlisti hússins er umfangsmikill og hefur að geyma nokkur frægðarvín auk ótal annarra vína í öllum verðflokkum, meðal annars frá Chile. Meðal frægðarvínanna eru Chablis Grand Cru 1989, sem er enn of ungt, Chateau Lafite Rotschild 1984 og Chateau Latour frá sama ári, sem eru orðin góð, en ekki af nógu góðum árgangi. Betri kaup eru í Chateau Troplong-Mondot frá 1978, frábærum árgangi, sem nú er einmitt í toppformi.

Að lokum er ekki annað eftir en að þakka notendum hitaveitunnar fyrir að niðurgreiða ofan í mig matinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt er hættuleg

Greinar

Ráðgert er, að lækkun vaxta verði hornsteinn nýrrar þjóðarsáttar, sem Vinnuveitendasambandið er að kynna viðsemjendum sínum. Samkvæmt hugmyndafræði þjóðarsáttar á minni vaxtabyrði að gera atvinnulífinu kleift að greiða óbreytt laun, þrátt fyrir aflasamdrátt.

Þetta er eðlilegt framhald fyrri þjóðarsáttar, sem hafði minnkun verðbólgu að hornsteini. Hún náði að þessu leyti tilætluðum árangri, því að verðbólga komst niður fyrir 10% og er núna litlu hærri en í ýmsum nágrannalöndum, sem við miðum oft lífskjör okkar við.

Þjóðarsættum af þessu tagi fylgja vandamál, sem eru misþung á metunum eftir aðstæðum hverju sinni. Slík vandamál felast yfirleitt í einhverri frystingu ástands, sem þjóðarsættum fylgir ævinlega. Frysting ástands er handaflsaðgerð, sem getur hefnt sín, þótt síðar verði.

Dæmigert fyrir þetta er, að síðasta þjóðarsátt var gerð með vitund og vilja landbúnaðarins og fól í sér frystingu á þáverandi ríkisrekstri atvinnugreinarinnar. Þessi ríkisrekstur landbúnaðar mun kosta þjóðina 15-20 milljarða á þessu ári og meira á hinu næsta.

Blóðtaka af þessu tagi gerir þjóðfélaginu erfitt um vik að takast á við raunveruleg verkefni, sem horfa til framtíðar. Að þessu leyti stuðlaði síðasta þjóðarsátt að meiri sóun á verðmætum en hefði orðið með almennilegum ófriði og æskilegri röskun í þjóðfélaginu.

Síðasta þjóðarsátt naut þess, að verð útflutningsafurða hækkaði á tímabilinu. Það þýddi um leið, að gengi krónunnar skekktist ekki. Þess vegna varð þjóðarsáttin ekki til þess, að innflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun ryki upp úr öllu valdi og eyðilegði þjóðarsáttina.

Nú eru hins vegar ekki horfur á eins miklum bata í viðskiptakjörum. Til viðbótar kemur svo vandi, sem felst í auknum samdrætti þorskveiða og fleiri greina sjávarútvegsins á næsta ári. Þessi rýrnun mun hafa geigvænleg áhrif á gjaldeyrisöflun og viðskiptajafnvægi.

Þegar hefur gengið skekkzt um 20%. Það er nokkurn veginn hlutfallið, sem skráð gengi yrði að falla um, ef Ísland gerðist aðili að evrópska myntbandalaginu. Það er einmitt vegna þessarar skekkju, að ráðamenn treysta sér ekki til að taka nú þegar þátt í bandalaginu.

Skakkt gengi hefur margvísleg vandræði í för með sér. Augljóst dæmi er, að utanlandsferðir verða ódýrari en þær mundu vera á jafnvægistíma og innfluttar vörur verða ódýrari fyrir kaupendur en þær eru í raun. Þetta stuðlar að því, að þjóðin lifi hraðar um efni fram.

Leiðrétting á gengi krónunnar hefur að sjálfsögðu tilhneigingu til að þrýsta innlendri verðbólgu upp á við og síðan vöxtunum í kjölfarið. Þess vegna er hætt við, að ný þjóðarsátt muni fela í sér frystingu á núverandi krónugengi, jafnvel þótt það sé hættulega skakkt.

Af þessu má ráða, að ný þjóðarsátt muni ekki bara staðfesta framhald á núverandi verðmætabrennslu í landbúnaði, heldur einnig staðfesta framhald á núverandi óhófi í gjaldeyrisnotkun. Að því leyti verða hliðarverkanir nýrrar þjóðarsáttar verri en hinnar fyrri.

Í rauninni felast þjóðarsættir í samkomulagi um lausn brýnna vandamála og frystingu, frestun eða afneitun langtímavandamála. Hlutföll skammtíma- og langtímavandamála eru óvenjulega óhagstæð um þessar mundir og það mun spilla gengi nýrrar þjóðarsáttar.

Eftir langvinna þjóðarsátt er orðið brýnt, að þjóðfélagið taki á vanda, sem hefur hlaðizt upp í rörunum og hafni nýrri útgáfu af hefðbundinni þjóðarsátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarstríð okkar allra

Greinar

Fjórtándu aldar klaustrið í Rozat hefur orðið fyrir skemmdum og sama er að segja um fimmtándu aldar virkið í Sokol. Villa Rastic og Sorkocevic-höllin í Dubrovnik hafa einnig orðið fyrir skemmdum. Eyðilagzt hafa Villa Gradic og Villa Bozdari við Dubrovnik.

Þessi menningarsögulegu hús á strandlengjunni við Dubrovnik höfðu ekkert hernaðarlegt gildi, fyrr eða síðar. Þau voru látin í friði af hermönnum Hitlers í síðari heimsstyrjöldinni og áður af hermönnum Napóleons og enn þar á undan af hermönnum Tyrkjasoldáns.

Villimenn fyrri alda létu í friði Dubrovnik, perlu Adríahafsins, hverrar þjóðar sem þeir voru. Það þarf tuttugustu öldina og Júgóslavíuher til að ráðast að menningarsögunni á þessu svæði. Að því leyti eru Serbarnir, sem stjórna hernum, ólíkir öðrum villimönnum.

Serbastjórar eru að þessu leyti líkir Rauðu herdeildunum í Kína og Rauðu khmerunum í Kambódsíu. Allir þessir hópar eiga það sameiginlegt að vera kommúnistar. Villimenn þurfa að vera haldnir trúarbrögðum af því tagi til að geta ráðizt gegn menningarsögunni.

Herforingjar Júgóslavíu eru undantekningarlítið Serbar og sannfærðir kommúnistar af gamla skólanum, alveg eins og Milosevic, forseti Serbíu, og aðrir ráðamenn Serbíu. Þetta herskáa smáríki Balkanskaga er síðasti útvörður útþenslustefnu kommúnisma í Evrópu.

Athyglisvert er, að Atlantshafsbandalagið er bjargarlaust í máli þessu. Það stafar af, að Bandaríkjastjórn hefur stutt sambandsstjórn Serba í Belgrad gegn sjálfstæðishreyfingum Króata og Slóvena, af því að Bandaríkjastjórn hefur sjúklegt dálæti á sambandsríkjum.

James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var síðast í sumar í Belgrad að lýsa stuðningi við sambandsstjórnina og vara ráðamenn Króatíu og Slóveníu við mótþróa. Þetta er í stíl við stuðning Bandaríkjastjórnar við kommúnistann Gorbatsjov í Sovétríkjunum.

Til skamms tíma reyndi Bandaríkjastjórn að koma í veg fyrir sjálfstæðisbrölt Eystrasaltsríkjanna og talaði niðrandi um lýðræðissinna í Rússlandi, einkum Jeltsín, sem síðar varð Rússlandsforseti. Bandaríkjastjórn heldur enn í dag dauðahaldi í fylgislausan Gorbatsjov.

Stuðningur Bandaríkjastjórnar við yfirlýsta kommúnista í Austur-Evrópu veldur því, að tímabært er að rifja upp sögu Atlantshafsbandalagsins og spyrja, hvort það hafi ekki gengið sér til húðar, þegar forusturíki þess leggst á sveif með villimönnum kommúnismans.

Evrópubandalagið er ekki miklu skárra. Það hefur sí og æ reynt að koma á sáttum milli Serba og Króata, með þeim árangri, að Júgóslavíuher hefur sí og æ fært sig upp á skaftið. Þannig fer, þegar reynt er að rökræða við villimenn, sem líta á rökræður sem ræfildóm.

Auðvitað á Vestur-Evrópa ekki að vera að dekstra villimenn af trúarflokki kommúnista, heldur taka einarða afstöðu gegn þeim, ekki bara í orði, heldur fyrst og fremst í verki. Ráðamenn Serba verða til vandræða alla tíð, þangað til þeir verða hraktir frá völdum.

Árás kommúnista á menningarsöguna í Króatíu lýsir sama hugarfari og sjá má í umgengni kommúnista Austur-Evrópu við umhverfið. Það þarf kerfisbundna villimenn til að eyðileggja vistkerfið á eins hroðalegan hátt og sjá má í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum.

Varnarstríð Króata gegn síðustu leifum þjóðskipulags, sem er fjandsamlegt manninum, menningarsögunni og náttúrunni, er varnarstríð okkar allra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hópvinna í barnageymslu

Greinar

Þegar börn og unglingar hafa frelsi til að velja námsgreinar, er ekki við að búast, að nám þeirra henti alltaf nákvæmlega sem grundvöllur að því háskólanámi, sem það vill stunda. Eðlilegt er, að háskóladeildir geri sérkröfur, sem svarað sé í öldungadeildum menntaskóla.

Ef stúdent á málasviði vill verða verkfræðingar, er eðlilegt, að hann verði að taka eina eða tvær annir á stærðfræðisviði til að verða tækur í háskóladeildina. Þetta segir nákvæmlega ekki neitt um, að aukið valfrelsi sé óhentugt í grunnskólum og framhaldsskólum.

Lítið er vitað um, hvaða námsbrautir henti sem inngangur að háskólanámi. Fyrir áratug var málið lauslega kannað í háskólanum og virtist þá sem hefðbundnir skólar og valfrelsisskólar stæðu nokkuð jafnt að vígi. Þessi könnun olli úlfaþyt og varð ekki fram haldið.

Hafi ráðamenn Háskólans einhverja skoðun á undirbúningi nemenda, sem þangað koma, væri eðlilegast, að þeir tækju upp þráðinn frá því fyrir áratug og létu kanna að nýju, hver verða námsafdrif nemenda með mismunandi forsögu. Það á ekki að vera feimnismál.

Hitt er svo önnur saga, að grunnskólar og framhaldsskólar hafa önnur markmið en að rækta háskólastúdenta. Sumpart eru þeir leikvöllur hugmyndafræði, sem ekki býr nemendur undir erfitt háskólanám, heldur stuðlar að jöfnuði nemenda í fúski og leikjum.

Áþreifanlegri sagnfræði og landafræði hefur til dæmis verið breytt í þokukennda samfélagsfræði. Það er örvæntingarfull aðferð til að ná til þeirra nemenda, sem engan áhuga hafa á að læra neitt. Slíkir nemendur móta grunnskóla og framhaldsskóla í vaxandi mæli.

Grunnskólarnir eru að verulegu leyti geymslustofnanir, svo að foreldrar geti unnið í friði. Sem geymslustofnanir eru þeir þó fremur óhentugir, því að skóladagurinn er sundurslitinn, lítil aðstaða er til eiginnáms í skólum, og kennarar eru sí og æ á fundum eða í fríum.

Börn eru sjö ár í barnaskóla til að læra að lesa, skrifa og reikna. Það þætti lítil arðsemi á mælikvörðum atvinnulífsins, jafnvel þótt einnig sé tekið tillit til þess hlutverks skólanna að geyma börn, svo að þau séu ekki í lausagangi heima hjá sér eða úti á götunum.

Framhaldsskólarnir hafa smám saman verið að breytast úr forskóla fyrir háskólanám í eins konar dulbúið atvinnuleysi. Þeir hafa það hlutverk að halda ungu fólki frá vinnumarkaði, enda fetar allur þorri þess skólabrautina, meira eða minna áhuga- eða meðvitundarlítið.

Vinnubrögð í skólum stuðla að því, að fólk sigli átakalítið gegnum þá. Sem dæmi má nefna hópvinnu, sem felur í sér, að einn í hópnum vinnur verkið og skrifar skýrslu um málið. Úr hópvinnu koma fjölmennir hópar af fólki, sem venst því að fljóta áfram á baki annarra.

Stjórnunarfræðin segir, að hópvinna sé ekki líkleg til árangurs. Nefndir, ráð og hópar geta verið til ýmissa hluta nytsamleg, en ekki til að vinna. Verkin eru alltaf unnin af einstaklingum. Þessi staðreynd er bönnuð í félagshyggju, fúski og leikjum skólakerfisins.

Þegar skólar eru að miklu leyti geymslustofnanir og dulbúið atvinnuleysi, þegar þeir sætta sig við litla arðsemi við að kenna lestur, skrift og reikning, og þegar þeir færa sig í auknum mæli yfir í hópvinnu og aðrar tegundir af fúski og leikjum, er ekki von á góðri útkomu.

Þannig eru vandræði skólakerfisins að miklu leyti önnur en þau, sem eru til umræðu, þegar haldin eru kjaftaþing um efnið eða fundið að vangetu háskólanema.

Jónas Kristjánsson

DV

Pétursklaustur

Veitingar

Pétursklaustur er mikið sótt af ungu fólki, sem getur setið þar og snætt pizzur í fjölmennari hópum en það getur á Ítalíu eða í Písa. Að vísu eru pizzurnar ekki eins góðar í Pétursklaustri, en staðurinn er notalegur og pizzurnar eru ekki dýrari en gengur og gerist á hversdagslegri stöðum.

Járnstjakar
Í kastalastíl

Hönnun Pétursklausturs hefur tekizt vel. Stórir steinbogar og grófir veggir minna á klausturkjallara. Járnstjakar í kastalastíl bera stór kerti, sem lýsa nógu vel til að rýna í matseðil. Salurinn er víður og stúkaður niður af skenk undir steinboga, sem nær milli veggja. Gólfið er úr óreglulegum steinflísum. Á veggjum hanga austurlenzk teppi og trémyndir. Allt myndar þetta notalega heild, alls ekki of ýkta.

Megineldhús staðarins er betra en pizzueldhúsið. Þaðan kom hver rétturinn á fætur öðrum, sem var ýmist góður eða mjög góður. Samt er Pétursklaustur ekki dýr staður á reykvískan mælikvarða. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 2.680 krónur, sem er heldur neðan við þær 2.900-3.100 krónur, er tíðkast á mörgum vínveitingastöðum borgarinnar.

Fyrsta flokks
smokkfiskur

Athyglisvert er, að heitir sjávarréttir reyndust beztir í Pétursklaustri. Það bendir til, að eldhúsið sé í lagi, því að slíkir réttir reyna meira en kaldir réttir, kjötréttir og eftirréttir á hæfileika eldunarmeistara.

Sniglar í hvítlaukssósu voru ágætir, bornir fram með ristuðu brauði og smjöri. Fylltir sveppir voru hins vegar of sterkir, með yfirgnæfandi bragði af parmiggiano-osti, enda hétu þeir “að hætti abbadísarinnar”. Stælar í nafngiftum eru sjaldan góðs viti.

Bezti prófaði forrétturinn var smokkfiskur og rækjur í súrsætri sósu. Sjávarfangið var meyrt og gott og sósan hæfði þeim vel. Þetta var fyrsta flokks matur, sem gerist ekki betri hér á landi, enda smokkfiskur oft erfiður í matreiðslu.

Pizzur staðarins hafa stundum verið of stífar, þurrar og þéttar, að minnsta kosti í samanburði við þær, sem beztar eru í bænum. Aðrir aðalréttir Pétursklausturs taka þeim fram, nema villigæs, sem reyndist fremur mikið elduð, borin fram með púrtvínssósu og waldorfsalati. Hún var frambærileg, en ekki fyrsta flokks.

Pipar hæfir
folaldakjöti

Betra var kryddlegið lamb “oriental”, þótt það væri heldur lengi eldað. Folalda-piparsteik var hins vegar hæfilega elduð, meyr og góð. Folaldakjöt er bragðlítið og hentar vel í piparsteik, þar sem kraftur bragðsins kemur úr piparnum.

Bezti aðalrétturinn var hæfilega elduð tindabikkja með góðri vínsósu. Þessi ágæti fiskur er kominn í tízku í veitingahúsum borgarinnar, svo sem hann á skilið. Í þessari miklu samkeppni reyndist tindabikkjan í Pétursklaustri í bezta gæðaflokki.

Heit karamellu- og hnetubaka með ávöxtum og ís var mjög góð og hið sama var að segja um heita eplaböku með ís og rjóma. Hún var full af eplum og borin fram mjög heit.

Kaffi var gott svo sem skylda er á hálf-ítölskum stað. Espresso var hrífandi. Nokkur vín sæmileg eru á stuttum lista, svo sem Cléray og Gewurztraminer í hvítu og Fontareche og Barolo í rauðu.

Skyrið var
róttækt

Á enska matseðlinum stóð, að skyrrönd með heitri möndlusósu væri “traditional” íslenzkur réttur. Raunar held ég, að fátt sé hefðbundið við þann rétt annað en sjálft skyrið, sem auðvitað stendur fyrir sínu. Möndlusósan er skemmtilegt viðhengi, en í þessu samhengi mætti heldur kalla hana róttæka en hefðbundna.

Jónas Kristjánsson

DV

Félagar en ekki limir

Greinar

Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.

Raunar er Evrópubandalagið rangnefni. Rétt þýðing á nafni þess væri Evrópusamfélagið. Það orð lýsir betur markmiði þess, sameiningu Evrópu í eitt yfirríki með ytri tollmúra og önnur hliðstæð einkenni innri einingar og ytra ofbeldis, samevrópskt heimsveldi.

Samningurinn um efnahagssvæðið skyldar okkur ekki til að reisa tollmúra gagnvart ríkjum, sem eru utan svæðisins, svo sem Bandaríkjunum og Japan. Við getum látið slík ríki njóta sömu viðskiptakjara og ríki efnahagssvæðisins og haldið góðu sambandi til allra átta.

Sá er einmitt einn helzti munur Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna, að samtökin gerðu aldrei kröfu til þess, að þátttökuríki hækkuðu tolla sína gagnvart aðilum utan þeirra. Það er munurinn á fríverzlunarhyggju og ofbeldishneigð í viðskiptum.

Við vitum, að Evrópubandalagið hneigist að viðskiptalegu ofbeldi. Við urðum áþreifanlega vör við það í langvinnum samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Við máttum kallast heppin að sleppa með sæmilega stöðu úr þeim hildarleik. Þar héngum við á þrjózkunni.

Ef við hefðum ekki gerzt þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu hefðum við orðið að leggja í stóraukinn kostnað við minna arðbær viðskipti við Bandaríkin og Japan til að dreifa eggjum okkar í fleiri körfur. Við hefðum orðið að taka á okkur sársaukafull umskipti.

Þótt Evrópa sé langbezti markaður okkar um þessar mundir, er þess að vænta, að Bandaríkin og einkum Japan geti orðið enn betri markaður í framtíðinni. Við getum haldið áfram að rækta þau viðskipti, þótt við höfum í bili ákveðið að halla okkur að Evrópu.

Dæmið lítur þannig út, að við getum notið skammtímahagnaðar á þessum áratug af vaxandi frelsi í viðskiptum við Evrópu, og fáum um leið góðan tíma til að undirbúa langtímahagnað á næsta áratug af vaxandi hátekjumarkaði í Bandaríkjunum og Japan.

Við höfum orðið vör við, að Japanir eru reiðubúnir að greiða mjög hátt verð fyrir vörur, sem ekki hafa gengið vel á öðrum markaði. Við þurfum að losna við einokun í afgreiðslu á vöruflugi og ná niður kostnaði í flugfragt til að efla slík viðskipti við Japan.

Það kostar þolinmæði og tíma að vinna nýja markaði. Þann tíma fáum við með þátttöku í evrópskri fríverzlun, sem án efa mun einkenna viðskipti okkar á þessum áratug. En við eigum um leið að hefja viðræður um fríverzlun við Japan og ríki Norður-Ameríku.

Um þessar mundir er verið að reyna að koma upp fríverzlunarsamtökum fyrir Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Við eigum að koma því á framfæri við þessi ríki, að við gætum hugsað okkur að sækja um þátttöku í slíku fríverzlunarsvæði vestur yfir Atlantshaf.

Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu bannar okkur ekki að vera í fleiri fríverzlunarsamtökum á öðrum slóðum. Ef við værum í senn í evrópskum og amerískum fríverzlunarsamtökum, væru okkur enn fleiri leiðir færar til utanríkisviðskipta en nú eru.

Við eigum hvarvetna að hvetja til fríverzlunar og fríverzlunarsamtaka, en hafna aðild að tollmúrasamfélögum og öðrum tilraunum til að framleiða ný heimsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin smíðar þröskuldana

Greinar

Þrjú atriði vega einna þyngst í áhyggjum manna af gengi Íslands í evrópsku efnahagssvæði. Öll varða þau fullveldi þjóðarinnar og stöðu Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Þessi þrjú atriði eru landakaup útlendinga, aðflutningur vinnuafls og útlend lögsaga dómstóla.

Íslenzk stjórnvöld geta, ef þau vilja, hagað málum á þann veg, að tvö fyrri atriðin verði okkur ekki hættuleg. Síðasta atriðið er ekki eins áþreifanlegt, en ekki síður brýnt skoðunarefni fjölmiðlaumræðunnar og þeirra, sem falið er að annast málin af Íslands hálfu.

Íslenzka ríkið ver milljörðum á hverju ári til stuðnings hefðbundnum landbúnaði. Ef stuðningnum eða hluta hans væri breytt í landakaup, t.d. á þann hátt, að ríkið tæki hlutabréf í jörðum fyrir framlagða peninga, gæti það smám saman hindrað sölu þeirra til útlendinga.

Þar að auki gæti ríkið notað hluta af árlegum stuðningi sínum til að kaupa afréttarlönd, sem það á ekki nú þegar, og jarðir á þeim stöðum, sem skipta mestu máli fyrir ferðaþjónustu. Hætt er við, að fáir útlendingar treysti sér til að keppa við ríkið á þessu sviði.

Á síðustu árum er ríkið farið að kaupa af bændum rétt þeirra til að framleiða hefðbundna búvöru. Ekki er nema stutt skref frá slíkum réttindakaupum yfir í kaup á landi til sameiginlegra afnota fyrir landsmenn eða til framleigu með kvöðum af hálfu landeiganda.

Sem hver annar landeigandi gæti ríkið sett kvaðir, sem eru strangari en þær, sem ríkið getur sett sem yfirvald í landinu. Sem landeigandi getur ríkið séð um, að viðkomandi land renni ekki í leigu til annarra en þeirra, sem eru og hafa lengi verið búsettir í landinu.

Íslenzka ríkið hefur einnig leiðir til að hindra óhæfilega mikinn straum erlends verkafólks til landsins. Ríkið getur beitt áhrifum sínum til þess, að settar verði reglur um, að innlent og erlent starfsfólk þurfi að hafa náð prófi í íslenzku hjá viðurkenndri skólastofnun.

Allir Íslendingar hafa slíkt próf frá skólakerfinu. Útlendingar yrðu að taka ákvörðun um að hafa fyrir því að taka slík próf, nema þeir fengju undanþágu í svipuðu skyni og atvinnuleyfi hafa hingað til verið veitt útlendingum til að leysa tímabundinn skort á vinnuafli.

Formlega séð væru allir jafnir fyrir slíkum lögum um íslenzkukunnáttu, sem sett væru til að koma í veg fyrir sambandserfiðleika milli fólks á vinnustöðum. Og útlendingar, sem nenntu að komast yfir múrinn, væru þrjózkunnar vegna vel tækir í samfélag Íslendinga.

Reglunum verða að fylgja víðtækar undanþágur, svo að erlent fólk geti unnið hér að sérstökum verkefnum í atvinnulífinu, svo sem tímabundnum eða sérhæfðum. Sennilega yrði nauðsynlegt að undanskilja starfsfólk erlendra verktaka, sem taka að sér tímabundin verk.

Erlendir verktakar eru okkur nauðsynlegir til að ná niður verðlagi, alveg eins og erlend flugfélög og tryggingafélög. Þeir hafa líka þann kost, að verk þeirra eru tímabundin, svo að starfsfólk þeirra kemur og fer, að svo miklu leyti sem það er ekki hreinlega innlent.

Sennilega koma fleiri leiðir en þessar til greina, ef þjóð og stjórnvöld telja nauðsynlegt að efla þröskulda gegn þeim erlendum áhrifum, sem væru til þess fallin að breyta þeim grundvallarforsendum þjóðfélagsins, að Ísland eigi að vera fyrir íslenzkumælandi Íslendinga.

Ekki er víst, að slíkir þröskuldar séu heppilegir. En velji þjóðin þröskulda, getur samningurinn um evrópskt efnahagssvæði ekki hindrað hana í að smíða þá.

Jónas Kristjánsson

DV

Drukkið í vinnunni

Greinar

Hér á landi hefur mótazt sú góða siðvenja, að fólk drekki ekki í vinnunni. Innleiðing bjórsins breytti þessu ekki, þótt ástæða væri til að óttast, að hún hvetti til dagdrykkju á svipaðan hátt og sjá má víða erlendis. Slíkar hrakspár hafa einfaldlega ekki rætzt.

Ein undantekning er á þessari góðu reglu. Í stjórnmálum hefur borið nokkuð á einstaklingum, sem fara ekki eftir þjóðarvenjunni. Í rituðum endurminningum kemur fram, að ýmsir stjórnmálamenn hafa vanmetið störf sín nógu mikið til að sinna þeim drukknir.

Áður en sjónvarp kom til sögunnar fylgdu þessu minni vandræði en verða nú. Að vísu gengu milli manna sögur um hneykslanlega hegðun stjórnmálamanna, en fólk hafði ekki beina reynslu af henni á borð við það sem nú má sjá í beinum útsendingum sjónvarpsstöðva.

Aukin nálægð kallar á, að stjórnmálamenn endurskoði viðhorf sín til drykkjuskapar við störf. Þeir þurfa að gæta þess að verða sér og þjóðinni ekki til skammar. Þeim ber að kalla frekar út varamenn, ef hætta er á, að þeir geti ekki sinnt skyldum sínum vegna ölæðis.

Málið verður erfiðara fyrir þá sök, að drykkjunni fylgir dómgreindarbrestur, sem veldur því, að menn telja sig færa í flestan sjó. Stærsta dæmið um það er byltingartilraun harðlínumanna í Sovétríkjunum, sem var framin í ölæði og fjaraði út í brennivínsdauða.

Stjórnmálamenn nota sennilega áfengi sem deyfilyf, af því að það er eina fíkniefnið, sem er löggilt. Þeim ætti þó að vera eins ljóst og öðrum, sem fylgjast með fréttum, að ekkert fíkniefni veldur jafn stórfelldum vandræðum og óhófleg áfengisneyzla gerir.

Þetta er meira vandamál hér á landi en í mörgum löndum, sem hafa lengra tímabil siðmenningar að baki. Stjórnmálamenn drekka víðar en á Íslandi, en þeir haga drykkju sinni á þann hátt, að ekki leiði til vanvirðu á opinberum vettvangi. Þeir geta strammað sig af.

Stundum er eins og stjórnmálamenn setji sig í spor starfsbræðra frá fyrri tíð, þegar almenningur hafði lakari aðstöðu til að fylgjast með daglegri hegðun stéttarinnar. Þetta sýnir dómgreindarskort, sem hugsanlega stafar einmitt af of mikilli, uppsafnaðri áfengisneyzlu.

Það er misskilningur, ef slíkir stjórnmálamenn halda, að þeir komizt upp með þetta. Fólk hefur þá þvert á móti í flimtingum. Það lítur ekki lengur upp til þeirra, heldur lítur niður á þá eins og hverja aðra skrípakarla, sem lauslega má flokka með skemmtilega greindum rónum.

Í nokkur ár hefur verið ástæða til að hafa áhyggjur af, að nokkrir stjórnmálamenn telji í lagi eða þolanlegt, að þeir komi fyrir almannasjónir á þann hátt, að gera megi ráð fyrir, að þeir séu ekki allsgáðir. En nú hefur greinilega keyrt um þverbak á þessu hættulega sviði.

Ein hættan er fordæmisgildið, sem þessi hegðun kann að hafa. Þótt meirihluti fólks líti niður á ölæðismenn á öllum þjóðfélagsstigum, eru alltaf einhverjir, sem þurfa afsökun til að auka drykkju sína eða færa hana yfir í vinnuna. Þeir kunna að vilja dansa eftir höfðinu.

Alvarlegri er þó virðingarbresturinn. Óhjákvæmilegt er, að venjulegt fólk fari að spyrja sig í vaxandi mæli, hvort ástand af þessu tagi sé algengt, hvort teknar séu mikilvægar ákvarðanir í slíku ástandi, og hvort slæma landsstjórn megi ef til vill skýra út frá fylliríi.

Áfengi er hættulegt fíkniefni, sem breytir persónu fólks, ef þess er neytt í nokkrum mæli. Valdamiklum stjórnmálamönnum ber að umgangast það með varúð.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka

Veitingar

Lækjarbrekka er einn dýrasti veitingastaður landsins, töluvert dýrari en Holt, svo að þekkt dæmi sé tekið til viðmiðunar. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar er 3.300-3.400 krónur, hvort sem valið er af seðli dagsins eða fastaseðli hússins.
Undantekningin er súpa og réttur dagsins í hádeginu á 990 krónur, sem þýðir 1.685 krónur á þrjá rétti og kaffi. Þetta tilboð er þó lakara en hliðstæð boð annarra staða af þessu tagi, af því að ekkert val er milli rétta, eins og er til dæmis í Holti.

Innpakkað
flugvélasmjör
Mer finnst einkennilegt, að svona dýr staður skuli hafa þann mötuneytisbrag, að bæði í hádegi og að kvöldi er smjörið með brauðinu borið gestum í flugvélapakkningu. Þetta atriði hefur árum saman skorið mér í augu. Mér finnst, að næsta skref muni vera, að maturinn komi í álpakkningu á plastbakka og hnífapörin í plastpoka með salti, pipar og tannstöngli.
Matreiðslan í Lækjarbrekku hefur líka valdið mér heilabrotum. Hún er fremur gamaldags og virðist hafa það beinlínis að stefnu. Til dæmis hafa súpur löngum verið afar þykkar og ógeðfelldar hveitisúpur. Ennfremur hefur eldunartími yfirleitt verið lengri en þykir hæfa hjá þeim, sem fara eftir reglum nýfrönsku matargerðarlistarinnar. Kannski hæfir gamaldags matseld gamaldags húsakynnum.

Ég hitti stundum kunningja mína í Lækjarbrekku, ekki af því að mér líki maturinn, heldur af því að kunningjar mínir hafa vafasaman matarsmekk. Þótt ég hafi þannig kynnzt staðnum betur en mörgum veitingahúsum, sem ég hef skrifað um, hef ég ósjálfrátt frestað því nokkuð lengi að skrifa um hann, sennilega til að ýta vandamáli fram í tímann.

Sennilega er ég orðinn of gamall og jákvæður til að vera alvöru krítíker.

Gestum líður
yfirleitt vel

Margt er gott um Lækjarbrekku, einkum umhverfi og andrúmsloft staðarins, sem haldizt hefur óbreytt frá því ég man fyrst eftir honum. Stofan í Bankastrætisenda hússins er einn notalegasti veitingasalur landsins.

Aldur hússins og smágerð hlutföll stuðla að þessu, svo og þægilegir stólar og skemmtileg húsgögn á borð við Borgundarhólmsklukku og gamalt skatthol.

Ennfremur er þjónusta mjög góð, fagleg og eftirtektarsöm. Það er fyrst og fremst eldhúsið, sem ég er að sumu leyti ósáttur við. Umhverfi og þjónusta valda því, að gestum líður yfirleitt vel, enda er Lækjarbrekka fremur vel sótt.

Ein súpa hússins er betri en aðrar. Það er franska lauksúpan. Kunningjar mínir eru líka ánægðir með sjávarréttasúpuna, en ég ráðlegg lesendum að láta rjómabættar súpur dagsins eiga sig, þar á meðal blaðlaukssúpur.

Léttreykt lambakjöt var nokkuð góður forréttur, borið fram með piparrótarrjóma og melónubitum. Hörpufiskur með hvítlaukssósu var fremur góður, en hafði farið örlítið fram yfir þann eldunartíma, sem gefur vöðvanum mesta mýkt. Rækjur voru góðar, en yfirgnæfðar af avocado og blaðlaukssósu, sem var að mestu með avocado-bragði.

Aðalréttirnir
mikið eldaðir

Fiskréttir staðarins eru undantekningarlítið nokkuð mikið eldaðir og gjarna kaffærðir í osti eða sósum. Ánægjuleg undantekning var smjörsteikt ýsa með skrúfupasta, sem ég fékk sem ódýran rétt dagsins í hádeginu. Hún var nákvæmlega rétt elduð og sérstaklega ljúffeng.

Steiktur karfi með hnetum og sesam í sinnepssósu var meira í stíl hússins, mikið eldaður og með yfirgnæfandi bragði af möndluflögum og sesamfræjum. Þetta var svo sem nógu frumlegt, en fiskurinn hvarf alveg í skugga þess, sem með honum fylgdi.

Kjötréttir eru að meðaltali nokkru betri en fiskréttir, þótt þeir séu fremur lengi eldaðir. Ef maður biður um þá hrásteikta, koma þeir miðlungi steiktir. Í eldhúsinu vita menn einfaldlega betur en þú, hvernig matur hentar þér. Ofan af þessu fara þeir alls ekki.

Smjörsteikt gæsabringa var rúmlega miðlungssteikt og þess vegna byrjað að verða of þurrt. Að öðru leyti var hún góð, borin fram í mikilli rauðvínssósu hússins og stöðluðu meðlæti kvöldsins, kartöflum, brokkáli og blómkáli.

Hreindýraorður voru líka mikið eldaðar, en samt ennþá alveg meyrar og bragðgóðar, bornar fram með bláberjasósu og stöðluðu meðlæti kvöldsins.

Ferskur ananas með rjóma var góður, borinn fram með passionsávexti og passionsís. Skemmtilegur var Hattur Betu ömmu, sem fólst í blönduðum ávöxtum ferskum og ís undir kexhatti með súkkulaðiskreytingu, góður eftirréttur.

Jónas Kristjánsson

DV