Félagar en ekki limir

Greinar

Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.

Raunar er Evrópubandalagið rangnefni. Rétt þýðing á nafni þess væri Evrópusamfélagið. Það orð lýsir betur markmiði þess, sameiningu Evrópu í eitt yfirríki með ytri tollmúra og önnur hliðstæð einkenni innri einingar og ytra ofbeldis, samevrópskt heimsveldi.

Samningurinn um efnahagssvæðið skyldar okkur ekki til að reisa tollmúra gagnvart ríkjum, sem eru utan svæðisins, svo sem Bandaríkjunum og Japan. Við getum látið slík ríki njóta sömu viðskiptakjara og ríki efnahagssvæðisins og haldið góðu sambandi til allra átta.

Sá er einmitt einn helzti munur Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna, að samtökin gerðu aldrei kröfu til þess, að þátttökuríki hækkuðu tolla sína gagnvart aðilum utan þeirra. Það er munurinn á fríverzlunarhyggju og ofbeldishneigð í viðskiptum.

Við vitum, að Evrópubandalagið hneigist að viðskiptalegu ofbeldi. Við urðum áþreifanlega vör við það í langvinnum samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Við máttum kallast heppin að sleppa með sæmilega stöðu úr þeim hildarleik. Þar héngum við á þrjózkunni.

Ef við hefðum ekki gerzt þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu hefðum við orðið að leggja í stóraukinn kostnað við minna arðbær viðskipti við Bandaríkin og Japan til að dreifa eggjum okkar í fleiri körfur. Við hefðum orðið að taka á okkur sársaukafull umskipti.

Þótt Evrópa sé langbezti markaður okkar um þessar mundir, er þess að vænta, að Bandaríkin og einkum Japan geti orðið enn betri markaður í framtíðinni. Við getum haldið áfram að rækta þau viðskipti, þótt við höfum í bili ákveðið að halla okkur að Evrópu.

Dæmið lítur þannig út, að við getum notið skammtímahagnaðar á þessum áratug af vaxandi frelsi í viðskiptum við Evrópu, og fáum um leið góðan tíma til að undirbúa langtímahagnað á næsta áratug af vaxandi hátekjumarkaði í Bandaríkjunum og Japan.

Við höfum orðið vör við, að Japanir eru reiðubúnir að greiða mjög hátt verð fyrir vörur, sem ekki hafa gengið vel á öðrum markaði. Við þurfum að losna við einokun í afgreiðslu á vöruflugi og ná niður kostnaði í flugfragt til að efla slík viðskipti við Japan.

Það kostar þolinmæði og tíma að vinna nýja markaði. Þann tíma fáum við með þátttöku í evrópskri fríverzlun, sem án efa mun einkenna viðskipti okkar á þessum áratug. En við eigum um leið að hefja viðræður um fríverzlun við Japan og ríki Norður-Ameríku.

Um þessar mundir er verið að reyna að koma upp fríverzlunarsamtökum fyrir Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Við eigum að koma því á framfæri við þessi ríki, að við gætum hugsað okkur að sækja um þátttöku í slíku fríverzlunarsvæði vestur yfir Atlantshaf.

Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu bannar okkur ekki að vera í fleiri fríverzlunarsamtökum á öðrum slóðum. Ef við værum í senn í evrópskum og amerískum fríverzlunarsamtökum, væru okkur enn fleiri leiðir færar til utanríkisviðskipta en nú eru.

Við eigum hvarvetna að hvetja til fríverzlunar og fríverzlunarsamtaka, en hafna aðild að tollmúrasamfélögum og öðrum tilraunum til að framleiða ný heimsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV