Author Archive

Ódýrari og öruggari

Greinar

Byggingarsaga fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni verður örugglega þyrnum stráð. Margir nágrannar flugvallarins og aðrir Reykvíkingar eru ósáttir við ráðagerðina. Þeir telja aðflug og flugtök eiga betur heima á svæðum, þar sem þéttbýli er minna og færri mannslíf í veði.

Ráðagerðir flugráðs og samgönguráðuneytisins um að grafa upp mýrina fyrir hálfan annan milljarð króna og leggja þar alveg nýjar flugbrautir verða áreiðanlega tilefni mikillar sundrungar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir, sem ósáttir eru við staðinn, munu láta í sér heyra.

Núverandi leifar af flugvelli Breta í mýrinni hafa að mestu fengið frið í skoðanaskiptum fólks, af því að allir vita, að sá flugvöllur er á síðasta snúningi. Ekki hefur tekið því að amast við því, að hann sé notaður til bráðabirgða meðan verið sé að finna og byggja nýjan stað.

Flestir hafa bent á Keflavíkurflugvöll sem eðlilegan arftaka Reykjavíkurflugvallar. Millilandaflugvöllurinn er afar vel tækjum búinn, mun betur en innanlandsflugvöllurinn. Auk þess er hann vannýttur og getur hæglega bætt á sig innanlandsflugi eins og hann er núna.

Keflavíkurflugvöllur er nú betur undir það búinn að taka við innanlandsflugi en nýr flugvöllur í Vatnsmýrinni verður, þegar búið er að verja hálfum öðrum milljarði til að grafa upp mýrina og leggja þar nýjar flugbrautir. Forskotið syðra er yfir tveir milljarðar.

Ekki má heldur gleyma, að erfitt verður að stunda innanlandsflug á verktíma fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir munu margfalda slysahættu á svæðinu. Henni verður helzt mætt með því að flytja innanlandsflug til bráðabirgða á Keflavíkurvöll.

Í stað þess að búa til bráðabirðgaaðstöðu fyrir tímabundið innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli er skynsamlegra að reisa þar varanlega stöð fyrir innanlandsflug við hlið millilandastöðvarinnar og tengja þær saman með yfirbyggðum gangi. Það er hagkvæm framtíðarlausn.

Ef Keflavíkurflugvöllur tekur við innanlandsflugi, mun aukast umferð á Reykjanesbraut. Það mun breyta forsendum í reiknilíkönunum, sem nú eru notuð til að reikna arðsemi í framkvæmdum við veginn. Tvöföldun brautarinnar verður hagkvæmari en nú er talið.

Tvöföld Reykjanesbraut, lýsing hennar allrar og rafhitun stuttra hálkukafla, sem hingað til hafa valdið slysum, hafa samanlagt ekki aðeins gildi fyrir flugið, heldur einnig fyrir allt atvinnulíf á suðvesturhorni landsins, tengja betur höfuðborgarsvæðið og suðurnesin.

Tvöföld Reykjanesbraut með öllu tilheyrandi og viðbótarstöð á Keflavíkurvelli verða alls mörgum hundruðum milljóna króna ódýrari en samanlagður kostnaður af nýjum flugbrautum á Reykjavíkurvelli, nýjum flugvallarmannvirkjum og nýrri flugstöð í Nauthólsvík.

Vel lýst, hálkulaus og tvöföld Reykjanesbraut gefur kost á reglum um 110-130 km hámarkshraða, sem styttir leiðina frá Reykjavík niður í hálftíma. Það þykir mjög gott í alþjóðlegum samanburði, þótt það sé að vísu lengra en tíu mínúturnar að flugstöðinni í Nauthólsvík.

Frá Breiðholti eða Garðabæ mun ekki taka lengri tíma að komast á Keflavíkurvöll en í Nauthólsvík. Að vísu má brúa Kópavog, en það mun hafa í för með sér illindi við íbúa á Kársnesi. Samgöngusamanburðurinn er ekki eins mikið Vatnsmýrinni í vil og oft er fullyrt.

Meira öryggi og minni kostnaður gera gott betur en að vega upp styttri leið. Því er rétt að afskrifa Vatnsmýrina og hefjast handa við flugstöð á Keflavíkurvelli.

Jónas Kristjánsson

DV

Heilsuspillandi ríkisstjórn

Greinar

Hagfræðideild Alþýðusambandsins hefur reiknað upp verðkannanir og komizt að raun um, að stjórnvöld hafi með ofurtollum á grænmeti aukið skuldir heimilanna um 1,3 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Nú þurfi að hækka laun um 1,5% vegna þessa eins út af fyrir sig.

Sjálfsagt er unnt að reikna kostnað fólks af ofurtollum stjórnvalda á ýmsan hátt og fá misjafnar niðurstöður. Meðan ekki eru rökstuddar betri tölur um afleiðingarnar en þær, sem Alþýðusambandið hefur reiknað, verða þær teknar gildar sem stærðargráða vandamálsins.

Ríkisstjórnin hefur snúið út úr alþjóðlegu tollasamkomulagi, sem kennt er við GATT og var undanfari þess, að komið var á fót Alþjóða viðskiptastofnuninni. Ríkisstjórnin fullyrðir blákalt, að markmið samkomulagsins hafi ekki verið að lækka vöruverð til almennings.

Markmiðið með auknu viðskiptafrelsi í milliríkjaverzlun er að gera aðildarríki Alþjóða viðskiptastofnunarinnar samkeppnishæfari á sérsviðum sínum með því að lækka rekstrarkostnað þeirra og auðvelda þeim að afla sér markaða fyrir útflutningsafurðir sínar.

Fullyrðingar um, að ekkert markmið eða hálft markmið hafi verið með auknu viðskiptafrelsi, eru gripnar úr lausu lofti. Þær sýna hins vegar yfirgengilegan hroka ríkisstjórnar, sem telur sig vita af reynslu, að kjósendur haldi áfram að éta þvættinginn úr lófa hennar.

Samkomulagið miðaðist við hægfara bata á því ástandi, sem fyrir var. Enginn reiknaði með, að ein ríkisstjórn í heiminum læsi biblíuna eins og kölski og hækkaði grænmetisverð frá því, sem fyrir var. En þetta hefur einmitt gerzt hjá svartasta afturhaldinu á Íslandi.

Íslenzk stjórnvöld hafa talið sig vera að ganga erinda framleiðenda grænmetis, þegar þau bönnuðu áður fyrr innflutning grænmetis og setja núna ofturtolla á þennan innflutning. En afleiðingin er auðvitað sú, að íslenzkir neytendur borða miklu minna grænmeti en aðrir.

Á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og landlæknisembætta ýmissa vestrænna landa er eindregið hvatt til aukinnar neyzlu grænmetis, þótt neyzlan sé þar margfalt meiri en hún er hér. Stóraukin neyzla grænmetis er talin áhrifamikil leið til bættrar heilsu.

Stefna íslenzkra stjórnvalda leiðir til lakari heilsu þjóðarinnar og meiri kostnaðar ríkis og skattgreiðenda af sjúkrahúsum og öðrum stofnunum veikindageirans en ella væri. Stefna ríkisstjórnarflokkanna er beinlínis tilræði við líf og heilsu almennings á Íslandi.

Harðast kemur hrammur afturhaldsins niður á neyzlu þess grænmetis, sem hollast er, lífrænt ræktaðs grænmetis. Það er dýrara en annað grænmeti og sérstaklega hart leikið af ofurtollum. Kílóverð á lífrænt ræktuðu grænmeti er hér báðum megin við þúsundkallinn.

Í ljósi þessara móðuharðinda af mannavöldum er hlálegt, að nytsamir sakleysingjar koma fram í ríkisreknum auglýsingum til að hvetja fólk til að borða það, sem þeir kalla fimm skammta af grænmeti á dag. Sakleysingjarnir eru greinilega lítt fróðir um fjárhag almennings.

Sérfræðingarnir, sem hafðir hafa verið að fífli í auglýsingum þessum, ættu að biðja þjóðina afsökunar með því að ganga sameiginlega á fund ríkisstjórnarinnar og óska eftir afnámi ofurtollanna. Þar finna þeir vandamálið ekki síður en í lélegum lífsháttum almennings.

Hlutur neytenda er í auknum mæli fyrir borð borinn. Ofurtollar á grænmeti eru ekki aðeins fjárhagslegar ofsóknir, heldur spilla þeir einnig heilsu fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Handlagni og hyggindi

Greinar

Kalífunum í Bagdað var fyrr á öldum kennd ein iðngrein, svo að þeir gætu haft af henni lifibrauð, ef örlögin veltu þeim úr valdasessi. Þetta er aftur orðið áhugavert öryggisnet, þegar svo er komið, að háskólamenntun veitir aðeins stundum aðgang að starfi við hæfi.

Skólakerfi okkar er eins og raunar annarra þjóða læst í gömlum viðjum bóknáms, sem framleiðir mikinn fjölda tiltölulega sérhæfðs fólks. Sumt af þessu fólki á erfitt með að fá vinnu á síðustu og verstu tímum og býr ekki yfir nægri sveigju til að taka upp nýja þræði.

Skólarnir kæmu notendum sínum að betra gagni, ef minni áherzla væri lögð á námsefni, sem kveikir ekki áhuga. Tímanum og orkunni væri betur varið til að auðvelda þeim að komast af úti í lífinu, hvernig sem allt veltist, þegar heilar atvinnugreinar hníga eða rísa.

Flestir geta sparað sér mikinn kostnað á lífsleiðinni með því að kunna að handleika verkfæri, bæði handknúin og vélknúin. Hamrar, skrúfjárn og sagir trésmiðanna liggja í augum uppi, einnig tengur og skrúfjárn rafvirkjanna, svo og rörtangir pípulagningamanna.

Sá, sem kann að handleika verkfæri atvinnumanna í byggingaiðnaði, getur sparað sér hundruð þúsunda króna á lífsleiðinni. Svipað er að segja um þá, sem kunna að handleika verkfæri vél- og bílvirkja. Verkfæraleikni getur látið lágar tekjur endast eins og miðlungstekjur.

Með verkfærum er hér átt við þau tól, sem hversdagslega eru notuð í handverki og ekki þau, sem notuð eru í handavinnutímum skóla til að búa til jólagjafir úr krossviði eða í öðru föndri af slíku tagi. Hér er átt við, að skólafólk kynnist alvöruverkfærum daglegs lífs.

Eins er mikilvægt að reyna að kenna nemendum á peninga með því að setja þá í spor neytenda, sem þurfa að láta enda ná saman. Í stað einhvers hluta af þeirri óhlutlægu stærðfræði, sem þeim er boðin, má bjóða þeim dæmi, sem skipta máli í daglegu lífi fólks.

Mörgum nemendum mundi bregða, ef þeir framreiknuðu tíu ára kostnað af einum sígarettupakka á dag eða tíu ára kostnað af einum lítra af gosi á dag. Þannig má líka framreikna bjórinn og súkkulaðið, sem margir innbyrða af algeru tillitsleysi við eigin fjárhag.

Í neytendatímum geta skólar sent nemendur í verzlanir og látið þá setja saman ímyndaðar matarkörfur, sem rúmast innan ramma tilgreindra fjárráða. Með samanburði á nytsemi og kostnaði matarkarfanna má reyna að vekja tilfinningu fyrir fánýti sumrar neyzlu.

Fólk á misjafnlega erfitt með að láta peningana endast. Sumir verða háðir hátekjum og verða bjargarlausir, ef þeir þurfa að handleika verkfæri eða velta fyrir sér krónum vegna óvæntrar tekjuskerðingar. Aðrir hafa lag á að láta tekjurnar endast, hverjar sem þær eru.

Ekki þarf að líta í margar matarkörfur fólks í kjörbúðum til að sjá, að fjöldi manna hefur litla sem enga tilfinningu fyrir gæðum og verði. Körfurnar eru fullar af lélegri dósavöru og pakkavöru, er kostar miklu meira en vönduð og kræsileg vara, sem er minna unnin.

Sumt fólk virðist fálma eins og í leiðslu eftir mikið auglýstri vöru, innihaldsrýrum ímyndunum og verksmiðjuframleiddu ígildi dýrafóðurs, en missir af því, sem er bragðbezt, hollast og ódýrast. Ungt fólk hrekst út á neytendamarkaðinn án nokkurrar verkþjálfunar.

Með því að bjóða verkfæra- og neyzluþjálfun geta skólarnir öðlazt nýjan tilgang og fært Íslendingum framtíðarinnar handlagni og hyggindi, sem í hag koma.

Jónas Kristjánsson

DV

Við vantreystum dómurum

Greinar

Nýlega var maður dæmdur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir nokkrar líkamsárásir, þar á meðal nokkur nefbrot. Meðal annars hafði hann barið tvo menn í höfuðið með riffilskefti. Einnig hafði hann misþyrmt manni í bíl, kastað honum út, afklætt hann og úðað á hann málningu.

Þessi mikilvirki, einbeitti og hættulegi ofbeldismaður fékk eins árs fangelsi fyrir þetta allt, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Sami Héraðsdómur Vesturlands dæmdi um svipað leyti unga konu í tveggja ára fangelsi án skilorðs fyrir eina alvarlega, en staka, líkamsárás.

Dómarnir endurspegla misræmi í dómvenju. Annar aðilinn skaðar tólf manns og situr inni í þrjá mánuði. Hinn skaðar einn mann og situr inni í tuttugu og fjóra mánuði. Síðari dómurinn er nokkuð harður, en fyrri dómurinn er langt út af korti venjulegs réttarríkis.

Að undirlagi Hæstaréttar, sem skapar dómvenju, hefur myndazt hefð um, að dómstólar nýti sér ekki refsiheimildir laga í ofbeldismálum, heldur haldi sig við neðri mörk þeirra. Hæstiréttur hefur löngum álitið ofbeldismál langtum ómerkilegri en glæpi á sviði fjármála.

Svo ógeðfellur er Hæstiréttur í ofbeldismálum, að nýlega kvað hann upp málamyndadóm yfir margföldum nauðgara og gaf honum stórfelldan afslátt út á, að hann hefði á nauðgunartímabilinu skaffað fórnardýrinu mat og húsnæði. Slíkir dómarar eru tæpast með réttu ráði.

Dómsmálaráðherra veitti Hæstarétti langþráða áminningu í hátíðaræðu við opnun nýs dómhúss réttarins. Slík áminning er nauðsynleg gagnvart almenningi til að sýna vilja í pólitíska geiranum, en hefur lítil áhrif á afturhaldsliðið í Hæstarétti. Meira þarf til.

Af gefnum tilefnum Hæstaréttar ber Alþingi að setja sérstök lög um þrengda möguleika dómstóla til að gæla við síbrotamenn. Í nýju lögunum verði skýrar skilgreint svigrúmið, sem dómstólar hafi, úr því að þeim er ekki treystandi til að nota það svigrúm, sem nú er til.

Í nýju lögunum ber að þrengja svigrúm dóma yfir síbrotamönnum í ofbeldismálum upp að efri mörkum núverandi svigrúms. Hins vegar má þrengja svigrúm dóma yfir peningabrotamönnum niður að neðri mörkum núverandi svigrúms. Fólk á að vera mikilvægara en fé.

Í lögunum ber einnig að gæta hagsmuna fórnardýra ofbeldismanna með því að skylda dómstóla til að úrskurða mun hærri skaðabótagreiðslur en nú og fela ríkisvaldinu að greiða fórnardýrunum peningana og reyna síðan sjálft að innheimta þá hjá ofbeldislýðnum.

Við verðum að taka afleiðingunum af því, að Hæstiréttur og héraðsdómstólar fást ekki til að breyta venjum sínum, þrátt fyrir mikla og sívaxandi fyrirlitningu utan úr bæ. Við verðum að taka afleiðingunum af því, að við vantreystum réttilega þessum stofnunum.

Ef við látum yfir okkur ganga héraðsdóma og Hæstaréttardóma, sem stríða gegn réttlætiskennd fólksins í landinu, hættum við á, að tilfinning fólks fyrir lögum og rétti grotni niður. Á meðan fremja Hæstiréttur og einstakir héraðsdómar ný afglöp, sem gera fólk agndofa.

Þjóðfélagið hefur verið að breytast hratt á undanförnum árum. Ungir afbrotamenn eru skipulagðari og miskunnarlausari en áður tíðkaðist. Notkun fíkniefna hefur aukizt og fjölgað ofbeldisglæpum. Á sama tíma krefst þjóðfélagið aukinnar virðingar við líf og limi fólks.

Til að mæta breytingunum og tregðu dómstóla þarf Alþingi að breyta refsiákvæðum laga og gera ríkisvaldið að millilið í greiðslum skaðabóta vegna ofbeldis.

Jónas Kristjánsson

DV

Carpe Diem

Veitingar

Góð matreiðsla skín gegnum grautarstælana á Carpe Diem, framúrstefnulegum, og hljóðbærum veitingasal Hótels Lindar við Rauðarárstíg. Hún lýsti sér m.a. í ljúfu nautaseyði með svartsveppaolíu, sem gaf indælt og frísklegt bragð í fennikkustíl. Súpan var utan seðils og sérlöguð handa gesti, sem neitaði einni af hinum hefðbundnu hveitisúpum íslenzkra veitingahúsa.

Grautarstælarnir eru í stíl hressilega groddalegra listaverka staðarins, sem gerð eru úr afgöngum frá vélaverkstæðum, svo sem tannhjólum og bílfjöðrum.

Upp af aðalréttum rís venjulega hraukur djúpsteiktra grænmetisþráða, aðallega úr graslauk og blaðlauk. Undir þráðunum ægir öllu saman í graut, fiski eða kjöti, hrásalati, léttsteiktu grænmeti og bakaðri kartöflustöppu, jóðlandi í fremur sætri sósu, oftast tómatsósu.

Fiskur dagsins var villtasta útfærsla þessarar einhæfu matreiðslu. Þar mátti finna í einum haug bita af karfa, lúðu, smokkfiski, hörpufiski og úthafsrækju, innan um hrásalat og léttsteikt grænmeti. Úr einni hlíð matarfjallsins skagaði bökuð kartöflustappa. Hver tónn var út af fyrir sig góður, en grauturinn í heild var samfelld lagleysa.

Þetta sérstæða og tæpast lystuga þema endurtekur sig í hverjum rétti á fætur öðrum og hefur þann kost einan að vera öðru vísi en annars staðar. Staðurinn vill skera sig úr og tekst það alla leið frá A til Ö.

Innréttingar eru kuldalegar, úr steinflísum, stáli og gleri, studdar skemmtilegri vélsmiðjulist og nýtízkulegum næfurljósum, innan um gula og rauða málningu. Sívalt og áberandi vínrekks-altari úr stáli í miðjum sal gefur tón, sem endurómar yfir í matreiðsluna.

Upphaflega var hún í hávaðasömum og kalifornískum Ítalíustíl, en hefur smám saman hneigzt nær hinni hefðbundnu og leiðigjörnu miðju íslenzkrar veitingamatreiðslu. Fátt er á breytilegum matseðli, sem getur hrist upp í fólki, nema væri humarinn með svörtu pasta og bleksósu, er hentar fremur með kolkrabba en humar.

Stundum er sjávarfangið fremur mikið eldað, svo að það verður seigt, til dæmis úthafsrækjur og smokkfiskur. Í annan tíma og oftar er það hæfilega snöggt eldað, en yfirleitt yfirgnæft í bragði af frekjulegu sósu- og meðlætisjukki.

Leifar frá Ítalíustílnum sjást fremur í nöfnum en innihaldi. Svonefnt carpaccio var ólíkt kryddlegnum nautasneiðum upprunalandsins, þykkar sneiðar, jóðlandi í sósu. Tiramisú ostakakan var þessi venjulega búðarkaka, sem hér á landi minnir lítið á Feneyjar. Espresso-kaffið var úr nýmóðins vél, sem mjólkar ágætu kaffi, en ekki espresso. Venjulega kaffið var betra

Þjónusta er fagleg og elskuleg, dósatónlist er þægileg, sérstaklega Johnny Cash, stólar eru í tæpu meðallagi þæginda, dúklausar borðplötur úr gleri eru án diska fyrir volgar heilhveitikollur, sem koma með flugvélasmjöri í körfu. Munnþurrkur úr pappír eru þykkar og góðar.

Miðjuverð þriggja rétta með kaffi er groddalegt eins og listaverkin, hefur farið hækkandi að undanförnu og er nú um 3250 krónur á mann. Súpa, réttur dagsins og kaffi kosta í hádeginu 1150 krónur, sem er öllu aðgengilegra. Glas af frambærilegu húsvíni kostar 330 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð tóbaksverzlunar

Greinar

Tóbaksverzlun er ágreiningsefni í valdakerfinu um þessar mundir. Meðal annars er tekizt á um rétt einstakra vörumerkja til aðgangs að markaði, um einkarétt ríkisfyrirtækis og um skyldu stjórnkerfisins til samráðs við aðila, sem halda uppi vörnum gegn tóbaksneyzlu.

Þegar talað er um nauðsyn viðskiptafrelsis á þessu sviði, verður að hafa í huga, að staðfest er, að tóbak er vanabindandi eitur. Fólk ánetjast tóbaki og á erfitt með að hætta að reykja, þegar það vill eða þarf. Og þjóðfélagið hefur gífurlegan sjúkdómakostnað af tóbaksneyzlu.

Á hinn bóginn er óhagkvæmt og óréttlátt, að ríkið hafi skömmtunarstjóra til að ákveða, hvaða vörumerki megi selja og hvaða vörumerki megi ekki selja af sömu vörutegund. Ennfremur, að ríkið stundi verzlun, sem jafnan er betur komin í höndum einkaframtaksins.

Í þessari þverstæðu er eðlilegt, að spurt sé, af hverju sé verið að deila um verzlunarhætti skaðlegrar vöru, sem ætti að vera bönnuð með öllu. Því er til að svara, að tóbaki hefur á löngum tíma tekizt að skapa sér þegnrétt, sem nú er á hægfara undanhaldi, en er ekki horfinn enn.

Sums staðar í útlöndum er undanhaldið hraðara en hér. Í Bandaríkjunum eru reykingar bannaðar mun víðar, til dæmis á öllum veitingahúsum í New York. Þar sækja áhugasamtök, einstök ríki og hópar lögmanna með hörðum málaferlum gegn tóbaksframleiðendum.

Í málflutningi tóbaksandstæðinga er sagt, að framleiðendur og seljendur tóbaks viti vel, að vara þeirra sé vandabindandi og baneitruð. Þeir telja þá skaðabótaskylda gagnvart kostnaðaraðilum sjúkrahúsa, svo og fjölskyldum fárveikra og látinna tóbakssjúklinga.

Búast má við, að tóbaksstríðið í Bandaríkjunum muni fyrr eða síðar endurspeglast í okkar þjóðfélagi. Því er tímabært fyrir innflytjendur tóbaks að fara að kaupa sér tryggingar gegn hugsanlegum málaferlum af hálfu þeirra, sem bera kostnað af heilsuspjöllum tóbaks.

Sem umboðsmanni þjóðarinnar ber ríkinu að stuðla að heilsu hennar með aðgerðum, sem draga úr tóbaksneyzlu. Sölubann er freistandi takmark, en háð því, að hægt sé að takmarka ólöglegan innflutning og ýmsa neðanjarðarstarfsemi, sem jafnan þrífst kringum hann.

Meðan tóbak er enn leyft, er unnt að takmarka aðgang með aukinni skattheimtu, að svo miklu leyti, sem unnt er að hafa hemil á smygli, svo sem fyrr segir. Í núverandi stöðu virðist það vera vænlegur biðleikur, meðan þjóðfélagið er að átta sig á nauðsyn tóbaksbanns.

Einnig er unnt að takmarka aðgang að tóbaki með því að taka það úr nauðsynjaverzlunum og hafa eingöngu til sölu í fáum sérverzlunum á borð við áfengisútsölur ríkisins. Þegar aukin er fyrirhöfnin við að ná í vöruna, minnkar notkun hennar samkvæmt markaðslögmálum.

Þessi aðferð hefur þann galla, að hún leiðir til skömmtunar á rétti til smásölu tóbaks og stangast að því leyti á við stefnu frjálsrar verzlunar. Í reynd fer skömmtunin nánast óhjákvæmilega fram á þann hátt, að ríkið hefur sérstaka einkaleyfisstofnun til að annast söluna.

Meðan tóbak er hreinlega ekki bannað, lendum við í ágreiningi milli heilsufarssjónarmiða annars vegar og sjónarmiða viðskiptafrelsis hins vegar. Meðan tóbak er leyft, ber ríkinu að reyna að gæta jafnræðis meðal þeirra, sem vilja koma hinu vanabindandi eitri á framfæri.

Sem fyrst þarf þó að setja lög, sem varpa ábyrgð á heilsutjóni af völdum tóbaks á herðar seljenda, svo að í náinni framtíð sé unnt að sækja þá að réttum lögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Suðurlandsskjálfti

Greinar

Varnir gegn tjóni af völdum Suðurlandsskjálfta eru öflugri en almennt hefur verið talið. Hönnuðir mikilvægustu mannvirkja hafa í auknum mæli haft hliðsjón af hættunni. Frekari aðgerða verður þó þörf, þegar búið er að gera heildarúttekt á stöðu mannvirkjanna.

Engin varnarkeðja er öflugri en veikasti hlekkurinn. Ein brú á viðkvæmum stað ræður því, hvort samgöngur rofna eða ekki. Ef Þjórsárbrúin á hringveginum verður ófær, er ekki um neina aðra kosti að ræða en brú undir Heklurótum í nágrenni Búrfellsvirkjunar.

Staðan er svipuð á vatnasvæði Rangár, en betri á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár, þar sem eru margar brýr. Gott er að dreifa brúm, því að jarðskjálfti er yfirleitt aðeins harður á þröngu svæði. Þótt hann geri hvassa atlögu að einni brú, getur sloppið önnur brú á sömu á.

Vegagerðin hefur lengi haft Suðurlandsskjálfta í huga við hönnum mannvirkja, en síður við dreifingu þeirra. Þjórsárbrú og Ölfusárbrú við Selfoss hafa verið mældar og styrktar. Þjórsárbrú hvílir nú á jarðskjálftalegum úr gúmi og blýi, sem hafa sömu áhrif og höggdeyfar bíla.

Þótt Þjórsárbrú sé búin undir Suðurlandsskjálfta, væri samgöngukeðjan traustari, ef reist væri önnur Þjórsárbrú í byggð. Sama er að segja um Rangá. Að hafa aðeins eina samgönguæð þvert um Suðurland er eins óvarlegt og að hafa aðeins eina raflínu um svæðið.

Orkuframleiðslan og orkuflutningurinn á að vera nokkru traustari en vegakerfið. Virkjanasvæðin eru tvö, vestast á svæðinu og austast, við Sog og Þjórsá-Tungnaá. Línurnar frá austara svæðinu eru tvær, þar af önnur ofan byggða. Ólíklegt er, að þetta bresti allt í einu.

Án efa er hagkvæmast að flytja slasað fólk sem mest til höfuðborgarsvæðisins, þar sem slysadeildir eru öflugastar að tækni og mannskap. Þyrlur eru til og eru án efa skjótvirkasta og öruggasta leiðin til að koma fólki þangað, hvernig sem ástand brúa er á skjálftasvæðinu.

Hins vegar þarf að meta, hvernig staðan verður, ef varnarliðið hverfur af Keflavíkurvelli, til dæmis vegna sparnaðarsjónarmiða í Bandaríkjunum, sem eru utan áhrifasviðs okkar. Ákveða þarf með góðum fyrirvara, hvernig við bregðumst við brottflutningi á þyrlum.

Einna traustast er ástandið sennilega í venjulegum húsum á svæðinu, íbúðarhúsum og vinnustöðum fólks. Lengi hafa verið í gildi reglur um sérstaklega mikinn styrkleika húsa á svæðinu. Flest hafa þau verið reist á síðari árum og á grundvelli þessara reglna.

Lögð hefur verið fram skýrsla um aðgerðir til að draga úr hættum af völdum Suðurlandsskjálfta, unnin af Veðurstofu, Orkustofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Raunvísindastofnun og verkfræðideild Háskóla Íslands. Þar er hvatt til samræmingar málsaðila.

Að tillögu skýrsluhöfunda verður væntanlega skipuð nefnd um jarðskjálftavá. Verkefni hennar verður að samræma frekari rannsóknir á jarðskjálftahættu og að samræma mat á veikustu hlekkjum varnarkeðjunnar, svo að styrkja megi þá hlekki sérstaklega.

Spárnar segja, að 90% líkur séu á öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu tveimur áratugum. Samkvæmt skýrslunni erum við tiltölulega vel undir skjálftann búin, en þurfum að samræma varnaraðgerðir, svo og að treysta keðjuna með nýjum eða endurbættum hlekkjum.

Stöðumat og tillögur skýrslunnar eru mikilvægt skref í þá átt að reyna að læra að umgangast náttúruöflin í landinu af fullri virðingu og hafa á þeim hemil.

Jónas Kristjánsson

DV

Innrás kynninga

Greinar

Glóruleysa og veruleikafirring, oftast í tengslum við ofbeldi, virðast vera vinsælt efni kvikmynda nú á dögum, ef marka má rustalegar kynningar, sem birtast óviðbúnu fólki í auglýsingatímum sjónvarpsstöðva og fjalla ýmist um væntanlegt efni sjónvarpsrása eða kvikmyndahúsa.

Fullorðið fólk ræður auðvitað, hvort það fer í bíó og hvort það horfir á sjónvarpskvikmyndir, og getur forðað sér frá óhroðanum. En misbrestur er á, að þessu efni sé haldið frá börnum, einkum þeim börnum, sem sízt mega við því vegna erfiðra heimilisaðstæðna.

Leidd hafa verið rök að því, að gerviheimur kvikmynda hafi slæm áhrif á sum börn, sem eru í mestri hættu, af því að þau leika að mestu lausum hala vegna félagslegra aðstæðna. Þessi börn leita fyrirmynda og ofbeldisreynslu í veruleikafirrtum kvikmyndum.

Takmörk eru fyrir því, hvað ríkið getur gert til að koma í stað foreldra, sem ekki eru til taks eða sinna ekki uppeldi af öðrum ástæðum. Reynt er þó að hindra óheftan aðgang að kvikmyndahúsum og sjónvarpssýningar kvikmynda af þessu tagi fyrir klukkan tíu.

Mikilvæg viðbót við varnaraðgerðir þjóðfélagsins væri hugbúnaður, sem gerði fólki kleift að loka fyrir auglýsingar, sem sýndar eru fyrir og eftir fréttatíma sjónvarps og einkum þeirra, sem sýndar eru innan fréttatímans. Þessi innskot eru full af kynningum á kvikmyndum.

Hvimleitt er að geta ekki setzt niður til að fylgjast með nýjustu fréttum án þess að verða fyrir linnulausri skothríð sýnishorna úr kvikmyndum, sem virðast gerðar af geðveiku fólki fyrir geðveikt fólk. Fólk á rétt á að geta fengið í hendur varnarbúnað gegn þessu ofbeldi.

Hryllingur og ofbeldi fréttanna sjálfra er annars eðlis en hliðstæð atriði kvikmyndakynninganna. Ógnarfréttir eru í flestum tilvikum hluti einhvers raunveruleika, sem við þurfum að vita um sem borgarar í vernduðu og nánast lokuðu sérfélagi fjarri vandamálum nútímans.

Að vísu eru sumar hryllingsfréttir leiknar eða framleiddar. Til dæmis var Persaflóastríðið að mestu tilbúningur eins og fólk sá það á skjánum. Landganga bandamanna í Sómalíu var leikin kvikmynd með mörgum tökum. Uppþot eru oft framleidd fyrir sjónvarpsfréttir.

Raunverulegir eru hins vegar harmleikirnir í Bosníu og Rúanda, svo annars konar dæmi séu nefnd. Mestu máli skiptir, að hryllingur í sjónvarpsfréttum er annaðhvort raunveruleiki eða eftirlíking af raunveruleika, en ekki samþjappaðir órar langt utan alls veruleika.

Sjónvarpsfréttir eru líka yfirleitt tempraðar með aðgangi fólks að svipuðum fréttum í útvarpi og á prenti, þar sem minni hætta er á, að sýndarveruleiki sjónvarpstökuvéla trufli veruleika talaðrar eða ritaðrar frásagnar. Saga er sjón ríkari, þegar til kastanna kemur.

Fólk á rétt á að fá að sjá speglun sjónvarpsfrétta á góðum og vondum atburðum án þess að kæra sig um að sjá innskot af órum þeirra, sem framleiða og markaðssetja gersamlega veruleikafirrtar kvikmyndir, sem boðaðar eru í sjónvarpsdagskrám eða kvikmyndahúsum.

Því er haldið fram, að kynningarnar feli ekki í sér atriði, sem valda takmörkun á aðgangi barna og unglinga. Reynslan sýnir samt, að venjulegu fólki, sem ekki telur sig hafa þörf fyrir óra af þessu tagi, finnst sumu hverju þetta vera óþægileg innrás á heimilið.

Við viljum hugbúnað til að loka fyrir sjónvarpsauglýsingar, svo að við getum varið heimilin fyrir innrás geðsjúkra glæpamanna úr kvikmyndaheimi Kaliforníu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stórkarlinn frá Vilníus

Greinar

Formaður Alþýðuflokksins er litríkur stjórnmálamaður. Einkum þess vegna verður hans saknað, þegar hann yfirgefur fremstu víglínu stjórnmálanna með því að hætta formennsku í Alþýðuflokknum og lýsa yfir, að þetta sé síðasta kjörtímabil sitt á Alþingi.

Tvo kosti aðra hefur Jón Baldvin Hannibalsson, sem greina hann frá ýmsum öðrum þeim, sem verið hafa og eru fremstir í stjórnmálum landsins. Í fyrsta lagi er hann óvenjulega snarpgreindur. Og í öðru lagi er hann blessunarlega laus við hefnigirni og refsingaráráttu.

Á hinn bóginn var hann oft ábyrgðarlaus í persónulegri framgöngu, fór stundum einkar frjálslega með staðreyndir og gerði lítið í að koma fram þeim stefnumálum Alþýðuflokksins, sem greina hann frá öðrum flokkum. Segja má, að hann hafi daðrað við yfirborðsmennsku.

Gallar hans sem stjórnmálamanns komu vel fram, þegar hann var ráðherra og þar af leiðandi hálfgerður embættismaður. Hann skortir ýmsa eiginleika, sem embættismönnum eru oftast eignaðir. Sem utanríkisráðherra olli hann hvað eftir annað ringulreið í ráðuneytinu.

Ekki má heldur gleyma frjálslegri umgengni hans við reglur um risnu, sem oftar en einu sinni varð fræg í fjölmiðlum, svo og misnotkun hans á ferðahvetjandi tekjupóstum. Siðareglur hans sem ráðherra voru í ólagi. Hann ruglaði saman fjármálum sínum, flokks og þjóðar.

Hins vegar koma kostir hans vel fram, þegar hann stundar burtreiðar á Alþingi. Þar er hann í essinu sínu, nýtur snarprar greindar sinnar og bregður glaðbeittur vopnum sínum. Eins og með ásum í Valhöll eru svo allar væringar gleymdar í veizlu að kvöldi.

Öfugt við ýmsa aðra frammámenn í stjórnmálum heldur Jón Baldvin enga skrá yfir þá, sem kunna vitandi eða óvitandi að hafa gert honum skráveifu á stjórnmálaferlinum. Hann hefur aldrei legið í símanum til að fá þriðju aðila til að taka þátt í refsiaðgerðum gegn slíkum.

Þannig er Jón Baldvin hjartahreinn, þótt hann sé gallaður sem stjórnmálamaður, svo sem hér hefur verið rakið. Drenglyndi hans og kjarkur komu að góðum notum, þegar hann átti persónulega þátt í að koma á lýðræði í Eystrasaltslöndunum við hrun Sovétríkjanna.

Þegar búið er að kortleggja kosti og galla formannsins, gnæfir þetta eina atriði yfir önnur og tryggir honum sess, ekki í Íslandssögunni, heldur í stjórnmálasögu aldarinnar. Hann svaraði fyrstur neyðarkalli Eystrasaltsríkjanna og fór sjálfur á vettvang til Vilníus.

Meðan utanríkisráðherrar annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins rumdu sitt ha og humm, gekk Jón Baldvin Hannibalsson fram fyrir skjöldu og eyðilagði möguleika annarra vestrænna stjórnmálamanna til að stunda hina venjulegu iðju þeirra að japla, jamla og fuðra.

Hin hvassa framganga hans á örlagastundu í sögu Eystrasaltsríkjanna var í samræmi við fyrri áherzlur hans á því sviði. Hann var þá sjálfum sér samkvæmur og óð þannig í málið, að önnur Vesturlönd urðu að fylgja á eftir. Þetta var hápunktur stjórnmálaferils hans.

Framganga Jóns Baldvins í málefnum Eystrasaltsríkjanna kom Íslandi á blað í stjórnmálasögu 20. aldar. Það er meira en hægt er að segja um flesta aðra ráðamenn á Íslandi á undanförnum árum. Þegar á hólminn var komið, reyndist hann stórkarl, en hinir smámenni.

Eftir tilraun til heiðarlegrar kortlagningar á ferli fráfarandi formanns Alþýðuflokksins er niðurstaðan sú, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Jónas Kristjánsson

DV

Botnlausa milljarðamýrin

Greinar

Nýjasta aðferðin við að brenna fjármuni okkar á samgöngubáli er ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að grafa upp Vatnsmýrina og malbika hana að nýju fyrir að minnsta kosti hálfan annan milljarð króna, svo að unnt sé að reisa þar flugvallarmannvirki fyrir annað eins.

Verjandi er að nota Reykjavíkurflugvöll áfram til bráðabirgða til að fresta útgjöldum við innanlandsflugstöð á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar er varhugavert að eyða miklum peningum í hann, því að hann á enga framtíð fyrir sér inni í sjálfum miðbæ borgarinnar.

Á Keflavíkurflugvelli þarf ekki að reisa mikið annað en flugstöð innanlandsflugs í nágrenni Leifsstöðvar og helzt samtengda henni. Á Reykjavíkurflugvelli þarf í rauninni að leggja alveg nýjan flugvöll til viðbótar öllum mannvirkjum og tækjum, sem fylgja slíkum flugvelli.

Munurinn á þessum tveimur kostum er að minnsta kosti hálfur annar milljarður króna. Það er hálfum öðrum milljarði króna of mikið fyrir þjóðfélag, sem ekki hefur efni á upplýsingahraðbraut nútímans og getur ekki haldið uppi sómasamlegu heilbrigðis- og skólakerfi.

Engin sérstök hrifning er í Reykjavík út af þessum ráðagerðum ríkisstjórnarinnar, sem eru runnar undan rifjum samgönguráðherra, helzta sérfræðings þjóðarinnar í brennslu verðmæta í þágu sérhagsmuna á landsbyggðinni. Vafalaust verður andstaðan öflug.

Ekki verður séð, að ríkisstjórninni takist að brenna þessum peningum án þess að gera borgarstjórn Reykjavíkur meðseka í sukkinu. Þess vegna verður þrýst á borgina að neita Halldóri Blöndal og félögum hans um tilskilin leyfi til að grafa upp Vatnsmýrina.

Reykvíkingar hafa töluverð óþægindi af lendingum í Vatnsmýrinni. Að nokkru hefur verið tekið tillit til þessara óþæginda með því að banna lendingar og flugtök að næturlagi. En slysahættan af fluginu hverfur ekki við það. Hún færist bara af nóttinni yfir á daginn.

Þegar allt hefur verið sett á vogarskálarnar, slysahættan, þægindin af stuttri leið frá flugstöð til miðbæjar og sú staðreynd, að flugvöllurinn er þarna, hefur niðurstaðan hallazt að því, að hann fái að vera. Vogardæmið gerbreytist, ef leggja þarf nýjan flugvöll í mýrina.

Ef umboðsmenn þjóðarinnar telja brýnt að skipta út ónýtum Reykjavíkurflugvelli, er Keflavíkurflugvöllur augljós arftaki. Það stafar af sömu ástæðu og þeirri, að Reykjavíkurflugvöllur er núna notaður. Það stafar einfalega af, að hann er til. Ekki þarf að leggja hann.

Frá flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli er tæplega 30 mínútna lengri akstur til Lækjartorgs en frá fyrirhugaðri flugstöð Reykjavíkurflugvallar í Nauthólsvík. Tímamunurinn er styttri á leið frá flugstöðvunum til ýmissa mikilvægra áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi litli tímamunur er það eina, sem er óhagstætt í dæmi Keflavíkurflugvallar. Á móti koma betri og fleiri flugbrautir, meiri og betri tæki til lendingar og flugtaks, margvísleg og verðmæt atriði, sem fylgja innri gerð alþjóðlegs flugvallar, svo og mun minni slyshætta.

Við skulum heldur nota Reykjavíkurflugvöll enn um sinn eða meðan það er talið verjandi að beztu manna yfirsýn. Við skulum jafnframt nota tímann vel til að hanna hagkvæma flugstöð og flugvélastæði við hlið Leifsstöðvar, með samgangi undir þaki milli stöðvanna.

Sízt af öllu eigum við að fara nú að grafa hálfan annan milljarð af skattfé í Vatnsmýrinni til þess að geta síðan lagt annað eins til viðbótar í Reykjavíkurflugvöll.

Jónas Kristjánsson

DV

Spillt umburðarlyndi

Greinar

Í frjálsum ríkjum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd þætti fróðlegt að ræða umtalsverðan stuðning stórfyrirtækis við forsetaframboð og hvort það sé siðferðilega í lagi, að frambjóðandinn sitji síðan í Hæstarétti og úrskurði í málum, sem varða þetta sama stórfyrirtæki.

Hér á landi eru viðhorfin umburðarlyndari. Í fyrsta lagi er slík umræða talinn dónaskapur við umræddan hæstaréttardómara. Í öðru lagi er fullyrt, að annarlegar hvatir liggi að baki umræðunni, annaðhvort þess, sem fréttina sagði eða einhverra aðila á bak við hann.

Í nágrannalöndunum er spurt, um hvað verið sé að fjalla. Hér er hins vegar spurt, hver talaði um hvern og af hvaða hvötum. Þar er fjallað málefnalega um málin, en hér er fjallað persónulega um þau. Þar leiðast menn stundum út í ofstæki, en hér út í spillingu.

Þeir, sem starfa við fréttir, verða áþreifanlega varir við, að hugsunarháttur fólks er að meðaltali annar hér á landi en í löndum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd. Fréttir, sem taldar væru málefnalegar þar, eru taldar persónulegar og jafnvel ofstækisfullar hér.

Stundum ganga menn, sérstaklega í Bandaríkjunum, svo langt í stefnufestu við ópersónuleg grundvallaratriði, að úr verður sértrúarstefna eða jafnvel hreint ofstæki. Viðhorfin hér á landi eru umburðarlyndari, en um leið hentugri jarðvegur fyrir spillingu.

Ef ekki má fjalla hér á landi um grundvallarforsendur í opinberu siðferði, af því að í því felist móðgun við “valinkunna heiðursmenn”, sennilega af “annarlegum hvötum” fréttamanns, gengur umburðarlyndið svo langt, að góður jarðvegur hefur myndazt fyrir spillingu.

Við sjáum annars vegar samhengið milli ópersónulegrar umræðu, málefnahyggju og ofstækis og hins vegar milli persónulegrar umræðu, umburðarlyndis og spillingar. Rannsóknablaðamennska hentar við fyrri aðstæðurnar, en á erfitt uppdráttar við hinar síðari.

Við þennan mismun bætist hagkvæmnishugsun margra Íslendinga, sem eru frábitnir skoðunum, er styggt gætu einhvern, sem þeir gætu haft gott af. Hér eru margir hneigðari til að bugta sig fyrir valdinu en frjálsborið fólk telur sér sæma í sumum nágrannalöndunum.

Aðstaða til einokunar eða fáokunar er ríkari þáttur í efnahagslífinu hér en í nálægum löndum. Einnig eru fólk og fyrirtæki háðari fyrirgreiðslum, sem sumpart byggjast á geðþótta valdamanna, svo sem ráðherra. Við þær aðstæður teljast viðkvæmar spurningar óviðeigandi.

Erfitt er að rjúfa vítahring fyrirgreiðslna og fáokunar, umburðarlyndis og spillingar. Hver þessara þátta styður hina. Umburðarlyndi og virðing fyrir valdi leiða til, að ekki er spurt spurninga, sem sjálfsagt þykir að spyrja í öðrum löndum. Frelsisboltinn fer því ekki af stað.

Íslenzk fjölmiðlun er brennd þessu vandamáli. Mikið af fréttum er lítið annað en endurómur af frásögnum valdamanna í stjórnmálum eða efnahagslífi. Tilraunum til að spyrja viðkvæmra spurninga er oft svarað með því að segja, að nú sé sorpfréttamennskan farin af stað.

Í alvörulandi lýðræðiskerfis þætti það merkilegt umræðuefni, hvort frambjóðandi til embættis forseta geti síðan verið hæstaréttardómari í málum, sem beint eða óbeint varða fyrirtæki eða stofnanir, er veittu honum umtalsverðan stuðning í kosningabaráttunni.

Hér á landi veldur tilraun til slíkrar umræðu hins vegar titringi. Málið er talið óviðeigandi, of persónulegt, of ofstækisfullt, of sorpfréttalegt, of óíslenzkt.

Jónas Kristjánsson

DV

Rústir Rússlands

Greinar

Óhjákvæmilegt var, að Alexander Lebed yrði rekinn úr ráðherraembætti yfirmanns rússneska öryggisráðsins. Hann fer sínar eigin leiðir og lætur ekki að stjórn, svo sem greinilega kom í ljós, þegar hann samdi frið í Tsjetsjeníu gegn vilja valdamikilla ráðamanna í Kreml.

Höfuðástæðan fyrir brottrekstri Lebeds er, að hann skyggði á rónann, sem getur ekki leikið hlutverk forseta ríkisins vegna langvinnrar legu á sjúkrahúsum og heilsuhælum. Jeltsín gat aldrei lengi sætt sig við, að einn ráðherrann krefðist afsagnar forsetans hvað eftir annað.

Lebed er raunar að sumu leyti það, sem Jeltsín var, áður en hann eyðilagði heilsu sína. Lebed er kjarkmaður, sem nýtur almenns trausts og víðtækrar hylli, fyrst sem herstjóri og síðan sem friðarsinni. Enda ber hann sjónarmið sín á torg og nærist á almenningsáliti.

Jeltsín er lifandi lík í embætti og reynir að tefla öðrum ráðamönnum ríkisins þannig, að þeir haldi hver öðrum í skefjum. Lebed var of stór í sniðum fyrir þá taflmennsku forsetans, en verður honum ekki síður óþægur ljár í þúfu í andstöðu utan ríkisstjórnarinnar.

Lebed getur núna vísað til ljómans af ferli sínum, fyrst í Afganistan, síðan í Moldavíu og síðast í Tsjetsjeníu, án þess að þurfa að taka frekari ábyrgð af þáttöku í ríkisstjórn, sem er dæmd til vandræða og óvinsælda. Hann mun eiga léttan leik sem and-Jeltsín ríkisins.

Lebed þarf ekki að hafa fyrir því að sameina pólitískar hreyfingar eða sættast við smákónga í stjórnarandstöðunni. Hann mun bara halda áfram að leika einleik og bíða færis í næstu forsetakosningum. Honum mun duga eigið persónufylgi, ef hann teflir áfram rétt.

Með þessu ekki verið að segja, að Lebed muni í fyllingu tímans verða farsæll forseti. Hann býr yfir ríkri einræðiskennd, sem ólíklegt er, að þoli mikil völd til lengdar. Hann er illa að sér, meðal annars um efnahagsmál, og er fullur fordóma, til dæmis í garð Vesturlanda.

Hins vegar er líklegt, að hann muni sem forseti reyna að takast á við verstu vandamálin heima fyrir, þau sem hafa margfaldazt á stjórnleysistíma Jeltsíns róna. Lebed mun ganga betur að koma á lögum og reglu og koma böndum á glæpaflokkana, sem núna fara sínu fram.

Rússland Jeltsíns er í rústum. Fingralangir skriffinnar, ríkisforstjórar, herforingjar og undirheimaleiðtogar hafa stolið öllu steini léttara í landinu. Lög og réttur hafa vikið fyrir hnefarétti götunnar. Raunverulegt valdsvið ríkisstjórnarinnar þrengist stöðugt.

Það kaldranalega er, að sá ráðherra, sem mesta ábyrgð ber á verstu óförum ríkisvaldsins, ósigri þess fyrir glæpalýð götunnar og blóðbaði þess í Tsjetsjeníu, Anatolí Kúlikov innanríkisráðherra, var einmitt sá, sem hafði frumkvæði að hreinsun Lebeds úr ríkisstjórninni.

Frá sjónarmiði umheimsins er ástandið skelfilegt í Rússlandi og á eftir að versna enn. Forsetinn rorrar á sængurkantinum, sefasjúkir hirðmenn berjast um völdin, undirheimar leika lausum hala og blóðug átök við sjálfstjórnarhreyfingar munu blossa upp að nýju.

Þetta ótrausta innanlandsástand mun óhjákvæmilega leiða til ótraustrar stefnu í utanríkismálum og því miður einnig til aukinnar ofbeldishneigðar í samskiptum við nánasta umhverfi Rússlands. Ríkið mun verða til aukinna vandræða í fjölþjóðlegum samskiptum.

Í þessu fljótandi ástandi verður brottför Lebeds úr ríkisstjórn til þess að auka óvissuna og veikja þær leifar, sem enn eru af ríkisstjórnarvaldi í rústum Rússlands.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvíði nagar þjóðir

Greinar

Undir forustu nýnasistans Jörgs Haiders náði Frelsisflokkur Austurríkis tæplega 28% atkvæða á sunnudaginn í kosningum landsins til þings Evrópusambandsins. Haider hefur ekki farið leynt með, að ýmsar hugmyndir Hitlers hafi verið góðar, svo sem þrælkunarbúðir.

Stuðningur við Frelsisflokkinn kemur einkum frá fátæku fólki, sem óttast útlendinga, einkum nýbúa, og telur þá munu taka frá sér vinnunna. Það óttast líka samstarf við erlendar stofnanir, einkum Evrópusambandið, sem það telur munu hafa peninga af Austurríki.

Víðar en í Austurríki hefur komið fram, að kjósendur, sem óttast um stöðu sína í lífinu, eru hallir undir lýðskrumara, sem vara við nýbúum, fjölþjóðasamtökum, skattheimtu ríkisins og aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Þetta hefur birzt í ýmsum myndum á Vesturlöndum.

Margir muna enn eftir Glistrup í Danmörku og hliðstæðri hreyfingu í Noregi. Í Frakklandi er Le Pen enn í fullum gangi. Skrumið í Berlusconi á Ítalíu minnir um sumt, en ekki annað, á þessar hreyfingar. Oft hafa flokkar af þessu tagi náð töluverðu atkvæðamagni um tíma.

Kvíðinn í hugarfari kjósenda þessara flokka er hliðstæður kvíðanum í hugarfari þeirra kjósenda, sem nú styðja arftaka kommúnistaflokka í Austur-Evrópu, einkum í Sovétríkjunum, þar sem nýkommúnistaflokkurinn keppir við nýfasistaflokk Zhírínovskís um kjósendur.

Í Frakklandi hefur komið í ljós, að margt fátækt fólk, sem áður studdi franska kommúnistaflokkinn, hefur flutt stuðning sinn til Le Pens. Þannig færast kjósendur beint milli jaðranna í stjórnmálunum án þess að koma við á miðjunni, þar sem venjulegu flokkarnir eru.

Mikilvægt er fyrir vestræn lýðræðisríki að takmarka gengi stjórnmálaafla af þessu tagi með því að spilla fyrir þeim jarðveginum. Ábyrg stjórnmálaöfl þurfa að haga málum á þann veg, að ekki leiði til nagandi kvíða hjá fólki, sem ekki stendur traustum fótum í lífinu.

Miklvægt er, að atvinnuleysi fari ekki úr böndum og að tekjubil ríkra og fátækra mjókki fremur en breikki. Mikilvægt er, að skattheimta ríkisins af almenningi haldist í hófi og að ráðamenn sói ekki opinberum peningum. Stjórnmálin þurfa að gæta hagsmuna hinna kvíðafullu.

Festa af öllu tagi dregur úr ótta og kvíða. Við innflutning nýbúa þarf að gæta varúðar, svo að ekki leiði til spennu í þjóðfélaginu. Haga þarf málum á þann veg, að þeir samlagist þjóðfélaginu og séu ekki geymdir í sérstökum hverfum fátæktar, ofbeldis og atvinnuleysis.

Í Austurríki virðist jarðvegur kvíðans hafa magnazt á undanförnum árum. Einkum eru það nýbúar og aðhaldsaðgerðir ríkisins í tengslum við aðildina að Evrópusambandinu, sem koma almenningi í uppnám, auk þess sem margir minnast þar enn Hitlerstímans af angurværð.

Hér er minna um vandræði af þessu tagi en í flestum lýðræðisríkjum. Bilið milli ríkra og fátækra hefur löngum verið fremur mjótt. Bjartsýni hefur verið landlæg og atvinnuleysi lítið sem ekkert fram á síðustu ár. Nýbúar hafa komið fáir í einu og dreifzt um þjóðfélagið.

Engin hætta er á, að hér á landi rísi íslenzkur Haider eða Le Pen. Eigi að síður er mikilvægt, að við tökum eftir gengi slíkra stjórnmálamanna og lærum að þekkja jarðveginn, sem nærir gríðarlegt fylgi þeirra. Við getum komið í veg fyrir, að slíkur jarðvegur myndist hér.

Fyrst og fremst þarf fólk að geta treyst, að hagsmuna þess sé gætt af hálfu þeirra, sem stjórna landinu hverju sinni, svo að þorri fólks fari ekki að kvíða næsta degi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ferðaþjónusta allt árið

Greinar

Ef takast á að lengja ferðamannavertíð landsins, þarf að bjóða fleira en sumarsól og sumarfagra póstkortanáttúru. Eitthvað verður líka að geta freistað erlendra ferðamanna á öðrum árstímum og síðan haldið jákvæðri athygli þeirra, þegar þeir eru komnir til landsins.

Ráðstefnur, ársfundir og sýningar eru ein efnilegu leiðanna að þessu marki. Að hluta til njótum við þar ákveðinnar sjálfvirkni, því að ýmsar stofnanir eru að reyna að safna löndum í mannfundaskrá sína. Röðin kemur um síðir að Íslandi, þegar þannig er hugsað.

Hins vegar gerum við lítið til að fá þetta fólk til að minnast dvalarinnar hér á landi, segja öðrum frá henni og jafnvel koma sjálft hingað aftur við önnur tækifæri. Margt af innviðum ferðaþjónustunnar leggst í dvala á hausti og vaknar ekki aftur fyrr en að vori.

Gistihús, veitingastaðir og ráðstefnusalir í Reykjavík eru upp að vissu marki frambærilegar, en engan veginn svo minnisstæðar stofnanir, að þær geti talizt eins konar ferðamannaparadísir. Yfirleitt líkjast þær hliðstæðum og hversdagslegum miðlungsstofnunum í útlöndum.

Bláa lónið við Svartsengi er um það bil að taka við af Gullfossi og Geysi sem einkennistákn landsins. Það hefur þann kost að nýtast til ferðaþjónustu allt árið og vera í seilingarfjarlægð þeirra ferðamanna, sem eru á Reykjavíkursvæðinu og hafa lítinn tíma til umráða.

Reykjavíkurborg og Hitaveitan geta lært af reynslunni af Bláa lóninu, hannað landnýtingu og mannvirki á Nesjavöllum með hliðsjón af útivist og slökun og haft frumkvæði að stofnun þróunarfélags um fjölbreytta ferðamanna- og heilsuræktarþjónustu á staðnum.

Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu geta tekið til hendinni og boðið ýmsar fleiri tegundir af sérstæðri afþreyingu að vetrarlagi, til dæmis með áherzlu á hollustu og hreyfingu. Þar með má telja gönguferðir og hestaferðir, gönguskíðaferðir á jökli og dorgveiði á ís.

Akstursíþróttir í sandgryfjum kunna einnig að freista sumra, enn fremur vélsleðaferðir um jökla, fjallatrukkaferðir um óbyggðir og skotveiði á sjó og landi. Í öllum þessum tilvikum og þeim, sem áður var getið, er náttúra landsins höfð að bakgrunni athafna ferðamannsins.

Jarðhitinn nýtist ekki aðeins til sundlauga og heitra potta, heldur einnig til leirbaða, sem síðan tengjast náttúrulækningum og mataræði, eins og við þekkjum frá Heilsustofnun í Hveragerði. Afeitrunarstöðvar áfengis, tóbaks og ofáts geta einnig verið þáttur ferðaþjónustu.

Sameiginlegt með öllum þessum hugmyndum er, að þær nýtast ferðaþjónustunni að vetrarlagi og gera ráð fyrir eigin þátttöku ferðamannsins í einhverri hreyfingu, sporti eða hollustu, með hrikalega náttúru landsins að bakgrunni. Ýmsa þessa þætti má selja sameiginlega.

Ein helzta dægrastytting ferðamanna er búðarápið. Merkjavöruverzlanir í Reykjavík geta tekið saman höndum um að tryggja, að álagning á merkjavöru í verzlunum félagsmanna hækki ekki frá því sem nú er og verði áfram lægri en hún er yfirleitt í heimalöndum ferðamanna.

Einna lakast er ástandið í söfnum. Ekkert safn á Íslandi er ferðamönnum minnisstætt. En safnahúsið við Hverfisgötu má innrétta sem ferðalagasafn í margmiðlunarstíl með Guðríði Þorbjarnardóttur að grunnþema, ferðir hennar til Grænlands, Vínlands og Rómar.

Þannig er unnt að smíða innviði ferðaþjónustu að vetrarlagi og seiða hingað fleiri ferðamenn, einkum þá, sem hafa dýrari lífsstíl en þeir, sem nú koma að sumri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólögleg skömmtunarlög

Greinar

Samkvæmt nýjum hæstaréttardómi mátti Alþingi ekki framselja utanríkisráðuneytinu skömmtunarvald til að starfrækja svonefnda Aflamiðlun, sem hefur reynt með hagsmunaaðilum að takmarka framboð á íslenzkum ferskfiski á uppboðsmarkaði í erlendum höfnum.

Í dómsniðurstöðum segir, að Alþingi hafi framselt framkvæmdavaldinu of víðtækt vald í lögum frá 1988, sem Aflamiðlun starfar eftir. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum áður reynt í dómum sínum að hafa hemil á valdaafsali Alþingis og stýra því í þröngar skorður.

Til þess að dómurinn hafi fordæmisgildi verður Alþingi að taka mark á honum og fækka heimildarákvæðum, sem tröllríða lögum. Ekkert bendir til, að Alþingi hafi séð að sér eftir fyrri dóma, svo að ekki er sjálfkrafa hægt að gera ráð fyrir, að það geri slíkt núna.

Valdaafsalssinnar munu benda á og hafa raunar þegar gert, að meirihluti hafi verið naumur í þessum nýja dómi, þrír dómarar á móti tveimur. Ekki er því víst, að Hæstiréttur verði alltaf sjálfum sér samkvæmur. Hann kann síðar að dæma valdaafsali löggjafarvaldsins í vil.

Í leiðurum DV hefur oft verið gagnrýnt, að Alþingi framselur framkvæmdavaldinu vald sitt með því að hlaða í ný lög ákvæðum, sem heimila ráðherra að gera hitt og þetta, ef honum sýnist. Þetta hefur breytt þjóðskipulaginu hér úr þingræði í eins konar ráðherralýðræði.

Algengt er, að lög frá Alþingi smíði ramma, sem ráðherrum er ætlað að fylla með reglugerðum. Samkvæmt hæstaréttardómum er þetta ekki beinlínis bannað, en þarf að vera í þröngum skorðum. Reglugerðirnar mega ekki skerða réttindi, sem tryggð eru í stjórnarskrá.

Daglegu lífi og atvinnulífi er að umtalsverðu og hættulegu leyti stjórnað með reglugerðum, sem ráðherrar setja að eigin geðþótta. Þess vegna snýst þjóðin í kringum ráðherrana, sem geta skammtað fólki og fyrirtækjum lífsskilyrði nokkurn veginn alveg eftir eigin höfði.

Þetta séríslenzka kerfi ráðherralýðræðis er í senn andstætt stjórnarskrá lýðveldisins og andstætt vinnubrögðum í lýðræðisríkjum. Engin teikn hafa enn sézt á lofti um, að alþingismenn átti sig eða vilji átta sig á þessu. Ef til vill breytist það með nýja dóminum.

Þar sem þau frumvörp til laga, sem afgreiðslu hljóta, eru nærri undantekningarlaust samin undir handarjaðri ráðherra í ráðuneytunum, þarf Alþingi að gera sérstakar og altækar ráðstafanir, ef það hyggst endurheimta valdið, sem því er ætlað í stjórnarskrá lýðveldisins.

Alþingi getur komið sér upp frumvarpsskoðunardeild, þar sem lögmenn hafa það hlutverk að leita að heimildarákvæðum í frumvörpum úr ráðuneytum, ýmist til að fella þau niður eða takmarka svigrúm þeirra, svo að þau stríði ekki gegn stjórnarskrá og dómvenju.

Raunar verður ekki séð annað en, að Alþingi þurfi að koma sér upp lagaþekkingu, svo að það þurfi ekki ítrekað að fyrirverða sig fyrir að hafa sett lög, sem Hæstiréttur síðan segir vera ólögleg. Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir Alþingi að sæta sífelldum áminningum.

Aflamiðun verður væntanlega lögð niður í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Menn munu öðlast frelsi til að selja afla sinn eins og þeim þóknast. Þá mun það merkilega koma í ljós, að enginn mun sakna Aflamiðlunar og að lífið mun halda áfram sinn vanagang án hennar.

Þannig mun einnig koma í ljós, ef á reynir, að daglegt líf mun blómstra, þótt felldar séu úr gildi ótal reglugerðir, sem ráðherrar hafa sér nú til dægrastyttingar.

Jónas Kristjánsson

DV