Samkvæmt nýjum hæstaréttardómi mátti Alþingi ekki framselja utanríkisráðuneytinu skömmtunarvald til að starfrækja svonefnda Aflamiðlun, sem hefur reynt með hagsmunaaðilum að takmarka framboð á íslenzkum ferskfiski á uppboðsmarkaði í erlendum höfnum.
Í dómsniðurstöðum segir, að Alþingi hafi framselt framkvæmdavaldinu of víðtækt vald í lögum frá 1988, sem Aflamiðlun starfar eftir. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum áður reynt í dómum sínum að hafa hemil á valdaafsali Alþingis og stýra því í þröngar skorður.
Til þess að dómurinn hafi fordæmisgildi verður Alþingi að taka mark á honum og fækka heimildarákvæðum, sem tröllríða lögum. Ekkert bendir til, að Alþingi hafi séð að sér eftir fyrri dóma, svo að ekki er sjálfkrafa hægt að gera ráð fyrir, að það geri slíkt núna.
Valdaafsalssinnar munu benda á og hafa raunar þegar gert, að meirihluti hafi verið naumur í þessum nýja dómi, þrír dómarar á móti tveimur. Ekki er því víst, að Hæstiréttur verði alltaf sjálfum sér samkvæmur. Hann kann síðar að dæma valdaafsali löggjafarvaldsins í vil.
Í leiðurum DV hefur oft verið gagnrýnt, að Alþingi framselur framkvæmdavaldinu vald sitt með því að hlaða í ný lög ákvæðum, sem heimila ráðherra að gera hitt og þetta, ef honum sýnist. Þetta hefur breytt þjóðskipulaginu hér úr þingræði í eins konar ráðherralýðræði.
Algengt er, að lög frá Alþingi smíði ramma, sem ráðherrum er ætlað að fylla með reglugerðum. Samkvæmt hæstaréttardómum er þetta ekki beinlínis bannað, en þarf að vera í þröngum skorðum. Reglugerðirnar mega ekki skerða réttindi, sem tryggð eru í stjórnarskrá.
Daglegu lífi og atvinnulífi er að umtalsverðu og hættulegu leyti stjórnað með reglugerðum, sem ráðherrar setja að eigin geðþótta. Þess vegna snýst þjóðin í kringum ráðherrana, sem geta skammtað fólki og fyrirtækjum lífsskilyrði nokkurn veginn alveg eftir eigin höfði.
Þetta séríslenzka kerfi ráðherralýðræðis er í senn andstætt stjórnarskrá lýðveldisins og andstætt vinnubrögðum í lýðræðisríkjum. Engin teikn hafa enn sézt á lofti um, að alþingismenn átti sig eða vilji átta sig á þessu. Ef til vill breytist það með nýja dóminum.
Þar sem þau frumvörp til laga, sem afgreiðslu hljóta, eru nærri undantekningarlaust samin undir handarjaðri ráðherra í ráðuneytunum, þarf Alþingi að gera sérstakar og altækar ráðstafanir, ef það hyggst endurheimta valdið, sem því er ætlað í stjórnarskrá lýðveldisins.
Alþingi getur komið sér upp frumvarpsskoðunardeild, þar sem lögmenn hafa það hlutverk að leita að heimildarákvæðum í frumvörpum úr ráðuneytum, ýmist til að fella þau niður eða takmarka svigrúm þeirra, svo að þau stríði ekki gegn stjórnarskrá og dómvenju.
Raunar verður ekki séð annað en, að Alþingi þurfi að koma sér upp lagaþekkingu, svo að það þurfi ekki ítrekað að fyrirverða sig fyrir að hafa sett lög, sem Hæstiréttur síðan segir vera ólögleg. Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir Alþingi að sæta sífelldum áminningum.
Aflamiðun verður væntanlega lögð niður í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Menn munu öðlast frelsi til að selja afla sinn eins og þeim þóknast. Þá mun það merkilega koma í ljós, að enginn mun sakna Aflamiðlunar og að lífið mun halda áfram sinn vanagang án hennar.
Þannig mun einnig koma í ljós, ef á reynir, að daglegt líf mun blómstra, þótt felldar séu úr gildi ótal reglugerðir, sem ráðherrar hafa sér nú til dægrastyttingar.
Jónas Kristjánsson
DV