5. Sjáland – Víkingaskipasafnið

Borgarrölt
Víkingaskip í Roskilde, Sjælland

Víkingaskip í Roskilde

Víkingaskipasafnið

Eftir þessa skoðun höldum við okkur enn við A6 og ökum þriggja stundarfjórðunga leið til Hróarskeldu (Roskilde). Við fylgjum þar fyrst vegvísum til miðbæjarins, en höfum við hringtorg augun opin fyrir vegvísi til Víkingaskipasafnsins á hægri hönd.

Safnið var opnað 1969. Þar eru til sýnis fimm skip frá 1000-1050, sem sökkt var í mynni fjarðarins á sínum tíma, sennilega til að hefta för norskra víkinga. 70% viðar skipanna hafa varðveitzt og hafa skipin verið lagfærð af nostursemi.

Roskilde Domkirke, Sjælland

Roskilde Domkirke

Hér er líklega að finna eina skipið þeirrar tegundar, sem víkingaaldarmenn notuðu til siglinga til Íslands, Grænlands og Ameríku. Það er knörrinn. Hin skipin eru kaupskip, ferja, fiskibátur og langskip til hernaðar.

Hróarskeldukirkja

Við förum til baka afleggjarann að hringtorginu og höldum inn í miðbæinn til dómkirkjunnar.

Undirstöður hennar eru taldar vera frá tíma Absalons biskups um 1170, en turnspírurnar komu ekki á hana fyrr en 1635.

Í dómkirkjunni eru líkkistur danskra konunga og drottninga frá síðustu 1000 árum, gerðar sumar úr marmara og aðrar úr alabastri. Í kapellu Kristjáns I er súla, þar sem merkt er hæð konunglegra gesta. Kirkjan skemmdist í eldi 1968, en hefur verið lagfærð.

Næstu skref