4. Sevilla – Alcázar

Borgarrölt
Patio de la Doncellas, Alcázar, Sevilla

Patio de la Doncellas, Alcázar

Alcázar

Eini hluti borgarkastalans, Alcázar, sem er frá márískum tíma, er veggriðið, sem skilur á milli fremra portsins, Patio de la Montería, og innra portsins, Patio del León. Að öðru leyti er kastalinn að mestu byggður á valdaskeiði kristins konungs, Péturs hins grimma, 1364-1366.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Hann lét hanna kastalann í márískum stíl, undir greinilegum áhrifum frá Alhambra í Granada, enda voru iðnaðarmennirnir Márar. Hann kunni ekki arabisku og vissi ekki, að í skrautbeðjum veggjanna höfðu þeir skráð: “Það er enginn sigurvegari nema Allah”. Íslamskur byggingastíll hélt velli á Spáni í samkeppni við ítalskan og franskan stíl lengi eftir að Márar höfðu verið hraktir á brott. Alcázar í Sevilla er bezta og hreinasta dæmið, sem til er um márískan stíl frá kristnum tíma.

Innan við Patio del León er höll Péturs. Í henni er innsta portið, Patio de las Doncellas, upprunalega í tærum Alhambra-stíl með oddbogagöngum á alla vegu. Á 16. öld var bætt ofan á hæð með bogagöngum, sem stinga í stúf.

Fyrir innan höll Péturs er víðáttumikill kastalagarður með klipptum runnaröðum, trjágöngum, garðhýsi Karls V, tjörnum og blómum. Þar inn af er svo minna þrautskipulagður garður á vinstri hönd.

Næstu skref