4. City – City

Borgarrölt

 

Bank of England & Royal Exchange, London 2

Bank of England & Royal Exchange

Þegar við komum upp úr Bank neðanjarðarstöðinni (J/I2), erum við á frægu horni, þar sem mætast sjö af höfuðstrætunum í City. Hér getum við litið inn eftir Þráðnálarstræti, Threadneedle Street. Þar er Englandsbanki á vinstri hönd, Konung-lega kauphöllin á hægri og Verðbréfamarkaður-inn í bakgrunni. Þetta er hjarta bankahverfisins í þungamiðju kaupsýsluhverfisins, City.

Þráðnálarstræti minnir á markaðinn, sem hér var í gamla daga, eins og aðrar nálægar götur minna líka á: Cornhill, Poultry, Cheapside, Eastcheap og Bread Street. En fátt annað minnir hér á gamla tíma. Eftir eyðingu í seinni heimsstyrjöldinni var þessi hluti borgarinnar endurreistur í andstyggilegum bankastíl undanfarinna áratuga.

Bjórburður í City, London

Bjórburður í húsasundi í City

Og þó. Við skulum ganga um 100 metra eftir Cornhill og skjótast inn í annað eða þriðja sundið, sem liggur yfir til Lombard Street. Þarna finnum við völundarhús göngusunda, sem minna á gamla tíma. Þar eru til dæmis notalegir nágrannar, kráin George & Vulture og vínbarinn Jamaica Wine House. Hinn fyrri er sex alda gamall og hinn síðari er þriggja alda.

Ef við höldum áfram göngusundin milli Cornhill og Lombard Street og förum yfir Gracechurch Street, komum við að Leadenhall markaði, sem hefur verið rekinn frá rómverskum tíma. Þar er nú selt í smásölu kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir og ostur. Aðaláherzlan er á villibráð. Þar kaupa menn lynghænur og orra fyrir stórhátíðir.

 

Leadenhall Market, London

Leadenhall Market

The Monument, London

The Monument

Frá markaðnum förum við Gracechurch Street niður að The Monument, sem er minnisvarði um brunann mikla árið 1666, þegar nánast allt City brann til kaldra kola. Einu sinni var útsýni frá toppi varðans, en það hafa háhýsi eftirstríðsáranna að mestu eyðilagt.

Næst liggur leiðin vestur yfir King William Street, inn Arthur Street og þaðan um göngusund vestur að Cannon Street neðanjarðarstöðinni. Rétt við Arthur Street verður á vegi okkar vínbarinn Olde Wine Shades í húsi, sem er frá 1663, þremur árum fyrir brunann mikla.

Á þessari hringleið um hjarta City hefðum við getað skoðað nokkrar af kirkjum þeim, sem arkitektinn Christopher Wren byggði árin eftir brunann. Sérstakir aðdáendur hans geta samtals fundið í City 29 kirkjur af teikniborði hans, en við látum okkur nægja eina, þá sem sagt verður frá í næstu gönguferð.

Næstu skref