3. Sevilla – Giralda

Borgarrölt

Giralda

Giralda, Sevilla

Giralda

Norðan við austurdyr kirkjunnar er kirkjuturninn, Giralda. Hann er frá síðari hluta 12. aldar og var þá kallturn moskunnar, er áður var þar, sem kirkjan stendur nú. Hann er 98 metra hár og breiður eftir því, úr bleikum múrsteini, ferstrendur eins og tíðkaðist í vesturhluta íslams, en ekki sívalur eins og tíðkaðist í Persíu og austurhluta íslams.

Stíllinn er greinilega márískur, frá valdaskeiði Almóhaða, sem voru harðlínumenn í trúmálum og andvígir glysi. Þess vegna er turninn í mjög formföstum línum, með reglubundnum oddskeifugluggum og fíngerðu skarti. Á 16. öld var bætt ofan á turninn einni skrautlegri hæð og kristnu klukknaporti. Að innanverðu er spírallaga hringbraut upp turninn, þaðan sem er gott útsýni yfir borgina.

Ef farið er norður fyrir kirkjuna, er hægt að komast inn í garð appelsínutrjánna, Patio de los Naranjos, sem líka er leif frá márískum tíma. Slíkir garðar eru hefðbundinn hluti íslamskra moska

Lonja

Lonja

Lonja

Til að komast frá dómkirkjunni til borgarkastalans er gengið yfir torgið Plaza del Triunfo. Þar er á hægri hönd Vestur-Indíasafnið í höll, er var reist 1572 sem kauphöll, Lonja, þegar Sevilla var höfuðborg Ameríkusiglinga, teiknuð af Juan de Herrera, sem einnig hannaði konungshöllina El Escorial við Madrid. Þar inni eru meðal annars sýnd gömul siglingakort og gömul kort af bæjum í rómönsku Ameríku.

Næstu skref