3. Barcelona – Plaça del Rei

Borgarrölt

Barri Gòtic

Museu Frederic-Mares, Barcelona

Museu Frederic-Mares

Hér hefst hinn gotneski, gamli hluti miðborgarinnar, Barri Gòtic, með þröngum og krókóttum húsasundum, fullur af kaffihúsumog veitingahúsum. Nafnið stafar af því, að mörg hús í hverfinu eru í gotneskum stíl frá 13.-15. öld.
Við skulum ganga inn sundið Comtes norðan við kirkjuna. Þar er konungshöll Aragóns vinstra megin sundsins, andspænis dómkirkjunni. Þar bjuggu greifarnir af Barcelona, sem urðu kóngar af Aragón eftir 1137. Núna eru þar söfn. Fyrst komum við að listasafninu Museu Frederic-Marès. Síðan komum við að fornskjalasafninu, sem er í varakonungshöllinni frá endurreisnartíma, Palau del Lloctinent. Hér framundan til hægri er veitingahúsið Cuineta. Við beygjum hins vegar til vinstri og förum inn á konungstorg, Plaça del Rei.

Plaça del Rei

Placa del Rei, Barcelona

Placa del Rei, Torre del Rei Martí vinstra megin, Saló del Tinell fyrir miðju

Við sjáum hér frá Plaça del Rei hina hliðina á varakonungshöllinni. Fyrir enda torgsins er Saló del Tinell, hinn gamli 14. aldar veizlu- og hásætissalur hallarinnar, með frægum tröppum fyrir framan, þar sem Ferdinand Aragónskóngur og Ísabella Kastilíudrottning eru sögð hafa tekið á móti Kristófer Kólumbusi, er hann kom frá fyrstu Ameríkuferð sinni.

Yfir Tinell-sal gnæfir Torre del Rei Martí, 16. aldar útsýnisturn með margra hæða súlnariðum. Hægra megin, andspænis varakonungshöllinni, er konungskirkjan Capella de Santa Agata, gotnesk kirkja frá 14. öld. Suðaustan við torgið, andspænis Tinell-sal, er Casa Clariana Padellòs, 16. aldar hús. Þar og í öðrum mannvirkjum umhverfis torgið er borgarsögusafnið til húsa, Museu d’Història de la Ciutat.

Við göngum áfram suðaustur meðfram Casa Clariana Padellòs og beygjum til vinstri eftir götunni Libreteria, þar sem við komum strax að torginu Plaça de l’Ángel, þar sem hótelið Suizo er. Ef við skreppum norður frá torginu, komum við á Plaça de Ramón Berenguer el Gran, þar sem við sjáum Capella de Santa Agata frá hinni hliðinni, þar sem hún er reist utan í og ofan á gamla borgarmúrnum utan um Barri Gòtic.

Næstu skref