D. Suðvesturborgin

Amsterdam, Borgarrölt
Koninklijk Paleis & Nieuwe Kerk, Amsterdam

Koninklijk Paleis & Nieuwe Kerk

Enn hefjum við ferð frá Dam, en í þetta sinn byrjum við í hinum enda torgsins, fyrir framan konungs-höllina og Nieuwe Kerk. Við höfum áður lýst lífinu á torginu, svo að við snúum okkur strax að konungshöllinni.

Koninklijk Paleis, Amsterdam

Koninklijk Paleis

Höllin var reist 1655 sem ráðhús borgarinnar á miðri auðsældaröld hennar. Hún er teiknuð af Jacob van Campen í síðbúinni, hollenzkri útgáfu af endurreisnarstíl, svokölluðum palladískum fægistíl. Við tökum eftir einkar formföstum hlutföllum hallarinnar, mildum útskotum, veggsúlnariðum og lárétt
ri skiptingu milli hæða.

Höllin minnir raunar á sum ráðhús 16. aldar. Allur útskotni miðbálkurinn er einn risastór og bjartur salur, sem lengi var hinn stærsti í heimi. lnni í höllinni eru ein hin beztu dæmi um Empire húsgögn, arfur frá Louis Bonaparte, er skyndilega hafði sig á brott héðan.
Þessi volduga höll var sem ráðhús ein helzta miðstöð hollenzka heimsveldisins í hálfa aðra öld. Þegar Napóleon Bonaparte tók Holland 1808, gerði hann bróður sinn, Louis, að kóngi í ráðhúsinu. Það konungsveldi varð skammvinnt, en síðan hefur ráðhúsið verið konungshöll landsins.Að vísu býr drottningin ekki þar, því að tæpast er hægt að búa í höll með háværum umferðaræðum á alla vegu, hafandi ekki einu sinni garð á milli. Hún býr að venju í Haag og kemur bara hingað í opinberar móttökur eða til að gista eina nótt í senn.

Höllin er opin almenningi á sumrin 12:30-16 og veturna sömu tíma á miðvikudögum. Gestir geta gert sér í hugarlund, að það þurfti 13.659 tréstaura til að halda höllinni uppi í mýrinni. Að skilnaði skulum við minnast þess, að höllin er eitt fullkomnasta skólabókardæmi um ákveðinn byggingarstíl í fortíðinni.

Næstu skref