Yfirstétt Íslands

Greinar

Óhætt er að segja, að menn eru almennt hneykslaðir á nýgerðum kjarasamningum flugmanna og flugfélaga. Þessir samningar eru köld vatnsgusa í andlit þjóðar, sem býr við lækkandi þjóðartekjur og óvenjulega efnahagserfiðleika.

Einkum eru samningarnir þó hnefahögg í andlit láglaunafólks í landinu. Fulltrúar þess hafa setið á löngum fundum með vinnuveitendum, þar sem rætt hefur verið og reiknað af sanngirni og ábyrgð um afkomu þjóðarbúsins og greiðslugetu atvinnuveganna.

Þegar láglaunafólk hefur náð samningum, sem fara bil beggja og taka bæði tillit til rekstrarerfiðleika heimilanna og fyrirtækjanna, koma flugmenn og ná kjarabótum, sem nema meiru en launum láglaunafólks, og í sumum tilvikum rúmlega tvöföldum launum þess.

Flugleiðir hafa verið reknar með halla að undanförnu og hafa fengið mjög háa ríkisábyrgð til þotukaupa. Sú aðstoð var mjög umdeild í vor, þegar Alþingi hafði hana til meðferðar. Menn gagnrýna því Flugleiðir harðlega eftir samninga, sem kosta fyrirtækið allt að 200 milljónum króna á ári, og segja: Á þessu þykist þið hafa efni.

Forystumenn Flugleiða verja sig og segja samningana hreina nauðungarsamninga. Stéttarfélög flugliða, einkum flugmannafélagið, hafi algert kverkatak á fyrirtækinu. Fyrirtækið mundi ramba á barmi gjaldþrots og glata markaðsaðstöðu, ef flugliðar færu í verkfall.

Jafnvel hægagangsaðgerðir geta sett allan rekstur Flugleiða úr skorðum, svo sem reynslan sýnir. Ekki bætir úr skák, að félög flugliða semja hvert í sínu lagi, þannig að fyrirtækið getur fengið á sig tvö eða fleiri verkföll í einni samningahrinu.

Það hefur engin áhrif á þetta kverkatak, þótt mikil offramleiðsla sé á lærðum atvinnuflugmönnum. Flugleiðir verða að festa stórfé í námi flugmanna þess á hverri flugvélartegund fyrir sig. Þessi kostnaður leiðir til þess, að fjárfestingin í hverjum flugmanni er orðin svo gífurleg, að ódýrara er að ganga að kröfum hans en að missa hann til erlendra flugfélaga.

Samkvæmt nýju samningunum eru byrjunarlaun flugstjóra 215.000-260.000 krónur eftir flugvélartegund og 348.000 -420.000 eftir fullan starfsaldur. Byrjunarlaun aðstoðarflugmanna eru 159.000 krónur.

Þessar gífurlegu tölur slá ekki einungis út ráðherra og hæstaréttardómara, heldur einnig þá lækna, sem vinna nótt sem nýtan dag. Þessi laun eru gersamlega úr sambandi við önnur laun í þjóðfélaginu.

Hækkunin ein nemur 70.000-100.000 krónum á mánuði. Hún er meiri en mánaðarlaun láglaunafólks og í sumum tilvikum meiri en tvöföld laun þess. Í prósentum nemur hækkunin 24,4%, auk 5%, sem áður hafði verið samið um.

Þessir samningar hafa þegar komið illu af stað í þjóðfélaginu. Almenningur sér, hvílíkum árangri einstefnumenn geta náð, ef þeir svífast einskis í eiginhagsmunastefnu sinni. Þessir samningar eru vægast sagt hörmulegir, enda hefur Alþýðusambandið fordæmt þá harðlega.

Jónas Kristjánsson

Vísir