Bíleigendur leggja ekki hart að sér, þótt þeir fari út í bíla sína klukkan hálf átta í kvöld til að þeyta flautur þeirra í tvær mínútur. Það er einföld og auðveld aðgerð, enda verður þátttakan vafalaust mikil.
Félag íslenzkra bifreiðaeigenda tekur litla áhættu í þessum flautuleik. En hann einn sýnir heldur ekki stjórnvöldum, að bíleigendur séu harðir í horn að taka. Landsfeður munu bara yppta öxlum og halda áfram að hækka bensínið.
Þess vegna hefur Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hætt sér út á hálari ís. Það hefur skorað á bíleigendur að leggja hart að sér á morgun með því að skilja bilana eftir heima allan daginn. Þar er til mikils mælzt.
Félagið tekur mikla áhættu með þessari ósk. Ekkert er enn vitað um samstöðu bíleigenda. Þeir kunna að mikla fyrir sér gönguferð í vinnu eða troðfulla strætisvagna á eftir áætlun. Ef til vill finnst þeim nóg að flauta.
En menn ná heldur ekki árangri nema taka áhættu. Og einhvern tíma varð að koma að því, að Félag íslenzkra bifreiðaeigenda tæki á sig rögg og gerði alvöru liðskönnun á þrýstihóp sínum til að prófa styrk sinn.
Léleg þátttaka bíleigenda í aðgerð morgundagsins sýnir landsfeðrum, að bíleigendur séu pappírstígrisdýr. Þeir kvarti og kveini, en beri ekki hönd fyrir höfuð sér. Þeir séu einfaldlega ekki marktækur þrýstihópur.
Hingað til hafa stjórnvöld vafalítið hugleitt fyrir hækkanir, hvort þær muni ofbjóða bíleigendum. Eftir lélega þátttöku á morgun munu landsfeður sannfærast um, að bíleigendum verði ekki ofboðið. Bensínhækkanir verða meiri og örari en áður.
Góð þátttaka bíleigenda í aðgerð morgundagsins sýnir yfirvöldum, að bíleigendur séu afl, sem taka verði tillit til. Þeir séu marktækur þrýstihópur, sem geti valdið landsfeðrum vandræðum, þegar bensínokur gengur út í öfgar.
Einstakir þingmenn, sem eru næmari fyrir almenningsáliti en hinir, munu verða hræddir. Þeir munu reyna að halda aftur af okurgleði ráðherra sinna. Þeir vilja ekki, að bensínhækkanir leiði til missis ástkærra þingsæta.
Landsfeður munu í fyrsta sinn líta á bíleigendur sem þrýstihóp, er sé til alls vís. Þeir munu hugsa málið betur en nokkru sinni fyrr, næst þegar hvarflar að þeim, að ríkið þurfi fleiri krónur af hverjum bensínlítra.
Hitt skiptir þó enn meira máli, að bíleigendur verða búnir að finna mátt sinn og megin í samstöðunni. Þeir munu verða óragir til frekari og harðari aðgerða. Þeir munu ekki hætta fyrr en þeir eru búnir að taka landsfeður á taugum.
Enginn sigur vinnst án fyrirhafnar. Bíleigendur verða að vera þess albúnir að leggja hart að sér til að sýna stjórnvöldum, að þeim sé full alvara, þeir séu ekki bara marklausir vælukjóar. Á morgun sýna þeir, hvað þeir eru.
Spennandi verður að sjá, hvað bíleigendur gera í fyrramálið. Verða þeir værukærir og láta kúga sig hér eftir sem hingað til? Eða hrista þeir af sér hlekkina og gera landsfeður hrædda um mjúka valdastóla?
Dagblaðið skorar á alþjóð að nota þetta þungbæra tækifæri og sýna ráðamönnum þjóðarinnar, að þeir hafa farið yfir mörk velsæmis í bensínokri. Dagblaðið skorar á alþjóð að gera morgundaginn að fyrstu kennslustund í fjölbreyttri röð, sem ekki ljúki fyrr en landsfeður hafa lært lexíuna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið