Fyrr á árum stungu hús og lóðir á Reykjavíkursvæðinu í stúf við umhverfi sitt, ef húsin voru vel frágengin og máluð og lóðirnar ræktaðar og vel hirtar. Nú stinga hins vegar húsin og lóðirnar í stúf við umhverfi sitt fyrir hirðuleysi, ef húsin eru skellótt og lóðirnar óræktaðar.
Svipur borgarinnar er ört að breytast úr gullgrafarasvip eftirstríðsáranna í snyrtilegan höfuðborgarsvip. Umhirða og snyrtimennska, sem áðurvar fremur undantekning, er nú orðin að almennri reglu.
Tíminn styttist óðum frá því að hverfi er byggt og þangað til það er orðið snyrtilegt. Þetta má til dæmis sjá af Árbæjarhverfinu, sem þegar er orðið mjög snyrtilegt, þótt skammt sé síðan það var byggt. Jafnframt er ljóst, að innan fárra ára verða verulegir hlutar Breiðholtshverfa orðnir jafnsnyrtilegir og Árbæjarhverfið er orðið núna.
Sömu sögu er að segja af nágrannabyggðum Reykjavíkur, nema helzt Kópavogi, sem dróst snemma aftur úr öðrum bæjum á svæðinu í gerð gatna og gangstétta og sækir nú á brattann á þeim sviðum.
Gerð gatna og gangstétta hefur ótrúlega mikil áhrif á frágang húsa og lóða. Það var einmitt malbikunin á sínum tíma, sem hleypti skriði á fegrun Reykjavíkur. Hvarf ryksins af götunum auðveldaði borgarbúum að halda húsum sínum og lóðum hreinum og fallegum.
Átakið í gerð gangstétta og grasgeira meðfram götum stuðlaði að sömu þróun. Og hið sama er að segja um hina stórtæku ræktun borgarlandsins, sem nú stendur yfir.
Síðustu árin hefur framtak borgarbúa og borgaryfirvalda haldizt í hendur. Framtak borgarbúa hvetur borgaryfirvöldin til dáða og framtak borgaryfirvalda hvetur borgarbúa til dáða. Þessi víxlverkun er í fullum gangi um þessar mundir, eins og svipur Reykjavíkur ber með sér.
Hið þurra og sólríka sumar á Reykjavíkursvæðinu hefur stuðlað að óvenjumiklum árangri í fegrun borgarinnar á þessu ári. Aldrei hafa nálægt því eins mörg hús verið máluð á einu sumri, enda hefur verið nálega samfelld tíð fyrir húsamálun.
Í framtaki borgaryfirvalda ber mest á því, að stórum njólabreiðum hefur verið breytt í töðuvelli. Þetta er fyrsti liðurinn í umfangsmikilli áætlun um fegrun borgarlandsins, sem unnið verður eftir næstu árin. Þetta er hin svonefnda “græna bylting”.
Samkvæmt henni verður kerfisbundið unnið að því að ganga frá öllum svæðum og spildum innan íbúðahverfa og milli þeirra. Sömuleiðis að því að ljúka gerð gangstétta og grasgeira meðfram götum. Enn fremur að því að leggja sérstaka göngu- og hjólreiðastíga um borgina þvera og endilanga. Einnig að því að gera opnu svæðin að vinalegum útivistarsvæðum eins og gert hefur verið í Laugardal og á Miklatúni. Loks verða sérstök stórútivistarsvæði eins og Elliðaárdalurinn gerð að tiltölulega fullkomnum frístundamiðstöðvum.
Stefnt er að því að ná verulegum árangri á þessum sviðum á næstu fjórum árum, enda á að verja til þess 650 milljónum króna. Það virðist því ljóst, að víxlverkun borgaryfirvalda og borgarbúa á þessu sviði mun halda áfram af auknum krafti á næstu árum. Hinn snyrtilegi höfuðborgarsvipur mun því enn eiga eftir að eflast.
Jónas Kristjánsson
Vísir
