Vitminnsta frumvarpið.

Greinar

Mikill fjöldi manna er réttilega hneykslaður á launahækkunum, sem flugmenn fengu fyrir stuttu og jafngiltu í sumum tilvikum heildarlaunum lágtekjufólks. Sú gremja réttlætir samt ekki hátekjuskattsfrumvarp Árna Gunnarssonar og nokkurra annarra alþýðuflokksmanna á alþingi.

Þeir vilja leggja sérstakan 85% hátekjuskatt á laun, sem eru umfram eina milljón króna á mánuði. Í greinargerð frumvarpsins er því slegið fram, að skatturinn eigi að koma í stað almennra tekjuskatta. Þetta mikilvæga atriði er hins vegar ekki í frumvarpinu sjálfu.

Hinir skattglöðu þingmenn vilja, að hátekjuskatturinn staðgreiðist mánaðarlega. Innheimtuaðferðin á að vera sú, að vinnuveitanda sé skylt að halda eftir 85% af þeim launum, sem eru yfir eina milljón króna á mánuði. Minnir þetta fremur á söluskatt en tekjuskatta þá, sem fyrir eru.

Í tæpa tvo áratugi hafa stjórnvöld verið að undirbúa staðgreiðslu skatta. Athuganir hafa leitt í ljós margvíslega agnúa, sem erfitt er að sníða af. Reynsla annarra þjóða bendir til, að vel þurfi að vanda til slíks kerfis. Og stjórnvöld hafa hingað til ekki talið undirbúninginn nægan.

Svo koma nokkrir galvaskir þingmenn með spánnýjan skatt, staðgreiðslusniðinn, án þess að víkja orði í frumvarpi eða greinargerð að því, hvernig skuli framkvæma staðgreiðsluna í einstökum atriðum. Ekki er einu sinni getið fyrri hugmynda sérfræðinga um, hvernig framkvæma megi.

Ekki vekja þessi vinnubrögð traust, né heldur sú merka staðreynd, að menn eiga samkvæmt frumvarpinu að þurfa að fá milljónina hjá einum og sama vinnuveitanda til að njóta skattskyldunnar. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að fyrirvinnur heimilis geti verið tvær eða ein slík vinni á tveimur stöðum.

Mun athyglisverðara er samt, að frumvarpið er samið á grundvelli þeirrar ímyndunar, að skattskýrslur séu nothæfur mælikvarði á hátekjur. Þess er getið í greinargerð, að galli sé á þessum mælikvarða, en hann ekki talinn mega ráða úrslitum. Það verði að taka því, þótt sumir skammti sér sjálfir.

Frumvarpið nær sem sagt til nokkurs hluta launamanna í hátekjustétt og til enn minni hluta hátekjumanna með sjálfstæðan rekstur. Það nær ekki til launamanna, sem geta komið hluta tekna sinna undan og til sáralítils hluta hinna eiginlegu lúxusmanna þjóðfélagsins, þeirra, sem geta skáldað skattskýrslur frá grunni.

Ef frumvarpið yrði að lögum, mundi það enn magna hið hrikalega misræmi, sem er milli þeirra, er hafa tekjur, mælanlegar á skattskýrslum, og hinna, sem hafa tekjur, er ekki verða mældar á skattskýrslum. Það eykur í raun misrétti í þjóðfélaginu, misrétti, sem er alvarlegra en launahækkun flugmanna.

Margt er vont við frumvarpið, en verst er þó, að það gerir ráð fyrir hækkun hámarks tekjuskatta úr 63,5% í 85%. Almenningur getur auðveldlega áttað sig á, hvernig dæmið lítur út eftir örfárra ára verðbólgu, þegar almennar launatekjur eru komnar yfir eina milljón króna á mánuði.

Segja má, að ríkið geti hækkað hámarkið til samræmis við verðbólgu. En alþjóð veit af reynslunni, að ríkisstjórnir þola ekki freistingar af þessu tagi. Fyrri hámörk voru einu sinni miðuð við örfáa, en eru nú orðin örlög helmings skattgreiðenda. Sagan mundi endurtaka sig með nýju hámarki.

Sennilega er frumvarpið um hátekjuskatt vitminnsta frumvarp vetrarins. Og þá er mikið sagt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið