Vinstri stjórnin féll í kosningunum í gær. Jafnframt virðist nú eðlilegt, að sigurvegari kosninganna, Sjálfstæðisflokkurinn, taki forustu um myndun nýrrar ríkisstjórnar, sem þarf að taka til óspilltra málanna hið fyrsta.
Sigur Sjálfstæðisflokksins var samt ekki nógu mikill til að hindra hugsanlega útvíkkun vinstri stjórnarinnar með þátttöku Alþýðuflokksins. Sá flokkur heldur enn þeirri oddaaðstöðu, sem hann hefur löngum haft í stjórnmálunum.
Fylgi Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins stóð nokkurn veginn í stað í kosningunum og Alþýðuflokkurinn tapaði um hálfu öðru prósentustigi. Fylgi Samtaka frjálslyndra og vinstri manna hrundi hins vegar um nærri helming eða um fjögur prósentustig.
Sjálfstæðisflokkurinn einn sótti verulega á og jók fylgi sitt úr 36,2% í tæp 43% eða um nærri sjö prósentustig. Er slík fylgisaukning næsta fátíð í íslenzkum stjórnmálum. Með þessum sigri er meirihlutafylgi komið í augsýn flokksins í framtíðinni.
Mestur varð sigur flokksins í Reykjaneskjördæmi, þar sem hann fékk 47,1% gildra atkvæða og hækkaði hlutfall sitt um hvorki meira né minna en 10.7 prósentustig. Þetta jafngildir um 30% fylgisaukningu umfram fólksfjölgun í kjördæminu og um 50% fylgisaukningu í beinum atkvæðatölum.
Sigurinn var einnig mikill í Reykjavík, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk meirihluta gildra atkvæða og bætti við sig einum þingmanni eins og í Reykjaneskjördæmi. Úti á landi bætti flokkurinn einnig stöðu sína verulega í flestum kjördæmum. Hlutfall hans jókst um 5-6% á Suðurlandi og 4-5% á Vesturlandi og á Norðurlandi eystra.
Í sjónvarpinu í nótt kallaði Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, þetta “umtalsverðan sigur”, og Magnús Kjartansson ráðherra kallaði hann “óneitanlega geigvænlegan sigur sjálfstæðismanna”. Magnús Torfi ráðherra sagði við sama tækifæri, að í stjórnmálunum lægi “straumurinn greinilega til hægri”.
Einnig var í kosningunum athyglisvert, hve sáralítið fylgi var hjá ýmsum sértrúarflokkum. Sú staðreynd og fylgishrun Samtakanna bendir til þess, að kjósendur kæri sig ekki um flokkaglundroða og sprengiframboð.
Of snemmt er að spá með neinu öryggi um myndun nýrrar stjórnar. Ljóst er þó, að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar mun segja strax af sér,annað hvort á morgun eða hinn daginn. Einnig er ljóst, að Alþingi verður kallað saman um leið og uppbótarþingmenn hafa verið úrskurðaðir.
Þar með er vinstri stjórnin fallin og þar með horfin sú mara, sem hvílt hefur á þjóðinni í þrjú löng ár. Þetta fall og hinn mikli sigur Sjálfstæðisflokksins eru meginniðurstöður þessara tvísýnu kosninga. Kjósendur hafa hafnað framhaldi vinstri stjórnar og óska nú eftir stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins.
Jónas Kristjánsson
Vísir
