Vinnan styttist ekki

Greinar

Þekktasti framtíðarfræðingurinn, Alvin Tofler, spáði árið 1970, að menn mundu hafa svo mikinn tíma aflögu árið 2000, að þeir mundu ekki kunna að nýta hann. Árið 2000 er liðið og vinnutíminn hefur ekki stytzt að ráði. Vinnuvikan er að vísu komin niður í 35 tíma í Frakklandi, en það er sér á parti.

Bandaríkjamenn tala í alvöru um, að Frakkar séu gamaldags og muni af samkeppnisástæðum ekki komast upp með svona stutta vinnuviku. Í Bandaríkjunum er vinnuvikan að lengjast, ekki sízt hjá hátekjufólki, sem hrósar sér af langri vinnu og stuttum svefni. Þetta fólk er Stakkanovitsar nýrrar aldar.

Einu sinni var talað um, að tæknivæðing mundi stytta vinnu, en sú hefur ekki orðið raunin. Meðal annars stafar það af, að samkeppni þriðja heimsins hefur þrýst á samkeppnishæfni fyrirtækja í auðríkjunum. Menn verða að vinna lengur til að koma í veg fyrir, að framleiðsla flytjist til þróunarlanda.

Íslendingar eru meðal þeirra, sem lengst vinna. Hér vinna menn til 67 ára eða 70 ára aldurs. Annars staðar hættir fólk um 65 ára gamalt. Þannig vinna 71% Japana á 60-64 aldri og 57% Bandaríkjamanna. Aðeins 17% Frakka vinna lengur en til sextugs. Að þessu leyti er haf milli okkar og Frakka.

Við höfum líka komið upp uppsöfnunarkerfi ellilífeyris, sem felur í sér, að skattgreiðendur framtíðarinnar þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur af kostnaði við gamalt fólk og þeir þurfa að hafa í Frakklandi og fleiri Evrópulöndum, þar sem ríkið rekur gegnumstreymiskerfi, frestar vandamálinu.

Einstaklingsbundið er, hvort fólk vill hætta að vinna eða vill halda áfram að vinna. Sumpart er ein tegund vinnu skemmtilegri en önnur og sumpart hafa menn mismunandi gott lag á að láta sér líka vel við vinnu. Eðlilegt virðist vera, að gefa fólki kost á vali um vinnutíma og vinnulok.

Það hlýtur að teljast súrt fyrir marga að geta ekki stytt vinnudaginn og hætt fyrr á vinnumarkaði, þrátt fyrir alla vinnusparandi tækni. Miðað við aukningu landsframleiðslu um áratugi, ætti flestum að duga 20 stunda vinnuvika og vinnuæfi til sextugs til að standa undir lifibrauðinu.

Til hvers hefur öll þessi tækni verið, ef menn geta ekki dregið um helming úr vinnu á miðjum aldri og farið að hanga á kaffihúsum um sextugt? Voru hagtölurnar þá bara plat?

DV