Rekstur fangelsa er mjög dýr í nútíma þjóðfélagi. Sem refsing hefur fangelsun takmarkað gildi, annað en að losa þjóðfélagið við afbrotamenn um lengri eða skemmri tíma. Uppeldisgildi fangelsunar er örugglega verra en ekkert.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra, Ólafur Jóhannesson, fól í fyrravor svonefndri Hegningalaganefnd að endurskoða viðurlög við afbrotum, meðal annars með það í huga að auka sektir á kostnað fangelsunar og kanna jafnframt nýjar leiðir á borð við skylduvinnu og -nám.
Síðastliðinn föstudag kom fram í viðtali Dagblaðsins við Steingrím Hermannsson dómsmálaráðherra, að hann er mjög hlynntur slíkri endurskoðun. Svipuð sjónarmið komu fram í ummælum sjö dómara, sem Dagblaðið hafði viðtal við sama dag.
Þjóðfélagsþróunin hefur raskað innra samræmi viðurlaga við afbrotum. Kerfið lítur venjulega þjófnaði of alvarlegum augum, en umfangsmikil fjársvik og fjárdrætti ekki nógu alvarlegum augum.
Þá virðist kerfið ekki líta líkamsárásir og -meiðingar nógu alvarlegum augum í samanburði við þjófnaði. Skyldutryggingar og frjálsar tryggingar valda því, að fórnardýr þjófnaðar komast sjaldnast á kaldan klaka, en árásir valda oft örkumlun.
Við erum enn á sama báti og íbúar Babýlon eftir réttarbót Hammúrabís. Lögin miðast fyrst og fremst við að verja eignafólk gegn smákörlum, en sinna því síður að verja almenning gegn hákörlum á yfirstéttarplani í fjármálum.
Tilgangslítið er að fylla fangelsi af smáþjófum. Þar læra þeir bara listirnar hver af öðrum og herða hver annan upp í að halda áfram á sömu braut. Þar fyrir utan er sennilegt, að þjóðfélagið hafi meiri kostnað af fangelsuninni en afbrotunum.
Auknar sektargreiðslur í stað fangelsunar koma ekki að gagni á þessu sviði. Afbrotamennirnir geta engar sektir greitt. Á þessu sviði kemur því mjög til greina að reyna nýjar leiðir á borð við skylduvinnu og skyldunám.
Öðru máli gegnir um síbrotamenn í morðum, nauðgunum og öðrum líkamsárásum. Þá menn þarf þjóðfélagið að losa úr umferð á varanlegan hátt. Það gerist bezt með sem lengstri fangelsun.
Hár kostnaður við fangelsun má ekki fæla frá löngum fangelsisdómum fyrir endurteknar líkamsárásir. Fangelsi eiga fyrst og fremst að vera fyrir árásarmenn, enda eru þeir ekki svo margir, að heildarkostnaðurinn þurfi að vera umtalsverður.
Þriðja flokkinn skipa svo stórþjófarnir í hvítu skyrtunum. Þeir hafa litla áhættu af fjársvikum og fjárdrætti. Kerfið hefur ekki mannafla og kunnáttu til að fást við þá. Þar að auki eru viðurlög oftast lægri en samansafnaður verðbólgugróði af hinu illa fengna fé.
Á þessu sviði þarf í mörgum tilvikum að vera unnt að hækka og jafnvel margfalda sektargreiðslur. Þar á ofan þarf í auknum mæli að vera unnt að beita fangelsun, þótt líka verði að hafa í huga, að hvítskyrtungar eiga auðvelt með að afla sér læknisvottorða um, að þeir þoli ekki fangelsisvist.
Mestu máli skiptir þó, að rannsóknaraðilar og dómstólar fái aðstöðu til að fjalla hratt og vel um fjársvik og fjárdrætti. Við þessi embætti þarf að ráða marga endurskoðendur og viðskiptafræðinga, sem kunna til verka.
Mikilvægt er, að Hegningarlaganefnd hraði störfum sínum og taki tillit til sjónarmiða á borð við þau, sem hér hafa verið sett fram.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið