Viðsjálir í viðskiptum

Greinar

Fulltrúum Sovétstjórnarinnar þykir sjálfsagt að olían og bensínið, sem þeir selja Íslendingum hækki til sæmræmis við hækkanir á heimsmarkaði. Þess vegna hefur bensín og olía hækkað hér á landi í sama mæli og hjá þjóðum, sem kaupa þessar vörur aðallega frá löndum Araba.

Við getum ekki haft á móti því, að þessar vörur frá Sovétríkjunum séu jafnan á sama verði og heimsmarkaðurinn sýnir hverju sinni. En við teljum jafn sjálfsagt, að heimsmarkaðurinn ráði á sama hátt verðinu á afurðum þeim, sem við seljum til Sovétríkjanna.

Síðan við gerðum síðast samning við Sovétríkin um sölu á frystum fiski, hefur hann hækkað stórkostlega í verði á heimsmarkaði, ekki einungis í Bandaríkjunum, heldur einnig í Evrópu. Það er því ekki nema eðlilegt, þótt við teljum, að Sovétríkin eigi nú,.þegar viðræður eru hafnar um nýja samninga, að greiða verðhækkun til jafns við aðra viðskiptavini okkar.

En það undarlega hefur gerzt, að fulltrúar Sovétríkjanna í þessum viðræðum neita algerlega að fallast á þessi sjónarmið. Um leið og þeim finnst sjálfsagt að hækka olíuna til samræmis við heimsmarkaðsverð, telja þeir fráleitt að hækka frysta fiskinn til samræmis við heimsmarkaðsverð.

Þessi afstaða þeirra veldur því, að nú er slitnað upp úr samningaviðræðunum við þá og ekki virðast neinar horfur á, að samningar takist í náinni framtíð. Við höfum því tæpast lengur neitt, sem við getum selt Sovétríkjunum í staðinn fyrir olíu og bensín.

Vandamálin í viðskiptunum við Sovétríkin hrannast upp um þessar mundir. Óþægilegar tafir hafa orðið á afgreiðslu þeirra á olíu til okkar, svo að við höfum orðið að bjarga okkur með því að kaupa hana í Vestur-Evrópu. Þá olíu höfum við fengið á sama verði og hjá Sovétríkjunum.

Ennfremur ganga fulltrúar Sovétríkjanna nú ákaflega hart eftir greiðslum á viðskiptamismun síðasta árs. Að forminu til stundum við vöruskiptaverslun við Sovétríkin og á sú verzlun að jafnast upp. En á síðasta ári keyptu Sovétríkin miklu minna af okkur en gert var ráð fyrir í samningum, svo að upp hlóðst smám saman skuld, er nam meira en einum milljarði króna upp úr síðustu áramótum.

Fulltrúar Sovétríkjanna vilja ekki leysa þetta vandamál með því að kaupa af okkur meiri vörur. Í þess stað heimta þeir nú, að við gerum þegar í stað upp mismuninn í peningum. Tæplega helmingur hefur þegar verið greiddur, en þeir eru ekki ánægðir með það.

Þegar öll þessi vandamál eru saman talin, er vandséð, hvaða hag við höfum lengur af skiptum við slíka einstefnumenn. Við getum áfram búizt við vandamálum af þessu tagi, þegar verst stendur á hjá okkur og við erum sem veikastir fyrir viðskiptalegum þvingunum. Það boðar ekki heldur gott, þegar sendifulltrúi Sovétríkjanna gerir nú kröfu til þess, að ráðherrar taki sérstakt tillit til Sovétríkjanna, þegar þeir ræða opinberlega um mál á borð við Solzhenitsyn-hneykslið.

Við verðum því að hefja algera endurskoðun á viðskiptum okkar við Sovétríkin og stefna að því að verða óháðir þvingunum af þeirra hálfu.

Jónas Kristjánsson

Vísir