Víðerni í þjóðgarði

Greinar

Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um, að hreppar í Húnaþingi og Skagafirði eigi ekki Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði og fái því ekki bætur fyrir landnot Landsvirkjunar. Þar með er staðfest hin almenna regla, að afréttir hálendisins séu almenningur utan eignaréttar.

Dómurinn er mikilvægt skref í valdatöku þjóðarinnar á hálendi landsins og friðun þess. Næstu skref munu meðal annars felast í að reyna að hindra, að norðlenzkir hreppar slái eign sinni á Hveravelli og komi þar upp umfangsmiklum hótel- og veitingarekstri.

Hinar ósnortnu víðáttur landsins eru mikilvæg auðlind, sem okkur ber að varðveita og skila til afkomendanna. Fyrst og fremst ber okkur að koma í veg fyrir, að þar sé landi raskað og reist mannvirki, án þess að það fái ýtarlega skoðun sæmilega náttúruvænna stofnana.

Þingsályktunartillaga frá Kvennalistanum gerir ráð fyrir, að hugtakið ósnortið víðerni verði skilgreint og kortlögð svæðin, sem falli undir það. Ennfremur verði settar reglur um varðveizlu og nýtingu svæðanna og ekki rasað að framkvæmdum, fyrr en að því loknu.

Markmið þjóðarinnar hlýtur að vera, að óbyggðir landsins verði að friðlýstum þjóðgarði náttúruverndar og útivistar. Það felur í sér, að vandað verði til orkuframkvæmda og orkuflutnings á svæðunum, svo og til allra mannvirkja, sem tengjast ferðaþjónustu.

Mikilvægt er, að öll mannvirki ferðaþjónustu séu staðsett og hönnuð á þann hátt, að þau trufli sem minnst þau verðmæti, sem fólk sækist eftir, þegar það leitar á vit kyrrðar og einveru í ósnortnu víðerni hálendisins. Hveravellir mega ekki verða undantekning á þessu.

Uppistöðulón þurfa að vera vistvæn og orkuver að fela sig í landslaginu. Grafa ber háspennulínur í jörð og fella sumarvegi að landi. Upprekstur búfjár á öll móbergssvæði hálendisins ætti að leggja af og gefa landinu langvinnan frið til að jafna sig eftir fyrri ofbeit.

Eðlilegt er, að óbyggðirnar verði settar undir eina skipulagsstjórn. Hins vegar væri óráð, að hreppar í nágrenni hálendisins fái meiri ítök í slíkri stjórn en sveitarfélög í þéttbýli, því að viðhorf í hinum fyrrnefndu reynast stundum markast af eiginhagsmunum á svæðinu.

Hins vegar eru núverandi skipulagsstjórn ríkisins og umhverfisráðuneyti ekki í stakk búin til að taka að sér hlutverkið. Komið hefur í ljós á síðustu árum, að þessum stofnunum er ekki treystandi til að gæta hagsmuna náttúruverndar gegn hagsmunum gæludýra kerfisins.

Umhverfisráðuneytið hefur til dæmis alltaf reynzt tilbúið að styðja ýtrustu sérhagsmuni í landbúnaði, svo sem að Svínavatnshreppur fari með skipulagsvöld á Hveravöllum. Þannig hefur ráðuneytið unnið að því að koma valdinu í hendur þeirra, sem ábyrgð bera á ofbeit.

Landgræðslan og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafa nýlega staðfest, að umtalsvert jarðvegsrof geisar á um 40% alls Íslands, mest á móbergssvæðum hálendisins. Þetta staðfestir áratuga gamlar niðurstöður af gróðurkortagerð og þarf því ekki að koma neinum á óvart.

Rannsóknin leiddi í ljós, að hálendið og flestar afréttir þola alls ekki búfé, ekki einu sinni skammtaða beit. Undantekningin er norðurhluti borgfirzkra afrétta og vesturhluti húnvetnskra. Verst farnar eru allar afréttir Sunnlendinga, Skagfirðinga, Eyfirðinga og Suður-Þingeyinga.

Niðurstaða Hæstaréttar um almenning á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði ætti að geta flýtt fyrir stofnun þjóðgarðs um ósnortið víðerni í óbyggðum landsins.

Jónas Kristjánsson

DV