Við viljum fá að vera í friði á kjördegi. Við viljum fá að gera upp hug okkar á þeim degi án aðstoðar stjórnmálaflokkanna. Við viljum, að stjórnmálaflokkarnir ljúki kosningabaráttu sinni á laugardagskvöldi og láti kjósendur alveg í friði á sunnudegi. Slíka mannasiði kunna forustumenn stjórnmálaflokka í mörgum nágrannalandanna.
Við viljum fá að vera í friði fyrir símhringingum á kjördegi. Við teljum okkur ekki þurfa á að halda hamingjuóskum flokkssnata út af nýfengnum kosningarétti. Og við teljum okkur ekki heldur feng í áminningu flokkssnata um að fylgja eftir fyrri þátttöku í prófkjöri.
Allra sízt viljum við, að vinum og kunningjum sé beitt fyrir símhringingavélar stjórnmálaflokkanna. Þetta fólk hefur aðgang að annars friðhelgum heimilum okkar af allt öðrum ástæðum en flokkspólitískum. Ef stjórnmálaflokkarnir reyna að notfæra sér þennan aðgang, eru þeir að rjúfa friðhelgi heimilanna.
Við skulum einfaldlega hringja í lögregluna, ef við verðum fyrir ónæði í síma eða dyrasíma á kjördegi. Við skulum kvarta um, að viðkomandi kosningaskrifstofa, sem við eigum ekki hið minnsta vantalað við, sé að rjúfa friðhelgi heimilisins.
Við viljum einnig fá að vera í friði fyrir stjórnmálaflokkunum á kjörstað. Við viljum ekki, að nöfn okkar séu lesin upp, svo að flokksnjósnarar geti skráð þau í bækur eyrnamerktra flokkssauða. Við viljum ekki einu sinni hafa flokksnjósnarana inni í kjördeildinni, meðan við erum að kjósa.
Við teljum það vera brot á mannréttindum okkar, að fjölmennt lið stjórnmálaflokkanna hafi með höndum kjörskrár, þar sem svo að segja hver einasta sál er dregin í pólitíska dilka eins og sauður á réttardegi. Við viljum láta banna slíkar merkingar með lögum.
Við teljum, að stjórnmálaflokkarnir megi hafa menn á kjörstað til að fylgjast með, að engin brögð séu höfð í tafli við framkvæmd kosninganna, einkum við meðferð og geymslu kjörkassa og kjörgagna. En við teljum, að þeim komi ekki við, hver kaus hvenær og hver kaus ekki hvenær.
Við skulum því krefjast þess af kjörstjórn, að hún láti flokksnjósnara víkja meðan við kjósum. Neiti kjörstjórn þessu, krefjumst við þess, að kjörstjórn fari með persónuskilríki okkar sem trúnaðarmál og láti njósnara flokkanna ekki vita um innihald þeirra, hvorki meðan við erum í kjördeildinni, né eftir að við erum farin.
Ef kjörstjórn neitar annaðhvort að vísa njósnurunum út eða að halda nöfnum okkar leyndum fyrir þeim, skulum við umsvifalaust kæra hana fyrir yfirkjörstjórn. Ef nógu margir taka saman höndum um þetta, endar það með því, að kjósendum tekst að reka njósnarana af höndum sér.
Kjarni málsins er sá, að stjórnmálaflokkarnir eru að missa tökin á kjósendum. Hinum hreinu flokkssauðum fer fækkandi. Þetta tækifæri geta kjósendur notað, ef þeir eru nógu ákveðnir. Þeir geta bæði losnað við flokksnjósnarana úr kjördeild og við flokkssnatana úr símanum á kjördegi.
Við viljum ná því marki, að kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna ljúki á laugardagskvöldi og að landsmenn fái allir að vera í friði á kjördegi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið