Fyrst sáum við ekki, hvað var að gerast í vistkerfi jarðar. Síðan neituðum við að viðurkenna það. Sumir neita enn, til dæmis George W. Bush Bandaríkjaforseti. Á sama tíma þynnist íshellan og hverfur í norðurhöfum og jöklar Grænlands bráðna. Hafið stækkar og gengur á land og skapar hörmungar um allar strendur. Veður gerast ofsalegri, með tíðari og stærri hvirfilbyljum. Fiskistofnar hafa horfið í sumum höfum og eru byrjaðir að hverfa hér við land. Samanlagt eru þetta mestu fréttir mannkynssögunnar, sagðar í dagblöðum og sjónvarpi, en of fáir hafa enn vaknað til meðvitundar.
